Könnun á starfsánægju hjá Síldarvinnslunni

Könnun á starfsánægju hjá SíldarvinnslunniNú er áformað að gera könnun á meðal starfsmanna Síldarvinnslunnar í þeim tilgangi að meta starfsánægju innan fyrirtækisins og ná fram upplýsingum um styrkleika og veikleika í  vinnustaðamenningu á starfsstöðvum þess. Niðurstöðum könnunarinnar er ætlað að efla það sem  gott er og vel er gert innan fyrirtækisins og ná fram þeim þáttum sem betur mega fara. Sambærileg könnun var síðast gerð fyrir þremur árum.
 
Starfsmönnum verður sendur spurningalisti í tölvupósti á næstunni og mun einungis taka 4-6 mínútur að svara spurningunum. Mun listinn verða sendur út á íslensku, ensku og pólsku. Mikilvægt er að sem flestir svari en enginn er þó skyldugur til þess. Svörin verða ekki rekjanleg til einstakra starfsmanna. 
 
Það er Austurbrú sem annast framkvæmd og úrvinnslu könnunarinnar.

Öll vinna um borð í nýja Berki gengur vel

Nú er unnið í Berki NK á athafnasvæði Karstensens skipasmíðastöðvarinnar í Skagen.  Einnig er unnið í systurskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA sem liggur fyrir aftan Börk NK. Ljósm. Karl Jóhann BirgissonNú er unnið í Berki NK á athafnasvæði Karstensens skipasmíðastöðvarinnar í Skagen. Einnig er unnið í systurskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA sem liggur fyrir
aftan Börk NK.
Ljósm. Karl Jóhann Birgisson

Ein af vindum skipsins hífð um borð. Ljósm. Jóhann Pétur GíslasonEin af vindum skipsins hífð
um borð.
Ljósm. Jóhann Pétur Gíslason
Nýi Börkur liggur í Skagen í Danmörku þar sem unnið er af krafti um borð í skipinu. Um 120 starfsmenn Karstensens Skibsværft eru þar að störfum og sinna ýmsum verkefnum. Þeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri dvelja í Skagen og fylgjast með öllum framkvæmdum fyrir hönd Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi stuttlega við Karl Jóhann. „Hér gengur allt mjög vel. Það er unnið samkvæmt áætlun og hún virðist standast ágætlega. Það er verið að vinna allsstaðar í skipinu; til dæmis er byrjað er að klæða veggi, það er unnið í pípulögnum, verið að koma öllum vindum fyrir og eins er unnið í rafkerfinu. Mörg þessara verka eru umfangsmikil og má nefna hvað rafkerfið varðar að lagðir veða 90 km af köplum. Það sem einkennir störfin hér er mjög gott skipulag og mikil fagmennska. Þá er áberandi að hér eru notuð gæðaefni. Það fer vel um okkur Jóhann Pétur hérna og ekki skemmir fyrir að veðrið hefur verið gott. Við erum búnir að kaupa okkur hjól og hjólum í vinnuna og um bæinn. Við getum ekki kvartað yfir neinu,“ segir Karl Jóhann.

 

 

 

 

 

 

Til starfsmanna Síldarvinnslunnar vegna Covid 19

SVN logo SVNÁgætu starfsmenn. Það er aðdáunarvert hvernig allir hafa snúið bökum saman í slagnum við þann vágest sem Covid 19 er.  Þið hafið farið að þeim reglum sem settar hafa verið og sætt ykkur við þær takmarkanir sem þær fela í sér. Þið hafið einnig sýnt ábyrgð í ykkar frímtíma.  Nú erum við að ljúka fjögurra mánaða makríl/síldarvertíð þar sem allt hefur gengið vel, bæði veiðar og vinnsla. Við erum að upplífa aukna smithættu  allvíða á landinu, þó Austurland virðist vera þar undanskilið ennþá. Síldarvinnslan vill biðla til starfsmanna um að halda áfram að fara eftir  þeim tilmælum sem gefin hafa verið af land- og sóttvarnalækni hvað sóttvarnir varðar.

Starfsmenn eru hvattir til að  takmarka ferðir sínar eins og frekast er unnt á þau svæði þar sem sýkingar hefur orðið vart.  Ef slíkar ferðir eru farnar er mikilvægt að sýna ítrustu varkárni hvað varðar sýkingarhættu.

Mikilvægt er að virða fjarlægðarmörk og fara að einu og öllu eftir ráðleggingum um handþvott og sótthreinsun ásamt því að nota viðeigandi hlífðarbúnað eins og andlitsgrímu og hanska þar sem það á við. 

Verði starfsmaður var við einkenni eins og kvef, hósta, hita, beinverki, hálssærindi,  höfuðverk eða óeðliega þreytu er hann beðinn um að halda sig heima og hafa tafarlaust samband við heilsugæslu.
 
Hér á eftir fylgja reglur sem skulu gilda innan fyrirtækisins vegna Covid 19:

1. Starfsmenn leggi áherslu á handþvott og notkun sótthreinsivökva.

2. Tryggt verði að helstu snertifletir starfsstöðva verði sótthreinsaðir reglulega t.d. hurðarhúnar, borð o.s.frv. 

3. Óviðkomandi er bannaður aðgangur að starfsstöðvum. Gestir sem þurfa nauðsynlega að komast inn á starfsstöð hafi samband við ábyrgðaraðila og fái heimsóknarheimild.

4. Skip félagsins skulu vera lokuð fyrir alla utanaðkomandi og þeir áhafnarmeðlimir sem eru í fríi skulu ekki koma til skips að nauðsynjalausu.

5. Starfsmenn skulu ekki fara á milli starfsstöðva fyrirtækisins að nauðsynjalausu og skulu þeir afla sér heimilda ábyrgðaraðila ef það er nauðsynlegt.

6. Starfsmenn eru hvattir til að fara  ekki í ferðalög nema brýna nauðsyn beri til og á það bæði við um ferðalög innanlands og til útlanda. Starfsmenn eru beðnir um að tilkynna yfirmanni um ferðalög út fyrir Austurland.

7. Áhersla skal lögð á að nota fjarfundabúnað eða síma til fundarhalda í stað snertifunda.

Þessum slag við Covid 19 lýkur ekki fyrr en fullnægjandi bóluefni koma fram.  Verum á varðbergi, sýnum samtöðu og hugum hvert að öðru.  Það gerum við best með sóttvörnum og árvekni hvers og eins.

Starfsmenn eru hvattir til að afla sér upplýsinga og kynna sér leiðbeiningar á covid.is

                                                                            Gunnþór B. Ingvason
                                                                              framkvæmdastjóri

Enn veiðist stór og falleg síld fyrir austan

Beitir NK með gott síldarhol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK með gott síldarhol.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 790 tonn af síld og er verið að vinna hana í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Sturla þórðarson skipstjóri segir að síldin hafi fengist í Seyðisfjarðardýpinu. „Við fengum þetta 46 mílur frá höfninni hérna og það var töluvert af síld að sjá. Þetta er sama stóra og fallega síldin, meðalþyngdin 390-400 grömm. Síldin heldur sig bara á sömu slóðum og hún hefur verið á í allt haust en nú er síldarvertíðin á lokametrunum hjá okkur,“ segir Sturla.
 
Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, tekur undir með Sturlu og segir að síldin sé stór og falleg. „Þessi síld getur í rauninni ekki verið betri og vinnsla á henni gengur afar vel. Hún er heilfryst og svo er hún einnig flökuð og fryst með roði og án roðs. Öll vertíðin hefur gengið eins og í sögu hjá okkur, en nú er að koma að lokum hennar. Þetta hefur verið algjör veisla, það verður ekki annað sagt,“ segir Jón Gunnar.