Veiðiferðirnar taka einn og hálfan sólarhring

Það var nóg að gera við löndun úr Vestmannaey VE og Bergey VE í morgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÞað var nóg að gera við löndun úr Vestmannaey VE og Bergey VE í morgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE komu til Vestmannaeyja seint í gærkvöldi með fullfermi. Veiðiferð skipanna hafði tekið einn og hálfan sólarhring. Landað verður í dag en að löndun lokinni fara áhafnirnar í heilsufarsskoðun og verður ekki á ný haldið til veiða fyrr en á fimmtudagskvöld. Bæði skipin lönduðu áður fullfermi síðastliðinn sunnudag þannig að vart verður kvartað undan veiðinni. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að það hafi verið sannkölluð mokveiði að undanförnu. „Hér um borð eru menn kátir og ánægðir. Vertíðin hefur verið fín og sem betur fer hafa menn sloppið við stórviðri og brælur þannig að allt hefur gengið eins og best verður á kosið. Þessi túr var í einn og hálfan sólarhring og þar af fór megnið af tímanum í stím. Við byrjuðum á Selvogsbankanum og þar var sannkölluð mokveiði í þorski. Síðan kom að hrygningarstoppi og svæðinu þar var lokað. Þá var keyrt austur á Síðugrunn og þar fékkst ýsa. Við fylltum skipið þar. Sannleikurinn er sá að menn þurfa að gæta sín að fá ekki alltof mikið í trollið – þetta hefur verið aðgæsluveiði,“ segir Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að í túrnum hafi þeir fyllt skipið í sex holum. „Við byrjuðum vestan við Surt, á 70 faðma blettunum, og tókum þar þrjú hol. Þar var bullandi þorskveiði. Síðan var svæðinu lokað og þá var siglt austur á Síðugrunn. Þar voru tekin þrjú hol og skipið fyllt. Á Síðugrunni fékkst ýsa og svolítill ufsi. Við vorum allan tímann að reyna að fá ekki of stór hol þannig að það er um hörkufiskirí að ræða og veiðiferðirnar að undanförnu hafa ekki náð tveimur sólarhringum. Nú kemur smá hlé vegna heilsufarsskoðunar áhafnarinnar og það er bara vel þegið,“ segir Jón. 

Blandaður afli

Gullver NS leggst að bryggju. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS leggst að bryggju. Ljósm. Ómar BogasonSnemma í morgun kom ísfisktogarinn Gullver NS til löndunar á Seyðisfirði. Skipið var með rúm 108 tonn af blönduðum afla. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að veðrið hafi verið misjafnt í veiðiferðinni. “Við vorum fimm daga á veiðum og fengum skítaveður í tvo daga. Veitt var frá Hvalbakshalli og vestur í Skeiðarárdýpi. Fyrir austan var sjórinn kaldur og ekki mikið af fiski þannig að við þurftum að fara vestureftir í hlýrri sjó. Aflinn í túrnum er vel blandaður; þorskur, karfi, ufsi og ýsa,” segir Þórhallur.
 
Gullver mun halda á ný til veiða síðdegis í dag.
 
 
 

Flotinn heldur til kolmunnaveiða

Gott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonSíldarvinnsluflotinn hélt til kolmunnaveiða frá Neskaupstað í gær. Beitir NK lét fyrstur úr höfn í gærmorgun, síðan Bjarni Ólafsson AK í hádeginu, þá Börkur NK síðdegis og loks Polar Amaroq. Gert er ráð fyrir að kolmunninn gangi norður úr skosku lögsögunni og inn á hið svonefnda gráa svæði um þessar mundir og þá geta skipin hafið veiðar. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki en skipið var þá statt í bullandi brælu. „Hér eru 25-30 metrar og heldur leiðinlegt veður og það verður bræla áfram samkvæmt spá, alveg fram á annað kvöld. Það er engin veiði hafin á gráa svæðinu. Oft hefur veiðin byrjað þar upp úr 10. apríl og stundum reyndar fyrr eða 4.-5. apríl. Í fyrra hófst veiðin hinsvegar seint. Mig minnir að það hafi verið 16. apríl. Þetta er svolítið breytilegt á milli ára en þetta kemur,“ segir Hjörvar.

“Vertíðin er í hámarki”

Landað í Eyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað í Eyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogarar Bergs-Hugins, Bergey VE og Vestmannaey VE, komu báðir með fullfermi til Eyja í gær eftir stutta veiðiferð. Aflinn var að mestu ýsa og þorskur en nokkuð einnig af ufsa og lýsu. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og spurði þá hvernig vertíðin gengi. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagði að vertíðin gengi vel og það væri í reyndinni mokveiði bæði í þorski og ýsu. “Við komum inn eftir hádegið í gær með fullt skip og þá voru liðnir 36 klukkutímar frá því að veiðiferðin hófst. Það er sannast sagna hörkuveiði og þetta er fallegur vertíðarfiskur sem við erum með. Við byrjuðum á að taka ýsu á Landsuðurhrauninu og síðan var farið á Selvogsbankann og þar fékkst blanda af þorski, ýsu og ufsa. Þetta er hörkuvertíð og menn verða að gæta þess að fá ekki of mikið í veiðarfærið. Marsmánuður var býsna góður hjá okkur en við fengum rúmlega 940 tonn í mánuðinum og hefðum getað tekið meira. Þetta er alger draumur í dós,” segir Jón.
 
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Jóni. “Vertíðin er í hámarki og þetta er bara veisla. Það verður að draga mjög stutt svo holin verði ekki alltof stór. Það er nauðsynlegt að viðhafa aðgæsluveiði. Við vorum að veiða á sömu slóðum og Bergey og erum með svipaða aflasamsetningu. Auðvitað vonum við að það teygist á vertíðinni en nú fara lokanirnar eða hrygningastoppin að byrja fyrir alvöru. Annars eru allir afar glaðir hér um borð og það er sannast sagna ekki tilefni til annars. Síðan má ekki gleyma því að það er að koma vor,” segir Birgir Þór.
 
Gert er ráð fyrir að bæði Bergey og Vestmannaey haldi til veiða á ný annað kvöld.

Gullver með fínasta afla

Landað var úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonLandað var úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonÍ gær var landað úr ísfisktogaranum Gullver NS á Seyðisfirði. Skipið kom til hafnar aðfaranótt laugardags en vegna páskahátíðarinnar var beðið með löndunina. Skipstjóri í veiðiferðinni var Þórhallur Jónsson og segir hann að hún hafi gengið vel. „Aflinn var um 116 tonn og fékkst hann á fjórum sólarhringum eða svo. Uppistaða aflans var þorskur. Við vorum að veiðum í Hvalbakshallinu í ágætis veðri og vorum komnir til hafnar fyrir páskahretið,“ segir Þórhallur.
 
Gullver hélt til veiða á ný í gærkvöldi.

Loðnuvertíðin gekk eins og í sögu

Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonSegja má að nýliðin loðnuvertíð hafi gengið eins og í sögu. Alls varð afli íslensku skipanna á vertíðinni 70.726 tonn en 18 íslensk skip lönduðu afla og náðu þau öll sínum kvóta. Nánast allur aflinn fór til manneldisvinnslu, loðnan var heilfryst og undir lok vertíðar var öll áhersla lögð á hrognaframleiðslu. Beitir NK kom með mestan afla íslenskra skipa að landi, 7.330 tonn og Börkur NK var með þriðja mesta aflann, 6.465 tonn. Tekið skal fram að Beitir og Börkur höfðu samvinnu um veiðarnar. Bjarni Ólafsson AK, skip Runólfs Hallfreðssonar ehf. sem er dótturfélag Síldarvinnslunnar, landaði 2.099 tonnum á vertíðinni.
 
Á vertíðinni var landað 20.288 tonnum til vinnslu í Neskaupstað. Þar af lönduðu norsk skip 3.165 tonnum og grænlenska skipið Polar Amaroq landaði 1.169 tonnum.