Hörku makrílveiði eystra

Úr fiskiðjuverinu í sumar í síldar- og makrílvinnslu.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirUm helgina var hörku makrílveiði austur af landinu. Beitir NK er að landa um 500 tonnum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar  í Neskaupstað og Börkur NK kom til hafnar í morgun með álíka afla. Á undan þeim hafði Bjarni Ólafsson AK landað tæplega 600 tonnum til vinnslu, en meirihluti þess afla var síld.

Makríllinn sem skipin koma með að landi er mjög góður, sterkari og átuminni en áður og vel gengur að vinna hann.

Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti segir að í reynd hafi verið afar góð makrílveiði síðustu daga úti fyrir Austfjörðum. Þó sé veiðin misjöfn eftir því hvenær sólarhringsins togað er; það er minna að fá yfir daginn en góður afli í myrkrinu. Í síðustu veiðiferð tók Beitir þrjú hol og voru þau býsna misjöfn eftir því hvenær togað var. Í fyrsta holi fengust 150 tonn, 30 tonn í öðru og rúm 300 í því þriðja. Um var að ræða nánast hreinan makríl en síldarbátarnir eru einnig að fá góðan afla bæði austar og uppi á grunnum. Til dæmis hefur góður síldarafli fengist bæði í Reyðarfjarðar- og Norðfjarðardýpi.


Síldarvinnslan styrkir Verkmenntaskólann

Frá aðalfundi Síldarvinnslunnar 5. september. Ljósm. Smári GeirssonÁ aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. fimmtudag tilkynnti Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður að stjórnin hefði ákveðið að veita Verkmenntaskóla Austurlands myndarlegan styrk til að koma upp aðstöðu og búnaði vegna fyrirhugaðs náms í vélstjórn við skólann.

Elvar Jónsson skólameistari veitti styrknum móttöku og þakkaði þann skilning og áhuga sem Síldarvinnslan sýndi skólanum og þeim verkefnum sem hann er að fást við. Fram kom í máli Elvars að tengsl skólans við atvinnulífið væru ómetanleg og þá skipti ekki síst máli tengslin við hin öflugu sjávarútvegsfyrirtæki á starfssvæði skólans. Þá upplýsti Elvar að á þessu skólaári væri unnið að undirbúningi þess að unnt yrði að hefja vélstjórnarnám við skólann en slíkt nám yrði skipulagt í tengslum við nám í vélvirkjun. Fyrirhugað er að nám í vélstjórnarfræðum hefjist haustið 2014 og þá verður allur nauðsynlegur vél- og tæknibúnaður sem nota þarf við kennsluna að vera til staðar. Slíkur búnaður er dýr og því kemur styrkur Síldarvinnslunnar að góðum notum. 


Stjórnin skiptir með sér verkum

Stjórn Síldarvinnslunnar ásamt framkvæmdastjóra, frá vinstri: Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri, Freysteinn Bjarnason, Anna Guðmundsdóttir, Halldór Jónasson varamaður, Björk Þórarinsdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður,Arna Bryndís Baldvins McClure varamaður og Ingi Jóhann Guðmundsson varaformaður.Að afloknum aðalfundi Síldarvinnslunnar sl. fimmtudag hélt nýkjörin stjórn fund þar sem hún skipti með sér verkum. Þorsteinn Már Baldvinsson var kjörinn stjórnarformaður og Ingi Jóhann Guðmundsson varaformaður. Þau Anna Guðmundsdóttir,Freysteinn Bjarnason og Björk Þórarinsdóttir eru meðstjórnendur. Varamenn eru Arna Bryndís Baldvins McClure og Halldór Jónasson.


Þrjár konur kjörnar í stjórn og varastjórn Síldarvinnslunnar

Konur í stjórn Síldarvinnslunnar frá vinstri: Anna Guðmundsdóttir, Björk Þórarinsdóttir og Arna Bryndís Baldvins McClure. Ljósm. Smári Geirsson Á aðalfundi Síldarvinnslunnar hf. sem haldinn var fimmtudaginn 5. september síðastliðinn urðu þau tímamót að konur voru í fyrsta sinn kjörnar í stjórn og varastjórn félagsins. Þær Anna Guðmundsdóttir og Björk Þórarinsdóttir voru kjörnar í aðalstjórn og Arna Bryndís Baldvins McClure í varastjórn.

Á aðalfundinum var samþykkt að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm en kynjahlutföllin í nýju stjórninni eru í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.

Hin nýkjörna  stjórn Síldarvinnslunnar er þannig skipuð:
  Anna Guðmundsdóttir
  Björk Þórarinsdóttir
  Freysteinn Bjarnason
  Ingi Jóhann Guðmundsson
  Þorsteinn Már Baldvinsson

Varamenn:
  Arna Bryndís Baldvins McClure
  Halldór Jónasson

Síldarvinnslan var stofnuð 11. desember 1957 þannig að konur koma fyrst að stjórnun félagsins eftir 56 ára starf. Það eru svo sannarlega ánægjuleg tíðindi.