Fínustu kvótaáramót

Landað úr Vestmannaey VE á síðasta degi nýliðins kvótaárs. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonLandað úr Vestmannaey VE á síðasta degi nýliðins kvótaárs. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu báðir í heimahöfn í Vestmannaeyjum sl. mánudag, á síðasta degi nýliðins kvótaárs. Komu skipin að landi eftir stutta veiðiferð og var afli Vestmannaeyjar 40 tonn og afli Bergeyjar 37 tonn.

Skipin héldu til veiða á ný á mánudagskvöld og lönduðu bæði í morgun eftir að hafa verið tvo daga að veiðum. Vestmannaey reyndi við karfa við Eyjar og landaði 33 tonnum en Bergey fiskaði þorsk og ufsa á Víkinni og landaði 50 tonnum. Skipin eru gerð út af Bergi-Hugin, dótturfélagi Síldarvinnslunnar og segir Arnar Richardsson rekstrarstjóri að kvótaáramótin hafi verið hin fínustu og nýja kvótaárið leggist vel í sig þó það fari hægt af stað. „Það er alltaf hugur í mönnum þegar nýtt kvótaár gengur í garð og ég er viss um að það á eftir að verða farsælt,“ segir Arnar.

 

4900 tonnum af mjöli skipað út á fimm dögum

Tvö mjölskipanna í Norðfjarðarhöfn sl. laugardag. Ljósm. Jón Már JónssonTvö mjölskipanna í Norðfjarðarhöfn sl. laugardag.
Ljósm. Jón Már Jónsson

Frá föstudegi til þriðjudags var skipað út rúmum 4900 tonnum af fiskimjöli frá fiskimjölsverksmiðjum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Alls lestuðu þrjú skip mjölið þessa daga. Fyrsta skipið, Hav Scandic, lestaði 750 tonn í Neskaupstað og 520 tonn á Seyðisfirði. Annað skipið, Saxum, lestaði 2450  tonn í Neskaupstað og hið þriðja, Havfragt, lestaði rúm 1200 tonn á Seyðisfirði.

Að sögn Hafþórs Eiríkssonar, verksmiðjustjóra í Neskaupstað, er það ekki algengt að svona miklu magni af mjöli sé skipað út á jafn skömmum tíma, en verðmæti mjölsins sem þessi þrjú skip sóttu er um 1,3 milljarður króna.

Sneisafullar lestar. Ljósm. Ómar SverrissonSneisafullar lestar. Ljósm. Ómar Sverrisson

Starfsmannahátíð frestað

Starfsmannahátíð frestaðÍ byrjun árs var tilkynnt að næsta starfsmannahátíð Síldarvinnslunnar yrði haldin í Gdansk í Póllandi 14. nóvember nk. Margt hefur breyst frá því að þetta var tilkynnt og hefur covid 19 faraldurinn raskað fjölmörgum áformum og þá ekki síst haft áhrif á ferðalög fólks. Nú hefur verið ákveðið að fresta starfsmannahátíðinni um eitt ár, en vonandi verður þá öll röskun sem covid 19 hefur valdið liðin hjá. Því er gert ráð fyrir að starfsmannahátíðin fari fram í nóvembermánuði 2021.
 
Nánari upplýsingar um væntanlega starfsmannahátíð munu birtast hér á heimasíðunni á nýju ári.

Gullver klárar kvótaárið

Gullver NS siglir inn Seyðisfjörð í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS siglir inn Seyðisfjörð í gær.
Ljósm. Ómar Bogason
Í gærmorgun, á „gamlársdegi“ kvótaársins, kom ísfisktogarinn Gullver NS til heimahafnar á Seyðisfirði með góðan afla. Heimasíðan ræddi stuttlega við Þórhall Jónsson skipstjóra í gær og spurði frétta. „Þessi síðasti túr kvótaársins gekk bara þokkalega vel. Aflinn er rúm 90 tonn og er uppistaðan þorskur og ufsi. Við vorum núna að sækja restar af kvótanum og við getum ekki annað en verið sáttir við túrinn og reyndar allt kvótaárið. Við byrjuðum þennan túr út á Glettinganesflaki og fengum ágætan þorskafla þar. Síðan fórum við í Berufjarðarálinn og á Lónsbugtina í leit að ufsa. Það var nú ekki mikið af ufsa þarna og því var þetta hálfgert nudd. Nú verður bara landað úr skipinu og síðan farið strax út á ný. Það er ávallt skemmtilegra að halda til veiða í upphafi kvótaárs því þá eru menn ekki eins bundnir af að veiða ákveðnar tegundir eins og í lok kvótaárs. Þetta lítur bara allt ágætlega út,“ segir Þórhallur.