Síldarvinnslan hf. sýknuð af kröfum Hafnarfjarðarkaupstaðar

svn-logoHafnarfjörður höfðaði á síðasta ári dómsmál gegn Síldarvinnslunni hf. í tengslum við kaup félagsins á aflaheimildum af útgerðarfélaginu Stálskipum hf.  Taldi bæjarráð Hafnarfjarðar að rétt hefði verið að bjóða bænum forkaupsrétt vegna kaupanna þar sem verið væri að selja aflaheimildir úr bæjarfélaginu og var því krafist ógildingar á kaupunum.
 
Síldarvinnslan taldi engin rök fyrir slíkri kröfu enda væri einfaldlega ekki kveðið á um slíkan forkaupsrétt í lögum.
 
Í dómi héraðsdóms er tekið undir þetta sjónarmið Síldarvinnslunnar og er því þar slegið föstu að forkaupsréttur sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laga um stjórn fiskveiða eigi ekki við þegar aflaheimildir séu seldar.
 
Var Síldarvinnslan því sýknuð af öllum kröfum Hafnarfjarðar auk þess sem bærinn var dæmdur til að greiða málskostnað.
 

Bergey VE í slipp – Vestmannaey VE aflar vel

Bergey VE í slipp í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE í slipp í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonAf skipum Bergs-Hugins ehf. í  Vestmannaeyjum er það að frétta  að Bergey VE er þar í slipp þessa dagana. Verið er að setja tvö ný botnstykki undir skipið fyrir mæla frá Marport og síðan verður sinnt hefðbundnu viðhaldi. Treyst var á að maímánuður yrði frekar þurr þannig að vel gengi að mála skipið en það hefur ekki gengið eftir. Vonandi eiga þó eftir að koma þurrir og hagstæðir málningadagar á næstunni.
 
Á meðan Bergey er í slipp hefur Vestmannaey VE verið að fiska. Aflabrögð hafa verið þokkalega góð og kemur skipið til löndunar í dag. Þá hefur það landað þrisvar á um það bil einni viku og er heildaraflinn úr þessum þremur túrum tæp 400 kör, en um 400 kg. eru í hverju kari. Þessi afli samanstendur af ýmsum tegundum t.d. 55 körum af lýsu, 55 körum af löngu og 55 körum af sólkola auk þorsks, ýsu og karfa. Af þessum afla fara fimm gámar, eða tæplega helmingur aflans, á markað í Englandi og Þýskalandi en annað er unnið hjá Nöf í Vestmannaeyjum.

Gott fiskirí hjá ísfisktogurunum eystra

Gullver NS kemur til löndunar á Seyðisfirði. Ljósm.: Ómar Bogason.Gullver NS kemur til löndunar á Seyðisfirði. Ljósm.: Ómar Bogason.Ísfisktogararnir Bjartur NK og Gullver NS hafa fiskað vel að undanförnu og hafa þeir komið með góðan fisk að landi sem hentar vel til vinnslu. Bjartur landaði 85 tonnum í Neskaupstað sl. laugardag og var uppistaða aflans ufsi sem fékkst á Papagrunni. Að lokinni löndun var strax haldið til veiða og að loknum tveimur sólarhringum á miðunum var 60 tonnum landað í gær. Í það skiptið var uppistaða aflans þorskur sem fékkst á Breiðdalsgrunni og Litla dýpi. Bjarni Hafsteinsson skipstjóri á Bjarti segir að vel hafi gengið að fiska að undanförnu en einnig skipti miklu máli hve fiskurinn er stór og góður sem fæst um þessar mundir. Bjartur mun halda á ný til veiða kl. 10 í fyrramálið.
 
Gullver landaði á Seyðisfirði um 100 tonnum sl. mánudag og var uppistaða aflans þorskur og ufsi. Meirihluti aflans mun fara til vinnslu á Seyðisfirði. Að sögn Jónasar Jónssonar skipstjóra fékkst aflinn einkum í Hvalbakshalli og Lónsdýpi. „Þarna er um mjög fallegan fisk að ræða, einkum er fiskurinn sem fékkst í Hvalbakshallinu stór og góður,“ sagði Jónas. Gullver mun halda á ný til veiða í hádeginu í dag.

Ágætur gangur í kolmunnaveiðunum

Sex hundruð tonna kolmunnahol hjá Beiti NK. Ljósm. Tómas KárasonSex hundruð tonna kolmunnahol hjá Beiti NK. Ljósm. Tómas KárasonAð undanförnu hefur veiðst vel af kolmunna sunnarlega í færeysku lögsögunni. Hinn nýi Bjarni Ólafsson AK kom úr sínum fyrsta túr til Neskaupstaðar að morgni uppstigningardags og var með fullfermi eða um 2000 tonn. Hákon EA lauk við að landa fullfermi í Neskaupstað í gær og Birtingur NK er að landa fullfermi núna. Þegar þetta er skrifað er verið að ljúka við að landa fullfermi úr Berki NK á Seyðisfirði og Vilhelm Þorsteinsson EA landaði þar 15. maí og Beitir NK hinn 13.
 
Heimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti í morgun en þá var skipið að veiðum um 74 sjómílur suður af Akraberginu. „Í sannleika sagt hefur verið ágætur gangur í kolmunnaveiðunum að undanförnu og veður hefur verið tiltölulega hagstætt að undanskildum tveimur  skammvinnum brælum sem  við höfum fengið á síðustu tíu dögunum,“ sagði Tómas. „Við höfum mikið verið að fá 300-400 tonn í holi eftir að hafa togað í 7-10 tíma og einstaka hol hefur verið enn stærra. Það er býsna gott. Við erum komnir með 1400 tonn í fjórum holum í þessum túr  og erum núna að dæla úr góðu holi. Ætli séu ekki ein 400 tonn í þessu núna. Við þurfum sennilega eitt hol til viðbótar til að fylla skipið og þá verðum við búnir að fiska um 13.500 tonn á vertíðinni. Við erum bara sáttir við það,“ sagði Tómas að lokum.