Makríl- og síldarvertíð lokið hjá skipum Síldarvinnslunnar

Börkur NK á landleið.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonBörkur NK kom til hafnar í Neskaupstað í nótt með 870 tonn af norsk-íslenskri síld sem fékkst í færeysku lögsögunni. Allur aflinn fer til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Þar með er makríl- og síldarvertíðinni sem hófst í júní lokið hjá skipum Síldarvinnslunnar en Beitir NK landaði sínum síðasta síldarfarmi sl. þriðjudag.

Vinnsluskipin Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson EA eru enn að veiðum en þau landa afla sínum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.


Áhrif makrílaveiða og makrílvinnslu á Síldarvinnsluna - grein Útvegsblaðsins

ÚtvegsblaðiðSmelltu hér til að lesa umfjöllun Útvegsblaðsins
Ennþá berst norsk-íslensk síld til Neskaupstaðar

Börkur NK og Beitir NK að landa í Neskaupstað.Makríl- og síldarvertíðinni er ekki lokið í Neskaupstað. Þrjú skip hafa veitt til löndunar í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og hafa tvö þeirra, Bjarni Ólafsson AK og Beitir NK lokið veiðum, en Börkur NK er í sinni síðustu veiðiferð. Vinnsluskipin Hákon EA og Vilhelm Þorsteinsson EA hafa ekki lokið veiðum en þau landa frystum aflanum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar. Bæði Hákon og Vilhelm Þorsteinsson eru að landa í dag, Hákon um 750 tonnum og Vilhelm um 600 tonnum.     

Nú er farið að hyggja að veiðum á íslenskri sumargotssíld og leitar hugurinn þá í ríkum mæli vestur í Breiðafjörð.

„Samstarfið gengur mjög vel“, segir Gísli Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK

Bjarni Ólafsson AK að landa í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar.Þegar Síldarvinnslan og SR-mjöl runnu saman í eitt fyrirtæki, sem hefur starfað undir merkjum Síldarvinnslunnar, árið 2003 fylgdu ýmis hlutdeildarfyrirtæki SR-mjöls með. Eitt þessara fyrirtækja var Runólfur Hallfreðsson ehf. á Akranesi sem gerir út uppsjávarveiðiskipið Bjarna Ólafsson AK. Við samrunann eignaðist Síldarvinnslan 38% hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf. og síðan má segja að Bjarni Ólafsson hafi átt sína aðra heimahöfn í Neskaupstað. Norðfirðingar líta gjarnan á Bjarna Ólafsson sem eitt af heimaskipunum og ekki er óalgengt að krakkarnir á staðnum tali um „gula bátinn“ sem sker sig með skýrum hætti frá blámáluðum heimaskipum Síldarvinnslunnar og rauðmáluðum skipum Samherja sem koma mikið til löndunar í Neskaupstað.

Upphaflega var Runólfur Hallfreðsson ehf. fjölskyldufyrirtæki í eigu Runólfs heitins Hallfreðssonar skipstjóra og Ragnheiðar Gísladóttur konu hans. Fjölskyldan á enn  meirihlutann í fyrirtækinu og er Ragnheiður framkvæmdastjóri þess og Gísli Runólfsson, sonur þeirra hjóna, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni. Til gamans skal þess getið að fyrsta skipið í eigu fyrirtækisins, elsti Bjarni Ólafsson, var einmitt keypt frá Neskaupstað og hafði borið nafnið Börkur. Þarna var um að ræða þriðja skipið sem Síldarvinnslan eignaðist og fyrsta skipið sem bar Barkarnafnið.

Fyrir nokkru birtist fróðlegt viðtal við Gísla Runólfsson í blaðinu Skessuhorni. Þar segir Gísli frá sögu útgerðarinnar sem hann þekkir í smáatriðum enda verið skipstjóri á skipum hennar í 33 ár. Þá víkur Gísli að samstarfinu við Síldarvinnsluna í viðtalinu og segir eftirfarandi orðrétt um það efni: „Þetta er mjög gott samstarf og báðir njóta góðs af þessum viðskiptum. Við leggjum allan afla okkar upp á Norðfirði er þar er mjög vel útbúið uppsjávarfisksfrystihús, tækjavætt frá Skaganum, sem vinnur hráefnið í afurðir í hæsta gæðaflokki og afkastar miklu. Það þýðir aftur hærra verð til okkar og síðan er SVN að útvega okkur viðbótarkvóta ef þarf. Norðfjörður hefur nánast verið okkar önnur heimahöfn og það er langt síðan við höfum landað hér á Skaganum. Áhöfnin er mest öll frá Akranesi en þó er einn úr Keflavík og annar úr Reykjavík. Þetta getur því verið talsverð útivist þegar vertíðirnar standa yfir, þótt menn skreppi öðru hvoru heim með flugi í frí. Norðfjörður liggur mjög vel við kolmunnamiðunum og norsk-íslensku síldinni. Á hefðbundinni loðnuvertíð liggur hann líka lengst af vel við en síðustu árin hefur verið tveggja sólarhringa sigling þangað af síldarmiðunum í Breiðafirði“.