Veiðiferðirnar taka einn og hálfan sólarhring

Það var nóg að gera við löndun úr Vestmannaey VE og Bergey VE í morgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÞað var nóg að gera við löndun úr Vestmannaey VE og Bergey VE í morgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE komu til Vestmannaeyja seint í gærkvöldi með fullfermi. Veiðiferð skipanna hafði tekið einn og hálfan sólarhring. Landað verður í dag en að löndun lokinni fara áhafnirnar í heilsufarsskoðun og verður ekki á ný haldið til veiða fyrr en á fimmtudagskvöld. Bæði skipin lönduðu áður fullfermi síðastliðinn sunnudag þannig að vart verður kvartað undan veiðinni. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að það hafi verið sannkölluð mokveiði að undanförnu. „Hér um borð eru menn kátir og ánægðir. Vertíðin hefur verið fín og sem betur fer hafa menn sloppið við stórviðri og brælur þannig að allt hefur gengið eins og best verður á kosið. Þessi túr var í einn og hálfan sólarhring og þar af fór megnið af tímanum í stím. Við byrjuðum á Selvogsbankanum og þar var sannkölluð mokveiði í þorski. Síðan kom að hrygningarstoppi og svæðinu þar var lokað. Þá var keyrt austur á Síðugrunn og þar fékkst ýsa. Við fylltum skipið þar. Sannleikurinn er sá að menn þurfa að gæta sín að fá ekki alltof mikið í trollið – þetta hefur verið aðgæsluveiði,“ segir Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að í túrnum hafi þeir fyllt skipið í sex holum. „Við byrjuðum vestan við Surt, á 70 faðma blettunum, og tókum þar þrjú hol. Þar var bullandi þorskveiði. Síðan var svæðinu lokað og þá var siglt austur á Síðugrunn. Þar voru tekin þrjú hol og skipið fyllt. Á Síðugrunni fékkst ýsa og svolítill ufsi. Við vorum allan tímann að reyna að fá ekki of stór hol þannig að það er um hörkufiskirí að ræða og veiðiferðirnar að undanförnu hafa ekki náð tveimur sólarhringum. Nú kemur smá hlé vegna heilsufarsskoðunar áhafnarinnar og það er bara vel þegið,“ segir Jón. 

Blandaður afli

Gullver NS leggst að bryggju. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS leggst að bryggju. Ljósm. Ómar BogasonSnemma í morgun kom ísfisktogarinn Gullver NS til löndunar á Seyðisfirði. Skipið var með rúm 108 tonn af blönduðum afla. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að veðrið hafi verið misjafnt í veiðiferðinni. “Við vorum fimm daga á veiðum og fengum skítaveður í tvo daga. Veitt var frá Hvalbakshalli og vestur í Skeiðarárdýpi. Fyrir austan var sjórinn kaldur og ekki mikið af fiski þannig að við þurftum að fara vestureftir í hlýrri sjó. Aflinn í túrnum er vel blandaður; þorskur, karfi, ufsi og ýsa,” segir Þórhallur.
 
Gullver mun halda á ný til veiða síðdegis í dag.
 
 
 

Flotinn heldur til kolmunnaveiða

Gott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonSíldarvinnsluflotinn hélt til kolmunnaveiða frá Neskaupstað í gær. Beitir NK lét fyrstur úr höfn í gærmorgun, síðan Bjarni Ólafsson AK í hádeginu, þá Börkur NK síðdegis og loks Polar Amaroq. Gert er ráð fyrir að kolmunninn gangi norður úr skosku lögsögunni og inn á hið svonefnda gráa svæði um þessar mundir og þá geta skipin hafið veiðar. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki en skipið var þá statt í bullandi brælu. „Hér eru 25-30 metrar og heldur leiðinlegt veður og það verður bræla áfram samkvæmt spá, alveg fram á annað kvöld. Það er engin veiði hafin á gráa svæðinu. Oft hefur veiðin byrjað þar upp úr 10. apríl og stundum reyndar fyrr eða 4.-5. apríl. Í fyrra hófst veiðin hinsvegar seint. Mig minnir að það hafi verið 16. apríl. Þetta er svolítið breytilegt á milli ára en þetta kemur,“ segir Hjörvar.

“Vertíðin er í hámarki”

Landað í Eyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað í Eyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogarar Bergs-Hugins, Bergey VE og Vestmannaey VE, komu báðir með fullfermi til Eyja í gær eftir stutta veiðiferð. Aflinn var að mestu ýsa og þorskur en nokkuð einnig af ufsa og lýsu. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og spurði þá hvernig vertíðin gengi. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagði að vertíðin gengi vel og það væri í reyndinni mokveiði bæði í þorski og ýsu. “Við komum inn eftir hádegið í gær með fullt skip og þá voru liðnir 36 klukkutímar frá því að veiðiferðin hófst. Það er sannast sagna hörkuveiði og þetta er fallegur vertíðarfiskur sem við erum með. Við byrjuðum á að taka ýsu á Landsuðurhrauninu og síðan var farið á Selvogsbankann og þar fékkst blanda af þorski, ýsu og ufsa. Þetta er hörkuvertíð og menn verða að gæta þess að fá ekki of mikið í veiðarfærið. Marsmánuður var býsna góður hjá okkur en við fengum rúmlega 940 tonn í mánuðinum og hefðum getað tekið meira. Þetta er alger draumur í dós,” segir Jón.
 
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Jóni. “Vertíðin er í hámarki og þetta er bara veisla. Það verður að draga mjög stutt svo holin verði ekki alltof stór. Það er nauðsynlegt að viðhafa aðgæsluveiði. Við vorum að veiða á sömu slóðum og Bergey og erum með svipaða aflasamsetningu. Auðvitað vonum við að það teygist á vertíðinni en nú fara lokanirnar eða hrygningastoppin að byrja fyrir alvöru. Annars eru allir afar glaðir hér um borð og það er sannast sagna ekki tilefni til annars. Síðan má ekki gleyma því að það er að koma vor,” segir Birgir Þór.
 
Gert er ráð fyrir að bæði Bergey og Vestmannaey haldi til veiða á ný annað kvöld.

Gullver með fínasta afla

Landað var úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonLandað var úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonÍ gær var landað úr ísfisktogaranum Gullver NS á Seyðisfirði. Skipið kom til hafnar aðfaranótt laugardags en vegna páskahátíðarinnar var beðið með löndunina. Skipstjóri í veiðiferðinni var Þórhallur Jónsson og segir hann að hún hafi gengið vel. „Aflinn var um 116 tonn og fékkst hann á fjórum sólarhringum eða svo. Uppistaða aflans var þorskur. Við vorum að veiðum í Hvalbakshallinu í ágætis veðri og vorum komnir til hafnar fyrir páskahretið,“ segir Þórhallur.
 
Gullver hélt til veiða á ný í gærkvöldi.

Loðnuvertíðin gekk eins og í sögu

Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonSegja má að nýliðin loðnuvertíð hafi gengið eins og í sögu. Alls varð afli íslensku skipanna á vertíðinni 70.726 tonn en 18 íslensk skip lönduðu afla og náðu þau öll sínum kvóta. Nánast allur aflinn fór til manneldisvinnslu, loðnan var heilfryst og undir lok vertíðar var öll áhersla lögð á hrognaframleiðslu. Beitir NK kom með mestan afla íslenskra skipa að landi, 7.330 tonn og Börkur NK var með þriðja mesta aflann, 6.465 tonn. Tekið skal fram að Beitir og Börkur höfðu samvinnu um veiðarnar. Bjarni Ólafsson AK, skip Runólfs Hallfreðssonar ehf. sem er dótturfélag Síldarvinnslunnar, landaði 2.099 tonnum á vertíðinni.
 
Á vertíðinni var landað 20.288 tonnum til vinnslu í Neskaupstað. Þar af lönduðu norsk skip 3.165 tonnum og grænlenska skipið Polar Amaroq landaði 1.169 tonnum.

Gullver með góðan afla

Landað úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonLandað úr Gullver NS í gær. Ljósm. Ómar BogasonSíðdegis í gær kom ísfisktogarinn Gullver NS til Seyðisfjarðar með góðan afla að lokinni fimm daga veiðiferð. Aflinn var samtals 112 tonn og blandaður; mest af ýsu, 44 tonn og þorski, rúmlega 30 tonn. Steinþór Hálfdanarson stýrimaður segir að vel hafi fiskast þann tíma sem verið var að veiðum en tveir sólarhringar fóru í stím. „Við vorum að veiðum á Selvogsbankanum og því var drjúg vegalengd fram og til baka. Auk þess gerði kolvitlaust veður á laugardag og það hafði í för með sér 10-11 tíma frátöf frá veiðum. Við fórum upp undir Eyjar í brælunni en sem betur fer stóð hún stutt. Í túrnum vorum við því bara rúma þrjá daga að veiðum þannig að þetta voru yfir 30 tonna dagar hver um sig. Næsti túr verður hér á Austfjarðamiðum enda fáir dagar fram að páskum,“ segir Steinþór.
 
Löndun hófst úr Gullver strax og hann lagðist að bryggju og hélt skipið til veiða á ný í gærkvöldi.

Börkur er Benz

Smíðin á nýjum Berki er nú á lokastigi hjá skipasmíðastöð Karstensens í Skagen í Danmörku. Karl Eskil Pálsson fréttamaður hjá N4 heimsótti Skagen á dögunum og fræddist um smíði skipsins. Hér má skoða fréttamynd frá heimsókninni.

Landa fullfermi í dag

Bergey í aðgerð á Selvogsbanka í gær. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBergey í aðgerð á Selvogsbanka í gær.
Ljósm. Egill Guðni Guðnason
Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE munu báðir landa fullfermi í Vestmannaeyjum í dag. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey í morgun en þá var skipið á landleið. „Við erum að koma inn með fullt skip. Það er búin að vera fínasta veiði. Það er auðvelt að ná í þorsk og ýsu og svo er einnig reynt að ná í ufsa. Við vorum á Selvogsbankanum allan túrinn og menn eru bara kátir. Veiðiferðin hjá okkur tekur yfirleitt um eða tæpa tvo daga um þessar mundir þannig að það gengur talsvert á. Við reiknum með að fara strax út að löndun lokinni í dag þó spáin sé ekkert sérstök,“ segir Birgir.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tók undir með Birgi og segir aflast vel um þessar mundir. „Við erum á síðasta holinu hér á Selvogsbankanum og þetta er búið að ganga vel. Mér líst býsna vel á framhaldið nema að nú spáir hann austan stormi og bölvaðri brælu,“ segir Jón.

Eyjarnar landa annan hvern dag

Í lestinni á Bergey VE í morgun. Skipið er sneisafullt. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍ lestinni á Bergey VE í morgun. Skipið er sneisafullt.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
„Nú er stuð á þessu. Vestmannaey og Bergey hafa landað fullfermi annan hvern dag að undanförnu. Þær hafa landað fjórum sinnum undanfarna viku og eru að landa í dag. Þetta gerist vart betra og nú er hægt að tala um alvöru vertíð,“ segir Arnar Richardsson rekstrarstjóri Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum.
 
Bergey kom til löndunar í morgun og spurði heimasíðan Jón Valgeirsson skipstjóra hvort nú væri ekki hafin alvöru vertíð. „Jú, nú ríkir alvöru vertíðarbragur hérna en hann hófst heldur seinna en undanfarin ár. Það er góð veiði bæði austan og vestan við Eyjar. Við höfum verið á Selvogsbankanum, Pétursey og sunnan við Surt og það er alls staðar glimrandi góður fiskur. Það er til dæmis hægt að velja þá stærð sem menn vilja fá af þorski eftir því hvar er veitt. Þú getur valið frá millistærð og upp í algjörar beljur. Það er auðvelt að ná í fisk núna. Ég held að þetta sé níunda löndunin hjá okkur það sem af er mánuðinum og við höfum alltaf verið með fullt skip. Þetta er veisla. Við munum halda til veiða á ný annað kvöld,“ segir Jón.
 
Vestmannaey mun einnig landa í Eyjum í dag.

Fínasti túr hjá Blængi

Blængur NK kemur til hafnar. Ljósm. Grétar Örn SigfinnssonBlængur NK kemur til hafnar. Ljósm. Grétar Örn SigfinnssonLöndun hófst úr frystitogaranum Blængi NK í Norðfjarðarhöfn í morgun. Afli skipsins er rúm 750 tonn upp úr sjó að verðmæti 182 milljónir króna. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að þetta hafi verið fínasti túr. „Aflinn er góð blanda, mest ufsi og síðan töluvert af gulllaxi og djúpkarfa en minna af öðrum tegundum. Við vorum 25 daga í túrnum og veður var gott allan tímann að undanskildum þremur fyrstu dögunum. Þessa þrjá fyrstu daga vorum við hér fyrir austan í grálúðu en síðan vorum við á suðvesturmiðum frá Selvogsbanka vestur í Skerjadýpi. Það var settur nýr veltitankur í skipið í janúar og hann hefur gjörbreytt því til hins betra. Skipið veltur miklu minna en áður og fer betur með mannskapinn – strákarnir vita vart af brælum,“ segir Bjarni Ólafur.
 
Ráðgert er að Blængur haldi til veiða á ný annað kvöld.

Síldarvinnslan fyrir 50 árum

Hér verður skyggnst hálfa öld aftur í tímann og fjallað stuttlega um starfsemi Síldarvinnslunnar hf. árið 1971. Þá voru 14 ár liðin frá stofnun Síldarvinnslunnar en félagið var stofnað árið 1957 fyrst og fremst í þeim tilgangi að reisa og reka síldarverksmiðju og annast verkun síldar.Hér verður skyggnst hálfa öld aftur í tímann og fjallað stuttlega um starfsemi Síldarvinnslunnar hf. árið 1971. Þá voru 14 ár liðin frá stofnun Síldarvinnslunnar en félagið var stofnað árið 1957 fyrst og fremst í þeim tilgangi að reisa og reka síldarverksmiðju og annast verkun síldar.
Barði NK, fyrsti skuttogari landsmanna, hóf veiðar í febrúarmánuði 1971. Á myndinni er hann að veiðum innan um gamla síðutogara. Ljósm. Ásgrímur ÁgústssonBarði NK, fyrsti skuttogari landsmanna, hóf veiðar í febrúarmánuði 1971. Á myndinni er hann að veiðum innan um gamla síðutogara. Ljósm. Ásgrímur Ágústsson
 
 • Síldarvinnslan hafði fest kaup á framleiðslufyrirtækjum Samvinnufélags útgerðarmanna árið 1965, þar á meðal hraðfrystihúsi. Þar með hóf Síldarvinnslan að sinna fiskverkun almennt en ekki einungis vinnslu síldar. Á árinu 1969 var unnið að miklum endurbótum á hraðfrystihúsinu og framleiðslugeta þess aukin. Árið 1971 voru framleidd 1.799 tonn af frystum afurðum í húsinu.
 • Merk þáttaskil urðu í starfsemi Síldarvinnslunnar árið 1971 en þá var fyrst fryst loðna á vegum fyrirtækisins. Á þessu upphafsári loðnufrystingar framleiddi Síldarvinnslan 104 tonn af frystri óflokkaðri loðnu.
 • Saltfiskverkun hafði hafist á vegum Síldarvinnslunnar árið 1968 og var þá komið upp aðstöðu til verkunarinnar í einni af mjölskemmum fiskimjölsverksmiðjunnar. Fljótlega var farið að vélvæða verkunina. Árið 1971 flutti Síldarvinnslan út 155 tonn af óverkuðum saltfiski og 76 tonn af verkuðum. 
 • Síldarvinnslan hóf verkun á skreið í dálitlum mæli árið 1968 og var komið upp skreiðarhjöllum inni á Sandi fyrir botni Norðfjarðar. Árið 1971 flutti Síldarvinnslan út 246 pakka af skreið.
 • Fyrsti togari landsmanna með hefðbundinn skuttogarabúnað, Barði NK, hóf veiðar 11. febrúar 1971. Síldarvinnslan hafði fest kaup á Barða árið 1970 og kom skipið fyrst til heimahafnar í Neskaupstað 14. desember það ár. Síldarvinnslan hóf útgerð síldarskipa árið 1965 en Barði var fyrsta togskip fyrirtækisins. Skuttogarinn Barði var smíðaður í Frakklandi árið 1967 og var hann 328 tonn að stærð. Skipið var búið 1200 ha vél af gerðinni Deutz.

Niðurlagningarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók til starfa árið 1971. Dós með niðurlögðum sjólaxi frá Síldarvinnslunni. Ljósm. Guðmundur SveinssonNiðurlagningarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók til starfa árið 1971. Dós með niðurlögðum sjólaxi frá Síldarvinnslunni.
Ljósm. Guðmundur Sveinsson

 • Árið 1971 tók fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar á móti 12.190 tonnum af loðnu til vinnslu. Verksmiðjan framleiddi 2.054 tonn af loðnumjöli á vertíðinni og 440 tonn af lýsi. Loðnu var í fyrsta sinn landað til vinnslu í Neskaupstað 21. febrúar árið 1968 þannig að nokkur reynsla hafði fengist af vinnslu loðnu í fiskimjölsverksmiðjunni.
 • Eftir að síldin hvarf af Austfjarðamiðum árið 1968 var atvinnuástand í Neskaupstað erfitt rétt eins og í öðrum síldarbæjum. Ýmissa leiða var leitað til að bæta ástandið og var til dæmis aukin áhersla á bolfiskvinnslu liður í því. Í nóvembermánuði 1969 fól stjórn Síldarvinnslunnar framkvæmdastjóra fyrirtækisins að kanna leiðir til að stuðla að lausn atvinnuleysisvandans til dæmis með því að koma niðurlagningaverksmiðju. Fljótlega var tekin ákvörðun um að festa kaup á slíkri verksmiðju og jafnframt var ákveðið að byggja hæð ofan á austasta hluta fiskvinnslustöðvarinnar og koma þar verksmiðjunni fyrir. Í maímánuði 1970 hófust byggingaframkvæmdirnar og í desembermánuði komu vélarnar í verksmiðjuna. Þegar var hafist handa við að setja upp vélbúnaðinn og lauk því verki í janúar 1971. Framleiðsla í niðurlagningaverksmiðjunni hófst síðan 1. febrúar 1971. Fyrst var unnið við að leggja niður sjólax en síðar á árinu hófst einnig framleiðsla á gaffalbitum.
 • Á árinu 1971 voru skip Síldarvinnslunnar að síldveiðum við Hjaltland og komu 623 tunnur af sjósaltaðri Hjaltlandssíld á land í Neskaupstað.  Einnig var saltað í 181 tunnu af Suðurlandssíld á vegum Síldarvinnslunnar. Þá var notast við söltunaraðstöðuna sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1965 þegar framleiðslufyrirtæki Samvinnufélags útgerðarmanna voru keypt (söltunarstöðin Ás).   Var þetta í síðasta sinn sem þessi söltunaraðstaða var notuð.

Síldarsöltunaraðstaðan sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1965 (söltunarstöðin Ás) var notuð í síðasta sinn árið 1971. Ljósm. Skjala- og myndasafn NorðfjarðarSíldarsöltunaraðstaðan sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1965 (söltunarstöðin Ás) var notuð í síðasta sinn árið 1971. Ljósm. Skjala- og myndasafn Norðfjarðar

 • Síldveiðiskip Norðfirðinga, þar á meðal skip Síldarvinnslunnar,  lögðu stund á síldveiðar í Norðursjó árið 1971 en þær veiðar hófust hjá norðfirskum skipum árið 1967.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hluthafafundur Síldarvinnslunnar hf 26 mars 2021

Fundarboð Hluthafafundur Síldarvinnslunnar hf.

 

Verður haldinn föstudaginn 26. mars 2021 í Safnahúsinu, Neskaupstað, kl. 11:00. Athygli er vakin á því að vegna sóttvarnarreglna kann að vera nauðsynlegt að skipta upp fundinum.

 

Dagskrá:

 1. Breytingar á samþykktum félagsins skv. tillögu stjórnar

Breytingar eru fyrst og fremst gerðar vegna fyrirhugaðrar skráningar félagsins á verðbréfamarkað.

Helstu breytingar í 2. kafla:

 • Samþykki hluthafafundar þarf til hækkunar hlutafjár og hluthafar hafa forgangsrétt að öllum nýjum hlutum í hlutfalli við skrásetta hlutafjáreign sína, sbr. grein 2.02.
 • Hlutir verði gefnir út rafrænt, sbr. 2.03.
 • Heimilt er að nota rafræn skjalasamskipti og rafpóst í samskiptum milli félagsins og hluthafa, t.a.m. við boðun hluthafafunda, sbr. grein 2.06.

Helstu breytingar í 4. kafla:

 • Stjórn er heimilt að ákveða að hluthafar geti tekið þátt í fundarstörfum hluthafafunda með rafrænum hætti í samræmi við 80. gr. a hlutafélagalaga, sbr. grein 4.02.
 • Tekið út ákvæði þess efnis að hluthafafundur sé lögmætur ef hann sækja hluthafar sem hafa yfir að ráða a.m.k helming af atkvæðisbæru hlutafé. Nú kveðið á um að hluthafafundur sé lögmætur án tillits til fundarsóknar, ef löglega er til hans boðað, sbr. grein 4.04.
 • Bætt við ákvæði um að skjöl og upplýsingar í samræmi við 88. gr. d hlutafélagalaga skuli vera aðgengileg hluthöfum 21 degi fyrir hluthafafund.

Helstu breytingar í 5. kafla:

 • Breytingar á ákvæði um kynjahlutföll í stjórn, sbr. grein 5.02.
 • Bætt við ákvæði þess efnis að séu kjörnar nefndir á vegum stjórnar skuli niðurstöður þeirra eingöngu vera leiðbeinandi fyrir stjórnina, sbr. grein 5.05.

 

 1. Tillaga um að færa eignarhlut félagins í SVN eignafélagi ehf. yfir til hluthafa en farið er með afhendingu sem arðsúthlutun í skattalegu tilliti. Hluthafar eigi kost á því að fara fram á greiðslu í reiðufé að frádregnum fjármagnstekjuskatti.
 1. Önnur mál, löglega fram borin

 

Stjórn Síldarvinnslunnar hf.

Vinnslan gengur vel í frystihúsinu á Seyðisfirði

Frystihús Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju. Ljósm. Ómar BogasonFrystihús Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Gullver NS við bryggju. Ljósm. Ómar BogasonÁvallt er full starfsemi í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Að sögn Ómars Bogasonar rekstrarstjóra er húsið nánast fullmannað og enginn skortur á hráefni. „Við höfum að undanförnu mest verið að frysta á Ameríku og Evrópu en upp á síðkastið hefur heldur lágt verð verið á mörkuðum fyrir ferskan fisk. Vinnslan gengur vel enda höfum við verið að fá frábært hráefni. Við höfum mest verið að vinna þorsk og höfum fengið fisk af Eyjunum, Vestmannaey VE og Bergey VE, og síðan hefur fiskur einnig verið keyptur á mörkuðum. Heimaskipið Gullver NS hefur verið í togararalli og því hefur ekki komið hráefni frá honum, en rallinu lauk í gærkvöldi þannig að brátt fer hann að færa okkur fisk eins og hann hefur gert. Ég get ekki annað sagt en staðan hjá okkur sé býsna góð og auk þess er vor í lofti,“ segir Ómar.
 
Í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði starfa 35 manns og er það stærsti vinnustaðurinn í bænum.
 
 

Skipin fyllt á innan við tveimur sólarhringum

Landað úr Eyjunum í Vestmannaeyjahöfn í gærmorgun. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Eyjunum í Vestmannaeyjahöfn í gærmorgun.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Eyjarnar tvær, Vestmannaey VE og Bergey VE, lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Skipin höfðu farið út á fimmtudag og komið til hafnar á laugardag eftir að hafa aflað vel. Það er dótturfélag Síldarvinnslunnar, Bergur-Huginn, sem gerir Eyjarnar út og Arnar Richardsson rekstrarstjóri Bergs-Hugins segir að engin leið sé að kvarta undan aflabrögðum. „Hér eru menn ágætlega brattir og okkur líst vel á vertíðina. Það þykir gott að þurfa ekki tvo sólarhringa til að fylla skip eins og okkar. Þau voru að veiða hérna við Eyjarnar og aflinn var blandaður, en þessa dagana leggjum við einmitt mikla áherslu á blandaðan afla. Við erum komnir í vertíðargírinn og hér eru menn bjartsýnir,“ segir Arnar.
 
Báðar Eyjarnar héldu til veiða í hádeginu í gær að löndun lokinni.
 
 
 

Fínasta fiskirí

Landað úr Bergey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Bergey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÞað hefur verið fínasta fiskirí hjá Eyjunum að undanförnu. Bæði Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum sl. sunnudag og Bergey landaði á ný fullfermi á þriðjudag og Vestmannaey á miðvikudag. Bergey kom síðan til hafnar með 45 tonn í gær. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að það sé að koma vertíðarbragur á veiðarnar. „Við höfum verið að afla vel og aflinn hefur verið blandaður. Við höfum mest verið á Víkinni og Pétursey, Selvogsbankanum og sunnan við Surt. Það hefur að mestu verið gott veður þannig að þetta hefur bara gengið nokkuð vel,“ segir Jón.
 
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Jóni og segir að vel hafi gengið að fiska. „Tveir síðustu túrar hjá okkur hafa gengið vel. Við höfum fyllt skipið á um tveimur sólarhringum. Annars finnst mér vertíðarfiskurinn vera heldur seint á ferðinni til dæmis inn á Selvogsbankann. Það er ekki enn komið það magn inn á svæðið sem gera má ráð fyrir þó fiskist ágætlega. Við höfum verið að eltast við allar tegundir að undanförnu og höfum helst verið að veiða á Pétursey og Vík, í Háfadýpinu og á Planinu við Einidrang. Mér finnst þetta líta ágætlega út,“ segir Birgir Þór.

Aldrei áður séð vaðandi loðnu á vetrarvertíð

Polar Amaroq að veiðum vestur af Öndverðarnesi. Ljósm Kristján Már UnnarssonPolar Amaroq að veiðum vestur af Öndverðarnesi.
Ljósm Kristján Már Unnarsson
Hinn 6. mars sl. fann grænlenska skipið Polar Amaroq stóra loðnutorfu undir Látrabjargi. Þarna óð loðnan og segir Geir Zoëga skipstjóri að hann hafi aldrei áður séð vaðandi loðnu á vetrarvertíð. „Þetta var vaðandi hrygningarloðna og torfan var býsna stór. Líklega var hún 1 km á kant eða svo, eða um 1.000.000 fermetrar. Það var gríðarlegt líf þarna og það var svo mikið af fugli að fuglagerið sást greinilega á radar. Ljóst var að þarna var loðnan að gera sig klára til hrygningar og  þarna um kvöldið lagðist hún og hrygndi. Við köstuðum með litlu loðnunótinni og fengum svo mikið að við sprengdum, nótin rifnaði öll. Sem betur fer erum við með tvær nætur um borð og kláruðum vertíðina vestur af Öndverðarnesi með stóru nótinni. Þetta er búin að vera flott loðnuvertíð þrátt fyrir lítinn kvóta því verð eru mjög há. Það hefur verið hagstætt tíðarfar og svo hefur líka víða verið loðna þannig að það hafa aldrei verið vandræði að fiska. Við á Polar Amaroq erum búnir að veiða 6.747 tonn á vertíðinni og nú fara menn að undirbúa skipið fyrir kolmunnann,“ segir Geir.

Torfan undir Látrabjargi sést á „asdikkinu“ hægra megin en fuglagerið á radarnum vinstra megin. Ljósm. Geir ZoëgaTorfan undir Látrabjargi sést á „asdikkinu“ hægra megin en fuglagerið á radarnum vinstra megin. Ljósm. Geir Zoëga  

Það er alltaf spenna þegar kastað er á loðnutorfu og fagnað þegar torfan reynist vera inni. Það er Sigurður Grétar Guðmundsson stýrimaður sem fagnar. Ljósm. Geir ZoëgaÞað er alltaf spenna þegar kastað er á loðnutorfu og fagnað þegar torfan reynist vera inni. Það er Sigurður Grétar Guðmundsson stýrimaður sem fagnar. Ljósm. Geir Zoëga

Börkur á leiðinni með síðasta farm vertíðarinnar

Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonLoðnuvertíðinni er að ljúka. Börkur NK er á leið til Neskaupstaðar með rúmlega 1.900 tonn og er það síðasti farmurinn sem berast mun til Neskaupstaðar á vertíðinni. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra í morgun en þá var skipið statt út af Alviðruhömrum. „Við lukum við að veiða síðdegis í gær en við fengum aflann í 6 eða 7 köstum 10-12 mílur vestur af Öndverðarnesi. Þetta er loðna sem er alveg komin að hrygningu og jafnvel er einstaka loðna búin að hrygna. Þessi loðnuvertíð hefur gengið alveg ótrúlega vel. Það hefur verið góð veiði og tíðarfarið hefur verið einstaklega gott. Ein suðvestan bræla um þetta leyti getur eyðilagt hrognavertíðina þannig að veðrið skiptir afar miklu máli. Við gerum ráð fyrir að koma til Neskaupstaðar um miðnætti,“ segir Hálfdan.
 
Lokið var við að landa 2.200 tonnum af hrognaloðnu úr Beiti NK í gærkvöldi og í morgun hófst löndun úr Polar Amaroq sem kominn var með 1.250 tonn í hrognavinnslu og 650 tonn af frystri loðnu.

Gullver rúmlega hálfnaður í rallinu

Gullver NS leggst að bryggju á Seyðisfirði í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS leggst að bryggju á Seyðisfirði í gær.
Ljósm. Ómar Bogason
Gullver NS kom til Seyðisfjarðar laust fyrir hádegi í gær og landaði þar um 22 tonnum af fiski sem fengist hefur í togararallinu sem skipið tekur þátt í. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig honum líkaði í rallinu. „Þetta er bara fínt og hefur gengið vel. Við erum búnir að vera átta sólarhringa og höfum togað á 84 stöðvum af 151 sem eru á okkar svæði, en það nær alveg frá Kolbeinsey og suður að Hvalbak. Við gerðum ráð fyrir að nota eina 20 daga í þetta en veðrið er búið að vera gott þannig að þetta hefur gengið betur en gert var ráð fyrir. Gullver er að fara í sitt fyrsta rall en Steinþór Hálfdanarson stýrimaður þekkir þetta vel og hefur farið í mörg röllin á Bjarti og Barða. Nú eigum við eftir stöðvarnar fyrir norðan, eða frá Kolbeinsey og austur á Langanesgrunn. Vonandi gengur jafn vel að toga á þeim og á stöðvunum hér fyrir austan,“ segir Rúnar.
 
Gullver mun leggja úr höfn í kvöld og hefja síðari hluta rallsins. Þá mun Þórhallur Jónsson setjast í skipstjórastólinn.

Nýi Börkur í prufutúr

Nýr Börkur fór í prufutúr sl. fimmtudag. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonNýr Börkur fór í prufutúr sl. fimmtudag.
Ljósm. Karl Jóhann Birgisson
Nýi Börkur, sem er í smíðum hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku, fór í prufutúr sl. fimmtudag. Þeir Grétar Örn Sigfinnsson rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri og Leifur Þormóðsson stýrimaður fóru með í túrinn og einnig Karl Jóhann Birgisson og Hörður Erlendsson vélstjóri sem hafa verið úti í Skagen og fylgst með smíði skipsins fyrir hönd Síldarvinnslunnar. Að sögn Grétars gekk prufutúrinn afskaplega vel í alla staði. „Það voru allir í skýjunum. Þetta er rosalega flott skip og það besta sem við höfum séð. Öll vinnubrögð við smíðina eru frábær og ekkert til sparað. Það er afar gott að vinna með Dönunum og Karl Jóhann og Hörður gegna mikilvægu hlutverki við smíðina og eru í reglubundnu sambandi við okkur heima,“ segir Grétar.
 
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri tók undir með Grétari. „Ég held að þessi skip, Börkur og systurskipið Vilhelm Þorsteinsson, séu flottustu skip sem komið hafa til Íslands. Öll smíði á þeim er einstaklega vönduð og þau eru hlaðin búnaði í ríkari mæli en menn hafa kynnst. Í prufutúrnum voru aðalvélarnar tvær álagsprófaðar og meðal annars dælt sjó í allar lestar og í kælikerfi. Um borð voru 28 manns og hver og einn hafði sínu hlutverki að gegna. Skipið fór í 15,5 mílur á annarri vélinni og í 18,8 á báðum. Þarna er um að ræða yfir 9000 hestöfl og krafturinn er ótrúlegur. Það tók til dæmis einungis eina mínútu og átta sekúndur fyrir skipið að fara úr 5 mílum í 15. Við njótum góðs af samvinnu við Samherjamenn en skip þeirra, Vilhelm Þorsteinsson, verður tilbúið á undan Berki. Mér skilst að Vilhelm verði sennilega afhentur í kringum 20. mars en Börkur gæti verið tilbúinn í lok apríl eða byrjun maí. Þessi skipasmíðastöð er fyrirmyndarfyrirtæki og ef þarf að breyta einhverju eða bæta við þá er það ekkert mál. Skipið virkar alveg svakalega stórt. Það er 90,2 metrar að lengd og 16,7 metrar að breidd. Lestarrýmið er yfir 3.500 rúmmetrar þannig að það getur borið um 3.400 tonn að landi. Þetta er svo sannarlega Stóri-Börkur. Vonandi náum við einum kolmunnatúr fyrir sjómannadag til þess að læra á bátinn. Þetta er virkilega spennandi allt saman,“ segir Hjörvar.
 
Karl Jóhann Birgisson hefur fylgst með framkvæmdum við Börk í Skagen síðan í byrjun októbermánaðar og hafa vélstjórarnir, Jóhann Pétur Gíslason og Hörður Erlendsson, dvalið þar með honum til skiptis. Karl Jóhann segir að skipulega sé unnið að öllum verkum í skipinu. „Nú á til dæmis að fara að byrja að mála skipið að innan og í það verk fer 46 manna hópur. Gert er ráð fyrir að málningarvinnan taki sex vikur. Það er vel að öllum verkum staðið og auðvitað skiptir máli fyrir skipasmíðastöðina að skipið klárist sem fyrst. Eins og ég hef áður sagt njótum við þess að framkvæmdir við systurskipið Vilhelm Þorsteinsson eru á undan þannig að ekkert kemur á óvart við framkvæmdir í Berki. Ég geri ráð fyrir að verða hér í Skagen allt til enda og mínu verki hér mun ljúka við afhendingu skipsins,“ segir Karl Jóhann.

Undirflokkar