Blængur úr Barentshafinu

Barentshafsfiski landað úr Blængi NK í gær. Ljósm. Smári GeirssonBarentshafsfiski landað úr Blængi NK í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun að loknum rúmlega mánaðar túr í Barentshafið. Afli skipsins var 536 tonn upp úr sjó og var verðmæti hans 176 milljónir króna. Heimasíðan bað Theodór Haraldsson skipstjóra um segja stuttlega frá veiðiferðinni. „Við héldum til veiða 22. október og það tók okkur þrjá og hálfan sólarhring að sigla þessar 1100 mílur á veiðisvæðið. Fyrstu tvo eða þrjá dagana var aflinn þokkalegur eða upp undir tvö tonn á tímann en það reyndist bara vera smá glenna. Það brældi síðan og þá hvarf fiskurinn að mestu. Það sem eftir var túrsins vorum við yfirleitt að fá 400-500 kg. á togtímann og það er of lítið til að menn séu sáttir. Við fengum fréttir um betri veiði annars staðar en sú reyndist ekki vera raunin. Við færðum okkur því aftur til baka og vorum í reynd að veiða allan tímann á Skolpenbankanum. Túrinn einkenndist því af heldur lítilli veiði og 15-20 metra vindi megnið af tímanum. Staðreyndin er sú að þetta var heldur lítið spennandi en geðheilsan um borð var samt ótrúlega fín. Þetta getur gerst og menn vita að það eru ekki alltaf jólin í þessum bransa, en auðvitað eru menn fegnir að koma heim. Heimsiglingin tók fjóra sólarhringa enda sigldum við suður með Noregi til að sleppa við illviðri og það lengdi siglinguna töluvert,“ segir Theodór.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða í fyrramálið.
 
 

Rúmlega 4.700 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar

Beitir NK kemur til löndunar síðdegis í gær. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK kemur til löndunar síðdegis í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt með rúm 1.100 tonn af kolmunna. Börkur NK kom síðan í gærmorgun með tæp 1.900 tonn og Beitir NK síðdegis í gær með tæp 1.700 tonn. Aflann fengu skipin í færeyskri lögsögu.
 
Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Hún hefði mátt ganga betur. Við komum með 1.160 tonn sem fengust í sjö holum. Það er einungis tekið eitt hol á sólarhring og við fengum mest 300 tonn í holi en aflinn fór alveg niður í 20 tonn. Vandinn var sá að fiskurinn sem fékkst var of smár og það kom okkur á óvart. Við leituðum að stærri fiski og fórum víða. Veitt var austur af eyjunum, norðaustur og suðaustur en alls staðar var þetta sama sagan. Venjulega hefur fengist stór og góður kolmunni í færeysku lögsögunni á þessum árstíma en stóri fiskurinn lét ekki sjá sig á meðan við vorum þarna. Ég held að stóri fiskurinn gangi svo austarlega að hann komi ekki inn í lögsöguna. Allavega gerði hann það ekki á meðan túrinn stóð yfir. Nú er búið að loka stórum svæðum í lögsögunni vegna smáfisksins og það er eðlilegt. Vonandi rætist úr þessu og þarna eru skip sem beðið er frétta frá, en nú spáir hann vitlausu veðri á þessum slóðum út vikuna,“ segir Runólfur.
 
Grænlenska skipið Polar Amaroq hélt til kolmunnaveiða í lok síðustu viku og samkvæmt fréttum í morgun fæst nú stærri kolmunni í færeysku lögsögunni. Gert er ráð fyrir að Börkur, Beitir og Bjarni Ólafsson haldi á ný til veiða á morgun.

Síldarvinnslan gefur Verkmenntaskóla Austurlands búnað til kennslu í kælitækni

afliði Hinriksson og Arnar Guðmundsson við kennslubúnað í kælitækni.  Ljósm. Smári GeirssonHafliði Hinriksson og Arnar Guðmundsson við kennslubúnað í kælitækni. Ljósm. Smári GeirssonNýlega færði Síldarvinnslan Verkmenntaskóla Austurlands búnað til kennslu í kælitækni að gjöf. Um er að ræða lekaleitartæki, vigt fyrir kælimiðla, vacumdælu, tæmingardælu og mælibretti. Að sögn þeirra Hafliða Hinrikssonar, deildarstjóra rafdeildar skólans og Arnars Guðmundssonar, deildarstjóra málmdeildar, munu tækin nýtast afar vel til kennslu á vélstjórnarbraut og vélvirkjabraut. Benda þeir á að þekking á sviði kælitækni sé sífellt að verða mikilvægari og því afar brýnt að skólinn geti þjálfað nemendur í notkun þess búnaðar sem almennt er nýttur á því sviði. Segja þeir að nýi búnaðurinn, sem nú bætist við þá tækjaeign sem fyrir var, geri skólanum kleift að veita haldgóða kennslu.
 
Þeir Hafliði og Arnar vilja að fram komi að sá stuðningur sem fyrirtæki veiti skólanum til tækjakaupa sé ómetanlegur. Segja þeir að fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna sýni það svo sannarlega í verki að þau vilji að skólinn sé öflugur og geti veitt góða kennslu enda muni fyrirtækin njóta góðs af því þegar nemendurnir komi út á vinnumarkaðinn að námi loknu. „Skólinn er afar þakklátur fyrir þá velvild sem hann nýtur og víst er að þeir 20 nemendur sem nú strax fá að njóta nýju tækjanna munu fá betri undirbúnig en ella fyrir sín framtíðarstörf,“ sögðu þeir Hafliði og Arnar.
 
Nemandi leitar að leka í kælikerfi. Ljósm. Hafliði HinrikssonNemandi leitar að leka í kælikerfi. Ljósm. Hafliði Hinriksson

„Þetta lítur vel út“

Polar AmaroqPolar AmaroqGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í nótt að loknum loðnuleitarleiðangri sem hófst sl. föstudag. Geir Zoëga skipstjóri segir að nú sé búið að senda Hafrannsóknastofnun sýni og önnur gögn úr leiðangrinum og spennandi verði að heyra hvernig þau verði metin. „Eins og ég hef sagt þá lítur þetta vel út. Það var mikið að sjá og loðnan er stór og falleg,“ sagði Geir.
 
Að sögn Geirs mun Polar Amaroq væntanlega halda til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni annað kvöld. „Við eigum eftir einn kolmunnatúr en að honum loknum værum við svo sannarlega tilbúnir að fara í aðra loðnuleit. Mér finnst bráðskemmtilegt að leita að loðnunni og það er svo spennandi. Sérstaklega er þetta skemmtilegt þegar eitthvað gott kemur út úr þessu eins og ég held að hafi gerst í leitinni núna,“ sagði Geir að lokum.
 
 

Gjöf til minningar um látinn sjómann

Magnús Kristinsson afhendir Arnóri Arnórssyni, formanni Björgunarfélags Vestmannaeyja, gjöfinaMagnús Kristinsson afhendir Arnóri Arnórssyni, formanni Björgunarfélags Vestmannaeyja, gjöfinaFyrir nokkru afhenti Magnús Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum, Björgunarfélagi Vestmannaeyja eina milljón króna til minningar um Finn Kristján Halldórsson sjómann á Bergey VE. Finnur Kristján drukknaði fyrir 35 árum en hann var einungis 23 ára að aldri þegar hann lést.
Við afhendinguna rifjaði Magnús upp þennan sorgaratburð og sagði að útgerðin, hann sjálfur og fjölskylda hans vildu minnast Finns Kristjáns heitins og það væri best gert með því að styðja við bakið á Björgunarfélaginu.
 
Arnór Arnórsson formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja veitti gjöfinni móttöku. Í þakkarræðu gat hann þess að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem Björgunarfélagið nyti myndarlegra styrkja frá Bergi-Hugin og þætti félagsmönnum afar vænt um þann hlýhug sem fram kæmi með gjöfinni.
 
 

Stór og falleg loðna að ganga inn í íslenska lögsögu

Grænlenska skipið Polar Amaroq leitar nú að loðnu norður af landinuGrænlenska skipið Polar Amaroq leitar nú að loðnu norður af landinuGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq hélt til loðnuleitar sl. föstudag, en það eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sem standa fyrir leitinni. Mun leitarleiðangurinn taka tæplega viku. Heimasíðan ræddi við Geir Zoëga skipstjóra skömmu fyrir hádegi en þá var verið að taka sýni norðaustur af Kolbeinsey. „Þessi leiðangur er farinn í nánu samráði við Hafrannsóknastofnun en þó er enginn fulltrúi frá stofnuninni um borð. Við tökum sýni og könnum þau og frystum einnig sýni fyrir stofnunina. Hafrannsóknastofnun fær öll gögn leiðangursins þannig að allt er gert eins og um hefðbundna vetrarmælingu sé að ræða. Við hófum leitina norðvestur af Straumnesi en síðan eru farnir ákveðnir leggir austur með kantinum. Það var full ástæða til að leita núna enda hafa borist heilmiklar loðnufréttir frá togurum sem hafa verið að veiðum á svæðinu. Við fundum strax loðnu. Hún var dálítið blönduð fyrst en fljótlega var einungis um að ræða stóra kynþroska loðnu. Það hefur semsagt verið loðna á 180 sjómílna belti sem við höfum nú farið yfir og inn á milli hafa verið góðar torfur. Loðnan kemur að norðan og virðist vera að ganga upp að landinu í verulegu magni. Þetta ætti ekki að koma á óvart og er í góðum takti við haustmælinguna 2019. Ég hef verið bjartsýnn á loðnuvertíð í vetur og nú hef ég góð rök fyrir bjartsýninni. Þetta lítur bara afskaplega vel út,“segir Geir.

Með fullt skip að afloknum brælutúr

Bergey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í morgun með fullfermi. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE kom til hafnar í Vestmannaeyjum í morgun með fullfermi. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogarinn Bergey VE lagðist að bryggju í Vestmannaeyjum í morgun með fullfermi og var uppistaða aflans ufsi. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að túrinn hafi einkennst af brælu. „Það gekk vel að veiða ef tekið er tillit til þess að við vorum á sífelldum flótta undan veðri. Við byrjuðum í Sláturhúsinu og síðan færðum við okkur vestur á Öræfagrunn, Kötlugrunn og loks í Reynisdýpið. Það var ekkert hægt að kvarta undan aflanum en veðrið hefði mátt vera miklu betra. Aflanum verður landað í dag og veðurútlit mun síðan hafa mikið að segja um framhaldið,“ segir Jón.
 
Systurskipið Vestmannaey VE hefur verið að karfaveiðum fyrir sunnan og vestan Eyjar. Afli hefur verið ágætur á daginn en lélegur yfir nóttina. Gert er ráð fyrir að skipið fylli í kvöld og landi í Eyjum. 
 
 

Norskir fiskframleiðendur vilja sóttkvíarhótel á viðráðanlegu verði

Norskir fiskframleiðendur vilja sóttkvíarhótel á viðráðanlegu verðiÞorskvertíðin við Lofoten og Vesterȧlen í Noregi mun hefjast fljótlega á nýju ári og þá mun erlent starfsfólk streyma til landsins. Gert er ráð fyrir að fiskvinnslufyrirtækin á vertíðarsvæðinu þurfi að ráða allt að 4.000 manns til starfa og verður vart annað séð en að það starfsfólk muni koma erlendis frá. Að vísu er atvinnuleysi umtalsvert í Noregi en talið er að erfitt muni reynast að fá Norðmenn til að koma til starfa á vertíðarsvæðinu auk þess sem störf við fiskvinnsluna reyna á líkamlega og þykja því ekki girnileg.
 
Gert er ráð fyrir að erlent starfsfólk fari í sýnatöku við komuna til landsins og ef sýnið er neikvætt þarf fólkið að fara í tíu daga sóttkví áður en það getur hafið störf. Í sóttkvínni þarf viðkomandi að dveljast í einstaklingsherbergi sem gera má ráð fyrir að yrði þá oftast í verbúð viðkomandi fyrirtækis. Samtök fiskframleiðenda í Noregi sér galla á þessu fyrirkomulagi og telur að heppilegra sé að fólkið dvelji í þessa tíu daga á sérstökum sóttkvíarhótelum sem starfrækt yrðu við alþjóðaflugvöllinn í Gardermoen í nágrenni Osló og við landamærin þar sem verkafólkið kæmi landleiðina til Noregs. Telja samtökin að erfitt yrði fyrir starfsfólkið að dvelja í sóttkvínni í verbúð í litlu samfélagi þar sem hætta væri á að það yrði litið hornauga. Geir Ove Ystmark, framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda, telur eðlilegt að ríkið styrki dvöl erlenda starfsfólkisins á slíkum sóttkvíarhótelum. Segir Ystmark að þegar hafi orðið vart við að íbúar í sjávarbyggðunum líti erlent starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja hornauga jafnvel þó að starfsfólkið hafi fasta búsetu í Noregi. Hann hafi því verulegar áhyggjur af stöðu mála þegar mikill fjöldi starfsfólks komi erlendis frá við upphaf vertíðar og mikilvægt sé þá að unnt sé að upplýsa íbúana um að allt þetta fólk hafi farið í sýnatöku og sóttkví áður en það kom á staðinn.
 
Fram kemur í máli Ystmarks að nauðsynlegt sé að dvöl erlenda starfsfólksins á sóttkvíarhótelum verði fyrirtækjunum ekki alltof kostnaðarsöm og þurfi ríkið því að taka meiri þátt í kostnaði en gert hefur verið ráð fyrir. Þá hefur hann einnig áhyggjur af því að hótelin muni alls ekki geta rúmað allan þann fjölda starfsfólks sem þarf að fara í sóttkví við komuna til landsins.
 
(Fréttin birtist í Fiskeribladet)

Vinnsla í frystihúsinu á Seyðisfirði gengur vel

Vinnsla í frystihúsinu á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla í frystihúsinu á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonVinnsla í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hefur gengið vel að undanförnu. Ýmsar jákvæðar breytingar hafa átt sér stað og þá er húsið fullmannað, en heldur erfiðlega gekk að fá fólk til starfa sl. haust. Heimasíðan ræddi við Róbert Inga Tómasson framleiðslustjóra og spurði hvaða breytingar hefðu átt sér stað á starfseminni að undanförnu. „Það er ýmislegt sem veldur því að starfsemin í frystihúsinu hefur gengið vel síðustu mánuði. Í fyrsta lagi ber að nefna bættan vélbúnað. Hér var tekin í notkun flokkunarvél sem eykur afköst við pökkun og einnig hausari. Þessi nýi vélbúnaður er farinn að virka afar vel. Í öðru lagi höfum við verið að þróa breytingar á framleiðslunni sem virðast hafa tekist vel og er þá fyrst og fremst verið að bæta nýtingu hráefnisins. Í þriðja lagi hefur hráefnið sem unnið hefur verið reynst vera afar gott, en togarinn Gullver sér húsinu að mestu fyrir hráefni. Ný krapavél var sett í Gullver sl. sumar og hefur tilkoma hennar aukið gæði hráefnisins til muna og gefið kost á betri nýtingu þess. Í fjórða lagi hefur það gerst að húsið er fullmannað en það gekk erfiðlega að ráða fólk að afloknu sumarfríi. Nú síðustu vikurnar hafa fyrirspurnir um störf hins vegar aukist og er það í samræmi við það atvinnuástand sem ríkir í landinu vegna covid. Mestu máli skiptir þó hvað okkar góða starfsfólk er tilbúið að taka þátt í þeim breytingum sem gerðar hafa verið og vinna í nýju starfsumhverfi. Auðvitað eru allir þreyttir á ástandinu og starfsumhverfið er allt annað en það var fyrir faraldurinn. Núna er starfsfólkinu til dæmis skipt upp í hópa sem umgangast ekki hver annan og búningsklefa og kaffistofu er skipt upp. Það er allt gert til að forðast kórónuveiruna. Á heildina litið hefur þróunin hjá okkur í frystihúsinu verið jákvæð og það er ánægjulegt,“ segir Róbert Ingi.

Börkur og Beitir með íslenska sumargotssíld

Beitir NK og Börkur NK í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK og Börkur NK í Norðfjarðarhöfn í morgun.
Ljósm. Smári Geirsson
Börkur NK kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt með rúmlega 1.000 tonn af íslenskri sumargotssíld. Vinnsla á síldinni hófst í gærmorgun í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði fyrst hvar síldin hefði fengist. „Við fengum síldina í fjórum holum á tveimur dögum í Faxadýpinu. Minnsta holið var 135 tonn en stærsta 430 tonn. Þetta er síld sem er á bilinu 300-320 grömm, en stærri síldin fékkst seinni daginn sem veitt var. Það má segja að þarna hafi verið kroppveiði og það var svolítið af síld að sjá þegar leið á túrinn,“ segir Hjörvar.
 
Beitir NK kom síðan til Neskaupstaðar í morgun og er hann einnig með rúmlega 1.000 tonn af sumargotssíld. Mun vinnsla á afla hans hefjast strax og vinnslu á afla Barkar lýkur. Tómas Kárason skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í fimm holum í Faxadýpinu. „Holin voru misjafnlega stór eða frá 150 tonnum og upp í 320 tonn. Við vorum heppnir með veður þannig að þetta gekk bara vel. Á næturnar fæst hrein síld, en í dagholunum þegar dregið er við botn er aflinn blandaður spærlingi,“ segir Tómas.
 
Ekki er gert ráð fyrir að Börkur og Beitir haldi áfram síldveiðum og er kolmunnaveiði í færeyskri lögsögu næst á dagskrá hjá þeim. Munu skipin skipta um veiðarfæri og halda á kolmunnamiðin að lokinni löndun á síldinni.

Bjarni Ólafsson heldur til kolmunnaveiða

Bjarni Ólafsson AK er að hefja kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK er að hefja kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK heldur til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu í dag. Í tilefni af því sló heimasíðan á þráðinn til Runólfs Runólfssonar skipstjóra. „Við munum halda til veiða í dag en oft hefur veiðin í færeysku lögsögunni verið að byrja um þetta leyti. Færeysk skip hafa að undanförnu verið að fá þarna smáan kolmunna en sá stærri er væntanlega handan við hornið. Á undanförnum árum hefur veiðin oft verið góð á þessum árstíma en svo var þó ekki í fyrra enda alltaf vitlaust veður. Við gerum ráð fyrir að leggja stund á þessar veiðar fram að jólum eða á meðan kvóti er til staðar. Menn eru bara bjartsýnir á veiðarnar. Það er þó fyrirsjáanlegt að veðrið verður slæmt síðustu daga þessarar viku en síðan mun það ganga niður eins og alltaf,“ segir Runólfur.

 

 

Togaralandanir á sunnudegi

Bergey VE að toga. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBergey VE að toga. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonÍsfisktogararnir Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu allir í gær. Gullver landaði á Seyðisfirði en Vestmannaey og Bergey í Neskaupstað. Afli Gullvers var 95 tonn en afli Vestmannaeyjar rúm 50 tonn og Bergeyjar 62 tonn. Öll skipin héldu út til veiða á ný strax að löndun lokinni. Gert er ráð fyrir að Vestmannaey og Bergey haldi suður fyrir land og verður lögð áhersla á að skipin veiði annað en þorsk á næstunni. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra á Gullver í morgun en þá var skipið statt í brælu úti í Seyðisfjarðardýpi. „Síðasti túr gekk alveg þokkalega. Við byrjuðum að vísu í Berufjarðarálnum í leit að karfa en þar var sannast sagna ekkert að hafa. Síðan vorum við mest á Fæti og Herðablaði og þar fengum við þorsk og einnig dálítið af ýsu. Nú erum við í leiðindaveðri og þannig verður það í dag, en síðan mun það væntanlega lagast,“ segir Rúnar.

Heimasíðan ræddi einnig við Egil Guðna Guðnason stýrimann á Vestmannaey í morgun. „Eftir löndun í gær héldum við suðureftir og nú erum við í Sláturhúsinu úti fyrir Mýrunum í leiðindaveðri að reyna að veiða kola. Hér er ástæða til að reyna enda erum við í skjóli af jöklinum. Áformað er að leggja áherslu á annað en þorsk næstu daga og síðan verður væntanlega landað í Eyjum. Bergey er á alveg sama róli og við,“ segir Egill Guðni.

Íslensk sumargotssíld

Börkur NK hélt til veiða á íslenskri sumargotssíld í gær. Ljósm. Smári GeirssonBörkur NK hélt til veiða á íslenskri sumargotssíld í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Börkur NK hélt til veiða á íslenskri sumargotssíld í gærdag. Í tilefni af því ræddi heimasíðan stuttlega við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra. „Við gerum einungis ráð fyrir einum túr vestur fyrir land. Mér skilst að veiðin á þessari síld hafi verið í Faxadýpi og Jökuldýpinu að undanförnu. Gert er ráð fyrir að Beitir fari einnig í einn túr. Íslensk sumargotssíld hefur undanfarin ár haldið sig á þessu svæði og vonandi munum við koma með góðan afla til vinnslu í Neskaupstað eftir helgina. Það er alveg kominn tími til að þessi síldarstofn fari að rétta úr kútnum en undanfarin ár hefur þessi síld einkum verið veidd þarna fyrir vestan land. Að loknum þessum síldartúr geri ég ráð fyrir að farið verði að hyggja að kolmunnaveiðum,“ segir Hjörvar.

 

 

Nýliðin síldarvertíð í tölum

Norðfjarðarhöfn á síldarvertíðinni. Ljósm. Smári GeirssonNorðfjarðarhöfn á síldarvertíðinni. Ljósm. Smári GeirssonNorsk íslenskri síld á nýliðinni vertíð var fyrst landað til vinnslu í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað 11. september sl. Eins og fram hefur komið gekk vertíðin afar vel. Síldin hélt sig skammt út af Austfjörðum allan vertíðartímann og var veiðin góð. Síðast var norsk-íslenskri síld á vertíðinni landað í Neskaupstað 29. október sl.

Þrjú skip lögðu upp síldarafla hjá Síldarvinnslunni á vertíðinni og voru það Beitir NK, Börkur NK og Margrét EA. Beitir og Börkur lönduðu ellefu sinnum og Margrét fimm sinnum. Beitir landaði samtals 10.477 tonnum, Börkur 9.713 tonnum og Margrét 5.167 tonnum. Samtals tók því fiskiðjuverið á móti 25.357 tonnum af síld á vertíðinni. 

Á allri vertíðinni var norsk-íslenska síldin úrvalshráefni til vinnslu. Í fiskiðjuverinu var síldin ýmist heilfryst eða flökuð og fryst með roði eða án.

Togararnir landa góðum afla

Landað úr Vestmannaey VE í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Vestmannaey VE í Neskaupstað.
Ljósm. Smári Geirsson
Ísfisktogararnir hafa verið að fá ágætan afla austur af landinu. Bergey VE landaði í Neskaupstað í gær og Vestmannaey VE landaði þar fullfermi í dag. Þá kom Gullver NS til Seyðisfjarðar í morgun með fullfermi. Egill Guðni Guðnason, stýrimaður á Vestmannaey, sagði að vel hafi gengið að fiska. „Við fengum þennan afla á Glettinganesgrunni og síðan á Breiðdalsgrunni og út í Hvalbakshalli. Þetta er mest þorskur en einnig dálítið af ýsu. Það kom gott skot í Hvalbakshallinu og þar var mokveiði í tæpan sólarhring. Þetta var hinn þægilegasti túr miðað við veðravítið í síðasta túr,“ segir Egill Guðni. 
 
Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver hefur svipaða sögu að segja. „Við byrjuðum á Glettinganesflakinu í ýsukroppi en fengum síðan þorsk suður á Litladýpi og á Breiðdalsgrunni. Túrinn tók um þrjá og hálfan sólarhring. Það var góður þorskafli þarna suður frá en þegar við fórum hafði veiðin dottið niður. Það munaði miklu að við fengum gott veður í túrnum, það var einungis smá kaldi eina nóttina en annars fínt veður,“segir Þórhallur. 
 
Gullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði fyrir hádegi í dag. Á myndinni eru Gullversmenn að ganga frá festum og gera klárt fyrir löndun í blíðunni. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kom til hafnar á Seyðisfirði fyrir hádegi í dag. Á myndinni eru Gullversmenn að ganga frá festum og gera klárt fyrir löndun í blíðunni. Ljósm. Ómar Bogason

Mun síldin hafa vetursetu út af Austfjörðum?

Nýliðin síldarvertíð gekk eins og í sögu. Norsk-íslensk síld hefur haldið sig í miklum mæli skammt út af Austfjörðum og þangað hafa skipin sótt hana. Góður afli fékkst í stuttum holum og stór og falleg síldin var úrvalshráefni til vinnslu. Vertíðin fékk marga til að rifja upp síldarárin svonefndu þegar síldin hafði vetursetu á hinu svonefnda Rauða torgi og afli var ævintýralegur.
Síldarstemning í Norðfjarðarhöfn á nýliðinni vertíð.  Ljósm. Sigurjón JónusonSíldarstemning í Norðfjarðarhöfn á nýliðinni vertíð.
Ljósm. Sigurjón Jónuson
 
Hjá Síldarvinnslunni hófst síldarvertíðin hinn 11. september sl. þegar Börkur NK kom með 890 tonn til vinnslu í fiskiðjuver fyrirtækisins. Þá var rætt við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og upplýsti hann að aflinn hefði fengist í fjórum stuttum holum í Seyðisfjarðardýpinu og þegar veiðum lauk hafi skipið átt 32 mílur í land. Þetta var byrjunin, en öll vertíðin hafði sömu einkenni og þessi fyrsti síldartúr. Síldin hefur haldið sig skammt undan landi og alla vertíðina var hún stór og góð, gjarnan 380-400  grömm að þyngd. Dálítið bar einnig á íslenskri sumargotssíld á miðunum en hún er smærri en sú norsk-íslenska. Þrjú skip lönduðu síld á vertíðinni í Neskaupstað og voru það Börkur NK, Beitir NK og Margrét EA.
 
Hjá Síldarvinnslunni fór öll síldin á vertíðinni til manneldisvinnslu. Í fiskiðjuverinu var lengst af unnið á þremur vöktum og gekk framleiðslan vel í alla staði. Hráefnið sem skipin komu með að landi  var fyrsta flokks og réðst það af því að skammt var að fara eftir síldinni, skipin toguðu stutt í hvert sinn og síðan var aflinn vel kældur um borð. Í fiskiðjuverinu var síldin ýmist heilfryst eða flökuð og fryst með eða án roðs. 
 
:  Síldin sem barst að landi á vertíðinni var úrvalshráefni.  Ljósm. Hákon ErnusonSíldin sem barst að landi á vertíðinni var úrvalshráefni. Ljósm. Hákon ErnusonÞað sem vakti sérstaka athygli á þessari vertíð er sú staðreynd að síldin hélt sig allan tímann á svipuðum slóðum skammt út af Austfjörðum. Undanfarin ár hefur hún fjarlægst landið á meðan á vertíðinni hefur staðið og til dæmis í fyrra fór veiðin undir lokin helst fram í færeyskri lögsögu og í hinni svonefndu Síldarsmugu. Nú virðist norsk-íslenska síldin hins vegar kunna vel við sig út af Austfjörðum og hefur hún enn ekki sýnt á sér neitt fararsnið. Þetta hefur leitt til þess að ýmsir velta því fyrir sér hvort síldin sé að taka upp sömu hegðun og í lok síldaráranna svonefndu þegar hún hafði vetursetu á Rauða torginu. Á síldarárunum var Jakob Jakobsson fiskifræðingur oft spurður út í göngur norsk-íslensku síldarinnar og þegar hann fjallaði um hegðun síldarinnar á árunum 1964-1967 vakti hann sérstaka athygli á vetursetu hennar fram að áramótum út af Austfjörðum. Hann sagði að þarna héldi síldin sig í gífurlega stórum torfum þegar hausta tæki og virtist hún vera þarna að meira eða minna leyti í eins konar vetrardvala þrjá síðustu mánuði ársins. Hún héldi sig gjarnan á miklu dýpi á daginn en nærri yfirborðinu þegar dimma tæki. Í janúarmánuði hæfist síðan hrygningarganga þessa mikla síldarstofns þvert yfir hafið til Noregs og þangað væri hann kominn upp úr miðjum febrúar.
 
Sagan segir okkur að það er vart á síldina að treysta og að því kom að síldin breytti hegðun sinni og gekk ekki upp að landinu. Síldarárunum lauk og öll ævintýri sem tengdust þeim voru geymd í banka minninganna. Norsk-íslensk síld barst ekki til vinnslu á ný til Neskaupstaðar fyrr en á árinu 1994 og síðan hefur síldin skipað fastan árlegan sess í atvinnulífinu. Í fyrstu var mestur hluti aflans sóttur á hafsvæði utan íslenskrar lögsögu en með árunum gekk síldin inn í lögsöguna og þar fékkst meginhluti aflans. Í ár hefur hinsvegar sú breyting átt sér stað að öll veiði hefur verið skammt undan landi og af nógu að taka. 
 
Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, var spurður  hvað hann teldi einkenna nýliðna síldarvertíð. „Síldarvertíðin er sérstök að því leyti að það hefur verið mjög mikið af síld hér upp við landið allan vertíðartímann. Það hefur verið gríðarlega mikið af síld að sjá og hefur veiðin að mestu farið fram í Norðfjarðardýpi, Seyðisfjarðardýpi og út af Héraðsflóa svona 30-50 mílur frá landi. Alla vertíðina hefur verið auðvelt að fá góðan afla og hafa vinnslustöðvarnar fengið úrvalshráefni til vinnslu. Það sem er sérstakt við þessa vertíð er að síldin hefur haldið kyrru fyrir á þessum slóðum. Undanfarin ár hefur hún gengið út af grunnunum 5. til 11. október og jafnvel fyrr og þá hafa skipin þurft að elta hana alla leið út í færeysku lögsöguna og Smuguna. Nú er hún hins vegar sallaróleg og hreyfir sig ekki. Það hefur sáralítið gengið út af grunnunum að undanförnu. Þetta fær mann til að velta því fyrir sér hvort síldin sé að taka upp á því að hafa hér vetursetu en og hún gerði á síldarárunum. Auðvitað vonar maður það og það yrði mikill fengur fyrir lífríkið hér austar af landinu ef svo væri,“ segir Hjörvar. 
 

Á flótta undan veðri

Vestmannaey VE. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonVestmannaey VE. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonÍsfisktogararnir Gullver NS, Bergey VE og Vestmannaey VE eru allir í höfn í dag, en veðrið hefur verið slæmt að undanförnu. Gullver kom til Seyðisfjarðar í morgun með um 45 tonn og Vestmannaey kom til Neskaupstaðar með um 20 tonn. Heimasíðan heyrði hljóðið í Birgi Þór Sverrissyni skipstjóra á Vestmannaey. „Við vorum úti í rúma tvo sólarhringa og það var sannkallað drulluveður. Vegna veðursins gekk heldur treglega að veiða en við tókum þó ein sex hol. Við byrjuðum úti í Hvalbakshalli en hröktumst síðan norður eftir undan veðrinu. Við færðum okkur líka í gær af kantinum og upp á grunnslóðina en þar var veðrið heldur skárra. Það spáir vitlausu veðri aftur í dag og á morgun þannig að það er líklega best að hafa hægt um sig. Síðan held ég að eigi að koma einhver pása. Það má alltaf eiga von á svona veðurfari á þessum árstíma og menn verða bara að sætta sig við það en við vitum að það þarf að hafa næði til að finna fiskinn,“ segir Birgir Þór.

 

 

Veitt í rysjóttri tíð

Bergey VE. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonBergey VE. Ljósm. Egill Guðni GuðnasonÍsfisktogarinn Bergey VE kom til Neskaupstaðr til löndunar í gær. Afli skipsins var um 63 tonn og var hann blandaður; þorskur, ýsa, ufsi og karfi. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði fyrst út í tíðarfarið. „Það er hægt að segja að tíðarfarið hafi verið rysjótt í veiðiferðinni og stundum reyndar skítabræla. Við létum þó veðrið aldrei stoppa okkur og það var veitt allan tímann. Við lönduðum á Djúpavogi 28. október og fórum þaðan suður í Skeiðarárdýpi þar sem við tókum ufsa og karfa. Síðan var haldið austur á Skrúðsgrunn þar sem fékkst ýsa og loks í Litladýpi þar sem veiddist þorskur. Þrátt fyrir veðrið má segja að veiðiferðin hafi gengið þokkalega. Við reiknum ekki með að halda til veiða á ný fyrr en á fimmtudag eða föstudag,“ segir Jón.

 

 

Gullver veiddi víða

Gullver NS. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í fyrrinótt með fullfermi eða rúmlega 115 tonn. Uppistaða aflans var þorskur en einnig var dálítið af ýsu og karfa. Heimasíðan ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. “ Þetta var fimm daga túr og það var veitt víða. Við vorum á Glettinganesflaki og Gerpisflaki og síðan út á Þórsbanka. Megnið af aflanum fengum við þó á Fætinum. Það var þokkalegt veður allan túrinn ef undanskilin er ein brælunótt. Það lítur hins vegar ekkert alltof vel út með veðrið núna – spáin er ekki girnileg”, segir Rúnar.

Gullver hélt á ný til veiða í gærdag.

 

 

Könnun á starfsánægju hjá Síldarvinnslunni

Könnun á starfsánægju hjá SíldarvinnslunniNú er áformað að gera könnun á meðal starfsmanna Síldarvinnslunnar í þeim tilgangi að meta starfsánægju innan fyrirtækisins og ná fram upplýsingum um styrkleika og veikleika í  vinnustaðamenningu á starfsstöðvum þess. Niðurstöðum könnunarinnar er ætlað að efla það sem  gott er og vel er gert innan fyrirtækisins og ná fram þeim þáttum sem betur mega fara. Sambærileg könnun var síðast gerð fyrir þremur árum.
 
Starfsmönnum verður sendur spurningalisti í tölvupósti á næstunni og mun einungis taka 4-6 mínútur að svara spurningunum. Mun listinn verða sendur út á íslensku, ensku og pólsku. Mikilvægt er að sem flestir svari en enginn er þó skyldugur til þess. Svörin verða ekki rekjanleg til einstakra starfsmanna. 
 
Það er Austurbrú sem annast framkvæmd og úrvinnslu könnunarinnar.

Undirflokkar