Veiðar og vinnsla á makríl

Makrílvinnsla gengur vel. Ljósm. Sylvía Kolbrá HákonardóttirMakrílvinnsla gengur vel. Ljósm. Sylvía Kolbrá HákonardóttirMakrílvertíðin hófst hjá Síldarvinnslunni um 10. júlí. Um verslunarmannahelgina hafði 9.383 tonnum verið landað til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og kemur sá afli af þremur skipum; Berki NK, Beiti NK og Bjarna Ólafssyni AK. Þá höfðu frystiskipin Kristina EA og Hákon EA landað um 3.500 tonnum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar fyrir helgina.
 
Um helgina gengu veiðar vel og kom Börkur með 600 tonn til löndunar í gær. Beitir er að leggja af stað í land þegar þetta er ritað með 850 tonn. Bjarni Ólafsson er á miðunum. Frystiskipið Vilhelm Þorsteinsson landaði  500 tonnum í gær og Kristina er að landa  rúmlega 2.000 tonnum í dag.
 

Vaðandi makríll í stórum flekum á Papagrunni

                

Þegar Beitir NK var á landleið í gærmorgun með 500 tonn af makríl urðu skipverjar varir við vaðandi makríl í stórum flekum utarlega á Papagrunni. Tómas Kárason skipstjóri tók myndband af makríltorfunum og fylgir það hér með. Tómas sagðist varla hafa séð jafn mikið af vaðandi makríl og þarna. „Það var glæsilegt að fylgjast með þessu og það var erfitt að sigla framhjá öllum þessum fiski með einungis 500 tonn um borð. Það var svo sannarlega freistandi að hefja veiðar á ný, en það var ekki hægt vegna þess að hjá okkur snýst allt um vinnslugetuna og að skapa sem mest verðmæti úr þeim afla sem komið er með að landi,“ sagði Tómas. „Makríllinn virtist vera á hraðri leið í austur- og norðausturátt þegar við áttum leið þarna um. Það var svo sannarlega gaman að upplifa þetta,“ sagði Tómas að lokum.

Blængur kemur til heimahafnar í fyrsta sinn

Blængur NK siglir inn Norðfjörð í fyrsta sinn. Ljósm. Guðlaugur BirgissonBlængur NK siglir inn Norðfjörð í fyrsta sinn. Ljósm. Guðlaugur BirgissonÍ gær kom frystitogarinn Blængur NK (áður Freri RE) í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu fyrr í sumar og hélt það til veiða frá Reykjavík hinn 10. júlí. Veitt var á Halanum og var aflinn í þessari fyrstu veiðiferð rúmlega 300 tonn upp úr sjó, en meginhluti aflans var ufsi. Skipstjóri í veiðiferðinni var Sigtryggur Gíslason en hann er skipstjóri á Kaldbak, sem er systurskip Blængs. Bjarni Ólafur Hjálmarsson var fyrsti stýrimaður í veiðiferðinni en hann tekur nú við sem skipstjóri á Blængi.
 
Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf í morgun og sagði hann að Blængur væri afar gott sjóskip sem færi vel með áhöfnina. „Þá er hann einnig afar öflugt skip, en vélbúnaður allur er mjög góður og við notuðum einungis 50-60% af vélaraflinu þegar togað var í þessari fyrstu veiðiferð,“ sagði Bjarni Ólafur. „Þessi fyrsta veiðiferð veitti okkur dýrmæta reynslu en ljóst er að ýmislegt þarf að lagfæra um borð í skipinu og þá einkum á vinnsludekkinu. Það liggur skýrt fyrir að það er hægt að fiska mikið á þetta skip og þá skiptir máli að vinnslan um borð gangi vel,“ sagði Bjarni.
 
Blængur tekur drjúgt pláss í höfninni, enda skipið 79 metra langt. Skipið var lengt og vélbúnaður þess endurnýjaður árið 2000 auk þess frystilestin var endurnýjuð. Blængur er 1723 tonn að stærð og eru 26 menn í áhöfn skipsins.
 
Ráðgert er að Blængur haldi til veiða á ný nk. fimmtudagskvöld.

Dramatískur fréttaflutningur

Birtingur NK-119Birtingur NK-124Eins og komið hefur fram á heimasíðunni var ráðgert að Birtingur NK héldi til makrílrannsókna við Grænland og áttu rannsóknirnar að hefjast  hinn 28. júlí. Skipið hélt fyrst til Reykjavíkur en á leiðinni þaðan kom upp bilun í vél þess. Draga þurfti skipið til Reykjavíkur og þegar þangað var komið hófst strax viðgerð á vélinni. Í gær bárust síðan dramatískar fréttir um eld í skipinu og að það væri við það að sökkva í Reykjavíkurhöfn. Vegna þessara frétta vill Síldarvinnslan koma eftirfarandi á framfæri:
 
  • Á meðan unnið var að viðgerðinni var dælt sjó úr lestum skipsins í þeim tilgangi að halda því réttu við bryggjuna. Of mikill sjór varð hins vegar eftir stjórnborðsmegin og tók skipið að halla þegar fjaraði undan því. 
  • Þegar hallinn var orðinn töluverður átti að hefja dælingu til að rétta skipið en þá tóku dælurnar loft og virkuðu ekki. Vegna hallans tók ljósavélin að brenna smurolíu og reykti því mikið.
  • Haft var samband við hafnaryfirvöld og sendu þau hafnsögubát til að halda við skipið og einnig var komið með slöngur úr landi til að dæla vatni um borð.
  • Um það leyti sem dæling hefst kom lögregla og slökkvilið en einhver óviðkomandi hafði tilkynnt að eldur væri laus í Birtingi. Ástæða tilkynningarinnar er eflaust reykurinn sem kom frá ljósavélinni.
  • Þegar ljóst var að ekki var um eldsvoða að ræða bauð slökkviliðið fram aðstoð sína og hóf að dæla sjó í lestar skipsins í þeim tilgangi að rétta það sem fyrst. Fljótlega var síðan unnt að nota dælur skipsins.
  • Engin hætta var á ferðum þó svo að skipið hallaði verulega en beðið var um aðstoð hafnaryfirvalda í öryggisskyni.
  • Athyglisvert er að fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um þetta mál með dramatískum hætti en enginn þeirra hefur haft samband við skipstjórann á Birtingi né aðra úr áhöfn skipsins. Einungis einn fjölmiðill, Ríkisútvarpið, hafði samband við framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar vegna málsins.
 
Þegar óhöpp sem þessi eiga sér stað er mikilvægt að fréttaflutningur af þeim sé vandaður og yfirvegaður en ekki séu búnar til dramatískar fréttir að ástæðulausu. Þá er grundvallaratriði að fjölmiðlar afli sér haldgóðra upplýsinga áður en frétt er send út.
 
Síldarvinnslan vill þakka öllum þeim sem veittu Birtingsmönnum aðstoð í þessu óhappi í Reykjavíkurhöfn. Sérstaklega skal þökkum komið á framfæri við hafnaryfirvöld og slökkvilið.