SaganStofnun Síldarvinnslunnar hf.
Síldarvinnslan hf. var stofnuð 11. desember 1957. Á stofnfundi var ákveðið að hlutafé skyldi alls vera 500 þúsund krónur og aðalhluthafi í upphafi var Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) með 60% hlutafjár. Bæjarsjóður Neskaupstaðar lagði fram 10% hlutafjárins og Dráttarbrautin hf. í Neskaupstað 6%. Aðrir hluthafar voru 32 talsins. Félagið var þegar í upphafi skilgreint sem almenningshlutafélag og skyldi tilgangur þess vera að reisa og reka síldarverksmiðju, síldarverkun og annan skyldan atvinnurekstur í Neskaupstað.

Helsta ástæðan fyrir stofnun Síldarvinnslunnar hf. var aukin síldveiði úti fyrir Austfjörðum. Eftir langt hlé hafði síldarsöltun hafist í Neskaupstað árið 1952 en það háði mjög söltuninni að engin síldarverksmiðja var á staðnum og notast þurfti við litla fiskimjölsverksmiðju SÚN til að vinna úr úrgangi frá söltunarstöðvunum. Ljóst var að ef Neskaupstaður ætti að bæta samkeppnisstöðu sína sem síldarstaður varð að reisa þar afkastamikla síldarverksmiðju. Engar líkur voru á að skortur yrði á hráefni í slíkri verksmiðju á síldarvertíðinni vegna þess að Neskaupstaður lá vel við miðunum og frá staðnum voru gerðir út á annan tug báta til síldveiða.

Áður en Síldarvinnslan var stofnuð voru nokkrar umræður um það hverjir skyldu eiga fyrirtækið og þar með hafa mest áhrif á stjórnun þess. Niðurstaða þeirrar umræðu varð sú að félagið skyldi vera opið öllum bæjarbúum og fyrirtækjum í bænum en jafnframt þótti eðlilegt að félagsskapur útvegsmanna í bænum, SÚN, ætti meirihluta í því.

Starfsemin hefst, vinnsla uppsjávarfiska
Á fundi í stjórn Síldarvinnslunnar þann 18. desember 1957 var samþykkt að félagið skyldi reisa síldarverksmiðju og var gert ráð fyrir að hún myndi geta brætt allt að 2.400 málum síldar á sólarhring. Þegar var hafist handa við að undirbúa framkvæmdir og var Vélsmiðjan Héðinn í Reykjavík fengin til að annast gerð teikninga af verksmiðjunni og tók hún einnig að sér smíði hennar. Verksmiðjuvélarnar voru keyptar notaðar frá síldarverksmiðju á Dagverðareyri við Eyjafjörð.

Í byrjun aprílmánaðar 1958 hófust framkvæmdir við byggingu síldarverksmiðjunnar og þann 17. júlí sama ár hófst móttaka síldar í verksmiðjunni. Má því með sanni segja að þessi dagur marki tímamót í sögu Síldarvinnslunnar og Neskaupstaðar. Þarna tók Síldarvinnslan á móti fyrsta hráefninu til vinnslu og þennan dag mátti byrja á því að kalla Neskaupstað síldarbæ. Á fyrsta starfsárinu tók verksmiðjan á móti liðlega 4.000 tonnum af hráefni en mest hráefni á einu ári fékk hún árið 1966 eða 107.533 tonn.

Síldarverksmiðja þessi átti eftir að skila góðum arði og leggja grunn að öflugu fyrirtæki sem Síldarvinnslan varð. Verksmiðjan var starfrækt allt þar til hún eyðilagðist í snjóflóði þann 20. desember 1974. Núverandi verksmiðja var þá reist á nýju hafnarsvæði fyrir botni Norðfjarðar og tók hún til starfa í febrúarmánuði 1976.

Á árinu 1996 var unnið að miklum endurbótum á fiskimjölsverksmiðjunni. Meðal annars voru þá settir upp nýir loftþurrkarar sem gera unnt að framleiða hágæðamjöl. Á árunum 1997-1998 voru reistir sex mjöltankar við fiskimjölsverksmiðjuna og er mjölgeymslurými nú 9000 tonn.

Fyrstu skipin keypt, útgerð hafin
Á fundi í stjórn Síldarvinnslunnar þann 2. desember 1963 var tekin ákvörðun um að fyrirtækið hæfi útgerð fiskiskipa. Samþykkt var að láta smíða tvö 264 lesta síldveiðiskip í Austur-Þýskalandi og átti útgerð skipanna að tryggja síldarverksmiðju fyrirtækisins hráefni. Ráðinn var framkvæmdastjóri útgerðarinnar seint á árinu 1964 en skipin tvö, Barði NK 120 og Bjartur NK 121, komu í fyrsta sinn til heimahafnar í mars- og maímánuði 1965. Útgerðarþátturinn gekk strax vel hjá fyrirtækinu og ekki leið á löngu þar til tvö, liðlega 300 lesta síldveiðiskip, bættust í flota Síldarvinnslunnar. Börkur NK 122 kom nýr til landsins árið 1966 og Birtingur NK 119 árið eftir, en bæði þessi skip voru smíðuð í Noregi.

Þegar veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum brugðust, á síðari hluta sjöunda áratugarins, jókst mjög áhugi á botnfisk- og loðnuveiðum hjá forsvarsmönnum Síldarvinnslunnar. Árið 1970 festi Síldarvinnslan kaup á fyrsta skuttogara Íslendinga, Barða NK 120, og gerðist brautryðjandi í útgerð slíkra skipa. Annar skuttogari, Bjartur NK 121, bættist í flota fyrirtækisins árið 1973 og sá þriðji, Birtingur NK 119, árið 1977. Síldarvinnslan tók fyrst á móti loðnu til vinnslu árið 1968 og fljótlega urðu loðnuveiðar- og vinnsla verulegur þáttur í starfsemi fyrirtækisins.

Árið 1973 festi Síldarvinnslan kaup á stóru nótaskipi, Berki NK 122, sem var fyrsta skip Íslendinga sem gat komið með yfir 1.000 lestir af loðnu að landi. Leysti það skip smærri skip félagsins af hólmi á sviði loðnuveiðanna. Árið 1981 keypti fyrirtækið síðan annað loðnuskip, Beiti NK 123, sem ári síðar var breytt þannig að það gat stundað loðnu- og botnfiskveiðar jöfnum höndum. Árið 1987 var Beiti síðan breytt þannig að unnt var að frysta afla um borð. Árið 1989 var þriðji skuttogarinn með nafninu Barði NK 120 keyptur. Barði hafði möguleika til heilfrystingar um borð, en var síðan útbúinn sem frystitogari með flökunarlínu árið árið 1996.

Síldarvinnslan keypti helmingshlut í loðnuskipinu Hilmi árið 1992 en það var selt úr landi ári síðar. Í kjölfar sölunnar á Hilmi festi fyrirtækið kaup á nýjum rækjufrystitogara, Blængi NK 117, og var hann fyrsti sérútbúni rækjufrystitogarinn sem keyptur var til Íslands. Vegna samdráttar í rækjuveiðum var Blængur seldur í árslok 1998.

Á árinu 1995 fóru fram miklar endurbætur á Beiti og var skipið þá meðal annars útbúið til flotvörpuveiða og komið fyrir kerfi til kælingar á hráefni. Í framhaldi af því ruddi Beitir brautina fyrir veiðar á loðnu í flotvörpu og eins hóf hann kolmunnaveiðar í verulegum mæli.

Í janúarmánuði árið 1998 kom Börkur til heimahafnar eftir gagngerar endurbætur. Skipið var lengt, settur á það bakki, perustefni, ný brú og allar vistarverur skipverja endurnýjaðar. Allur spilbúnaður var endurnýjaður og skipið útbúið til flotvörpuveiða ásamt því að kælikerfi var sett í allar lestar. Í marsmánuði 1999 hélt Börkur síðan til vélarskipta í Englandi. Sett var í skipið 7400 hestafla vél og með nýju vélinni var Börkur orðinn eitt öflugasta loðnu- , síldar- og kolmunnaveiðiskip íslenska flotans.

Haustið 2002 var frystitogarinn Barði seldur úr landi og í hans stað kom frystitogarinn Norma Mary (áður Snæfugl SU 20) sem Síldarvinnslan eignaðist þegar Skipaklettur hf. var sameinaður Síldarvinnslunni árið 2001. Skipið, sem var smíðað árið 1989 sem flakafrystitogari, hlaut nafnið Barði NK 120 og er gerður út sem blandað ísfisk- og frystiskip.

Framleiðslutæki SÚN keypt, bolfiskvinnsla hefst
Í ársbyrjun 1965 hófst umræða um þá hugmynd að Síldarvinnslan festi kaup á framleiðslutækjum móðurfélagsins SÚN. Mun hugmyndin um að SÚN seldi framleiðslutækin hafa komið frá bankastjórum viðskiptabanka SÚN og Síldarvinnslunnar, en þeir töldu að þróun þessara tveggja fyrirtækja hefði verið með þeim hætti að nauðsynlegt væri að Síldarvinnslan festi kaup á eignum SÚN ef tryggja ætti áframhaldandi rekstur framleiðslutækja móðurfélagsins.

Í marsmánuði 1965 var endanlega gengið frá kaupsamningi á milli SÚN og Síldarvinnslunnar og kvað hann á um að Síldarvinnslan festi kaup á frystihúsi, fiskimjölsverksmiðju, lifrarbræðslu, ísframleiðslutækjum, fiskhjöllum og helmingshlut í síldarsöltunarstöð. Þessum eignum fylgdi síðan ýmiss konar búnaður og aðstaða.

Með kaupunum á framleiðslutækjum SÚN færði Síldarvinnslan verulega út kvíarnar. Til þessa tíma hafði Síldarvinnslan einungis átt og rekið síldarverksmiðju en eftir að kaupin höfðu átt sér stað hófst fjölbreyttur fiskiðnaður á vegum fyrirtækisins.

Árið 1968 hóf Síldarvinnslan saltfiskverkun. Heppilegt húsnæði fyrir saltfisk- og skreiðarverkun var keypt árið 1973. Nú er fiskur ekki lengur verkaður í salt né skreið og húsið, sem um tíma var notað fyrir síldarsöltun, er nú nýtt sem geymsla

Í febrúarmánuði 1997 var nýtt fiskiðjuver Síldarvinnslunnar tekið í notkun. Fiskiðjuverið er 5000 fermetrar að flatarmáli og búið öllum þeim fullkomnustu tækjum sem völ er á. Í fiskiðjuverinu hófst strax frysting á uppsjávarfiskum og síldarsöltun.

Árið 2000 var byggð ný frysti- og kæligeymsla Síldarvinnslunnar við fiskiðjuver fyrirtækisins og er stærsta hús sinnar tegundar á Íslandi eða 4000 fermetrar. Er til dæmis unnt að geyma samtímis 9000 tonn af frosnum afurðum og 20000 tunnur af síld í byggingunni.

Um leið og frysti- og kæligeymslan var byggð var fiskiðjuverið stækkað og tengibygging reist á milli fiskiðjuversins og hinnar nýju frysti- og kæligeymslu. Síðsumars 2000 var hafin flökun og frysting á bolfiski í fiskiðjuverinu með nýjustu og fullkomnustu tækni. Þar með var öll fiskvinnsla Síldarvinnslunnar komin undir sama þak og er mikil hagræðing fólgin í því.

Snjóflóðin 1974 og afleiðingar þeirra
Föstudagurinn 20. desember 1974 líður Norðfirðingum seint úr minni. Þann dag féllu tvö snjóflóð innarlega í bænum og lögðu helstu framleiðlutæki bæjarbúa í rúst eða ollu á þeim stórskemmdum. Tólf manns týndu lífi í flóðunum. Fyrra flóðið féll á athafnasvæði Síldarvinnslunnar og gereyðilagði það síldarverksmiðjuna og áföst mjölgeymsluhús, auk smærri húsa og tanka sem stóðu í grennd við verksmiðjuna. Þá braut flóðið í spón tvö starfsmannahús norðan fiskvinnslustöðvarinnar og olli miklum skemmdum á fiskvinnslustöðinni. Af þeim tólf mönnum sem fórust í snjóflóðunum þennan dag voru sjö fastir starfsmenn Síldarvinnslunnar.

Tjón Síldarvinnslunnar af völdum þessara náttúruhamfara var gífurlegt og þrátt fyrir fögur fyrirheit fór því fjarri að Viðlagasjóður bætti það að fullu. Strax eftir snjóflóðin var hafist handa við að tryggja að hjól atvinnulífsins færu að snúast á ný. Niðurlagningaverksmiðja Síldarvinnslunnar var gangsett en vinnsla í henni hafði hafist á árinu 1971. Allur togara- og bátafiskur var saltaður og þann 20. mars 1975 var hægt að hefja vinnslu í frystihúsinu á ný. Strax eftir snjóflóðin var ljóst að engin loðnuvinnsla yrði í Neskaupstað á árinu 1975 og snör handtök þyrfti að hafa ef slík vinnsla ætti að fara fram á loðnuvertíðinni 1976.

Á fundi í stjórn Síldarvinnslunnar þann 4. janúar 1975 var ákveðið að endurreisa ekki verksmiðjuna á þeim stað sem hún hafði verið heldur byggja nýja loðnu- og síldarverksmiðju við nýju höfnina fyrir botni fjarðarins. Hafnarsvæðið þurfti að skipuleggja, hanna verksmiðju og gera þá uppfyllingu sem verksmiðjan yrði reist á en allir þessir þættir gengu fljótt og vel fyrir sig. Í júlímánuði hófust framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar og þann 12. febrúar 1976 var fyrstu loðnunni landað til vinnslu í henni. Þegar vélar nýju verksmiðjunnar tóku að snúast þann 19. febrúar þótti starfsfólki Síldarvinnslunnar og Norðfirðingum öllum mikill sigur unninn enda var þá fyrst hægt að segja að atvinnulíf staðarins væri komið í eðlilegt horf eftir snjóflóðin.

Framkvæmda- og forstjórar Síldarvinnslunnar
Þegar hafin var bygging síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar árið 1958 var Jón Svan Sigurðsson ráðinn framkvæmdastjóri byggingarframkvæmdanna, en hann gegndi jafnframt starfi framkvæmdastjóra Bæjarútgerðar Neskaupstaðar á þessum tíma.

Þegar síldarverksmiðjan hóf framleiðslu sumarið 1958 var ákveðið að Samvinnufélag útgerðarmanna (SÚN) tæki að sér að annast framkvæmdastjórn fyrir Síldarvinnsluna fyrst um sinn. Þar með varð framkvæmdastjóri SÚN, Jóhannes Stefánsson, jafnframt framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Árið 1960 varð að ráði að SÚN hætti að annast framkvæmdastjórn fyrir Síldarvinnsluna og var þá Hermann Lárusson ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Þegar Síldarvinnslan festi síðan kaup á framleiðslutækjum SÚN árið 1965 var Jóhannes Stefánsson ráðinn til að gegna starfi framkvæmdastjóra fiskvinnslustöðvar og síldarsöltunarstöðvar.

Þeir Hermann Lárusson og Jóhannes Stefánsson létu báðir af framkvæmdastjórastörfum árið 1968 en í stað þeirra var ráðinn Ólafur Gunnarsson. Ólafur var framkvæmdastjóri til ársins 1984 en þá tók Guðjón Smári Agnarsson við starfinu og sinnti því til ársins 1986.

Þann 1. júlí árið 1986 tók Finnbogi Jónsson við stjórn fyrirtækisins og gegndi hann starfi forstjóra Síldarvinnslunnar til 1. febrúar 1999.

Björgólfur Jóhannsson tók við starfi forstjóra þann 1. febrúar 1999 og gegndi því  til ársloka 2005 og vantaði því einn mánuð uppá sjö ár í starfi.
Hann  starfar nú sem  framkvæmdastjóri hjá Icelandic Group, áður Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna.

Aðalsteinn Helgason kom til starfa sem framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar þann 1. janúar 2006. Aðalsteinn hefur um margra ára skeið sinnt stjórnunarstörfum hjá Samherja hf m.a. sem framkvæmdastjóri Strýtu og síðar landvinnslu Samherja hf.


Þátttaka Síldarvinnslunnar í fiskeldi
Síldarvinnslan hóf þátttöku í fiskeldi á árinu 2001, en líklegt er að fiskeldi verði verulegur þáttur í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja í nánustu framtíð. Síldarvinnslan á stóran hlut í Sæsilfri hf. sem starfrækir sjókvíaeldi á laxi í Mjóafirði, en ráðgert er að ársframleiðsla Sæsilfurs verði 8000 tonn af slægðum laxi. Í tengslum við laxeldi Sæsilfurs hóf Síldarvinnslan starfrækslu laxasláturhúss í Neskaupstað og var fyrsta laxinum þar slátrað haustið 2002.

Síldarvinnslan hóf söfnun á þorski á haustmánuðum 2001 sem settur var í kvíar í Norðfirði. Þar er nú stundað áframeldi á þorski í Norðfirði og hefur Síldarvinnslan heimild til að ala 2000 tonn af þorski.

Árið 2001 stofnaði Síldarvinnslan Hlýra ehf. í samvinnu við Nýsköpunarsjóð, Hönnun hf. og Fjárfestingafélag Austurlands. Hlýri ehf. stundar tilraunaeldi á hlýra í húsnæði því sem áður hýsti hraðfrystihús Síldarvinnslunnar.

Síldarvinnslan keypti meirihluta hlutabréfa í fiskeldisfóðurfyrirtækinu Laxá á Akureyri af Kaldbaki hf. árið 2002. Laxá er stærsti framleiðandi á fiskeldisfóðri hérlendis og hefur framleitt fóður til fiskeldis fá því árið 1987.

Eignarhlutdeild í öðrum félögum
Allt frá árinu 1965 hefur Síldarvinnslan verið í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (SH) og Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda (SÍF) en áður hafði Sún verið í þessum samtökum. Síldarvinnslan var hluthafi í báðum félögunum en hefur nú selt það hlutafé.

Árið 1972 tók Síldarvinnslan að sér rekstur Dráttarbrautarinnar í Neskaupstað. Fyrirtækið starfrækti vélaverkstæði, bílaverkstæði og bátasmíðastöð auk dráttarbrautar. Í ársbyrjun 1981 tók SVN svo allar eigur DBN á leigu og árið 1990 var Dráttarbrautin hf. sameinuð Síldarvinnslunni.

Árið 1992 stofnaði Síldarvinnslan í samvinnu við Seyðfirðinga Birting hf. um rekstur togarans Birtings sem félagið keypti af Síldarvinnslunni. Gerði félagið togarann út um tíma en seldi hann úr landi síðla árs 1992. Félagið hefur ekki haft neinn rekstur frá þeim tíma en á eignir í formi kvóta sem eigendurnir hafa nýtt. Hlutafélaginu var slitið 1998.

Á árinu 1992 keypti Síldarvinnslan helming hlutafjár í útgerðarfélaginu Hilmi hf. Hilmir hf. gerði út loðnuskipið Hilmi en ákvörðun var tekin árið 1993 að selja það úr landi. Síldarvinnslan yfirtók stærstan hluta af þeim fiskveiðiheimildum sem Hilmir hf. átti og um áramótin 1967 og 1977 var samstarfinu um félagið formlega slitið.

Árið 1996 festi Síldarvinnslan kaup á þriðjungi hlutafjár í Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar hf. sem rekur alhliða veiðarfæraþjónustu í Neskaupstað og Akureyri.

Síldarvinnslan gerðist hluthafi á móti Hafnarsjóði Neskaupstaðar í Vindheimum ehf., hlutafélagi um rekstur ísstöðvar í Neskaupstað, en stöðin var tekin í notkun í ársbyrjun 1997. Síldarvinnslan eignaðist síðar allt hlutafé í félaginu.

Á árinu 1998 festi Síldarvinnslan kaup á fjórðungshlut í Skagstrendingi hf. Markmiðið með kaupunum var að efla grunn Síldarvinnslunnar í bolfiskveiðum og vinnslu en Skagstrendingur hefur mjög einbeitt sér að þeirri grein ásamt því að starfrækja rækjuvinnslu á Skagaströnd. Síldarvinnslan seldi allt sitti hlutafé í Skagstrendingi aftur árið 2000.

Árið 1999 stofnaði Síldarvinnslan fyrirtækið Barðsnes ehf. ásamt Kaupfélagi Eyfirðinga og Hömlum hf. Starfsemi Barðsness fólst í útgerð loðnuskipsins Birtings NK 119 og reksturs loðnu- og fiskimjölsverksmiðju í Sandgerði. Síldarvinnslan eignaðist hlut KEA/Kaldbaks árið 2002 og var Barðsnes sameinað Síldarvinnslunni sama ár.

Í samvinnu við Samherja, SR-mjöl og EFA, stofnaði Síldarvinnslan, á árinu 2000, Úthafssjávarfang ehf., Atlantic Coast Fisheries, sem staðsett er í New Bedford á austurströnd Bandaríkjanna. Tilgangur félagsins er rekstur erlendis á sviði útgerðar, landvinnslu og sölu sjávarafurða og er megináherslan lögð á uppsjávarfiska.

Á árinu 2001 stofnuðu Síldarvinnslan og Samherji, Sæblikann ehf. Tilgangur Sæblikans er að annast sölu á öllum frystum og söltuðum afurðum úr uppsjávarfiski sem framleiddar eru af fyrirtækjunum tveimur.

Síldarvinnslan og Skipaklettur á Reyðarfirði voru sameinuð undir heiti Síldarvinnslunnar á árinu 2001. Tilgangurinn með sameiningunni var að efla sjávarútveg í Fjarðabyggð og ná fram hagræðingu í rekstri með betri nýtingu á fjárfestingum í veiðum og vinnslu. Frystitogari Skipakletts, Snæfugl SU 20, var leigður en kvóti skipsins nýttur af skipum Síldarvinnslunnar. Þegar frystitogarinn Barði NK 120 var seldur haustið 2002 hóf Síldarvinnslan að nýta togarann sem hafði verið í eigu Skipakletts.

Síldarvinnslan keypti tæplega helmingshlut í KK-matvælum ehf. á Reyðarfirði á árinu 2001. KK-matvæli framleiða ýmiss konar matvörur og var litið á þátttöku í félaginu sem möguleika að koma fullunnum síldarafurðum á markað innanlands og erlendis.

Sumarið 2001 hóf fiskeldisfyrirtækið Sæsilfur hf. laxeldi í Mjóafirði en Síldarvinnslan á verulegan hlut í fyrirtækinu. Þá á Síldarvinnslan hlut í Hlýra ehf. sem stundar tilraunaeldi á hlýra í Neskaupstað. Vegna áforma Síldarvinnsunar að hasla sér völl á sviði fiskeldis keypti það ríflega helmingshlut í fiskeldisfóðurfyrirtækinu Laxá á Akureyri á árinu 2002.

Í nóvember 2002 leigði Síldarvinnslan G.Skúlasyni ehf. rekstur vélaverkstæðis síns, sem um árabil hafði verið rekið sem ein af stoðdeildum félagsins. Í kjölfarið keypti Síldarvinnslan fjórðungs hlut í G.Skúlasyni.

Í árslok 2002 eignaðist Síldarvinnslan ríflega helmingshlut í Eignarhaldsfélagi Austurlands hf. Félagið tekur þátt í stofnun og starfsemi annarra félaga sem fela í sér nýmæli í atvinnulífi og eru mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs og atvinnuþróun á tilteknum svæðum.

Síldarvinnslan hefur átt nokkurn hlut í SR-mjöli hf. frá stofnun þess, en vorið 2002 jók Síldarvinnslan eignarhlut sinn verulega og áttu Síldarvinnslan og Samherji þá ráðandi hlut í SR-mjöli. Síldarvinnslan og SR-mjöl voru sameinuð í eitt félag 1. janúar 2003, undir nafni Síldarvinnslunnar, og til varð stærsta fyrirtæki á Íslandi í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski. Við sameininguna eignaðist Síldarvinnslan hlutdeild í eftirfarandi félögum:

Garðar Guðmundsson hf. á Ólafsfirði (59%). Gerir út nóta- og togveiðiskipið Guðmund Ólaf ÓF 91.
Huginn hf. í Vestmannaeyjum (46%). Gerir út nóta- og togveiðiskipið Huginn VE 55.
Runólfur Hallfreðsson ehf. á Akranesi (38%). Gerir út nóta- og togveiðiskipið Bjarna Ólafsson AK 70.
Langanes hf. á Húsavík (37%). Gerir út nóta- og togveiðiskipið Björgu Jónsdóttur ÞH 321.
Þingey ehf. á Hornafirði (50%). Rekstrarfélag um nóta- og togveiðiskipið Ásgrím Halldórsson SF 250. Skeggey ehf. á Hornafirði er dótturfélag Þingeyjar og á fiskimjölsverksmiðju á Hornafirði.
East Greenland Codfish AS á Grænlandi (25%). Gerir út nótaskipið Siku og hefur til umráða um þriðjung af grænlenska loðnukvótanum.

Vorið 2003 stofnaði Síldarvinnslan nýtt félag, SR-mjöl hf., í samvinnu við Samherja og Hraðfrystistöð Þórshafnar. Þetta félag sér um sölumál er snúa að mjöli og lýsi fyrir Síldarvinnsluna og fleiri fyrirtæki.

Síldarvinnslan á eignarhluti í nokkrum öðrum félögum og þar á meðal eru Ísgata hf., Loðnuvinnslan hf., Tryggingamiðstöðin hf., Fjárfestingarfélag Austurlands hf., Íslenska járnblendifélagið hf. og Olíuverslun Íslands hf.

Hlutabréf á markað
Fram til ársins 1990 hafði hlutafé Síldarvinnslunnar ekki verið aukið með innborgunum sem neinu nemur allt frá upphafi. Hlutaféð hafði hins vegar verið tvöfaldað einu sinni og hundraðfaldað einu sinni með útgáfu jöfnunarhlutabréfa.

Haustið 1990 var ákveðið að jafna hlutaféð sextíufalt þannig að hlutafé yrði 60 milljónir króna að þeirri jöfnun lokinni. Einnig var samþykkt að bjóða út nýtt hlutafé að nafnvirði 40 milljónir króna. Samþykkti stjórn félagsins jafnframt að viðskipti með hlutabréf fyrirtækisins færu fram á Opna tilboðsmarkaðnum.

Frá þessum tíma hefur hlutafé verið aukið nokkrum sinnum með útgáfu jöfnunarhlutabréfa og eins hafa nýir hlutir verið seldir. Þann 12. október árið 1994 var Síldarvinnslan skráð á Verðbréfaþingi Íslands og hafa viðskipti með hlutabréf fyrirtækisins síðan farið fram á þinginu.

Hlutafé Síldarvinnslunnar í árslok 2002 var 1172 milljónir króna, en hluthafar í árslok 2002 voru 523. Skráð hlutafé Síldarvinnslunnar eftir sameiningu við SR-mjöl er 1700 milljónir króna.

Eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum
Síldarvinnslan er í dag eitt af stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og byggir starfsemin á yfir 40 ára reynslu í fiskvinnslu og útgerð. Fyrirtækið er það stærsla á Íslandi í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski. Starfsemi Síldarvinnslunnar og hlutdeildarfélaga er í dag á 13 stöðum á landinu, auk Bandaríkjanna og Grænlands. Hjá Síldarvinnslunni starfa um 420 manns og ársvelta fyrirtækisins árið 2003 er 10-11 milljarðar króna.
{nomultithumb}