Áfram góð síldveiði austur af landinu

Beitir hol sept 2020 HFOGott síldarhol hjá Beiti NK. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 1.300 tonn af síld. Löndun úr honum hófst strax og löndun úr Berki NK lauk en Börkur var með 860 tonn. Hákon EA landaði einnig frystri síld í Neskaupstað um helgina og grænlenska skipið Polar Amaroq hélt með frysta síld til Reykjavíkur þar sem henni verður landað. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti og spurði hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við fengum þetta utarlega í Norðfjarðardýpinu, alveg út við kantbrún. Þarna var síldin stærri og betri en síldin sem fengist hefur nær landi. Þessi síld er að meðaltali um 400 grömm og alveg glimrandi hráefni. Það var mikið að sjá af síld þarna á meðan við vorum að veiðum. Hún heldur sig niðri við botn yfir daginn en á næturna kemur hún upp. Það er yfirleitt mikil ferð á henni,“ segir Tómas.

 

 

Ekkert COVID um borð í Vestmannaey

Í vikunni kom upp grunur um COVID smit um borð í togaranum Vestmannaey. Vestmannaey landaði í Neskaupstað síðastliðinn þriðjudag. Eftir að skipið hélt til sjós kom upp grunur um COVID smit þegar einn í áhöfninni veiktist og sýndi einkenni sem svipa til COVID. Skipinu var tafarlaust siglt til lands og áhöfnin sett í sóttkví og sýni tekin. 

                Í kvöld fékkst niðurstaða sýnatökunnar og enginn í áhöfninni er smitaður af COVID og mun skipið halda aftur til veiða á morgun.

 

Vestmanney Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Vestmannaey ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Samstarf við makrílveiðar

Börkur NK að dæla makrílafla í Beiti NK á miðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK að dæla makrílafla í Beiti NK á miðunum.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Nú er nýlega lokið óvenjulegri makrílvertíð sé miðað við síðustu ár. Makríllinn breytti göngum sínum og gekk í afar takmörkuðum mæli upp á landgrunnið og vestur eftir allt inn í grænlenska lögsögu eins og hann hefur gert að undanförnu. Þess í stað hélt hann sig lengst austur af landinu og reyndar mest á alþjóðlegu hafsvæði sem þekkt er undir nafninu Síldarsmugan. Makrílskipin þurftu því að sækja aflann langt og meira var haft fyrir veiðunum en á undanförnum árum.
 
Til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum var myndað einskonar veiðifélag þeirra skipa sem lönduðu makríl til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Skipin sem um ræðir voru Beitir NK, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Samstarf skipanna byggðist á því að hverju sinni var afla þeirra allra dælt um borð í eitt skip sem síðan flutti hann til vinnslu í landi. Skiptust skipin á um að taka aflann um borð. Álitið var að þetta væri skynsamlegt fyrirkomulag þegar jafn langt væri að sækja aflann og raun bar vitni. Hér er um nýjung að ræða og því kann að vera forvitnilegt að heyra viðhorf skipstjóra á umræddum skipum til samstarfsins.
 
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði að samstarf skipanna á makrílvertíðinni hefði gengið afar vel að sínu mati: „Við þær aðstæður sem ríktu á nýliðinni makrílvertíð var samstarf skipanna góð ráðstöfun og ég held svei mér þá að allir sem tóku þátt í því séu sáttir. Staðreyndin er sú að þetta samstarf var hagkvæmt fyrir alla, bæði veiðiskip og vinnslu. Auðvitað voru það ákveðnar aðstæður sem knúðu á um samstarfið. Þar má nefna að miðin voru fjarlæg og siglingin þangað og þaðan tók  sólarhring eða meira. Veiðin var stundum ekki alltof mikil þannig að skynsamlegt var að setja allan afla skipanna um borð í eitt þeirra sem síðan flutti hæfilegt magn að landi fyrir vinnsluna. Þetta kom í veg fyrir að skipin væru að sigla með smáslatta í land og skipulagið kom einnig í veg fyrir löndunarbið, en öllu máli skiptir að hráefnið sé sem ferskast þegar það er tekið til vinnslu. Það var regla á veiðunum og ákveðin stýring til að skipulagið gengi sem best upp. Þegar síðan brast á með mikilli veiði þá voru skipin send með þann afla sem ekki var unnt að vinna í Neskaupstað til Færeyja eða Noregs. Þannig var reynt að tryggja að kvótinn sem til ráðstöfunar var næðist. Þetta gekk einnig ágætlega að mínu mati. Ég er þeirrar skoðunar að þetta samstarf hafi verið mjög athyglisvert og lærdómsríkt og ég tel að við ákveðnar aðstæður mætti einnig reyna það við síldveiðar og jafnvel loðnuveiðar þegar þær hefjast á ný,“ segir Tómas.
 
Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni. telur að það hafi verið mjög skynsamlegt að efna til veiðisamstarfsins á nýliðinni makrílvertíð. „Ég tel að þetta hafi verið hárrétt ákvörðun og ég held að það sé skoðun allrar áhafnarinnar. Aðstæðurnar á makrílvertíðinni kölluðu í reynd á breytt fyrirkomulag vegna þess hve langt var að sækja makrílinn og hve mikilvægt var að koma hráefninu nýju og fersku til vinnslu. Þegar síðan mikið veiddist og fiskiðjuverið í Neskaupstað hafði ekki undan voru skipin látin landa erlendis. Engu máli skipti þó eitthvert skipanna í samstarfinu fengi hærra verð fyrir aflann í Noregi eða Færeyjum því áhafnir allra skipanna nutu þess jafnt. Veiðinni var annars stýrt þannig að sem mestur afli færi í gegnum fiskiðjuverið í Neskaupstað og hráefnið væri sem best þegar það kæmi þar til vinnslu. Niðurstaða mín er sú að þetta samstarf hafi tekist afar vel og almenn ánægja ríki með það,“ segir Runólfur.
 
Mestu máli skiptir að aflinn komi sem ferskastur til vinnslu. Ljósm. Hákon ErnusonMestu máli skiptir að aflinn komi sem ferskastur til vinnslu. Ljósm. Hákon ErnusonGuðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Margréti, tekur undir með þeim Tómasi og Runólfi. „Mér fannst þetta veiðisamstarf koma afar vel út og mér fannst gaman að taka þátt í því. Ég er sannfærður um að þetta á eftir að endurtaka, ég tala nú ekki um ef aðstæður verða svipaðar og voru á nýliðinni makrílvertíð. Með samstarfinu er verið að hámarka gæði aflans og tryggja vinnslunni stöðugt hráefni og það er einfaldlega það sem skiptir mestu máli. Ég heyri ekki betur en áhöfnin hafi verið afar kát með samstarfið – það kom vel út bæði fyrir skipin og vinnsluna og ég gæti þess vegna trúað því að þetta sé komið til að vera,“ segir Guðmundur. 
 
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, er sammála skipstjórunum á hinum skipunum í samstarfinu. „Samstarfið tókst afskaplega vel að mínu mati. Það var jákvætt bæði fyrir áhafnir skipanna og fyrirtækið í heild sinni. Komið var með góðan og ferskan afla að landi, vinnslunni haldið gangandi og með samstarfinu var unnt að veiða meira en ella. Fullvíst er að við hefðum aldrei náð þeim afla sem við náðum án samstarfsins. Í ljósi þessa er það ekki skrítið að áhöfnin á Berki hafi verið mjög sátt við þetta fyrirkomulag eftir því sem ég veit best. Það kæmi mér ekki á óvart að samstarf af þessu tagi verði endurtekið þegar uppi eru svipaðar aðstæður og voru á makrílvertíðinni sem var að ljúka,“ segir Hálfdan.
 
Miklum meirihluta afla skipanna í samstarfinu, eða tæplega 29 þúsund tonnum, var landað í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og þar gekk vinnsla vel. Alls lönduðu skipin níu sinnum erlendis en það var fyrst og fremst gert til að ná þeim kvóta sem var til ráðstöfunar. Samtals lönduðu skipin fjögur 41 sinni á vertíðinni og þar af voru 39 landanir hluti af umræddu veiðisamstarfi. Alls veiddu skipin 38.500 tonn af makríl á vertíðinni auk 4.600 tonna af síld sem fékkst sem meðafli. Heildarerðmæti aflans var um þrír milljarðar króna.
 

Enginn á Gullver með COVID

Gullver sept 2017 OB

Gullver NS heldur aftur til veiða í kvöld. Ljósm: Ómar Bogason

Eins og komið hefur fram í fréttum kom togarinn Gullver NS til heimahafnar á Seyðisfirði í gærkvöldi vegna þess að fimm úr áhöfninni fundu fyrir slappleika og í öryggisskyni þótti nauðsynlegt að taka sýni og kanna hvort þeir væru smitaðir af kórónuveirunni.
 
Snemma í morgun voru tekin sýni úr fimmmenningunum og héldu þeir síðan í einangrun á hóteli í bænum. Aðrir í áhöfninni fóru í sóttkví.
 
Nú er niðurstaða fengin og kom í ljós að enginn fimmmenninganna er smitaður af COVID og mun Gullver halda á ný til veiða í kvöld.

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf.

Framhaldsaðalfundur Síldarvinnslunnar hf. Verður haldinn miðvikudaginn 14. október 2020 á skrifstofu félagsins að Hafnarbraut 6, Neskaupstað, kl. 14:00.

Dagskrá:

1. Fyrirtaka á þeim dagskrárliðum sem frestað var á aðalfundi félagsins þann 18. ágúst sl.

2. Önnur mál, löglega fram borin

 

Stjórn Síldarvinnslunnar hf.

Ráðgjöf um veiðar á kolmunna, makríl og norsk-íslenskri síld

Beitir NK á síldveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK á síldveiðum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonAlþóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur sent frá sér ráðgjöf varðandi veiðar á kolmunna, makríl og norsk-íslenskri síld fyrir árið 2021. Þessi ráðgjöf hefur áhrif á veiðar Íslendinga, sérstaklega hvað varðar kolmunna og norsk-íslenska síld, og skiptir máli hvað varðar afkomu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Ráðgjöfin er svofelld:

Kolmunni: Lagt er til að veiði á kolmunna verði 929.292 tonn. Ráðgjöfin fyrir árið 2020 nam 1.161.615 tonnum.

Makríll: Lagt er til að makrílveiðin verði 852.284 tonn. Ráðgjöfin fyrir árið 2020 nam 922.064 tonnum.

Norsk-íslensk síld: Lagt er til að síldveiðin 651.033 tonn. Ráðgjöfin fyrir árið 2020 nam 525.594 tonnum.

Eins og hér kemur fram er lagt til að veiðin verði minni á kolmunna og makríl en hún verði aukin á norsk-íslenskri síld.

Bjarni Ólafsson með um 900 tonn af kolmunna

Bjarni Ólafsson AK er eina skipið sem leggur nú stund á kolmunnaveiðar. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK er eina skipið sem leggur nú stund á kolmunnaveiðar. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar sl. nótt með tæplega 900 tonn af kolmunna. Áður hefur verið greint frá því að skipið hafi leitað að kolmunna út af Austfjörðum með takmörkuðum árangri en í fyrrdag fór að ganga betur að veiða. Runólfur Runólfsson skipstjóri segir að um sé að ræða stóran, feitan og fallegan kolmunna. „ Það rættist úr þessu undir lokin hjá okkur. Við fengum tvö þokkaleg hol út af Héraðsflóanum um 50 mílur frá Norðfjarðarhorni. Í fyrra holinu fengum við 320 tonn og var sá afli örlítið síldarblandaður. Síðan fengum við 190 tonna hol og var það hreinn kolmunni. Við erum mjög sáttir við þennan afla sem fékkst í gær og fyrradag og ég reikna með að við höldum áfram þessum veiðum,“ segir Runólfur.

 

 

Síldartraffík í Norðfjarðarhöfn

Norðfjarðarhöfn í morgun. Verið að landa úr Berki NK. Margrét EA kemur til hafnar með 1.100 tonn af síld. Ljósm. Smári GeirssonNorðfjarðarhöfn í morgun. Verið að landa úr Berki NK. Margrét EA kemur til hafnar með 1.100 tonn af síld.
Ljósm. Smári Geirsson
Síldarvertíðin hefur gengið afar vel til þessa og skipin stoppa stutt á miðunum. Landað var úr Beiti NK í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um helgina og aðfaranótt mánudags kom Börkur NK með 1.050 tonn sem fengust í tveimur holum. Verið er að landa úr Berki og mun vinnslu úr afla hans ljúka í kvöld. Nú fyrir hádegi kom Margrét EA til Neskaupstaðar með 1.100 tonn og mun vinnsla á afla hennar hefjast strax og lokið verður við að vinna úr Berki. Heimasíðan heyrði hljóðið í Guðmundi Þ. Jónssyni, skipstjóra á Margréti. „Þessi vertíð hefur einkennst af hörkuveiði. Það er ekki hægt að biðja um það betra. Við fengum þessi 1.100 tonn í tveimur holum í Seyðisfjarðardýpinu. Síldin sem nú veiðist er heldur smærri en sú síld sem veiddist fyrr á vertíðinni. Hún er að meðaltali 360-370 grömm, en hún hentar vel til vinnslunnar. Nú fer að síga á seinni hluta vertíðarinnar hjá okkur. Við eigum einungis eftir að veiða rúm 2.000 tonn af kvótanum okkar,“ segir Guðmundur.

 

Vestmannaey og Bergey með fullfermi

Landað úr Vestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í  morgun. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Vestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBergey VE landaði fullfermi eða um 75 tonnum á Seyðisfirði í gær. Systurskipið, Vestmannaey VE, er að landa fullfermi í Neskaupstað í dag. Heimasíðan ræddi stuttlega við skipstjórana og spurði um aflabrögðin. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagði að aflinn hefði að mestu verið þorskur en örlítið af ýsu hefði slæðst með. „Við byrjuðum túrinn á Tangaflakinu. Þar tókum við tvö hol og færðum okkur síðan yfir á Glettinganesflak. Þar veiddum við síðan það sem eftir var túrsins. Þarna fékkst fínasti fiskur en undir lokin bar svolítið á smærri fiski. Nú erum við komnir út á ný og erum að veiða góðan þorsk og ýsu á Tangaflakinu. Það er heldur rólegt yfir veiðinni akkúrat núna,“ segir Jón.
 
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að veiðiferðin hafi gengið ágætlega. „Við byrjuðum á Tangaflakinu, færðum okkur yfir á Glettinganesflak og síðan í Seyðisfjarðardýpið. Aflinn er nánast eingöngu þorskur. Það bar svolítið á smáfiski á miðunum og við reyndum að forðast hann og það gekk ágætlega. Nú erum við búnir að vera í góðri törn að fiska fyrir austan land, en ráðgert er að halda til til heimahafnar í Eyjum næstkomandi mánudag“, segir Birgir Þór.

Kolmunna leitað austur af landinu

Bjarni Ólafsson AK leitar nú að kolmunna. Ljósm. Hákon ErnusonBjarni Ólafsson AK leitar nú að kolmunna.
Ljósm. Hákon Ernuson
Mánudaginn 21. þessa mánaðar hélt Bjarni Ólafsson AK frá Neskaupstað til kolmunnaleitar austur af landinu. Heimasíðan hafði samband við Runólf Runólfsson skipstjóra í morgun og spurði frétta. „Af okkur er heldur lítið að frétta. Við höfum leitað allvíða, byrjuðum í Rósagarðinum og Hvalbakshalli en enduðum út af Héraðsflóa þar sem við erum búnir að fá um 350 tonn og erum að toga núna. Veðrið hefur verið að trufla okkur og það var bullandi bræla í gær og í fyrradag. Það er kolmunni hér með köntunum og það er stór fiskur en hann er afar dreifður og erfitt að ná einhverjum veiðiárangri. Við erum að toga núna en þetta er eins og hefur verið; lítið að sjá,“ segir Runólfur.
 
Gert er ráð fyrir að Bjarni Ólafsson komi til löndunar í Neskaupstað að loknum veiðum í dag.
 
 

Blængur veiðir víða

Blængur NK að veiðum í Víkurálnum. Ljósm. Guðmundur St. ValdimarssonBlængur NK að veiðum í Víkurálnum.
Ljósm. Guðmundur St. Valdimarsson
Sl. miðvikudag kom frystitogarinn Blængur NK til löndunar í Neskaupstað að lokinni tuttugu og þriggja daga veiðiferð. Afli skipsins var um 620 tonn upp úr sjó að verðmæti um 180 milljónir króna. Uppistaða aflans var karfi og ufsi. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. „Við fórum út 31. ágúst og ætlunin var að fara á Vestfjarðamið, en þá var bræla fyrir vestan svo við hófum veiðar í Lónsbugtinni og á Breiðdalsgrunni. Þar var heldur lítið að hafa og haldið var vestur strax og útlit var fyrir betra veður þar. Megnið af túrnum vorum við síðan á Halanum í ufsaleit og fórum tvisvar í Víkurálinn í karfa. Síðan brældi á meðan við vorum fyrir vestan og þá var haldið í ufsaleit á Fjöllin við Reykjanesið. Það reyndist vera lítið af ufsa þar og við komum okkur aftur vestur strax og veður skánaði þar. Eins og sést á þessari lýsingu réði veðrið miklu í þessari veiðiferð; haustið er komið með sínum lægðum. Eins verður að hafa í huga að september getur verið býsna erfiður hvað veiðar varðar, reynslan hefur sýnt okkur það. Þegar upp var staðið rættist vel úr túrnum og miðað við veður og tímalengd geta menn bara verið ágætlega sáttir,“ segir Theodór.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný annað kvöld.

Síldveiðin gengur vel

Gott síldarhol hjá Beiti NK. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott síldarhol hjá Beiti NK. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonSíldveiðin austur af landinu gengur áfram vel. Beitir NK kom með tæplega 1000 tonn til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnarí Neskaupstað um hádegi í gær og ræddi heimasíðan stuttlega við Tómas Kárason skipstjóra. „Það er mikla síld að sjá og yfirleitt gengur býsna vel að ná henni. Við fengum til dæmis 685 tonn í fyrsta holi veiðiferðarinnar og toguðum þá í einn og hálfan tíma. Holið var tekið utarlega í Héraðsflóadýpinu. Mér finnst eins og fiskurinn sé byrjaður að þoka sér í austur eða norðaustur og það þýðir að það verður heldur lengra að sækja hann. Annars er þetta búin að vera hin fínasta síldarvertíð og ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Tómas.

Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu í Neskaupstað segir að vinnsla síldarinnar gangi vel. Síldin er bæði heilfryst og flökuð og flökin fryst bæði með roði og roðlaus.

 

 

Rættist úr í lokin

Gullver NS kemur til löndunar í hádeginu í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kemur til löndunar í hádeginu í gær.
Ljósm. Ómar Bogason
Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar að lokinni veiðiferð  í hádeginu í gær með 92,5 tonn. Aflinn var mest þorskur en um 10 tonn voru ýsa auk þess sem smávegis var af ufsa og karfa. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson sem var skipstjóri í veiðiferðinni. „Sannast sagna var veiðin heldur treg framan af í þessum túr, en það rættist úr í lokin þegar við fengum ein 30 tonn á skömmum tíma. Við hófum veiðar á Tangaflakinu, færðum okkur yfir á Glettinganesflak og síðan aftur á Tangaflakið. Við vorum semsagt bara í kálgörðunum hér heima. Fiskurinn sem fékkst er stór og fallegur og hann er úttroðinn af síld,“ segir Steinþór.
 
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi til veiða á ný annað kvöld.
 
 
 

Afar góður fiskur fyrir austan

Bergey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBergey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonVestmannaeyjaskipin, Bergey VE og Vestmannaey VE, hafa að undanförnu verið að veiðum fyrir austan land. Skip Bergs- Hugins hafa undanfarin ár venjulega haldið austur fyrir til veiða um miðjan september og fiskað þar fram að jólum og jafnvel fram yfir áramót. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergey, í morgun. Birgir Þór sagði að Vestmannaey hefði landað nánast fullfermi á Seyðisfirði sl. mánudag. „Þetta var stór og afar fallegur fiskur, nánast eingöngu þorskur og ýsa. Þorskurinn var gjarnan 8-10 kg. og ýsan var líka býsna myndarleg. Í þessum túr byrjuðum við að veiða grunnt á Tangaflakinu og héldum síðan norður í Skáp við Glettinganesflak. Veiðin gekk býsna vel en svo brældi og þá fórum við í land með aflann. Við héldum út að löndun lokinni og lentum þá í brasi; festum trollið og þurftum að slæða það upp. Núna erum við í Litladýpinu í reytingsveiði. Við gerum ráð fyrir að landa, líklega á Norðfirði, næstkomandi föstudag,“ segir Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tekur undir með Birgi Þór og segir að fiskurinn fyrir austan hafi verið stór og fallegur. „Við lönduðum í gær um 60 tonnum á Norðfirði. Aflinn var þorskur og ýsa. Þorskinn fengum við á Glettinganesflakinu og ýsuna á Tangaflakinu. Við fórum út strax eftir löndun og erum núna að trolla í Litladýpi. Aflinn er fínasti þorskur en þetta er dálítið ufsaborið. Við reiknum með að landa fyrir austan á föstudagsmorgun,“ segir Jón.
 

Breyttar göngur makrílsins en vel heppnuð vertíð þrátt fyrir það

Breyttar göngur makrílsins en vel heppnuð vertíð þrátt fyrir þaðGera má ráð fyrir að makrílvertíðinni sé lokið og hafa makrílskipin snúið sér að síldveiðum. Heildarkvóti íslenskra skipa á vertíðinni var 148.400 tonn og eru 18.900 tonn óveidd. Í fyrra nam makrílveiði Íslendinga 125.500 tonnum.

Makríllinn breytti göngum sínum í ár ef miðað er við síðustu ár. Hann gekk í afar takmörkuðum mæli upp á landgrunnið og vestur eftir allt til Grænlands eins og hann hefur gert undanfarin ár. Að þessu sinni hélt hann sig í mestum mæli lengst austur af landinu og reyndar mest á alþjóðlegu hafsvæði sem flestir þekkja undir nafninu Síldarsmugan. Það þurfti því að sækja aflann mun lengra en þurft hefur á undanförnum árum.

Alls lögðu um 20 íslensk skip stund á makrílveiðarnar í ár en vegna hins breytta göngumynsturs stunduðu smábátar nær engar veiðar.

Til að bregðast við því hve langt var að sækja makrílinn var myndað einskonar veiðifélag þeirra fjögurra skipa sem lönduðu til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Skipin voru Beitir NK, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Afla skipanna var hverju sinni dælt um borð í eitt þeirra sem síðan flutti hann að landi til vinnslu. Skiptust skipin á að taka aflann um borð. Með þessu fyrirkomulagi urðu minni frátafir frá veiðum og aflinn barst ferskari til vinnslu. Samtals lönduðu þessi skip 41 sinni á makrílvertíðinni og þar af voru 39 landanir hluti af veiðisamstarfinu. Skipin fjögur lönduðu 38.500 tonnum af makríl á vertíðinni og var verðmæti aflans tæplega 2.764 milljónir króna. Á sama tíma lönduðu skipin 4.600 tonnum af síld, sem fékkst sem meðafli, að verðmæti 205 milljónir króna. Þannig voru heildarverðmæti makríl- og síldarafla hjá þessum fjórum skipum í júlí og fram til 10. september 2.980 milljónir króna. 

Þegar leið á vertíðina varð ljóst að skipin þyrftu í einhverjum mæli að landa erlendis svo unnt yrði að ná kvótanum. Samtals voru landanir erlendis níu talsins og var rúmlega 10.000 tonnum af makríl landað í Færeyjum og Noregi. 

Mikilum meirihluta makrílafla skipanna var landað í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eða rúmlega 28.000 tonnum. Í fiskiðjuverinu er unnið á þremur vöktum og eru um 25 starfsmenn á hverri vakt auk verkstjóra, vélstjóra og iðnaðarmanna. Gengnar eru 12 tíma vaktir og í fullum vaktamánuði þegar hráefnisöflun er stöðug vinnur hver starfsmaður á um 20 vöktum. Hér er um að ræða mikla vinnu sem gefur góðar tekjur. Vinnsla makrílsins gekk vel alla vertíðina og á síðustu dögum hafa verið tíðar útskipanir á frystum makríl í Norðfjarðarhöfn.

Makrílafli skipanna sem lögðu upp hjá Síldarvinnslunni var sem hér segir (miðað er við landaðan afla hvers skips, en hafa ber í huga veiðisamstarfið):

                                    Börkur NK                 11.203 tonn

                                    Beitir NK                    10.293 tonn

                                   Bjarni Ólafsson AK       7.724 tonn

                                   Margrét EA                   9.233 tonn  

Þess skal getið að Börkur var það íslenska skip sem landaði mestum afla á vertíðinni og Beitir landaði fimmta mestum afla.

Síldarstemmningin hefur breyst

Reykurinn frá mjöl- og lýsisverksmiðjunum heyrir sögunni til. Ljósm. Sigurður ArnfinnssonReykurinn frá mjöl- og lýsisverksmiðjunum heyrir sögunni til.
Ljósm. Sigurður Arnfinnsson
Nú ríkir síldarstemmning í Neskaupstað en sú stemmning er að mörgu leyti ólík þeirri stemmningu sem ríkti á hinum svonefndu síldarárum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Ef litið er til baka og einkenni síldaráranna skoðuð kemur í ljós hve vinnslan var frábrugðin því sem nú gerist. Á sjöunda áratugnum voru síldarskipin fjölmörg og hvert skip gat tekið takmarkaðan afla. Síldarbátar voru sífellt á ferðinni og þegar brældi leituðu þeir hafnar og safnaðist þá mikill fjöldi báta saman í höfnum helstu síldveiðistaðanna. Söltunarstöðvarnar voru fjölmargar og voru til dæmis sex slíkar í Neskaupstað þegar þær voru flestar. Lengi vel var síldin söltuð undir berum himni og var söltunin svo sannarlega vinnuaflsfrek. Drjúgur hluti síldarinnar sem veiddist fór til mjöl- og lýsisframleiðslu og á síldarárunum fór ekkert á milli mála hvenær slík vinnsla fór fram – reykjarmökkurinn frá síldarverksmiðjunum einkenndi alla helstu síldarstaðina. Síldarárin svonefndu voru svo sannarlega eftirminnilegt tímabil fyrir alla þá sem upplifðu þau.

Síldarstemmning nútímans er mjög frábrugðin þeirri stemmningu sem ríkti á síldarárunum. Skipin sem stunda veiðarnar eru fá en burðarmikil og vel útbúin til veiðanna. Á hverjum síldarstað er einungis eitt fyrirtæki sem tekur á móti síld til vinnslu – að langmestu leyti er síldin fryst og það er einungis brottkast frá manneldisvinnslunni sem fer til mjöl- og lýsisvinnslu. Þá ber að nefna að reykjarmökkurinn frá fiskimjölsverksmiðjunum heyrir sögunni til. Söltun á síld, sem áður var mikilvægur þáttur síldarvinnslunnar, fer einungis fram á Fáskrúðsfirði og það reyndar í sáralitlum mæli miðað við það sem gerðist á síldarárunum. Allir íbúar síldveiðistaðanna börðu silfur hafsins augum á síldarárunum en nú þarf töluvert að hafa fyrir því að sjá þennan fisk sem hefur haft svo mikil áhrif í sögunni. Það má með sanni segja að síldarstemmningin hafi breyst, en hún er engu að síður enn til staðar.

Á yfirstandandi síldarvertíð hafa hingað til einungis þrjú síldveiðiskip landað til mannveldisvinnslu hjá Síldarvinnslunni  í Neskaupstað en það eru Börkur NK, Beitir NK og Margrét EA. Fjórða skipið sem landar þar síld er Hákon EA en þar er aflinn frystur um borð. Sl. laugardag hófst vinnsla á 1.200 tonna afla sem Beitir kom með og lauk vinnslu úr honum sl. nótt. Þá hófst löndun úr Margréti sem komin var með 890 tonn. Reiknað er með að vinnslu úr Margréti ljúki í nótt en Börkur er þegar kominn til hafnar með 1.200 tonn og hefst þá vinnsla á þeim afla.

Það er löngu liðin tíð að síld sé söltuð utan dyra. Ljósm. Kristján VildmundarsonÞað er löngu liðin tíð að síld sé söltuð utan dyra.
Ljósm. Kristján Vildmundarson
  Nú á tímum er öll áhersla lögð á að frysta síldina.   Ljósm. Hákon ErnusonNú á tímum er öll áhersla lögð á að frysta síldina.
Ljósm. Hákon Ernuson

Líf og fjör í Norðfjarðarhöfn

Frá Norðfjarðarhöfn í gær. Ljósm. Smári GeirssonFrá Norðfjarðarhöfn í gær. Ljósm. Smári GeirssonÞað hefur svo sannarlega verið mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn síðustu dagana. Veiðiskip koma og fara og flutningaskip koma og lesta afurðir. Alls staðar eru menn að störfum við löndun eða útskipun. Verðmætin sem fara um höfnina eru ótrúlega mikil og vinnslustöðvarnar hafa vart undan að taka á móti aflanum.
 
Í gær var verið að landa síld úr Berki NK og einnig var verið að landa fullfermi úr ísfisktogaranum Vestmannaey VE. Margrét EA kom til hafnar í gær með 730 tonn af síld og fékkst aflinn í einungis einu holi. Þá var verið að skipa út frystum makríl og undirbúa komu Hákonar EA sem var að koma með frysta síld til löndunar. Í gærkvöldi lauk síðan vinnslu úr Berki og þá hófst vinnsla úr Margréti.
 
 
 
 
Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári Geirsson Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári Geirsson Ekki var síður mikið um að vera við höfnina í morgun. Þá var enn verið að vinna síldina úr Margréti, ísfisktogarinn Bergey VE var kominn til löndunar með góðan afla og hamast var við að landa frystri síld úr Hákoni. Jafnhliða var unnið áfram við útskipun á frystum makríl. Börkur beið í höfninni eftir að röðin kæmi að honum að halda út á síldarmiðin en Beitir NK hélt til veiða í morgun. Síldveiðin er það góð og miðin í svo mikilli nálægð að einungis eitt skip er að veiðum hverju sinni. Við bryggju hinnar nýju netagerðar Hampiðjunnar lá síðan grænlenska skipið Polar Amaroq og naut þjónustu netagerðarmannanna.
 
Það er afskaplega gaman að fylgjast með því sem er að gerast við höfnina. Þar er líf og fjör og bullandi traffík.
 

Samfelld síldarvinnsla

Beitir NK á landleið af síldarmiðunum með 1.140 tonn. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBeitir NK á landleið af síldarmiðunum með 1.140 tonn.
Ljósm. Egill Guðni Guðnason
Frá því að fyrsta síldin á vertíðinni barst til Neskaupstaðar hinn 11. september sl. hefur vinnsla síldar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar verið samfelld. Nú er verið að vinna síld úr Beiti NK sem kom með 1.140 tonn í gærmorgun. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra á Beiti og spurði hvernig gengið hefði að fá aflann. „ Það gekk vel. Við fengum aflann í fimm stuttum holum en það var dregið í einn til einn og hálfan tíma. Aflinn var misjafn, stærsta holið gaf 430 tonn en hið minnsta 180. Við hófum veiðarnar í Seyðisfjarðardýpi en fengum mest af aflanum út af Héraðsflóa. Þetta er ágætis síld en misjafnlega stór eða frá 370 og upp í 420 grömm,“ segir Sturla.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 880 tonn af síld og verður landað úr honum strax og lokið verður við að vinna aflann úr Beiti. Aflann fékk Börkur í þremur holum á svipuðum slóðum og Beitir.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldarvinnslan hafi gengið vel.  „Þetta er frábært hráefni sem við erum að fá enda veitt í kálgarðinum hér heima og kemur ferskt og gott til vinnslunnar. Síldin er bæði heilfryst og flökuð “ segir Jón Gunnar.

Nú eru það Austfjarðamið hjá Vestmannaeyjaskipunum

Bergey VE landaði í gær í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBergey VE landaði í gær í Neskaupstað.
Ljósm. Smári Geirsson
Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, eru nú að veiðum á Austfjarðamiðum. Vestmannaey landaði á Eskifirði á laugardagskvöld og Bergey landaði í Neskaupstað í gær. Heimasíðan hafði samband við Egil Guðna Guðnason stýrimann á Vestmannaey og Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey og spurði frétta. 
 
Egill Guðni sagði að það væri notalegt að koma til löndunar á Eskifirði. „Við lönduðum í mínum gamla heimabæ. Við höfðum einungis verið um tvo daga að veiðum en þá þurfti einn úr áhöfninni á læknisaðstoð að halda og því var farið í land. Við lönduðum um 40 tonnum af blönduðum afla sem fékkst í Berufjarðarálnum. Að lokinni löndun fórum við strax út og héldum norður á Glettinganes. Þar stoppuðum við í sólarhring og erum komnir aftur suður í Berufjarðarál. Það er í augnablikinu heldur rólegt hjá okkur en það hlýtur að lagast. Ég held að áformað sé að landa fyrir austan á fimmtudag eða föstudag,“ segir Egill Guðni.
 
Jón Valgeirsson sagði að Bergey hefði landað hátt í 70 tonnum í Neskaupstað í gær. „ Við fengum aflann í Berufjarðarálnum og á Breiðdalsgrunni Þetta var blandaður afli en fínasti fiskur. Þá var veðrið alveg frábært, sannkölluð bongóblíða. Að lokinni löndun reyndum við fyrir okkur í Seyðisfjarðardýpinu en þar var heldur tregt. Við erum því aftur komnir í Berufjarðarálinn og hér er þokkalegt kropp. Það stendur til að landa hér fyrir austan á fimmtudag,“ segir Jón.
 

Myndband af sjósetningu nýja Barkar

Nýi Börkur var sjósettur hjá skipasmíðastöð Karstensens Skibsværft AS í Gdynia í Póllandi hinn 7. september sl. Sjósetningin gekk vel í alla staði og sýnir meðfylgjandi myndband hvernig hún fór fram. Frá því skipið var sjósett hafa framkvæmdir haldið áfram og nú er til dæmis yfirbyggingin komin á sinn stað. Gert er ráð fyrir að Börkur verði dreginn til Skagen í Danmörku í næsta mánuði og þar mun skipið verða fullklárað.

 

Undirflokkar