Sjávarútvegsskóli Austurlands á Fáskrúðsfirði

 Sjávarskóli

Sjávarútvegsskólinn í heimsókn í Neskaupstað. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Sl.  föstudag lauk kennslu í Sjávarútvegsskóla Austurlands á Fáskrúðsfirði en í nemendahópnum þar voru ungmenni frá Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Þar með er kennslu á vegum Sjávarútvegsskólans lokið í Fjarðabyggð þetta árið en áður hefur nemendahópum verið kennt í Neskaupstað og á Eskifirði.

                  Samkvæmt venju var nemendum á Fáskrúðsfirði boðið upp á fyrirlestra um sögu fiskveiða og fiskvinnslu og einnig um gæða- og markaðsmál. Nemendur fóru í vettvangsheimsóknir t.d. í bolfiskvinnslu Loðnuvinnslunnar og einnig um borð í skip fyrirtækisins. Þá var fiskimjölsverksmiðja Eskju heimsótt og einnig fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Í Neskaupstað var tekið á móti hópnum í Verkmenntaskóla Austurlands þar sem frætt var um hin fjölbreyttu störf í sjávarútvegi og hvaða menntunar störfin krefðust og eins var rannsóknastofa Matís heimsótt.

                  Að sögn kennaranna var Fáskrúðsfjarðarhópurinn einkar áhugasamur og stóð sig vel í náminu. Nú er hafinn undirbúningur fyrir næstu kennslulotu skólans en hún mun fara fram á Seyðisfirði í næstu viku. Nemendum frá Fljótsdalshéraði verður boðinn frír akstur til að sækja kennslu á Seyðisfirði. Enn er unnt að skrá sig á heimasíðu skólans, www.sjavarskoli.net.

Guðmundur Bjarnason er fallinn frá

1652

Guðmundur Bjarnason í brúnni á Berki NK í ágústmánuði sl. ljósm: Smári Geirsson

Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri í Neskaupstað og síðar í Fjarðabyggð, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað sl. laugardag eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Guðmundur var fæddur í Neskaupstað 17. júlí 1949 og var búsettur í fæðingarbænum allt sitt líf. Eftirlifandi eiginkona hans er Klara Ívarsdóttir og átti hann tvö stjúpbörn.

Guðmundur gegndi fjölþættum störfum um ævina og var kjörinn til setu í fjölmörgum stjórnum og ráðum. Árið 1977 hóf hann störf sem starfsmannastjóri Síldarvinnslunni og því starfi sinnti hann til ársins 1991, en þá settist hann í stól bæjarstjóra í Neskaupstað. Á árunum 1991-2005 sat hann síðan í stjórn Síldarvinnslunnar.

Ávallt fylgdist Guðmundur vel með því sem átti sér stað á vettvangi Síldarvinnslunnar og fagnaði innilega hverju framfaraskrefi sem tekið var. Forsvarsmenn fyrirtækisins leituðu einnig oft til hans og fengu hjá honum álit eða ráð þegar ástæða þótti til. Guðmundur gerði sér fullkomlega grein fyrir því að hagur sveitarfélagsins og íbúanna réðst af gengi atvinnulífsins og áhugi hans á málefnum Síldarvinnslunnar var svo sannarlega ótvíræður.

Síldarvinnslan vill þakka Guðmundi fyrir frábær störf og gott samstarf. Það er skarð fyrir skildi þegar hann er horfinn af vettvangi, en minningin um góðan dreng mun ávallt lifa.  

Makrílvertíðin hafin

Börkur NK kemur til löndunar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kemur til löndunar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kom með fyrsta makrílaflann á vertíðinni til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað sl. föstudag. Afli skipsins var 540 tonn sem fékkst í fjórum holum suðaustur af Vestmannaeyjum. Bjarni Ólafsson AK kom síðan með 300 tonn til vinnslu á sunnudagsmorgun.
 
Börkur NK er á landleið með 545 tonn og Beitir NK einnig, en afli hans er um 600 tonn. Skipin hafa verið að veiðum bæði  vestan og austan við Vestmannaeyjar.
 
Vinnslan í fiskiðjuverinu hefur farið vel af stað og mun væntanlega fljótlega komast góður taktur í vertíðina.

Makríl- og síldarvertíð Síldarvinnslunnar að hefjast

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonNú er unnið að því að undirbúa fiskiðjuver og fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað fyrir væntanlega síldar- og makrílvertíð. Fyrir komandi vertíð er búið að ráða hátt í 50 sumarstarfsmenn á vaktir í fiskiðjuverinu. 
 
Beitir NK lagði úr höfn á miðnætti í gær og hóf leit í Rósagarðinum og mun líklega hefja veiðar síðar í dag. Þá hafa heyrst fregnir af góðri makrílveiði austan og vestan við Vestmannaeyjar. 
Ráðgert er að Börkur NK fari út annað kvöld og að vaktir í fiskiðjuverinu gætu hafist um helgina.