Leiðindaveður og loðnan stendur djúpt

Nýi Börkur að kasta á Vestfjarðamiðum.  Ljósm. Geir ZoëgaÞað er lítið um góðar fréttir af loðnumiðunum fyrir vestan. Um helgina var þar leiðindaveður og stóð loðnan djúpt. Þrátt fyrir þetta fengu skipin eitt og eitt þokkalegt kast. Polar Amaroq er að landa um 1000 tonnum í Helguvík og Vilhelm Þorsteinsson landaði þar 900 tonnum um helgina.

Loðnuskip Síldarvinnslunnar eru í síðasta túr vertíðarinnar. Börkur er kominn með rúmlega 300 tonn og Birtingur um 200 tonn. Beitir er á miðunum en  hafði ekki fengið neinn afla þegar þetta er skrifað.


Ánægjulegar öskudagsheimsóknir

Hver krakkahópurinn á fætur öðrum kom í heimsókn á skrifstofur Síldarvinnslunnar í dag og söng fyrir starfsfólkið. Krakkarnir voru gjarnan klædd hinum skrautlegustu búningum og söngvarnar virtust oft vel æfðir. Kennarar Nesskóla fylgdu mörgum hópanna og elstu og yngstu nemendur skólans mynduðu saman hópa þannig að öruggt var að allir gætu verið með. Fyrir heimsóknina og sönginn þáði unga fólkið harðfiskpoka að gjöf enda vart annað viðeigandi en að sjávarútvegsfyrirtækið gefi sælgæti úr hafinu.

Það er alltaf hressandi og upplífgandi að fá að njóta öskudagsheimsókna sem þessara og starfsfólkið á skrifstofunni brosir út að eyrum og á eftir að gera það í allan dag. Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í dag og sýna þær glaða og káta krakka syngja fyrir starfsfólkið.

Smellið á "Lesa meira" til að sjá fleiri myndir.

Lesa meira...

Loðnuskipin með góðan afla

Loðnuskipin fengu góðan afla úti fyrir Vestfjörðum í gær. Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1200 tonnum í Helguvík og síðan mun Polar Amaroq landa þar um 2000 tonnum. Hinn nýi Börkur er á austurleið og mun koma til Neskaupstaðar um klukkan 9 í kvöld með 2000 tonn. Er hér um að ræða fyrstu veiðiferð skipsins eftir að Síldarvinnslan festi kaup á því. Í kjölfar Barkar mun Birtingur koma til Neskaupstaðar í nótt og Beitir í fyrramálið en bæði skipin eru með um 1500 tonna afla.

Nokkur áta virðist vera í loðnunni sem nú veiðist og vafasamt hvort unnt verður að vinna hana til manneldis í miklum mæli.

Myndirnar sem fylgja þessari frétt tók Þorgeir Baldursson á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum í gær en Þorgeir er um borð í Berki.

Lesa meira...

Mokveiði á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum

Polar Amaroq í dag. Ljósm. Þorgeir BaldurssonUpp úr hádegi í dag hófst afar góð veiði á loðnumiðunum úti fyrir Vestfjörðum. Skipin hafa verið að fá mjög stór köst eða allt upp í 700 tonn. Sem dæmi má nefna að Börkur hefur fengið 1100 tonn í tveimur köstum og var að ljúka við að dæla 650 tonnum um klukkan hálf sex. Bæði Beitir og Birtingur hafa einnig verið að fá góðan afla og þegar þetta er skrifað er Polar Amaroq með stórt kast á síðunni. Að sögn Geirs Zoëga skipstjóra á Polar Amaroq er mikla loðnu að sjá á miðunum.

Börkur NK og Beitir NK á miðunum. Ljósm. Geir ZoëgaMeðfylgjandi myndir eru teknar á miðunum í dag og tók Geir Zoëga aðra þeirra um klukkan hálf sex. Á henni er Börkur NK til vinstri að ljúka við að dæla og til hægri er Beitir NK að hefja dælingu. Hina tók Þorgeir Baldursson af Polar Amaroq að kasta í dag.