Um 79 þúsund tonn af kolmunna komin á land

 Nýr Bjarni Ólafsson AK kemur að landi með fullfermi af kolmunna að morgni uppstigningardags. Ljósm. Smári Geirsson Nýr Bjarni Ólafsson AK kemur að landi með fullfermi af kolmunna að morgni uppstigningardags. Ljósm. Smári GeirssonFiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hafa tekið á móti um 79 þúsund tonnum af kolmunna það sem af er vertíðinni. Alls hafa 45 þúsund tonn komið að landi í Neskaupstað og 34 þúsund tonn á Seyðisfirði.
 
Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar og verksmiðjustjóri á Seyðisfirði, segir að á Seyðisfirði hafi verið lokið við að vinna fyrirliggjandi hráefni í nótt. Segir hann að útlit sé fyrir ágætt ár hjá fiskimjölsverksmiðjunni á Seyðisfirði en hún hefur tekið á móti 70 þúsund tonnum af hráefni það sem af er ári, þar af 36 þúsund tonnum af loðnu.
 
Guðjón B. Magnússon, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, upplýsir  að verksmiðjan þar hafi tekið á móti 103.500 tonnum af hráefni það sem af er árinu og þar vegi loðnan þyngst. Verksmiðjan í Neskaupstað er að ljúka við vinnslu á þeim kolmunna sem borist hefur til hennar þannig að eitthvað vinnsluhlé er framundan.
 
Dofnað hefur yfir kolmunnaveiðunum í færeysku lögsögunni nú síðustu dagana og eru skipin að leita mun norðar en áður. Fyrir liggur að Bjarni Ólafsson AK mun landa 1050 tonnum á Seyðisfirði í fyrramálið en önnur skip munu fljótlega hefja siglingu til heimahafnar svo þau verði komin tímanlega fyrir sjómannadagshelgina.
 

Miklar byggingaframkvæmdir á hafnarsvæðinu í Neskaupstað

Brettasmiðja Tandrabergs í byggingu. Ljósm. Hákon ErnusonBrettasmiðja Tandrabergs í byggingu. Ljósm. Hákon ErnusonMiklar byggingaframkvæmdir eru hafnar eða fyrirhugaðar á hafnarsvæðinu í Neskaupstað. Tandraberg ehf. er að reisa brettasmiðju, Vélaverkstæðið G. Skúlason er að byggja nýtt lager- og viðgerðahús, undirbúningsframkvæmdir við stækkun fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar eru hafnar og Fjarðanet hf. áformar að reisa nýja netagerð á hafnarsvæðinu. Hér á eftir verður stuttlega gerð grein fyrir þessum framkvæmdum.
 
Brettasmiðja Tandrabergs. Framkvæmdir við brettasmiðjuna hófust í febrúar sl. en þá var grafið fyrir húsinu. Síðan var gert hlé á framkvæmdum en þær hófust á ný í aprílmánuði og segist Einar B. Kristjánsson framkvæmdastjóri gera ráð fyrir því að starfsemi geti hafist í húsinu í byrjun ágústmánaðar. Húsið er 600 fermetrar að stærð og er mikil þörf fyrir það að sögn Einars. Mun verða unnt að framleiða þar 600 bretti á dag miðað við að unnið sé einungis í dagvinnu. Tandraberg hefur á undanförnum árum smíðað um 60.000 bretti á ári og eru helstu viðskiptavinirnir Síldarvinnslan, Eskja og Loðnuvinnslan. Á milli 70 og 80% af framleiðslunni fer til notkunar hjá Síldarvinnslunni og er sýnt að það hlutfall mun hækka á næstu árum.
 
Nýtt lager- og viðgerðahús G. Skúlasonar. Ljósm. Hákon ErnusonNýtt lager- og viðgerðahús G. Skúlasonar. Ljósm. Hákon ErnusonLager- og viðgerðahús G. Skúlasonar. Vélaverkstæði G. Skúlasonar er að reisa 300 fermetra lager- og viðgerðahús á athafnasvæði sínu við Norðfjarðarhöfn. Guðmundur Skúlason framkvæmdastjóri segir að brýnt sé fyrir fyrirtækið að stækka við sig enda þurfi það sífellt að taka inn stærri búnað og tæki til viðgerða. Telur Guðmundur að jafnvel hefði verið þörf fyrir enn stærra hús en nú er í byggingu. Framkvæmdir við bygginguna hófust um miðjan desember og ráðgert er að þeim ljúki með haustinu. „Það eru miklar annir framundan hjá okkur og varla tími til að koma sér fyrir í nýju húsnæði fyrr en í haust,“ segir Guðmundur.
 
Framkvæmdir hafnar við nýja viðbyggingu við Fiskiðjuver SVN. Ljósm. Hákon ViðarssonFramkvæmdir hafnar við nýja viðbyggingu við Fiskiðjuver SVN. Ljósm. Hákon ErnusonViðbygging við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Um þessar mundir er verið að hefja undirbúningsframkvæmdir við byggingu sem rísa á norðan við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar. Byggingin mun verða um 1000 fermetrar að stærð og er hún reist til að stækka vinnslurými versins. Í tengslum við þessar byggingaframkvæmdir verður eldra húsnæði breytt þannig að rými aukist fyrir kælipressur. Þessi nýja bygging verður með svipuðu sniði og pökkunarstöðin sem byggð var við fiskiðjuverið í fyrra, en hún er einnig 1000 fermetrar að stærð. Báðar þessar byggingar eru liður í því að auka afköst fiskiðjuversins.
 
Þarna verður fyllt upp og síðan mun ný netagerð rísa á þessu svæði. Ljósm. Hákon ErnusonÞarna verður fyllt upp og síðan mun ný netagerð rísa á þessu svæði. Ljósm. Hákon ErnusonNý netagerð Fjarðanets hf. Fjarðanet hf. hefur sótt um lóð á væntanlegri uppfyllingu austan við fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunar. Þar er ráðgert að reisa nýja netagerð og verður húsið 85m langt og 26m breitt eða 2200 fermetrar. Framan við húsið verður stálþil þannig að þau skip sem þurfa þjónustu netagerðarinnar geta lagst þar upp að. Skipulagsferli vegna þessara framkvæmda mun væntanlega ljúka í ágústmánuði og þá verður hafist handa við að gera uppfyllinguna. Jón Einar Marteinsson framkvæmdastjóri Fjarðanets  vonast til að eiginlegar byggingaframkvæmdir geti síðan hafist um mitt næsta ár. Öll starfsemi Fjarðanets í Neskaupstað mun fá inni í nýju netagerðinni; netaverkstæðið, gúmmíbátaþjónustan og að auki verður aðstaða til að geyma nætur og önnur veiðarfæri innan dyra. „Það er gríðarleg þörf fyrir þetta nýja hús, ekki síst vegna þess að bæði skip og veiðarfæri fara sístækkandi og það útheimtir stærri og betri aðstöðu,“ segir Jón Einar. „Við ætlum okkur að bjóða upp á fyrirmyndaraðstöðu í framtíðinni og mikilvægur liður í því er þessi  væntanlega bygging,“sagði Jón Einar að lokum.

Ágætur gangur hjá togurunum

Löndun úr frystitogaranum Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonLöndun úr frystitogaranum Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogararnir Bjartur NK og Gullver NS lönduðu góðum afla sl. mánudag. Bjartur landaði liðlega 100 tonnum í Neskaupstað og var uppistaða aflans ýsa. Gullver landaði á Seyðisfirði um 80 tonnum og var aflinn að mestu ufsi og karfi. Bjartur kemur á ný til löndunar í kvöld en heldur til veiða á ný strax að löndun lokinni.
 
Frystitogarinn Barði NK millilandaði í Neskaupstað í gær. Aflinn var blandaður, 260 tonn upp úr sjó að verðmæti 100 milljónir króna. Barði hélt á ný til veiða í gærkvöldi og verður í um það bil eina viku að veiðum. Gert er ráð fyrir að hann komi til hafnar vel fyrir sjómannadag.
 

Sjávarútvegsskóli Austurlands

DSC01102 2

Mynd tekin í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar árið 2014

Sumarið 2013 hóf Síldarvinnslan að starfrækja Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar. Skólastarfið stóð yfir í tvær vikur og fengu nemendur greidd námslaun sem voru sambærileg launum í Vinnuskóla Fjarðabyggðar. Mikill áhugi reyndist vera á skólastarfinu en lögð var áhersla á að fræða ungmennin um sögu sjávarútvegs og fiskvinnslu, gæða- og markaðsmál, starfsmannamál og menntun starfsfólks í sjávarútvegi og tengdum greinum. Þá var farið í vettvangsheimsóknir um borð í skip, fiskvinnslufyrirtæki og til fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn. Meginástæða þess að efnt var til skólahalds sem þessa er sú að skólakerfið leggur litla áherslu á fræðslu um þessa undirstöðuatvinnugrein. Einnig hefur verið bent á að í sjávarplássum nútímans er hægt að alast upp án þess að sjá nokkurn tímann fisk. Áður fyrr var öll starfsemi tengd sjávarútvegi nálægt fólki; afla var landað á hverri bryggju, beitt í fjölda skúra og vinnsla á fiski fór jafnvel fram undir beru lofti. Nú er öldin önnur; veiðiskipin eru stærri og færri en áður, aflanum landað á lokuðum hafnarsvæðum og vinnslan fer fram innanhúss þar sem farið er eftir ströngum reglum um hreinlæti og gæði.

                Starfsemi Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar vakti athygli og önnur fyrirtæki í Fjarðabyggð sýndu því áhuga að taka þátt í skólastarfinu. Niðurstaðan varð sú að Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar tók til starfa í fyrra og auk sjávarútvegsfyrirtækjanna Eskju og Loðnuvinnslunnar komu Vinnuskóli Fjarðabyggðar og Austurbrú til liðs við Síldarvinnsluna. Efnt var til skólahalds í allri Fjarðabyggð fyrir nemendur sem fæddir voru árið 2000 og var kennt á þremur stöðum í sveitarfélaginu.

                Enn mun Sjávarútvegsskólinn færa út kvíarnar og í ár verður starfssvæði hans allt Austurland, eða svæðið frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Auk sveitarfélaga við sjávarsíðuna mun Fljótsdalshérað taka fullan þátt í skólahaldinu. Í samræmi við þetta hefur nafni skólans verið breytt og ber hann nú heitið Sjávarútvegsskóli Austurlands.

                Í ár gefst ungmennum sem fædd eru árið 2001 kostur á að sækja Sjávarútvegsskólann, en ráðgert er að kenna á sex stöðum. Kennsla mun fara fram í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Vopnafirði , Höfn og Seyðisfirði. Nemendum frá þeim byggðarlögum, sem ekki verður kennt í , verður ekið til og frá kennslustað.

                Nánari upplýsingar um skólahaldið er að finna á www.sjavarskoli.net og þar verður unnt að skrá sig í skólann. Eins munu þar birtast upplýsingar um hvenær kennsla fer fram á hverjum stað. Í forsvari fyrir skólann eru þau Sylvía Kolbrá Hákonardóttir (gsm 868-7077) og Sigurður Steinn Einarsson (gsm 867-6858).

                Þess skal getið að Síldarvinnslan hlaut viðurkenningu Samtaka atvinnulífsins sem  menntasproti ársins í febrúar á þessu ári fyrir frumkvæði sitt við að koma Sjávarútvegsskólanum á fót.