Börkur og Beitir hættir loðnuveiðum – kolmunnaveiðar framundan

Birtingur NK við loðnuveiðar úti af Vestfjörðum. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBörkur og Beitir komu til hafnar í Neskaupstað í gær og eru hættir loðnuveiðum á þessari vertíð. Birtingur mun hins vegar halda áfram að leita loðnu eitthvað lengur en skip Síldarvinnslunnar eiga eftir að veiða um 3700 tonn af kvóta fyrirtækisins. Um helgina var víða leitað að loðnu, m.a. á Eyjafirði, en án árangurs. 

Gert er ráð fyrir að Börkur og Beitir haldi til kolmunnaveiða síðar í vikunni.


Slöttum landað í Helguvík

Polar Amaroq landar í Helguvík.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirLoðnuskipin hafa komið til Helguvíkur í nótt og í dag til að losa sig við slatta. Loðnuveiðarnar hafa ekki gengið sem skyldi að undanförnu og veðrið hefur alls ekki verið hagstætt. Birtingur NK landaði tæpum 400 tonnum í nótt og Polar Amaroq er að landa öðrum eins afla. Á eftir Polar Amaroq mun Börkur NK koma til löndunar með um 350 tonn og síðan er von á Vilhelm Þorsteinssyni EA þegar hann hefur lokið við að landa frystum afurðum.
 
Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri í Helguvík segir að með þessum afla verði um 16 þúsund tonn af loðnu komin á land í Helguvík á vertíðinni. Og hann segist vonast eftir meiru þó sumir sjómennirnir séu ekki alltof bjartsýnir á áframhaldandi veiði. „Það getur ýmislegt gerst enn“, segir Eggert og er vongóður.
 
Alls starfa á milli 20 og 30 manns við loðnuvinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni í Helguvík og við hrognavinnslu en Síldarvinnslan vinnur hrognin í samvinnu við fyrirtækið Saltver í Reykjanesbæ.

Frystitogarinn Barði með góðan gullkarfatúr

Barði NK að taka trollið. Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum þriggja vikna túr. Heildarafli í túrnum var um 560 tonn upp úr sjó en um 220 tonnum var millilandað í Hafnarfirði 28. febrúar. Uppistaða aflans var gullkarfi en nokkur hluti hans var djúpkarfi, þorskur og gulllax. Helst var veitt á Melsekk sem er suðvestur af Reykjaneshrygg og síðan einnig á Eldeyjarbanka. Undir lok veiðiferðarinnar var gullax veiddur í Grindavíkurdýpi og á Kötluhrygg. Aflaverðmæti í túrnum nemur um 123 milljónum króna. Að sögn Theodórs Haraldssonar skipstjóra var hundleiðinlegt veður nánast allan túrinn en undir lok hans komu þó tveir góðir dagar.

Gert er ráð fyrir að Barði haldi aftur til veiða klukkan eitt eftir hádegi á sunnudag.


Bjartur heim úr brælutúr

Gott karfahol hinn 9. mars í Skeiðarárdýpi. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK kom til löndunar í heimahöfn í hádeginu í dag. Aflinn er 76 tonn, uppistaðan þorskur en 26 tonn djúpkarfi. Karfinn fékkst í Skeiðarárdýpinu en þorskurinn á Fætinum. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að hundleiðinlegt veður, sannkölluð skítabræla, hafi verið nánast allan túrinn og veiðarnar hafi verið bölvaður barningur.

Bjartur mun halda til veiða á ný á föstudagskvöld.