Síldarvinnslan kaupir nýtt fræðslukerfi

Síldarvinnslan kaupir nýtt fræðslukerfiSíldarvinnslan skrifaði í vikunni undir samning um kaup á nýju fræðslukerfi fyrir starfsmenn. Fyrir valinu varð kerfi sem heitir Eloomi, en fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á íslenskum vinnumarkaði eru farin að nota það með góðum árangri. Kerfið býður upp á nýja möguleika til að skipuleggja fræðslu og koma námsefni á framfæri við notendur, óháð stað og stund. Notendur munu t.d. geta tekið námskeið í snjallsímunum sínum, í tölvu á vinnustöð eða heima hjá sér í hvaða snjalltæki sem hentar.
 
„Þetta einfaldar málin gífurlega mikið“, segir Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri, sem mun stýra innleiðingu kerfisins. „Í stað þess að þurfa að kalla fólk saman í sal getum við tryggt að allir fái viðeigandi þjálfun og upplýsingar hvar og hvenær sem er og geti kynnt sér efnið á sínum hraða og forsendum. Þetta einfaldar málin mjög þegar talsverður hluti starfsmanna starfar á vöktum eða á skipum félagsins. Við munum auðvitað ekki hætta að kalla fólk saman til að hittast, læra eitthvað nýtt og ræða málin, en þetta kerfi mun gera okkur kleyft að koma þekkingu á framfæri án þess. Við höfum séð það á þessum leiðinlegu Covid-tímum að fólk er fljótt að tileinka sér nýjungar á borð við þessa og Eloomi kerfið er einstaklega notendavænt. Covid-tíminn hefur líka kennt okkur hvað það er mikilvægt að hafa fjölbreyttar leiðir til að hafa samskipti við fólkið okkar þegar því fylgir skyndilega áhætta að hittast í alvörunni. Við munum með þessu nýja kerfi stíga stórt framfaraskref hvað tæknina varðar og svo munum við í kjölfarið uppfæra fræðsluáætlun fyrirtækisins í samstarfi við Austurbrú. Það mun hjálpa okkur verulega að efla fræðslu hjá fyrirtækinu að hafa nýtt kerfi til að halda utan um fræðslustarfið og bæta við það stafrænni miðlun efnis. Við ætlum að halda ótrauð áfram að gera gott fyrirtæki enn betra og öflugt fræðslustarf er mikilvægur liður í því,“ segir Sigurður að lokum.

Fryst af fullum krafti

Beitir NK á loðnumiðunum með 730 tonna kast. Ljósm. Bjarni HafsteinssonBeitir NK á loðnumiðunum með 730 tonna kast.
Ljósm. Bjarni Hafsteinsson
Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er loðna ennþá fryst af fullum krafti en brátt líður að því að hrognavinnsla hefjist. Í gærmorgun var lokið við að frysta 1380 tonn úr Berki NK og þá var Beitir NK kominn með 1150 tonn. Tómas Kárason skipstjóri á Beiti segir að loðnan sem fékkst í veiðiferðinni sé fínasta Japansloðna. „Við fengum aflann á Meðallandsbugtinni og tókum síðan í lokin eitt 300 tonna kast á Kötlutanganum. Þetta er gæðaloðna og til dæmis í síðasta kastinu var yfir 60% hrygna og hrognafyllingin 18%. Á mánudagskvöldið var töluvert mikið að sjá af loðnu á þeim slóðum sem við vorum á en síðan gekk hún upp í fjöruna. Það var heldur óhagstætt að eiga við hana í túrnum vegna þess að hann blés úr austri og gerði okkur erfitt fyrir. Spurningin er hvort næsti túr verður ekki hrognatúr,“ segir Tómas.

Blængur landar að lokinni fyrstu veiðiferð ársins

Blængur NK í Norðfjarðarhöfn í morgun. Ljósm. Smári GeirssonBlængur NK í Norðfjarðarhöfn í morgun.
Ljósm. Smári Geirsson
Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gær að lokinni fyrstu veiðiferð ársins. Skipið hélt til veiða 4. febrúar en það hafði verið í slipp á Akureyri frá því í desember. Aflinn í veiðiferðinni var 471 tonn upp úr sjó að verðmæti 120 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvar hefði verið veitt. „Við byrjuðum á að leita að ufsa úti fyrir Norðurlandi. Það skilaði litlum árangri. Síðan var haldið austur fyrir land í grálúðu og þar var staldrað við í eina þrjá daga. Þá lá leiðin suður fyrir landið. Þar hófum við að veiða gulllax á Kötlugrunni og Sneiðinni og það gekk býsna vel. Leiðin lá þá á Selvogsbanka og Reykjanesgrunn og alveg vestur á Belgableyðu í ufsaleit. Staðreyndin er sú að það virðist vera lítið af ufsa um þessar mundir en hins vegar er nóg af ýsu og gullkarfa alls staðar. Við vorum á eilífum flótta undan ýsu og reyndar vorum við einnig að forðast þorsk. Það er alveg ótrúlegt að ýsukvóti skuli ekki vera aukinn. Þegar upp var staðið var uppistaða aflans í veiðiferðinni gulllax og gullkarfi. Við vorum með um 160 tonn af gulllaxi og um 130 tonn af gullkarfa. Veðrið í túrnum var almennt gott. Við fengum brælu þegar veitt var fyrir austan en annars var fantagott veður og hálgerður vorbragur á veðrinu,“ segir Theodór.
 
Blængur heldur á ný til veiða  síðdegis í dag.
 

„Hér er sko alvöru vertíðarganga á ferðinni“

Stóra torfan í Jökuldýpinu á mælum Polar AmaroqStóra torfan í Jökuldýpinu á mælum Polar AmaroqGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq landaði fullfermi af frystri loðnu í Hafnarfirði í gær. Að löndun lokinni ákvað Geir Zoëga skipstjóri að kanna hvort loðnu væri að finna í Jökuldýpinu norðvestur úr Garðskaga. Hann þurfti ekki að leita lengi. „Við komum hérna í svakalega torfu. Hún er tæpar fimm sjómílur á lengd og þétt. Hún er frá kili og niður undir botn. Hér er sko alvöru vertíðarganga á ferðinni. Þetta hljóta að vera nokkur hundruð þúsund tonn. Við erum nú að mæla þessa risalóðningu og síðan ætlum við að svipast frekar um. Þessi ganga hér verður væntanlega komin inn á Breiðafjörð um helgina og mun líklega hrygna þar í næstu viku. Það fréttist af loðnu víða þessa dagana. Það virðist vera loðna héðan frá Faxaflóanum og austur með allri suðurströndinni. Það hefur til dæmis verið mikil loðna í Háfadýpinu. Síðan hafa borist fréttir af loðnu fyrir norðan land og nú mun Bjarni Sæmundsson vera að kanna stöðuna þar. Þetta er alvöru, það fer ekkert á milli mála,“ segir Geir.