Rauðátan til rannsóknar


Stefán Þór Eysteinsson leiðbeinir nemendum Sjávarútvegsskólans í Matís í Neskaupstað. Ljósm. Elvar Ingi ÞorsteinssonStefán Þór Eysteinsson leiðbeinir nemendum Sjávarútvegsskólans í Matís í Neskaupstað. Ljósm. Elvar Ingi Þorsteinsson
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Stefán Þór Eysteinsson, sérfræðingur hjá Matís í Neskaupstað, er um þessar mundir að hefja rannsóknir á rauðátu. Rannsóknaverkefnið er jafnframt doktorsverkefni Stefáns. Tilgangur verkefnisins er margþættur; í fyrsta lagi verður skaðsemi rauðátu við manneldisvinnslu uppsjávartegunda metin og eins  verður kannað hvernig best er að stýra vinnslunni og geyma afurðirnar þegar áta er í fiskinum. Einnig verður lögð áhersla á að rannsaka áhrif rauðátu á mjöl- og lýsisvinnslu. Loks verða eiginleikar átunnar skoðaðir og kannað hvort og hvernig megi nýta hana. Norðmenn hafa verið að veiða rauðátu í tilraunaskyni og hafa þeir unnið úr henni olíu til manneldis. Olían hefur reynst hafa ýmsa jákvæða eiginleika, meðal annars er hún rík af omega 3 fitusýrum.
 
Að sögn Stefáns mun hráefni til verkefnisins fást í Neskaupstað og á Höfn en Síldarvinnslan og Skinney-Þinganes taka virkan þátt í því. Að auki munu Háskóli Íslands, Hafrannsóknastofnun, Matís og DTU-aqua eiga aðild að verkefninu, en DTU-aqua er danskur háskóli. Stefán upplýsir að gert sé ráð fyrir að verkefnið taki að lágmarki þrjú ár og kostnaðaráætlun fyrir það hljóði upp á 52 milljónir króna.
 
Stefán hefur fengið góða styrki til verkefnisins en stærsti styrkurinn er svonefndur Sigurjónsstyrkur úr Rannsóknasjóði síldarútvegsins. Sá styrkur er fimm milljónir króna á ári í þrjú ár eða samtals 15 milljónir. Þessi styrkur er kenndur við Norðfirðinginn Sigurjón Arason, prófessor og yfirverkfræðing hjá Matís, en Sigurjón hefur haft forystu um ýmsar rannsóknir og þróun á sviði vinnslu sjávarafurða sl. 30 ár, sem skilað hafa miklum ábata fyrir íslenskt samfélag.
 
Stefán segir að rauðáturannsóknirnar séu afar spennandi verkefni  og hann voni svo sannarlega að niðurstöðurnar hjálpi til við að ráða við þau vandamál sem átan hefur í för með sér við vinnslu á uppsjávarfiski.
 

Góður makrílafli fyrir austan

Börkur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonVeiðar makrílskipanna sem landa til vinnslu í Neskaupstað hafa gengið vel að undanförnu. Skipin eru að veiðum út af Austfjörðum en stundum er afli þeirra síldarblandaður. Á laugardag var lokið við að landa um 1000 tonnum úr Berki NK og í gær lauk löndun úr Bjarna Ólafssyni AK sem var með 800 tonn. Í kjölfar þeirra kom Beitir NK til löndunar  með 675 tonn. Vinnslan í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hefur gengið afar vel eftir að makrílveiðar hófust og hefur starfsfólkið staðið sig með einstakri prýði. Ráðgert er að loka fiskiðjuverinu yfir verslunarmannahelgina og fær starfsfólkið þá vel þegið frí.
 
Börkur NK er nú að veiðum í Berufjarðarál og sagði Sturla Þórðarson skipstjóri að þessa stundina væri ekki mikið að sjá. „Þetta hefur verið heldur rólegt. Við erum að dæla núna og ég vonast til að við verðum komnir með 600 tonn þegar því er lokið. Þennan afla höfum við þá fengið í þremur holum. Við keyrðum í alla nótt og leituðum og köstuðum síðan í morgun. Við höfum frétt af smærri bátum sem hafa verið að fá makríl á Lónsbugtinni miklu nær landi eða á 12 mílunum. Það er víða makríll en stundum þarf að hafa fyrir því að finna hann í verulegu magni,“ sagði Sturla.

Nýtt „kalt kar“

Starfsmenn sundlaugarinnar, Martin Sindri Rosenthal og Bergvin Haraldsson, við nýja kaldavatnskarið. Ljósm. Hákon ErnusonStarfsmenn sundlaugarinnar, Martin Sindri Rosenthal og Bergvin Haraldsson, við nýja kaldavatnskarið. Ljósm. Hákon ErnusonSíldarvinnslan færði sundlauginni í Neskaupstað nýtt kaldavatnskar á dögunum. Gamla karið var farið að láta á sjá og þörf á endurnýjun. Nýja karið er rautt og flott og tóku starfsmenn sundlaugarinnar því fagnandi.
 
Að sögn Sigurjóns Egilssonar, forstöðumanns íþróttamannvirkja í Neskaupstað, eru kaldavatnskör á borð við þetta í mörgum sundlaugum á landinu. „Allir aldurshópar virðast nota kalda karið, einkum íþróttamenn en einnig aðrir,“ sagði Sigurjón. „Sú regla gildir þó hér að börn yngri en 14 ára fara ekki í kalda karið. Þegar slíkt kar er ekki til staðar er mikið um það spurt og það gera jafnt íþróttamenn sem  eldri borgarar þannig að þá sjáum við hve vinsæl þessi þjónusta er. Menn trúa því að það sé hollt og gott að fara í heitan pott og kalda karið til skiptis, en mælt er með að menn séu örstutt ofan í kalda karinu, kannski 20-40 sekúndur. Það er afar gott fyrir okkur að vera búin að fá nýtt kar fyrir kalda vatnið og við kunnum Síldarvinnslunni bestu þakkir fyrir gjöfina,“ sagði Sigurjón að lokum.

Sjávarútvegsskóli Austurlands á Seyðisfirði

SeydisEGS skoli

Nemendur Sjávarútvegsskólans á Seyðisfirði í vettvangsheimsókn um borð í Bjarna Ólafssyni AK. Ljósm: Sylvía Kolbrá Hákonardóttir

Kennslu í Sjávarútvegsskóla Austurlands á Seyðisfirði lauk í gær en þar sóttu skólann nemendur frá Fljótsdalshéraði auk Seyðfirðinga. Kennslan á Seyðisfirði er fjórða námslota skólans í sumar en áður hefur verið kennt í Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði.

                  Að sögn kennara skólans gekk kennslan á Seyðisfirði vel og voru nemendur áhugasamir og duglegir. Á lokadegi kennslulotunnar var haldið með nemendur í vettvangsferð til til Neskaupstaðar og Eskifjarðar þar sem farið var í heimsókn í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og netagerð Egersund. Áður höfðu nemendur kynnt sér starfsemi fiskvinnslu Gullbergs og fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.

                  Áformað var að hefja næstu kennslulotu á Vopnafirði í næstu viku en henni hefur verið frestað fram í ágústmánuð og verður nánar auglýst síðar. Greint verður frá áframhaldi starfsemi Sjávarútvegsskólans á heimasíðu hans www.sjavarskoli.net.