Skipin á sjó eftir hátíðar

Polar Amaroq í Norðfjarðarhöfn. Skipið heldur væntanlega til loðnuleitar í kvöld. Ljósm. Hákon ErnusonPolar Amaroq í Norðfjarðarhöfn. Skipið heldur væntanlega til loðnuleitar í kvöld. Ljósm. Hákon ErnusonSkip Síldarvinnslunnar og tengdra fyrirtækja hafa nú öll haldið til veiða nema frystitogarinn Blængur NK sem er í slipp á Akureyri og Polar Amaroq sem taka mun þátt í loðnuleit. Kolmunnaskipin Beitir NK og Börkur NK létu úr höfn aðfaranótt sunnudags og Bjarni Ólafsson AK hélt fljótlega í kjölfar þeirra. Börkur og Beitir höfðu kastað í morgun á kolmunnamiðunum suðaustur af Færeyjum en færeysk skip hafa verið þar að veiðum að undanförnu. 
 
Ísfisktogararnir héldu til veiða um helgina. Bergey VE sigldi út úr Vestmannaeyjahöfn á laugardagsmorgun og Vestmannaey VE í gær. Gullver NS hélt frá Seyðisfirði á laugardag.
 
Grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq heldur væntanlega til loðnuleitar í kvöld. Mun Polar Amaroq leita að loðnu ásamt hafrannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni og veiðiskipunum Ásgrími Halldórssyni SF og Aðalsteini Jónssyni SU.

Áramót

Áramót

Áramótakveðja til starfsmanna og viðskiptavina

Gunnþór IngvasonGunnþór IngvasonUm áramót notum við gjarnan tækifærið til að líta yfir liðið ár og huga að tækifærum nýs árs.  Það er eflaust mörgum létt við þá tilhugsun að þetta blessaða ár sé senn á enda. Við höfum þurft að lifa við skerðingar á lifnaðarháttum sem að eiga sér vart fordæmi. Það er samt sem áður tilefni til bjartsýni og virðumst við vera farin að sjá ljósið við enda ganganna í baráttunni við þann skæða vágest sem covid 19 er.
 
Faraldurinn hefur haft áhrif á starfsemi og rekstur Síldarvinnslunnar líkt og flestra annarra fyrirtækja. Við störfum á alþjóðlegum mörkuðum og seljum afurðir okkar til fjölmargra landa. Við höfum þurft að aðlaga framleiðslu og sölu á afurðum í takt við breytingar á eftirspurn á mörkuðum.  Sumir markaðir nánast hurfu á meðan aðrir höktu, höggið er mikið á mörkuðum  fyrir fisk sem fer á veitinga- og gististaði í helstu ferðaþjónustulöndunum.
 
Starfsmenn Síldarvinnslunnar hafa mætt þessum áskorunum með þrautseigju. Þeir hafa allir  lagst á eitt og samstaðan hefur verið aðdáunarverð. Starfsmenn hafa þurft að færa miklar fórnir þegar þeir hafa sinnt ýmsum tilmælum. Skerða hefur þurft samgang starfsmanna og vina.  Sjómenn hafa tekið á sig fórnir í lengri útiverum. Starfsmenn hafa fórnað ferðalögum.  Það hafa allir lagt sitt af mörkum.
 
Fyrirhuguð árshátíðarferð til Póllands á haustmánuðum, sem við biðum öll eftir, var blásin af, við munum finna tíma síðar til að gleðjast og fagna saman um leið og tækifæri gefst til.  Við skulum gleðjast þeim mun meira þegar þar að kemur.
 
Árið byrjaði með loðnubresti annað árið í röð sem voru vonbrigði en við bindum miklar vonir við komandi vertíð, enda flest sem bendir til að framundan sé góð loðnuvertíð og við trúum því að markaðirnir bíði eftir afurðunum þannig að það er full ástæða til að vera bjartsýn.  
 
Við héldum áfram að efla og styrkja innviði félagsins með frekari fjárfestingum. Það sem  stendur hæst upp úr í þeim efnum eru kaup dótturfélags okkar Bergs- Hugins ehf á öllu hlutafé í Bergur ehf. Renna þau  kaup  enn sterkari stoðum undir starfsemi okkar  í Vestmannaeyjum. 
 
Þrátt fyrir ýmsar mótbárur þá berum við höfuðið hátt, reksturinn gekk vel þegar leið á árið.  Veiðar og vinnsla uppsjávarfiska gekk vel, markaðir þar voru góðir.  Bolfiskmegin voru meiri brekkur, við þurftum að  draga úr veiðum og vinnslu, frosnar afurðir hafa hlaðist upp en þrátt fyrir það treystum við á bjartari tíma.  
 
Á nýju ári fáum við nýjan Börk sem mun bætist í skipaflota félagsins á fyrri hluta ársins og verður hann í hópi fullkomnustu uppsjávarskipa í heiminum og mun styðja enn við markmið okkar um hagkvæmari skip, minni útblástur og betra hráefni.
 
Á nýju ári eru alþingiskosningar og í aðdraganda þeirra bera málefni sjávarútvegs iðulega á góma. Þjóðhagslegt mikilvægi sjávarútvegs hefur sannað sig á árinu og enn og aftur kemur í ljós að öflugur sjávarútvegur er þjóðhagslega mikilvægur.  Við eigum að sameinast um að tryggja að þessi þjóðarauðlind okkar geti verið undirstaða lífskjara í landinu.  Þrátt fyrir að oft og iðulega sé tekist á um málefni greinarinnar, hef ég fulla trú á því að á komandi ári munum við fá uppbyggilega og málefnalega umræðu um málefni sjávarútvegsins.    Pólitíkusum allra flokka er velkomið að heimsækja Síldarvinnsluna og kynna sér starfsemi hennar á komandi ári.
 
Heimabærinn minn lenti í náttúruhamförum rétt fyrir jól, þar sem fólk þurfti að yfirgefa heimili. Guðs blessun var að engin slys urðu á fólki. Ég óska þess að á nýju ári komi fram trúverðugar áætlanir um varnir fyrir Seyðfirðinga þannig að þeir geti fundið ró í sínum fallega heimabæ, sem ég tel að sé fegursti bær landsins.
 
Ég tel að leiðin fram á við fyrir okkur öll snúist um samstöðu, samheldni og virðingu fyrir hvert öðru.  Því miður þá virðist hið neikvæða, niðurrif og svartýni eiga meira erindi í opinbera umræðu en látum slíkt ekki leiða okkur áfram á nýju ári.
 
Kæru samstarfsmenn, ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegs nýs árs og ég vona að við getum fyrr en síðar átt fleiri samverustundir. 
 
Ég hef oft sagt að árangur Síldarvinnslunnar megi þakka framúrskarandi starfsfólki og öflugum samfélögum sem fyrirtækið starfar í. Það hefur sannnað sig enn og aftur á árinu 2020. Nú tökum við áramótin með okkar nánustu og njótum.
 
Mætum árinu 2021 samstillt og ákveðin í aðlaga okkur að þeim áskorunum sem okkur bíða, snúum bökum saman, gerum okkar besta og bara aðeins betur ef það er það sem þarf.
 
Með þökkum fyrir árið sem er að líða og óskum um gleðilegt ár
 
Sjáumst kát á nýju ári kæru vinir. 
 
Kveðja,
Gunnþór Ingvason
 

Fyrsti túr í skipstjórastólnum

Hjálmar Ólafur BjarnasonHjálmar Ólafur BjarnasonÞegar stóra aurskriðan féll á Seyðisfirði föstudaginn 18. desember sl. voru margir í áhöfn Seyðisfjarðatogarans Gullvers áhyggjufullir en skipið var þá að veiðum á sínum hefðbundnu miðum austur af landinu. Að því kom að skipið var kallað inn og kom það að landi aðfaranótt laugardagsins. Allir Seyðfirðingar í áhöfninni sem þess óskuðu fengu frí en skipið þess í stað mannað Norðfirðingum og það tók nánast örskotsstund að manna skipið. Ætlunin var að fara í stuttan karfatúr. Skipstjóri í þessari veiðiferð var Hjálmar Ólafur Bjarnason og var þetta í fyrsta sinn sem hann settist í skipstjórastól en hann hefur verið stýrimaður á Gullver frá árinu 2017. Hjálmar Ólafur hóf sjómennsku á Barða NK einungis 16 ára að aldri árið 1999 og settist í Stýrimannaskólann árið 2010. Hann lauk síðan stýrimannaprófi árið 2014. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf um þessa fyrstu veiðiferð hans í skipstjórastólnum. „Þetta bar brátt að en hamfarirnar á Seyðisfirði gerðu það að verkum að ég, Norðfirðingurinn, færi með skipið. Markmiðið með veiðiferðinni var að veiða karfa og okkur tókst með herkjum að ná þeim afla sem ætlast var til. Veiðiferðin stóð einungis í um tvo sólarhringa og við reyndum fyrir okkur á hefðbundnum slóðum: Lónsdýpinu, Hornafjarðardýpinu og einnig út á Þórsbanka. Staðreyndin er sú að það voru ekki miklar væntingar um góðan afla. Auðvitað voru það tímamót að fara í sinn fyrsta túr sem skipstjóri og þetta gekk allt saman stórslysalaust,“ segir Hjálmar Ólafur.

Einungis eitt skip á sjó

Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonEinungis eitt skip úr flota Síldarvinnslunnar og tengdra fyrirtækja er á sjó nú á milli jóla og nýárs. Það er Vestmannaey VE sem hélt til veiða í gærkvöldi. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra í morgun og spurði fyrst út í veðrið. „Það er búinn að vera bölvaður norðan garri. Við erum í Háfadýpinu að veiðum núna og gerum ráð fyrir að fara í land á miðvikudagskvöld. Þetta verða semsagt þrír sólarhringar að veiðum. Við munum svo fagna nýju ári og halda væntanlega á ný til veiða 2. janúar,“ segir Birgir Þór.

 

 

 

Jólakveðja

Jólakveðja

Skötuveislan sem engan svíkur

Skötumeistararnir, Ómar Sverrisson og Hafþór Eiríksson, klárir í veisluna og skatan tilbúin að fara í pottanaSkötumeistararnir, Ómar Sverrisson og Hafþór Eiríksson, klárir í veisluna og skatan tilbúin að fara í pottanaÍ tuttugu ár hefur verið boðið til skötuveislu á Þorláksmessu í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Það eru starfsmenn verksmiðjunnar sem sjá um veisluna og er þá vísindalegri nákvæmni beitt. Líklega er þetta eina skötuveisla landsins þar sem mæling fer fram á styrk skötunnar. Ammoníak er mælt og síðan reiknað út svonefnt TVN-gildi. Þegar TVN-gildi hráefnis í verksmiðjunni fer yfir 100 heyrist í öllum viðvörunarbjöllum en öðru máli gegnir um skötuna. Í ár mældist TVN-gildi skötunnar 627 en það er mjög hóflegur styrkur því hæst hefur gildið hjá þeim í fiskimjölsverksmiðjunni farið í 974. Skatan í ár verður því í mildara lagi, ljúf og góð.
 
Þeir starfsmenn verksmiðjunnar sem sjá um skötuveisluna í ár eru Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri og Ómar Sverrisson. Þeir eru nýliðar á þessu sviði en ganga bjartsýnir til verks. Miðað við veislurnar í verksmiðjunni á undanförnum árum er eitt alveg víst og það er að skötuveislan þar svíkur engan.
 
Tekið skal fram að hörðustu sóttvarnarreglum verður fylgt í skötuveislunni þetta árið þannig að covid mun koma í veg fyrir þá stemmingu sem áður hefur ríkt í veislunum.

Seyðisfjörður

Seyðisfjörður á fögrum sumardegi, en myndin sýnir einmitt helsta hamfarasvæðið. Unga stúlkan á myndinni bjó í Framhúsinu sem gjöreyðilagðist í stóra aurflóðinu sem féll sl. föstudag. Ljósm. Ómar BogasonSeyðisfjörður á fögrum sumardegi, en myndin sýnir einmitt helsta hamfarasvæðið. Unga stúlkan á myndinni bjó í Framhúsinu sem gjöreyðilagðist í stóra aurflóðinu sem féll sl. föstudag. Ljósm. Ómar BogasonTjónið á Seyðisfirði er mikið. Fólk hefur misst eigur sínar, íbúar hafa orðið fyrir áfalli þar sem náttúran minnti á sig. Skarð hefur verið höggvið í bæinn, sem er á meðal merkustu þéttbýliskjarna á landinu og byggður að drjúgum hluta upp af erlendum athafnamönnum á seinni hluta 19. aldar. Mikil saga um djörfung og hug fyrri tíma hefur farið forgörðum. Sögufræg hús hafa horfið og sum þeirra hafa staðið í yfir 130 ár. Húsin á Seyðisfirði eru mikilvægar minjar um byggingarstíl fyrri tíma.
 
Það er guðs mildi að enginn skuli hafa slasast eða misst líf í þessum hamförum, en eftir stendur óttinn við náttúruöflin og sár á sálinni sem þarf að græða. Það er brýnt að allir sem eiga um sárt að binda hugi að því og fá þá aðstoð sem þeir þurfa. Leggja þarf árherslu á rannsóknir í fjallinu og koma þurfa fram trúverðugar lausnir til að tryggja öryggi íbúa. 
 
Hugur okkar allra er hjá íbúum Seyðisfjarðar og aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með öllu því fólki sem staðið hefur í þessum átökum. Sjálfboðaliðar björgunarsveitanna eru enn og aftur að standa vaktina þegar þörfin er mest, allt það fólk sem unnið hefur dag og nótt við aðgerðastjórn á vettvangi, fólk sem hefur þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Samheldni samfélagsins í kringum Seyðisfjörð sýnir enn og aftur hvað hjarta okkar er stórt þegar kemur að atburðum sem þessum.
 
Síldarvinnslan er með um 50 starfsmenn í fiskimjölsverksmiðju og frystihúsinu. Það er guðs blessun að ákveðið var að vera ekki með starfsemi daginn örlagaríka og því engir af okkar starfsmönnum í hættu við störf sín. Mannvirki fyrirtækisins voru utan hamfarasvæðanna, rafmagn og hiti fóru af frystihúsinu en með góðum samskiptum við aðgerðastjórn fékkst leyfi til að fara með starfsmenn inn á svæðið á sunnudaginn og koma frystivélum og búnaði í gang þannig að enginn skaði varð. Ferskur fiskur var í kæli hússins sem þurfti að koma í vinnslu annað. Á mánudag fengum við leyfi til að fara með starfsmenn inn á svæðið og ná í ferska fiskinn og nutum við aðstoðar  varðskipsins Týs við það verkefni.
 
Staðan er þannig núna að svæðið er lokað og óvíst er hvenær við getum farið með fólk inn á það.  Framundan er gríðarlegt hreinsunarstarf og óvíst er hvað það tekur langan tíma.  Við vonumst til að geta farið að vinna fisk í frystihúsinu hinn 6. janúar nk.,  en við munum halda góðu sambandi við aðgerðastjórn á Seyðisfirði og vonumst til að eiga gott samstarf við hana áfram.  Alla tímasetningar verða endurmetnar með tilliti til framgangs hreinsunarstarfsins.
 
Hugur minn og okkar allra er hjá Seyðfirðingum núna. Þetta er erfitt, en samheldni og samtakamáttur mun koma þeim í gegnum þetta. Guð gefi Seyðfirðingum öllum gleðileg jól. Það mun aftur koma „vor við Seyðisfjörð.“ 
 
Kveðja,
Gunnþór Ingvason

Rannsóknaverkefni sem skila árangri

Fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Síldarvinnslan tekur þátt í þremur rannsóknaverkefnum sem snúast um framþróun í framleiðslu fiskimjöls. Ljósm. Smári GeirssonFiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Síldarvinnslan tekur þátt í þremur rannsóknaverkefnum sem snúast um framþróun í framleiðslu fiskimjöls.
Ljósm. Smári Geirsson
Undanfarin ár hefur Síldarvinnslan í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og síðar Matís lagt stund á rannsóknir á sviði meðferðar og nýtingu fiskfangs. Mörg þessara rannsóknaverkefna hafa verið unnin í samvinnu við önnur sjávarútvegsfyrirtæki, tæknifyrirtæki í sjávarútvegi og háskóla. Reyndar eru mörg verkefnanna doktorsverkefni, flest við innlenda háskóla en einnig við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.
 
Niðurstöður þessara verkefna hafa verið birtar í formi ritrýndra vísindagreina eða doktorsritgerða og nýtast þær öllum sem vilja, jafnt opinberum stofnunum sem fyrirtækjum. Síldarvinnslan hefur sótt um styrki til nokkurra verkefna sem unnið hefur verið að. Þeir styrkir sem veittir hafa verið hafa að mestu verið nýttir sem mótframlag á móti doktorsstyrkjum eða öðrum slíkum styrkjum ásamt því að þeir hafa verið nýttir til að greiða fyrir mælingar og aðra þjónustu sem Matís veitir, en Matís er reyndar eina fyrirtækið á landinu sem unnt er að leita til í því sambandi.
 
Síldarvinnslan er þátttakandi í þremur verkefnum sem fengu styrki úr Matvælasjóði nú í haust. Öll verkefnin snúast um breytingar og framþróun í framleiðslu fiskimjöls. Tvö þeirra eru á sviði þráavarnar í mjöli. Annað þeirra tekur til skoðunar hvort unnt sé að nýta afurðir þörungavinnslu sem þráavarnarefnis en hitt er unnið í samvinnu við Skinney-Þinganes og Ísfélagið og snýst um hitamyndun og þránun í mjöli. Þriðja verkefnið er samstarfsverkefni Síldarvinnslunnar og Matís um breytingar á vinnsluferli í fiskimjölsverksmiðjum með áherslu á fiskprótein í sem hreinustu formi.
 
Það er gríðarlega mikilvægt að sjávarútvegsfyrirtæki og menntasamfélagið hafi samvinnu um verkefni á borð við þessi. Fyrri verkefni hafa þegar skilað miklum árangri og hafa verið fiskiðnaðinum til framdráttar og styrkt stöðu hans.
Hér á heimasíðunni mun verða gerð nánari grein fyrir verkefnunum þremur þegar niðurstöður liggja fyrir.

Mikill brælutúr

Blængur NK kemur til hafnar. Ljósm. Smári GeirssonBlængur NK kemur til hafnar. Ljósm. Smári GeirssonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að aflokinni 15 daga veiðiferð. Afli skipsins var 350 tonn upp úr sjó að verðmæti 104 milljónir króna. Uppistaða aflans var karfi, þorskur og ufsi. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvernig veðrið hefði verið í veiðiferðinni. „Þetta var mikill brælutúr. Veðrið var vissulega misjafnlega slæmt en það fór aldrei niður fyrir 15-20 metra. Við byrjuðum á að sigla vestur fyrir land og hófum veiðar á Vestfjarðamiðum. Þar var unnt að vera í eina fimm daga en þá gerði vitlaust veður og þá var haldið austur fyrir land. Undir lokin veiddum við síðan úti fyrir suðurströndinni. Við vorum á eilífum flótta undan veðrinu. Það má auðvitað gera ráð fyrir svona veðurlagi á þessum árstíma, það er víst vetur,“ segir Bjarni Ólafur.
 
Landað verður úr Blængi í dag og í kvöld verður haldið af stað til Akureyrar þar sem framundan er mánaðar slippur. Gert er ráð fyrir að skipið haldi á ný til veiða 29. janúar.

Vinnan í nýjum Berki á áætlun

Nýi Börkur í Skagen. Um borð í skipinu starfa 160-170 manns á hverjum degi. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonNýi Börkur í Skagen. Um borð í skipinu starfa 160-170 manns á hverjum degi. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonÞeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri hafa dvalið í Skagen í Danmörku í tvo og hálfan mánuð þar sem þeir hafa fylgst með framkvæmdum um borð í nýjum Berki sem er í smíðum hjá Karstensens Skibsværft. Þeir félagar komu til landsins í jólafrí 12. desember sl. og er gert ráð fyrir að Karl Jóhann og Hörður Erlendsson vélstjóri haldi til Skagen eftir áramótin þegar framkvæmdir við skipið hefjast á ný fyrir alvöru. Heimasíðan ræddi stuttlega við Karl Jóhann og spurði frétta. „Skipið liggur í Skagen og þar er unnið um borð af miklum krafti. Að undanförnu hafa um 160-170 manns starfað um borð í skipinu og til viðbótar er unnið á verkstæðum að verkefnum sem tengjast framkvæmdum um borð. Það er afar gott skipulag á framkvæmdunum. Verkfundir eru haldnir reglulega og skipinu er skipt upp í svæði og á hverju svæði er verkstjóri sem ber ábyrgð á öllu sem þar fer fram. Það gengur allt snurðulaust fyrir sig og það er í reynd aðdáunarvert hvernig að málum er staðið. Verkið er á áætlun og samkvæmt henni  á skipið að fara í prufusiglingu í lok febrúar og afhending þess að eiga sér stað í apríl. Ýmislegt getur þó raskað áætluninni og það er þá helst covid. Jóhann Pétur fylgist grannt með öllum framkvæmdum sem snerta vélar og tæki. Hann dvelur löngum stundum í vélarrúminu þar sem meðal annars þarf að ganga frá tveimur aðalvélum og tveimur ljósavélum. Á dögunum var gengið frá öllum krönum og vindum í skipinu og vóg sá búnaður hvorki meira né minna en 200 tonn. Hafa skal í huga að við framkvæmdir um borð í Berki njótum við þess að systurskipið, Vilhelm Þorsteinsson, er einnig í smíðum hjá Karstensens og framkvæmdir þar eru lengra komnar. Vilhelm fór til dæmis í prufusiglingu á dögunum sem gekk afar vel. Það auðveldar ýmislegt hjá okkur að vera skip númer tvö,“ segir Karl Jóhann.

Lokið er við að koma krönum og vindum fyrir í skipinu. Sá búnaður vóg 200 tonn. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonLokið er við að koma krönum og vindum fyrir í skipinu. Sá búnaður vóg 200 tonn. Ljósm. Karl Jóhann Birgisson

Eyjarnar komnar í jólafrí

Eyjarnar lönduðu í gær og eru komnar í jólafrí. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonEyjarnar lönduðu í gær og eru komnar í jólafrí.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, komu báðir með fullfermi til Vestmannaeyja í gær. Aflinn var mestmegnis þorskur og ýsa sem fékkst fyrir austan land. Heimasíðan ræddi stuttlega við Egil Guðna Guðnason sem var skipstjóri á Vestmannaey í veiðiferðinni. „Við vorum að veiða á Gerpisflakinu í skítaveðri. Aflinn fékkst á fjórum dögum en megnið af honum kom þó á einum og hálfum sólarhring. Það voru yfir 20 metrar allan tímann sem við vorum þarna og svo fengum við 30 metra norðaustan á leiðinni heim til Eyja. Bergey var á alveg sama róli og við,“ segir Egill Guðni.
 
Eyjarnar eru nú komnar í jólafrí og munu ekki halda á ný til veiða fyrr en 2. janúar. Í því sambandi er rétt að rifja upp að skipin héldu ekki til veiða eftir síðasta jólafrí fyrr en 13. janúar vegna veðurofsa.

Kolmunni berst að landi

Beitir NK og Börkur NK í stórrigningunni í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK og Börkur NK í stórrigningunni í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gærkvöldi með 2250 tonn af kolmunna eða fullfermi. Beitir NK kom síðan í morgun með 3050 tonn. Gert er ráð fyrir að landað verði úr skipunum jafnóðum og hráefnið er unnið því betra er að geyma það kælt um borð í þeim en í hráefnistönkum fiskimjölsverksmiðjunnar.
 
Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Berki segir að veiðarnar hafi gengið nokkuð vel. „Við vorum að veiða á gráa svæðinu suður af Færeyjum alveg við skosku línuna. Þar var flotinn að veiðum. Aflann fengum við í sjö holum en við vorum sex daga að veiðum. Fiskurinn sem þarna fæst er stór og góður,“ segir Hálfdan.
 
Tómas Kárason skipstjóri á Beiti tekur undir með Hálfdani og segir að um ágætan fisk sé að ræða. „Við fengum aflann í 11 holum, en reyndar var lítið í fyrsta holinu. Holin voru gjarnan að gefa 300-350 tonn og einu sinni fengum við 450 tonna hol. Það var dregið í 15-24 tíma,“ segir Tómas.
 
Skipin munu ekki halda á ný til veiða fyrr en eftir hátíðar, en fram kom hjá skipstjórunum að áhafnirnar bíði spenntar eftir fréttum úr loðnuleiðangrinum sem nýlega er lokið.

Bergur-Huginn styrkir íþróttastarf og færir Grunnskólanum gjöf

Arnar Richardsson og Hörður Orri Grettisson við afhendingu styrks Bergs-Hugins.Arnar Richardsson og Hörður Orri Grettisson við afhendingu styrks Bergs-Hugins.Nú nýverið afhenti Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum, Herði Orra Grettissyni, framkvæmdastjóra ÍBV, myndarlegan fjárstyrk til styrktar íþróttastarfi í Eyjum. Arnar segir að Bergur-Huginn vilji leggja sitt af mörkum til að unnt sé að halda uppi öflugu íþróttastarfi hjá ÍBV enda sé slíkt starf mikilvægur þáttur í samfélaginu. Heimasíðan ræddi við Hörð Orra og spurði hann hvort styrkur eins og sá sem Bergur-Huginn afhenti skipti miklu máli. „Já, hann skiptir svo sannarlega miklu máli. ÍBV varð fyrir gífurlegu efnahagslegu áfalli þegar ekki var unnt að halda þjóðhátíð og þá þurfa menn að reiða sig á styrki í ríkari mæli en áður. Það er samfélagslega mikilvægt að halda úti íþróttastarfi hér í Eyjum og það þarf að halda æfingagjöldum lágum svo allir eigi möguleika á að taka þátt í starfinu og styrkir fyrirtækja gera það kleift nú á þessum erfiðu tímum. Við erum svo sannarlega þakklát fyrir styrkinn frá Bergi-Hugin og það munu allar deildir félagsins njóta góðs af honum – handboltinn, fótboltinn og barna- og unglingastarfið,“ segir Hörður Orri.
 
Arnar Richardsson getur þess að Bergur-Huginn hafi fyrr á árinu styrkt ýmis verkefni á vegum ÍBV og hann sé sannfærður um að þeim fjármunum hafi verið vel varið. Þá nefnir hann að fyrir nokkru hafi Bergur-Huginn fært Grunnskóla Vestmannaeyja vesti að gjöf fyrir yngstu bekki skólans en vestin nota börnin í öryggisskyni þegar farið er út fyrir skólalóðina.
 
Anna Rós Hallgrímsdóttir skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja tók á móti öryggisvestum frá Bergi-Hugin sem Arnar Richardsson afhentiAnna Rós Hallgrímsdóttir skólastjóri
Grunnskóla Vestmannaeyja tók á móti
öryggisvestum frá Bergi-Hugin sem
Arnar Richardsson afhenti

Áhugasamar í íslenskunámi

Starfsmenn frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði sem sótt hafa íslenskunám hjá Austurbrú í vetur. Talið frá vinstri: Everita Zulke frá Lettlandi, Marianna Weinrauch frá Ungverjalandi og Daniella Sokolov frá Serbíu. Ljósm. Ómar BogasonStarfsmenn frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði sem sótt hafa íslenskunám hjá Austurbrú í vetur. Talið frá vinstri: Everita Zulke frá Lettlandi, Marianna Weinrauch frá Ungverjalandi og Daniella Sokolov frá Serbíu. Ljósm. Ómar BogasonAusturbrú hefur í vetur boðið upp á íslenskunám fyrir útlendinga á Seyðisfirði. Kennari hefur verið Ólafía Stefánsdóttir. Þrír starfsmenn frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hafa sótt námskeiðið og hafa sýnt náminu einstakan áhuga. Heimasíðan spjallaði við Ólafíu og spurði hana nánar út í námið. „Það er Austurbrú sem stendur fyrir náminu og það hefur gengið vel. Í haust var byrjað á námskeiði fyrir byrjendur og sóttu það átján nemendur þegar mest var, þar af þrjár konur frá frystihúsi Síldarvinnslunnar. Þær eru frá Lettlandi, Ungverjalandi og Serbíu og sýndu náminu einstakan áhuga. Þegar ég ætlaði að hlífa nemendum og sleppa þeim við heimavinnu komu þær og báðu um heimaverkefni. Mikið væri gott ef allir nemendur væru svona. Fyrir utan námskeiðið notuðu þær netið óspart en þar er unnt að finna gott námsefni eins og Icelandic Online frá Háskóla Íslands. Þetta var námskeið fyrir byrjendur en síðan verður boðið upp á áframhaldandi nám eftir áramót. Ég vona að þá komi fleiri starfsmenn frystihússins. Fyrirtækin greiða námskeiðskostnaðinn fyrir starfsmenn sína og það gerir Síldarvinnslan. Sum fyrirtæki hvetja starfsfólk sitt sérstaklega til að sækja námskeiðin og það er einmitt það sem Síldarvinnslan gerir,“ segir Ólafía.
 
Ómar Bogason hjá frystihúsinu á Seyðisfirði segir að mikil ánægja sé með íslenskunámskeið Austurbrúar. Hann segir jafnframt að í frystihúsinu sé mikil áhersla lögð á að tala íslensku við erlenda starfsmenn og eigi það örugglega þátt í því að margir þeirra ná tökum á málinu á undraskömmum tíma.
 
 

Jólasíldin slær í gegn enn eitt árið

Jólasíldin sett í fötur. Ljósm. Jón Gunnar SigurjónssonJólasíldin sett í fötur. Ljósm. Jón Gunnar SigurjónssonFyrir marga sem starfa hjá Síldarvinnslunni eða tengjast fyrirtækinu er jólasíld Síldarvinnslunnar ómissandi hluti jólahátíðarinnar. Í hugum flestra er Síldarvinnslujólasíldin besta síldin og mikið tilhlökkunarefni að fá að neyta hennar. Síldin er framleidd eftir kúnstarinnar reglum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað og yfirverkstjórinn, Jón Gunnar Sigurjónsson, stýrir framleiðslunni. Jón Gunnar segir að ávallt sé ánægjulegt að fá þakkir fyrir jólasíldina og ekkert fari á milli mála að framleiðslan í ár sé vel heppnuð. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni og er áhersla lögð á að hráefnið sé af bestu gæðum. Framleiðsluferillinn er að sjálfsögðu leyndarmál en hann byggir bæði á mikilli þekkingu og næmni.
 
Jón Gunnar segir að það sé ávallt gaman að fást við framleiðslu á jólasíldinni. „Fólk segir í ár að síldin sé sú besta. Það höfum við heyrt áður og það sýnir að við erum alltaf á réttri leið. Ég tel að jólasíldin í ár sé algjört ljúfmeti og hún er í reynd lokapunkturinn á frábærlega vel heppnaðri síldarvertíð,“ segir Jón Gunnar.
 
Fyrir utan þá jólsíld sem starfsfólk og velunnarar Síldarvinnslunnar hafa fengið hefur fyrirtækið sent Mæðrastyrksnefnd síld og mun hún örugglega vera vel metin á þeim vettvangi. Auk jólasíldar fékk Mæðrastyrksnefnd fisk að gjöf frá Síldarvinnslunni og eins var Samhjálp styrkt til matargjafa. Fyrir utan þetta hefur Síldarvinnslan lagt sitt af mörkum til matargjafa í Neskaupstað og á Seyðisfirði.
 
 

Stór og fallegur kolmunni

Bjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK er á landleið með fullfermi af kolmunna. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK er væntanlegur til Neskaupstaðar í kvöld með fullfermi af kolmunna eða um 1.870 tonn. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra og spurði fyrst hvar aflinn hefði fengist. „Við vorum að veiðum á gráa svæðinu suður af Færeyjum alveg við skosku línuna. Þarna var svolítið lóð á köflum, en það var ekki að gefa mjög mikið. Það þurfti semsagt að draga lengi eða frá 6 tímum og upp í 24. Aflinn fékkst í sex holum og það voru frá 200 tonnum og upp í 350 tonn í holi. Þetta er stór og fallegur kolmunni sem þarna fékkst, eðlilegur göngufiskur. Vandamálið í síðasta túr var það að skipin fengu einungis smáfisk þó víða væri farið, en nú var allt annað upp á teningnum. Veðrið var misjafnt í túrnum. Við vorum sex daga að veiðum og fengum þrjá góða daga, en svo brældi inn á milli,“ segir Runólfur.

 

 

Jólatónleikar Síldarvinnslunnar og Eskju

Jólatónleikar Síldarvinnslunnar og EskjuSíldarvinnslan og Eskja bjóða starfsfólki sínu upp á glæsilega jólatónleika á netinu laugardaginn 12. desember nk. Útsending hefst kl. 20 og tónleikarnir hefjast kl. 20.30.
 
Á tónleikunum koma fram stórsöngvararnir Jóhanna Guðrún og Eyþór Ingi ásamt frábærri hljómsveit.
 
Nánari upplýsingar koma fram á auglýsingum á vinnustöðum.
                                                                          
Góða skemmtun !
 
 
 
 
 

Eyjarnar eru fyrir austan

Vestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonVestmannaey VE í Norðfjarðarhöfn í morgun.
Ljósm. Smári Geirsson
Skip Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum hafa verið að veiða fyrir austan land að undanförnu og landað í Neskaupstað og á Eskifirði. Bergey VE landaði á þriðjudag í Neskaupstað og Vestmannaey VE á miðvikudag. Síðan landaði Bergey á ný á Eskifirði í gærmorgun. Nú liggja bæði skipin í höfn og bíða þess að óveðrið gangi yfir. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og spurði út í tíðarfarið. „Það eru búnar að vera helvítis brælur að undanförnu og erfitt tíðarfar, en það koma hlé inn á milli. Ég geri ráð fyrir að við förum út í nótt og það spáir vel næstu daga,“ segir Birgir Þór.

 

 

 

Enginn óútskýrður launamunur hjá Síldarvinnslunni þriðja árið í röð

Enginn óútskýrður launamunur hjá Síldarvinnslunni þriðja árið í röðÍ síðustu viku fór fram úttekt á jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar. Fyrirtækið BSÍ á Íslandi framkvæmdi úttektina. Í slíkri úttekt er skoðað mjög ítarlega hvort fyrirtækið hagi launamálum í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. Áður en til úttektar kom hafði farið fram greining á launagögnum þar sem skoðað var með svonefndri aðhvarfsgreiningu hvort einhvern óútskýrðan launamun væri að finna hjá fyrirtækinu. Svo reyndist ekki vera. Launagreiningin var framkvæmd af fyrirtækinu Intenta ehf. Úttekt BSÍ og launagreiningin staðfesta að Síldarvinnslan hagar launamálum sínum í samræmi við jafnlaunastaðalinn og að engan óútskýrðan launamun sé að finna hjá fyrirtækinu. Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar sagðist vera mjög ánægður með niðurstöðuna. “Við vitum alveg að launamálin hjá okkur eru faglega unnin, en það er alltaf gott að fá slíkt staðfest af óháðum aðilum. Það er skýrt í starfsmannastefnunni okkar, jafnréttis- og jafnlaunastefnunni, að þættir eins og kyn, kynhneigð og uppruni fólks eiga ekki að hafa nein áhrif á launasetningu. Slíkar úttektir staðfesta að svo er ekki, sem kemur okkur svo sem ekkert á óvart, enda er þetta þriðja úttektin af þessu tagi sem við förum í gegnum. Við stefnum nú sem endranær að því að borga laun samkvæmt samningum og lögum og að vera samkeppnishæf um góða starfsmenn af öllum kynjum,” segir Hákon.

Undirflokkar