Freri RE 73 verður Blængur NK 125

Hinn nýji Blængur NK-125. Ljósm. Árni SæbergHinn nýji Blængur NK-125. Ljósm. Árni SæbergSíldarvinnslan hf. hefur fest kaup á frystitogaranum Frera af Ögurvík hf.  Freri hét upphaflega Ingólfur Arnarsson og var smíðaður í skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S.A. á Spáni. Skipið kom nýtt til landsins í janúarmánuði 1974. Það var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur til ársins 1985 en þá festi Ögurvík hf. kaup á því. Þegar Ögurvík eignaðist skipið var því breytt í frystiskip. Árið 2000 voru umfangsmiklar breytingar gerðar á skipinu en þá var það meðal annars lengt um 10 metra og aðalvél þess endurnýjuð ásamt öðrum vélbúnaði. Einnig var vinnslulínan og frystilest endurnýjuð. Skipið er 79 metra langt og búið 5000 hestafla aðalvél af gerðinni Wartsila. Það er 1723 tonn að stærð.
 
Hinn nýi Blængur mun halda til veiða í íslenskri lögsögu í næstu viku. Skipstjóri í fyrstu veiðiferðinni verður Sigtryggur Gíslason.

Bjartur landaði á Seyðisfirði en Gullver er kominn í frí

 

Bjartur juli 2014 HV

Bjartur NK. Ljósm: Hákon Ernuson

Ísfisktogarinn Bjartur landaði 58 tonnum á Seyðisfirði í gærmorgun. Aflinn fór til vinnslu í fiskvinnslustöð Gullbergs. Um var að ræða blandaðan afla; þorsk, karfa og ufsa. Að sögn Jóhanns Arnar Jóhannssonar skipstjóra er heldur dauft yfir fiskiríi hér eystra um þessar mundir en áhersla var lögð á að veiða ufsa í veiðiferðinni. „Það er lítinn ufsa að hafa á okkar hefðbundnu slóðum hér eystra,“ sagði Jóhann. „Við vorum í Berufjarðarál og á Þórsbanka og ufsinn lét varla sjá sig þarna.“

Gert er ráð fyrir að Bjartur haldi til veiða á ný í kvöld og þá verði farið vestur fyrir land í þeirri von að ufsinn gefi sig þar. Ráðgert er að skipið taki tvo ufsatúra en síðan fari áhöfnin í frí.

Ísfisktogarinn Gullver landaði á Seyðisfirði á föstudag og er áhöfn hans komin í vel þegið sumarfrí. Starfsmenn fiskvinnslustöðvar Gullbergs munu síðan hefja sitt sumarfrí  næstkomandi föstudag og mun vinnsla þar ekki hefjast á ný fyrr en eftir verslunarmannahelgi.

Makrílvertíð undirbúin

 DSC03050A

                                   Iðnaðarmaður að störfum í Berki NK.    Ljósm. Hákon Ernuson

 

                Þessa dagana er unnið að ýmsum lagfæringum og umbótum fyrir makrílvertíðina. Á Berki er unnið að því að koma upp búnaði til að dæla afla frá afturskipi og á Beiti er ýmsum viðhaldsverkefnum sinnt. Þá er unnið að umbótum og lagfæringum í fiskiðjuverinu en þar eru jafnframt hafnar af krafti framkvæmdir við 1000 fermetra viðbyggingu. Vegna þessara verkefna hefur þurft að fá til Neskaupstaðar iðnaðarmenn í verulegum mæli og meðal annars starfa fimm rúmenskir járniðnaðarmenn um borð í Berki .

                Áformað er að skipin haldi til makrílveiða hinn 7. júlí og fiskiðjuverið verði tilbúið að hefja vinnslu hinn 10. júlí. Ekki hefur enn verið ráðið í öll störf á vöktum í fiskiðjuverinu. Þeir sem hafa áhuga á slíkum störfum geta sótt um á heimasíðu Síldarvinnslunnar (www.svn.is).

DSC03051A

                              Framkvæmdir við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar.    Ljósm. Hákon Ernuson

Sjávarútvegsskóli Austurlands á Eskifirði

Nemendur Sjávarútvegsskólans í heimsókn í Egersund. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir

         Nemendur Sjávarútvegsskólans í heimsókn í Egersund. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir             

Kennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands hófst á Eskifirði sl. mánudag. Er það annar staðurinn sem kennt er á í sumar en kennslu í Neskaupstað lauk 12. júní sl. Níu nemendur frá Eskifirði og Reyðarfirði sækja skólann að þessu sinni og eru kennarar þau Sigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir nemi í sjávarútvegsfræðum og Páll Jónsson nemi í viðskiptatengdri ferðamálafræði.

                Á fyrsta kennsludegi hlýddu nemendur á fyrirlestra um sögu fiskveiða og einkenni íslensks sjávarútvegs og á öðrum degi var fjallað um þróun fiskvinnslu ásamt því að farið var í heimsóknir í fiskimjölsverksmiðju Eskju og netagerðina Egersund. Síðar verður fjallað um gæðamál og markaðsmál og farið í fleiri vettvangsheimsóknir, meðal annars um borð í fiskiskip.

                Að sögn kennaranna gengur starfsemi skólans vel og nemendahópurinn þykir góður og áhugasamur. Að lokinni kennslu á Eskifirði verður kennt á Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði og Vopnafirði, en síðasti kennslustaðurinn er Höfn. Kennt er í eina viku á hverjum stað.