Afar góður fiskur fyrir austan

Bergey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBergey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonVestmannaeyjaskipin, Bergey VE og Vestmannaey VE, hafa að undanförnu verið að veiðum fyrir austan land. Skip Bergs- Hugins hafa undanfarin ár venjulega haldið austur fyrir til veiða um miðjan september og fiskað þar fram að jólum og jafnvel fram yfir áramót. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergey, í morgun. Birgir Þór sagði að Vestmannaey hefði landað nánast fullfermi á Seyðisfirði sl. mánudag. „Þetta var stór og afar fallegur fiskur, nánast eingöngu þorskur og ýsa. Þorskurinn var gjarnan 8-10 kg. og ýsan var líka býsna myndarleg. Í þessum túr byrjuðum við að veiða grunnt á Tangaflakinu og héldum síðan norður í Skáp við Glettinganesflak. Veiðin gekk býsna vel en svo brældi og þá fórum við í land með aflann. Við héldum út að löndun lokinni og lentum þá í brasi; festum trollið og þurftum að slæða það upp. Núna erum við í Litladýpinu í reytingsveiði. Við gerum ráð fyrir að landa, líklega á Norðfirði, næstkomandi föstudag,“ segir Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tekur undir með Birgi Þór og segir að fiskurinn fyrir austan hafi verið stór og fallegur. „Við lönduðum í gær um 60 tonnum á Norðfirði. Aflinn var þorskur og ýsa. Þorskinn fengum við á Glettinganesflakinu og ýsuna á Tangaflakinu. Við fórum út strax eftir löndun og erum núna að trolla í Litladýpi. Aflinn er fínasti þorskur en þetta er dálítið ufsaborið. Við reiknum með að landa fyrir austan á föstudagsmorgun,“ segir Jón.
 

Breyttar göngur makrílsins en vel heppnuð vertíð þrátt fyrir það

Breyttar göngur makrílsins en vel heppnuð vertíð þrátt fyrir þaðGera má ráð fyrir að makrílvertíðinni sé lokið og hafa makrílskipin snúið sér að síldveiðum. Heildarkvóti íslenskra skipa á vertíðinni var 148.400 tonn og eru 18.900 tonn óveidd. Í fyrra nam makrílveiði Íslendinga 125.500 tonnum.

Makríllinn breytti göngum sínum í ár ef miðað er við síðustu ár. Hann gekk í afar takmörkuðum mæli upp á landgrunnið og vestur eftir allt til Grænlands eins og hann hefur gert undanfarin ár. Að þessu sinni hélt hann sig í mestum mæli lengst austur af landinu og reyndar mest á alþjóðlegu hafsvæði sem flestir þekkja undir nafninu Síldarsmugan. Það þurfti því að sækja aflann mun lengra en þurft hefur á undanförnum árum.

Alls lögðu um 20 íslensk skip stund á makrílveiðarnar í ár en vegna hins breytta göngumynsturs stunduðu smábátar nær engar veiðar.

Til að bregðast við því hve langt var að sækja makrílinn var myndað einskonar veiðifélag þeirra fjögurra skipa sem lönduðu til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Skipin voru Beitir NK, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Afla skipanna var hverju sinni dælt um borð í eitt þeirra sem síðan flutti hann að landi til vinnslu. Skiptust skipin á að taka aflann um borð. Með þessu fyrirkomulagi urðu minni frátafir frá veiðum og aflinn barst ferskari til vinnslu. Samtals lönduðu þessi skip 41 sinni á makrílvertíðinni og þar af voru 39 landanir hluti af veiðisamstarfinu. Skipin fjögur lönduðu 38.500 tonnum af makríl á vertíðinni og var verðmæti aflans tæplega 2.764 milljónir króna. Á sama tíma lönduðu skipin 4.600 tonnum af síld, sem fékkst sem meðafli, að verðmæti 205 milljónir króna. Þannig voru heildarverðmæti makríl- og síldarafla hjá þessum fjórum skipum í júlí og fram til 10. september 2.980 milljónir króna. 

Þegar leið á vertíðina varð ljóst að skipin þyrftu í einhverjum mæli að landa erlendis svo unnt yrði að ná kvótanum. Samtals voru landanir erlendis níu talsins og var rúmlega 10.000 tonnum af makríl landað í Færeyjum og Noregi. 

Mikilum meirihluta makrílafla skipanna var landað í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eða rúmlega 28.000 tonnum. Í fiskiðjuverinu er unnið á þremur vöktum og eru um 25 starfsmenn á hverri vakt auk verkstjóra, vélstjóra og iðnaðarmanna. Gengnar eru 12 tíma vaktir og í fullum vaktamánuði þegar hráefnisöflun er stöðug vinnur hver starfsmaður á um 20 vöktum. Hér er um að ræða mikla vinnu sem gefur góðar tekjur. Vinnsla makrílsins gekk vel alla vertíðina og á síðustu dögum hafa verið tíðar útskipanir á frystum makríl í Norðfjarðarhöfn.

Makrílafli skipanna sem lögðu upp hjá Síldarvinnslunni var sem hér segir (miðað er við landaðan afla hvers skips, en hafa ber í huga veiðisamstarfið):

                                    Börkur NK                 11.203 tonn

                                    Beitir NK                    10.293 tonn

                                   Bjarni Ólafsson AK       7.724 tonn

                                   Margrét EA                   9.233 tonn  

Þess skal getið að Börkur var það íslenska skip sem landaði mestum afla á vertíðinni og Beitir landaði fimmta mestum afla.

Síldarstemmningin hefur breyst

Reykurinn frá mjöl- og lýsisverksmiðjunum heyrir sögunni til. Ljósm. Sigurður ArnfinnssonReykurinn frá mjöl- og lýsisverksmiðjunum heyrir sögunni til.
Ljósm. Sigurður Arnfinnsson
Nú ríkir síldarstemmning í Neskaupstað en sú stemmning er að mörgu leyti ólík þeirri stemmningu sem ríkti á hinum svonefndu síldarárum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Ef litið er til baka og einkenni síldaráranna skoðuð kemur í ljós hve vinnslan var frábrugðin því sem nú gerist. Á sjöunda áratugnum voru síldarskipin fjölmörg og hvert skip gat tekið takmarkaðan afla. Síldarbátar voru sífellt á ferðinni og þegar brældi leituðu þeir hafnar og safnaðist þá mikill fjöldi báta saman í höfnum helstu síldveiðistaðanna. Söltunarstöðvarnar voru fjölmargar og voru til dæmis sex slíkar í Neskaupstað þegar þær voru flestar. Lengi vel var síldin söltuð undir berum himni og var söltunin svo sannarlega vinnuaflsfrek. Drjúgur hluti síldarinnar sem veiddist fór til mjöl- og lýsisframleiðslu og á síldarárunum fór ekkert á milli mála hvenær slík vinnsla fór fram – reykjarmökkurinn frá síldarverksmiðjunum einkenndi alla helstu síldarstaðina. Síldarárin svonefndu voru svo sannarlega eftirminnilegt tímabil fyrir alla þá sem upplifðu þau.

Síldarstemmning nútímans er mjög frábrugðin þeirri stemmningu sem ríkti á síldarárunum. Skipin sem stunda veiðarnar eru fá en burðarmikil og vel útbúin til veiðanna. Á hverjum síldarstað er einungis eitt fyrirtæki sem tekur á móti síld til vinnslu – að langmestu leyti er síldin fryst og það er einungis brottkast frá manneldisvinnslunni sem fer til mjöl- og lýsisvinnslu. Þá ber að nefna að reykjarmökkurinn frá fiskimjölsverksmiðjunum heyrir sögunni til. Söltun á síld, sem áður var mikilvægur þáttur síldarvinnslunnar, fer einungis fram á Fáskrúðsfirði og það reyndar í sáralitlum mæli miðað við það sem gerðist á síldarárunum. Allir íbúar síldveiðistaðanna börðu silfur hafsins augum á síldarárunum en nú þarf töluvert að hafa fyrir því að sjá þennan fisk sem hefur haft svo mikil áhrif í sögunni. Það má með sanni segja að síldarstemmningin hafi breyst, en hún er engu að síður enn til staðar.

Á yfirstandandi síldarvertíð hafa hingað til einungis þrjú síldveiðiskip landað til mannveldisvinnslu hjá Síldarvinnslunni  í Neskaupstað en það eru Börkur NK, Beitir NK og Margrét EA. Fjórða skipið sem landar þar síld er Hákon EA en þar er aflinn frystur um borð. Sl. laugardag hófst vinnsla á 1.200 tonna afla sem Beitir kom með og lauk vinnslu úr honum sl. nótt. Þá hófst löndun úr Margréti sem komin var með 890 tonn. Reiknað er með að vinnslu úr Margréti ljúki í nótt en Börkur er þegar kominn til hafnar með 1.200 tonn og hefst þá vinnsla á þeim afla.

Það er löngu liðin tíð að síld sé söltuð utan dyra. Ljósm. Kristján VildmundarsonÞað er löngu liðin tíð að síld sé söltuð utan dyra.
Ljósm. Kristján Vildmundarson
  Nú á tímum er öll áhersla lögð á að frysta síldina.   Ljósm. Hákon ErnusonNú á tímum er öll áhersla lögð á að frysta síldina.
Ljósm. Hákon Ernuson

Líf og fjör í Norðfjarðarhöfn

Frá Norðfjarðarhöfn í gær. Ljósm. Smári GeirssonFrá Norðfjarðarhöfn í gær. Ljósm. Smári GeirssonÞað hefur svo sannarlega verið mikið um að vera í Norðfjarðarhöfn síðustu dagana. Veiðiskip koma og fara og flutningaskip koma og lesta afurðir. Alls staðar eru menn að störfum við löndun eða útskipun. Verðmætin sem fara um höfnina eru ótrúlega mikil og vinnslustöðvarnar hafa vart undan að taka á móti aflanum.
 
Í gær var verið að landa síld úr Berki NK og einnig var verið að landa fullfermi úr ísfisktogaranum Vestmannaey VE. Margrét EA kom til hafnar í gær með 730 tonn af síld og fékkst aflinn í einungis einu holi. Þá var verið að skipa út frystum makríl og undirbúa komu Hákonar EA sem var að koma með frysta síld til löndunar. Í gærkvöldi lauk síðan vinnslu úr Berki og þá hófst vinnsla úr Margréti.
 
 
 
 
Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári Geirsson Frá Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári Geirsson Ekki var síður mikið um að vera við höfnina í morgun. Þá var enn verið að vinna síldina úr Margréti, ísfisktogarinn Bergey VE var kominn til löndunar með góðan afla og hamast var við að landa frystri síld úr Hákoni. Jafnhliða var unnið áfram við útskipun á frystum makríl. Börkur beið í höfninni eftir að röðin kæmi að honum að halda út á síldarmiðin en Beitir NK hélt til veiða í morgun. Síldveiðin er það góð og miðin í svo mikilli nálægð að einungis eitt skip er að veiðum hverju sinni. Við bryggju hinnar nýju netagerðar Hampiðjunnar lá síðan grænlenska skipið Polar Amaroq og naut þjónustu netagerðarmannanna.
 
Það er afskaplega gaman að fylgjast með því sem er að gerast við höfnina. Þar er líf og fjör og bullandi traffík.
 

Samfelld síldarvinnsla

Beitir NK á landleið af síldarmiðunum með 1.140 tonn. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBeitir NK á landleið af síldarmiðunum með 1.140 tonn.
Ljósm. Egill Guðni Guðnason
Frá því að fyrsta síldin á vertíðinni barst til Neskaupstaðar hinn 11. september sl. hefur vinnsla síldar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar verið samfelld. Nú er verið að vinna síld úr Beiti NK sem kom með 1.140 tonn í gærmorgun. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra á Beiti og spurði hvernig gengið hefði að fá aflann. „ Það gekk vel. Við fengum aflann í fimm stuttum holum en það var dregið í einn til einn og hálfan tíma. Aflinn var misjafn, stærsta holið gaf 430 tonn en hið minnsta 180. Við hófum veiðarnar í Seyðisfjarðardýpi en fengum mest af aflanum út af Héraðsflóa. Þetta er ágætis síld en misjafnlega stór eða frá 370 og upp í 420 grömm,“ segir Sturla.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 880 tonn af síld og verður landað úr honum strax og lokið verður við að vinna aflann úr Beiti. Aflann fékk Börkur í þremur holum á svipuðum slóðum og Beitir.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldarvinnslan hafi gengið vel.  „Þetta er frábært hráefni sem við erum að fá enda veitt í kálgarðinum hér heima og kemur ferskt og gott til vinnslunnar. Síldin er bæði heilfryst og flökuð “ segir Jón Gunnar.

Nú eru það Austfjarðamið hjá Vestmannaeyjaskipunum

Bergey VE landaði í gær í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBergey VE landaði í gær í Neskaupstað.
Ljósm. Smári Geirsson
Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, eru nú að veiðum á Austfjarðamiðum. Vestmannaey landaði á Eskifirði á laugardagskvöld og Bergey landaði í Neskaupstað í gær. Heimasíðan hafði samband við Egil Guðna Guðnason stýrimann á Vestmannaey og Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey og spurði frétta. 
 
Egill Guðni sagði að það væri notalegt að koma til löndunar á Eskifirði. „Við lönduðum í mínum gamla heimabæ. Við höfðum einungis verið um tvo daga að veiðum en þá þurfti einn úr áhöfninni á læknisaðstoð að halda og því var farið í land. Við lönduðum um 40 tonnum af blönduðum afla sem fékkst í Berufjarðarálnum. Að lokinni löndun fórum við strax út og héldum norður á Glettinganes. Þar stoppuðum við í sólarhring og erum komnir aftur suður í Berufjarðarál. Það er í augnablikinu heldur rólegt hjá okkur en það hlýtur að lagast. Ég held að áformað sé að landa fyrir austan á fimmtudag eða föstudag,“ segir Egill Guðni.
 
Jón Valgeirsson sagði að Bergey hefði landað hátt í 70 tonnum í Neskaupstað í gær. „ Við fengum aflann í Berufjarðarálnum og á Breiðdalsgrunni Þetta var blandaður afli en fínasti fiskur. Þá var veðrið alveg frábært, sannkölluð bongóblíða. Að lokinni löndun reyndum við fyrir okkur í Seyðisfjarðardýpinu en þar var heldur tregt. Við erum því aftur komnir í Berufjarðarálinn og hér er þokkalegt kropp. Það stendur til að landa hér fyrir austan á fimmtudag,“ segir Jón.
 

Myndband af sjósetningu nýja Barkar

Nýi Börkur var sjósettur hjá skipasmíðastöð Karstensens Skibsværft AS í Gdynia í Póllandi hinn 7. september sl. Sjósetningin gekk vel í alla staði og sýnir meðfylgjandi myndband hvernig hún fór fram. Frá því skipið var sjósett hafa framkvæmdir haldið áfram og nú er til dæmis yfirbyggingin komin á sinn stað. Gert er ráð fyrir að Börkur verði dreginn til Skagen í Danmörku í næsta mánuði og þar mun skipið verða fullklárað.

 

1150 tonn af síld í tveimur 100 mínútna holum

Langt var komið með að landa úr Margréti EA í morgun. Ljósm. Smári GeirssonLangt var komið með að landa úr Margréti EA í morgun. Ljósm. Smári GeirssonMargrét EA kom til Neskaupstaðar á laugardagskvöld með 1150 tonn af síld . Heimasíðan ræddi stuttlega við Birki Hreinsson skipstjóra og spurði hvernig gengið hefði að ná í aflann. „Það gekk eins og í sögu. Við stoppuðum í átta og hálfan klukkutíma á miðunum og fengum þessi 1150 tonn í tveimur 100 mínútna holum. Fyrra holið var 105 mínútur og hið seinna 110. Aflinn fékkst norðarlega og ofarlega á Glettinganesgrunni. Þarna var gríðarmikið af síld að sjá og engin vandræði að fá góðan afla. Síldin er líka eins og best verður á kosið. Hún er 420 grömm að meðaltali og algerlega átulaus. Þetta er eins gott hráefni til vinnslu og hugsast getur enda vorum við bara þrjá tíma á leiðinni í land og hráefnið getur vart verið mikið ferskara. Það verður búið að vinna aflann upp úr hádegi í dag,“ segir Birkir.
 
Farmur Margrétar er annar síldarfarmurinn sem berst til vinnslu í Neskaupstað á þessari nýbyrjuðu síldarvertíð. Börkur NK kom með fyrsta farminn sl. föstudag. Að lokinni vinnslu á síldinni úr Margréti verður fiskiðjuverið þrifið hátt og lágt og síðan mun Beitir NK væntanlega koma til löndunar að því loknu. Beitir er þegar kominn á síldarmiðin og mun haga veiðum  þannig að hráefnið verði sem ferskast þegar það kemur til vinnslu.

Börkur að koma með fyrsta síldarfarminn

Börkur NK er að koma með fyrsta síldarfarm vertíðarinnar til Neskaupstaðar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK er að koma með fyrsta síldarfarm vertíðarinnar til Neskaupstaðar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonRétt fyrir hádegi í dag er Börkur NK væntanlegur með fyrsta síldarfarm haustsins til Neskaupstaðar. Afli skipsins er 890 tonn og mun hann allur fara til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. „Við byrjuðum á að fara norður fyrir land. Þar höfðu Færeyingar verið að fá stórsíld og við vildum kanna möguleikana þar. Áður en við komum þarna norður hafði brælt og kólnað og síldin virðist hafa forðað sér þaðan. Þá héldum við austur fyrir land þar sem íslensk skip hafa verið að fá afla. Við fengum þennan afla á 20 tímum í Seyðisfjarðardýpinu og hann fékkst í fjórum holum. Þegar við lukum veiðum í morgun áttum við 32 mílur í land. Þetta er ágætis síld eða svipuð þeirri sem við höfum verið að veiða hér síðustu ár. Meðalvigtin er um 350 grömm. Þetta er án efa norsk-íslensk síld en það sést líka íslensk sumargotssíld í aflanum. Það virðist vera talsvert af síld þarna og vonandi á vertíðin eftir að ganga vel,“ segir Hálfdan.

Beitir NK er á makrílveiðum í Smugunni en þar hafa íslensku skipin verið að leita og veður hefur verið óhagstætt.

Sneisafullar Eyjar

Bergey VE að toga á Víkinni. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBergey VE að toga á Víkinni. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBáðar Eyjarnar, Bergey VE og Vestmannaey VE, komu sneisafullar til löndunar í heimahöfn í gærmorgun. Aflinn var mest ýsa. Heimasíðan sló á þráðinn til Birgis Þórs Sverrissonar skipstjóra á Vestmannaey og spurði hvar skipin hefðu verið að fiska. „Við og Bergey fylgdumst að að mestu leyti í þessum túr eins og reyndar oft áður. Við byrjuðum á Víkinni og tókum þar eitt hol en þar var lítið að hafa. Síðan tókum við hol út af Ingólfshöfða og þar var sama sagan. Þá var haldið alla leið austur á Breiðdalsgrunn. Bergey fór beint þangað en við tókum eitt ufsahol á Lúlla og Lovísu á leiðinni. Það var rólegt fiskiríið á Breiðdalsgrunni og þá var haldið til baka. Við reyndum fyrir okkur í Sláturhúsinu út af Mýrum og lentum þar í hörku ýsuveiði og fylltum skipin. Aflinn í túrnum var því mest ýsa og smotterí af þorski og ufsa,“ segir Birgir Þór.
 
Bæði Bergey og Vestmannaey munu halda til veiða á ný í dag og þá verður stefnan tekin austur fyrir land. Að sögn Birgis Þórs er gert ráð fyrir að fiskað verði fyrir austan á næstunni og þá verði væntanlega landað í Neskaupstað eða á Seyðisfirði.

Botnfiskveiðar Síldarvinnsluskipa á nýliðnu fiskveiðiári

Blængur NK með gott hol. Ljósm. Hreinn SigurðssonBlængur NK með gott hol.
Ljósm. Hreinn Sigurðsson
Afli togara Síldarvinnslunnar og dótturfélagsins Bergs-Hugins á fiskveiðiárinu sem var að líða var samtals 20.800 tonn . Afli hvers skips var sem hér segir (miðað er við slægðan afla):

                         Gullver NS                     5.300 tonn
                         Bergey VE                     2.900 tonn
                         Vestmannaey VE          3.300 tonn
                         Smáey VE                     2.000 tonn (einungis gerð út hluta úr árinu)
                         Blængur NK                  7.300 tonn

Segja má að fiskveiðiárið hafi verið viðburðaríkt þar sem tvö ný skip, Vestmannaey VE og Bergey VE, hófu veiðar á árinu. Ný Vestmannaey hóf veiðar í byrjun októbermánaðar og ný Bergey VE í janúar. Um tíma var Smáey VE einnig gerð út en í febrúarmánuði var skipið leigt Samherja hf. og það síðan selt þorbirni hf. í Grindavík í maímánuði. Útgerð nýju skipanna hefur gengið afar vel frá upphafi og lönduðu þau 6.200 tonnum samtals á sínu fyrsta fiskveiðiári.

Veðurfarslega var síðasta haust erfitt og enn versnaði tíðarfarið þegar kom fram á veturinn. Til að mynda lönduðu Vestmannaeyjaskipin engum afla fyrr en eftir miðjan janúar í kjölfar jólastopps vegna stöðugrar brælu við suðurströnd landsins.

Eftir hinn erfiða vetur tók við mikið fall á eftirspurn eftir ferskum fiski vegna óvissu og aðgerða sem tengdust covid-19 faraldrinum. Hægt var á sókn ísfisktogara vegna þessa frá marsmánuði og fram í maí og var í reynd enginn fiskur veiddur til fersks útflutnings nema hann væri fyrirfram seldur.

Hjá öllum skipunum var stöðugur eltingaleikur við ufsann. Gekk erfiðlega að finna hann og kemur það til dæmis fram í aflatölum hjá Gullver NS en skipið fiskaði rúmlega helmingi minna af ufsa á nýliðnu kvótaári en á árinu á undan eða einungis 540 tonn í stað 1.205 tonna. Þrátt fyrir þetta gekk útgerð Gullvers vel á árinu og var heildarafli skipsins 5.300 tonn eins og að framan greinir þó um minni sókn hafi verið að ræða.

Trollið tekið hjá Vestmannaey VE. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonTrollið tekið hjá Vestmannaey VE.
Ljósm. Egill Guðni Guðnason
Afar vel gekk að veiða djúpkarfa og grálúðu hjá frystitogaranum Blængi NK en hápunktur ársins hjá skipinu var þó Barentshafstúrinn sem farið var í í júnímánuði sl. Um var að ræða mettúr hjá Blængi en aflinn var 1430 tonn upp úr sjó að verðmæti 512 milljónir króna fob. 

Á nýliðnu kvótaári leigði Síldarvinnslan til sín aflaheimildir sem námu 1.205 tonnum og náðist allur kvóti að undanskildum örfáum kílóum af flatfiskum.

 

 

 

 

Nýr Börkur sjósettur

Vinna við sjósetningu nýs Barkar í Gdynia í Póllandi hófst í morgunVinna við sjósetningu nýs Barkar í Gdynia í Póllandi hófst í morgunÍ morgun hófst vinna við að sjósetja nýjan Börk en hann er í smíðum hjá danska fyrirtækinu Karstensens Skibsværft AS. Skrokkur skipsins er smíðaður í skipasmíðastöð Karstensens í Gdynia í Póllandi og þar fer sjósetningin fram. Í október nk. verður síðan skrokkurinn dreginn til Skagen í Danmörku og þar verður skipið fullklárað. Skipið verður sjósett án yfirbyggingar en hún verður sett á eftir sjósetninguna.

Sjósetningin fer þannig fram að hjólabúnaður er settur undir skipsskrokkinn og honum ekið út á stóran flotpramma sem er síðan dreginn frá bryggju og út á nægjanlegt dýpi. Sjó er síðan dælt í tanka prammans og honum sökkt nægilega mikið til að skipið fljóti. Það er síðan dregið að bryggju við skipsamíðastöðina þar sem haldið verður áfram að vinna í því.

Hinn nýi Börkur verður hið glæsilegasta skip í alla staði en það er byggt til nóta – og flotvörpuveiða. Lengd skipsins er 88 metrar, breiddin 16,6 metrar og dýptin 9,6 metrar. Stærð skipsins er 4.100 brúttótonn. Í skipinu verða tvær aðalvélar 3.600 kw hvor og ásrafall skipsins verður 3.500 kw. Þá verður í skipinu 820 kw hjálparvél. Alls verða 13 kælitankar í skipinu og til að kæla aflann verða tvö kerfi, hvort um sig 1.500 kw. Samtals verða tankarnir 3.420 rúmmetrar. Vistarverur verða fyrir 16 manns.

Gert er ráð fyrir að smíði skipsins verði að fullu lokið á komandi vori.

Beitir með 1800 tonn

Beitir NK kominn til hafnar með 1.800 tonn af makríl. Ljósm. William Geir ÞorsteinssonBeitir NK kominn til hafnar með 1.800 tonn af makríl.
Ljósm. William Geir Þorsteinsson
Beitir NK kom með 1.800 tonn af makríl til Neskaupstaðar í gær. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra og spurði fyrst í hve mörgum holum aflinn hefði fengist. „Við fengum þennan afla í sex holum. Minnsta holið gaf um 150 tonn en það stærsta tæp 500 tonn. Það var einfaldlega gífurlega góð veiði. Síðasta daginn tókum við þrjú hol og þau gáfu 480, 450 og 400 tonn. Öll þessi hol voru stutt, einungis dregið í tvo til tvo og hálfan tíma. Það kvartar enginn þegar veiðin er svona. Núna er hins vegar komin bræla á miðunum í Smugunni og útlit fyrir brælu alveg fram á fimmtudag. Það er víst komið haust með öllu sem því fylgir. Núna er maður bara farinn að hugsa um síld. Mér líst afar vel á síldarvertíð og það virðist vera nóg af henni. Færeyska skipið Finnur fríði fékk til dæmis 1.600 tonn af 460 gr síld við Kolbeinsey á dögunum. Þetta var semsagt sannkölluð stórsíld og svona fréttir fá mann til að hyggja að síldinni. Um makrílvertíðina verður að segja að hún hafi gengið afar vel þrátt fyrir að langt hafi verið að sækja makrílinn. Samstarf Síldarvinnsluskipanna um veiðarnar hefur skipt miklu máli og skilað ótvíræðum árangri. Ég held að allir séu afar ánægðir með samstarfið og það sé í reynd forsendan fyrir því hve vertíðin heppnaðist vel,“ segir Tómas.

 

Líður að lokum makrílvertíðar

Börkur NK að dæla afla yfir í Beiti NK í Smugunni. Síldarvinnsluskipin hafa haft samvinnu um veiðar á makrílvertíðinni. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBörkur NK að dæla afla yfir í Beiti NK í Smugunni. Síldarvinnsluskipin hafa haft samvinnu um veiðar á makrílvertíðinni. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonNú líður að lokum makrílvertíðar hjá Síldarvinnsluskipunum og Bjarni Ólafsson AK er reyndar þegar hættur veiðum. Bjarni Ólafsson lauk við að landa 850 tonnum í fiskiðjuverið í Neskaupstað í nótt og þá hófst löndun úr Berki NK sem kominn var með 1.450 tonn. Heimasíðan sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki og spurði hvernig gengið hefði að fá í skipið. „Það gekk bara vel. Við fengum aflann í fimm holum og síðasta holið var 420 tonn. Þetta er fínasti fiskur, átuminni og sterkari en fyrr á vertíðinni. Í fyrstu holunum fengum við 460-480 gramma fisk en í síðasta holinu var fiskurinn um 400 grömm. Í þessum túr komum við einungis með eigin afla en Síldarvinnsluskipin hafa haft samvinnu á vertíðinni og dælt afla á milli eftir því sem hefur þótt henta. Nú er að koma haustbragur á veðráttuna í Smugunni, lægðirnar koma í röðum. Það er farið að hylla undir lok vertíðarinnar en við förum allavega einn túr enn. Það ætti að vera búið að landa úr skipinu annað kvöld og þá verður strax haldið á miðin. Þegar makrílvertíð lýkur verður farið að hyggja að síldarvertíð og hún lítur vel út. Það er fullt af síld hérna austur af landinu og hún gengur jafnvel inn á firði. Kannski dólar hún sér hérna og safnast svo saman og hefur vetursetu á Rauða torginu eins og í gamla daga. Hver veit?“, segir Hjörvar.
 
Samkvæmt fréttum var góð makrílveiði í Smugunni í gær, en Beitir NK er eina Síldarvinnsluskipið á miðunum núna.

Ráðið í stjórnendastöður

Snemma í sumar auglýsti Síldarvinnslan tvær stöður  lausar til umsóknar. Annars vegar var um að ræða stöðu rekstrarstjóra útgerðar og hins vegar stöðu rekstrarstjóra uppsjávarfrystingar.  Fjölmargar umsóknir bárust um bæði störfin og hefur nú verið valið úr þeim. Vill fyrirtækið koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem sýndu störfunum áhuga og skiluðu inn umsóknum.

Grétar Örn SigfinnssonGrétar Örn SigfinnssonÍ stöðu rekstrarstjóra útgerðar var ráðinn Grétar Örn Sigfinnsson. Grétar er skipa- og véltæknifræðingur að mennt en hann hefur síðustu árin stýrt viðhaldsmálum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Hann hefur mikla reynslu af viðhaldsmálum í sjávarútvegi og hefur einnig starfað á þeim vettvangi hjá Alcoa Fjarðaáli, Mannviti, Bechtel og fleiri fyrirtækjum. Grétar mun taka við starfi rekstrarstjóra útgerðar af Karli Jóhanni Birgissyni sem lætur af störfum á haustmánuðum eftir langt og afar farsælt starf hjá fyrirtækinu.

 

 

Ívar Dan ArnarssonÍvar Dan ArnarsonTil að stýra viðhaldsmálum í fiskiðjuverinu hefur verið ráðinn Ívar Dan Arnarson. Ívar er vélstjóri og rafvirki að mennt og hefur hann starfað að viðhaldsmálum í fiskiðjuverinu sl. þrjú ár. Áður gegndi Ívar starfi vélstjóra á Bjarti NK og Barða NK og starfaði sem vélvirki hjá Launafli á Reyðarfirði sem annast viðhaldsverkefni í álveri Alcoa Fjarðaáls.

 

 

Geir Sigurpáll HlöðverssonGeir Sigurpáll HlöðverssonÍ stöðu rekstrarstjóra uppsjávarfrystingar var ráðinn Geir Sigurpáll Hlöðversson. Geir Sigurpáll er verkfræðingur að mennt og hefur mikla reynslu af iðnaði, en hann starfaði hjá Alcoa-Fjarðaáli frá upphafi og fram á síðasta ár. Síðustu fimm árin hjá Alcoa Fjarðaáli gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra málmsteypu, en var áður framkvæmdastjóri umhverfis-, heilsu- og öryggismála. Mun reynsla Geir Sigurpáls nýtast afar vel við rekstur fiskiðjuversins sem verður sífellt tæknivæddara og þar sem ávallt eru gerðar meiri kröfur um öryggi starfsfólks og gæði afurða. Staða rekstrarstjóra uppsjávarfrystingar er ný af nálinni og mun sá sem henni gegnir sinna fjölþættum verkefnum sem tengjast áframhaldandi framþróun vinnslunnar.

 

 

Hafþór EiríkssonHafþór EiríkssonÞá hefur Hafþór Eiríksson verið ráðinn í stöðu rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja. Hafþór er vél- og orkutæknifræðingur að mennt og hefur gegnt starfi verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað frá árinu 2016. Áður starfaði Hafþór sem viðhaldssérfræðingur hjá Alcoa Fjarðaáli. Hafþór tekur við starfinu af Gunnari Sverrissyni sem hefur sinnt  því frá árinu 2012 ásamt því að gegna starfi verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði. Gunnar lét af störfum 1. júlí sl. eftir að hafa starfað við fiskimjölsiðnaðinn í 47 ár. Gunnar hóf störf hjá Síldarverksmiðjum ríkisins árið 1973 og starfaði síðan hjá SR-mjöli. Hann hóf störf á Seyðisfirði árið 1982. Fáir eða engir hafa jafn mikla reynslu af störfum við fiskimjölsiðnaðinn og Gunnar og hefur Síldarvinnslan verið afar heppin að fá að njóta starfskrafta hans. Við starfi Gunnars sem verksmiðjustjóri á Seyðisfirði tekur Eggert Ólafur Einarsson. Eggert er meistari í járniðnum og gegndi áður starfi verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðjunnar í Helguvík frá árinu 1998.
Eggert Ólafur EinarssonEggert Ólafur Einarsson

 

 

 

 

 

 

Fínustu kvótaáramót

Landað úr Vestmannaey VE á síðasta degi nýliðins kvótaárs. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Vestmannaey VE á síðasta degi nýliðins kvótaárs. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu báðir í heimahöfn í Vestmannaeyjum sl. mánudag, á síðasta degi nýliðins kvótaárs. Komu skipin að landi eftir stutta veiðiferð og var afli Vestmannaeyjar 40 tonn og afli Bergeyjar 37 tonn.

Skipin héldu til veiða á ný á mánudagskvöld og lönduðu bæði í morgun eftir að hafa verið tvo daga að veiðum. Vestmannaey reyndi við karfa við Eyjar og landaði 33 tonnum en Bergey fiskaði þorsk og ufsa á Víkinni og landaði 50 tonnum. Skipin eru gerð út af Bergi-Hugin, dótturfélagi Síldarvinnslunnar og segir Arnar Richardsson rekstrarstjóri að kvótaáramótin hafi verið hin fínustu og nýja kvótaárið leggist vel í sig þó það fari hægt af stað. „Það er alltaf hugur í mönnum þegar nýtt kvótaár gengur í garð og ég er viss um að það á eftir að verða farsælt,“ segir Arnar.

 

4900 tonnum af mjöli skipað út á fimm dögum

Tvö mjölskipanna í Norðfjarðarhöfn sl. laugardag. Ljósm. Jón Már JónssonTvö mjölskipanna í Norðfjarðarhöfn sl. laugardag.
Ljósm. Jón Már Jónsson

Frá föstudegi til þriðjudags var skipað út rúmum 4900 tonnum af fiskimjöli frá fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Alls lestuðu þrjú skip mjölið þessa daga. Fyrsta skipið, Hav Scandic, lestaði 750 tonn í Neskaupstað og 520 tonn á Seyðisfirði. Annað skipið, Saxum, lestaði 2450  tonn í Neskaupstað og hið þriðja, Havfragt, lestaði rúm 1200 tonn á Seyðisfirði.

Að sögn Hafþórs Eiríkssonar, verksmiðjustjóra í Neskaupstað, er það ekki algengt að svona miklu magni af mjöli sé skipað út á jafn skömmum tíma, en verðmæti mjölsins sem þessi þrjú skip sóttu er um 1,3 milljarður króna.

Sneisafullar lestar. Ljósm. Ómar SverrissonSneisafullar lestar. Ljósm. Ómar Sverrisson

Starfsmannahátíð frestað

Starfsmannahátíð frestaðÍ byrjun árs var tilkynnt að næsta starfsmannahátíð Síldarvinnslunnar yrði haldin í Gdansk í Póllandi 14. nóvember nk. Margt hefur breyst frá því að þetta var tilkynnt og hefur covid 19 faraldurinn raskað fjölmörgum áformum og þá ekki síst haft áhrif á ferðalög fólks. Nú hefur verið ákveðið að fresta starfsmannahátíðinni um eitt ár, en vonandi verður þá öll röskun sem covid 19 hefur valdið liðin hjá. Því er gert ráð fyrir að starfsmannahátíðin fari fram í nóvembermánuði 2021.
 
Nánari upplýsingar um væntanlega starfsmannahátíð munu birtast hér á heimasíðunni á nýju ári.

Gullver klárar kvótaárið

Gullver NS siglir inn Seyðisfjörð í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS siglir inn Seyðisfjörð í gær.
Ljósm. Ómar Bogason
Í gærmorgun, á „gamlársdegi“ kvótaársins, kom ísfisktogarinn Gullver NS til heimahafnar á Seyðisfirði með góðan afla. Heimasíðan ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra í gær og spurði frétta. „Þessi síðasti túr kvótaársins gekk bara þokkalega vel. Aflinn er rúm 90 tonn og er uppistaðan þorskur og ufsi. Við vorum núna að sækja restar af kvótanum og við getum ekki annað en verið sáttir við túrinn og reyndar allt kvótaárið. Við byrjuðum þennan túr út á Glettinganesflaki og fengum ágætan þorskafla þar. Síðan fórum við í Berufjarðarálinn og á Lónsbugtina í leit að ufsa. Það var nú ekki mikið af ufsa þarna og því var þetta hálfgert nudd. Nú verður bara landað úr skipinu og síðan farið strax út á ný. Það er ávallt skemmtilegra að halda til veiða í upphafi kvótaárs því þá eru menn ekki eins bundnir af að veiða ákveðnar tegundir eins og í lok kvótaárs. Þetta lítur bara allt ágætlega út,“ segir Þórhallur.

Loðnunnar er sárt saknað

Tvö síðustu ár hafa verið loðnuleysisár og loðnunnar er sárt saknað. Ný aflaregla í loðnu hefur verið í gildi í fimm ár og eru menn fjarri því að vera sáttir við hana. Reglan hefur meðal annars skilað tveimur tvö hundruð þúsund tonna vertíðum sem teljast smáar í sniðum og tveimur loðnuleysisárum eins og fyrr greinir. Nú er vinna í gangi við endurskoðun aflareglunnar og bíða menn spenntir eftir niðurstöðu þeirrar vinnu. En hver er saga loðnunnar og hvenær hóf hún að skipta máli í íslenskum sjávarútvegi ?
 
Sagan segir að fyrsti maðurinn til að hagnýta loðnuna hafi verið Jakob Jakobsson skipstjóri og útgerðarmaður frá Strönd á Norðfirði. Jakob var einn þeirra Austfirðinga sem sóttu vetrarvertíðir til Hornafjarðar og mun hann hafa verið þar með bát sinn, Auðbjörgu, á 37 vertíðum á árunum 1917 til 1954. Mun Jakob hafa byrjað að nota loðnu til beitu fyrir árið 1920. Fyrst mun loðnan hafa verið tínd af fjörum en þegar útgerðarmenn gerðu sér orðið grein fyrir gildi hennar komu þeir sér upp litlum fyrirdráttarnótum sem hún var veidd í við háflæðið. Þegar Austfirðingar hófu að stunda veiðar á vetrarvertíðum frá Sandgerði hófu þeir einnig þar að nýta loðnu sem beitu. Mun Ölver Guðmundsson, útgerðarmaður í Neskaupstað, fyrstur hafa veitt þar loðnu um 1937. Til að byrja með var loðnan veidd í nokkurs konar háf sem dreginn var í sjónum. Á vertíðinni 1938 tók Ölver vélbátinn Frey NK á leigu á meðan loðnan gekk fyrir Reykjanes í þeim tilgangi að láta bátinn veiða loðnuna í litla herpinót. Gengu veiðarnar vel og var loðnan meðal annars seld ýmsum útgerðarmönnum sem nýttu hana sem beitu. Næstu árin voru þessar veiðar við Reykjanes endurteknar af Norðfjarðarbátum. 
 
Loðnuveiðar eins og við þekkjum þær, það eru hringnótaveiðar í stórum stíl, eiga sér ekki langa sögu á Íslandi. Ef undan eru skildar tilraunaveiðar, sem efnt var til seint á fimmta áratug tuttugustu aldarinnar, má segja að loðnuveiðar með þessum hætti hafi fyrst hafist veturinn 1963. Veiðarnar fóru hægt af stað og fyrstu árin var einungis veitt úti fyrir suður- og vesturströnd landsins fyrir og um hrygningartímann.
 
Fyrsti Norðfjarðarbáturinn hóf loðnuveiðar með hringnót árið 1964. Það var Gullfaxi, 180 tonna bátur. Nótin sem notuð var við veiðarnar var 117 faðma löng og 20 faðma djúp. Gengu veiðarnar vel en helsta vandamálið var að fá einhverja fiskimjölsverksmiðju til að taka við aflanum.
 
Árið 1966 hófu Síldarvinnsluskipin, Barði og Bjartur, loðnuveiðar og næstu árin fjölgaði Norðfjarðarskipum sem lögðu stund á veiðarnar. Veturinn 1969 héldu til dæmis fimm skip frá Neskaupstað til loðnuveiða.
 
Stóri-Börkur kemur til hafnar í Neskaupstað með fullfermi af loðnu veturinn 1989. Ljósm. Haraldur BjarnasonStóri-Börkur kemur til hafnar í Neskaupstað með fullfermi af loðnu veturinn 1989. Ljósm. Haraldur BjarnasonLoðna barst ekki til vinnslu í Neskaupstað fyrr en veturinn 1968. Hinn 21. febrúar það ár kom Börkur með fullfermi til heimahafnar og þóttu það tímamót. Á þessari loðnuvertíð bárust átta þúsund lestir af loðnu til verksmiðju Síldarvinnslunnar og kom öll loðnan af miðunum sunnan við landið.
 
Eftir að móttaka loðnu hófst á Austfjörðum hófu Austfirðingar að velta því fyrir sér hvort ekki væri unnt að auka hlutdeild austfirsku fiskimjölsverksmiðjanna í landaðri loðnu. Töldu menn mögulegt að hefja loðnuveiðar fyrr og veiða hana á meðan hún gengi suður með Austfjörðum. Þá vaknaði sú spurning hvort loðnan gæti, allavega að hluta til, komið í stað síldarinnar sem Austfirðingar höfðu treyst á en hafði nú brugðist þeim.
 
Fyrst var reynt að stunda loðnuveiðar úti fyrir Austfjörðum í ársbyrjun 1970 en vegna óhagstæðs veðurs og þess hve loðnan stóð djúpt varð árangur slakur. Segja má að fyrst hafi náðst góður árangur í loðnuveiðum austan og norðaustan af landinu árið 1972 og við það jókst loðnuafli mikið og Austfirðir urðu miðstöð veiðanna fyrri hluta vertíðarinnar. Til þess að tryggja vinnslustöðvum Síldarvinnslunnar hráefni þegar loðnuveiðar fóru fram á fjarlægum miðum festi fyrirtækið kaup á stóru og burðarmiklu skipi sem hentaði til að sigla með stóra farma langan veg. Þetta skip var Börkur, sem Norðfirðingar nefndu gjarnan Stóra-Börk. Fyrir utan loðnuveiðarnar var Stóra-Berki ætlað að veiða kolmunna. 
 
Vinnsla á loðnuhrognum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar veturinn 2016. Ljósm. Hákon ErnusonVinnsla á loðnuhrognum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar veturinn 2016. Ljósm. Hákon ErnusonSegja má að framan af hafi öll loðnan sem veiddist farið til vinnslu á mjöli og lýsi en það breyttist með tímanum. Framleiðsla á frystri loðnu til útflutnings hófst til dæmis hjá Síldarvinnslunni árið 1971 og framleiðsla á frystum loðnuhrognum hófst árið 1978. Með árunum jókst sífellt áhersla á menneldisvinnsluna og jafnframt var fjárfest í skipum sem gátu komið með gæðahráefni að landi.
 
Í upphafi voru loðnuveiðarnar frjálsar en kvóti var fyrst settur á þær árið 1980. Veiðarnar hafa verið mjög breytilegar frá ári til árs og reyndar hafa veiðarnar verið stöðvaðar oftar en einu sinni vegna ótta um að loðnustofninn væri í hættu. Í mörg ár hefur verið heimilað að veiða um og yfir eina milljón tonna en síðan hafa komið ár þar sem veiðar hafa verið sáralitlar eða nánast engar. Loðnuveiðarnar hafa skipt mörg sjávarútvegsfyrirtæki miklu máli og má nefna að á seinni árum var litið svo á að um fjórðungur af veltu Síldarvinnslunnar tengdist loðnuveiði og –vinnslu. Til að sjá hinar miklu sveiflur í loðnuveiðunum hin síðari ár fylgir hér mynd sem sýnir móttöku á loðnu hjá Síldarvinnslunni frá árinu 2003.
 
Eftir tvö loðnuleysisár í röð er eðlilegt að spurningar vakni. Er loðnustofninn orðinn svona veikur? Hefur loðnan breytt göngumynstri sínu ? Mun endurskoðun nýju aflareglunnar breyta einhverju ?  Hefðbundinn haustleiðangur til mælinga á stærð loðnustofnsins er framundan og eru bundnar vonir við að hann skili jákvæðri niðurstöðu. Menn halda fast í vonina.
Á línuritinu sést hve vinnsla loðnu hefur verið breytileg hjá Síldarvinnslunni frá ári til árs. Engin loðna hefur verið veidd tvö síðustu árÁ línuritinu sést hve vinnsla loðnu hefur verið breytileg hjá Síldarvinnslunni frá ári til árs. Engin loðna hefur verið veidd tvö síðustu ár

Undirflokkar