Mikill brælutúr hjá Blængi

Blængur NKBlængur NKFrystitogarinn Blængur NK er að landa í Neskaupstað í dag. Veiðiferðin tók 23 daga og er aflinn 388 tonn upp úr sjó að verðmæti um 97 milljónir króna. Togarinn millilandaði í Hafnarfirði 16. janúar. Heimasíðan hitti Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra að máli og spurði hvernig túrinn hefði gengið. „Þetta var mikill brælutúr. Við fórum suður fyrir land og síðan á Vestfjarðarmið. Þar var verið í karfa og síðan millilandað í Hafnarfirði. Við þurftum síðan að flýja undan veðri á Austfjarðamið og þar var aflinn blandaður. Heilt yfir var frekar tregt í túrnum. Loðnan var að ganga upp að landinu og fiskurinn fer til móts við hana til að éta. Það mun rætast úr veiðinni hjá okkur þegar loðnan gengur upp á grunnin við Suðausturland,“ sagði Bjarni Ólafur.
 
Blængur mun halda til veiða á ný á þriðjudagskvöld.

Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar framleiddi rúmlega 37.000 tonn á árinu 2017

Árið 2017 var gott ár í fiskiðjuverinu. Ljósm. Guadalupe LaizÁrið 2017 var gott ár í fiskiðjuverinu. Ljósm. Guadalupe LaizFiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað framleiddi samtals 37.351 tonn af afurðum á árinu 2017. Til samanburðar var framleiðslan 39.216 tonn á árinu 2016 og 30.860 tonn á árinu 2015. Eins og áður er öll áhersla lögð á framleiðslu á uppsjávarfiski í fiskiðjuverinu en bolfiskur einungis unnin þegar hlé er á vinnslu uppsjávartegunda. Afköst fiskiðjuversins hafa verið aukin að undanförnu og skiptir það máli því sífellt hærra hlutfall uppsjávarafla fer til manneldisvinnslu.
 
Í töflunni hér á eftir sést skipting framleiðslunnar á milli tegunda á árunum 2015 – 2017:
 
Fiskiðjuver Síldarvinnslunnar framleiddi rúmlega 37.000 tonn á árinu 2017
 
 
 
 
 
 
 

Þéttar lóðningar sem gefa mikið

lodna08

Loðna unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.

                Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 2.550 tonn af loðnu. Allur aflinn er kældur og er verið að vinna hann í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Tómas Kárason skipstjóri segir að vertíðin líti vel út. „Við vorum að veiða 68 mílur austnorðaustur af Norðfjarðarhorni og það verður að segjast að veiðiferðin gekk vel. Við fengum aflann í fimm holum og toguðum alltaf í fjóra tíma eða skemur. Í síðasta holinu fengum við 590 tonn og toguðum einungis í einn og hálfan tíma. Það er talsvert mikið að sjá af loðnu. Lóðningarnar eru þéttar og þær gefa vel. Sú breyting hefur orðið að nú fiskast jafnt að nóttu sem degi en fyrr á vertíðinni fékkst lítið yfir nóttina. Nú bíður maður spenntur eftir niðurstöðu mælinga en það hlýtur að verða bætt við kvótann. Það er samdóma álit manna á skipunum að það sé töluvert mikið af loðnu á ferðinni og hún sést víða. Skipin hafa verið að veiða á nokkrum blettum og það er langt á milli þeirra. Ég held og vona að þetta verði ágætis vertíð,“ segir Tómas.

                Slæmt veður er á loðnumiðunum núna og útlit fyrir leiðindaveður næsta sólarhringinn. Bjarni Ólafsson AK og Vilhelm Þorsteinsson EA eru á miðunum en það er lítið um að vera vegna veðurs. Börkur NK er í höfn að lokinni löndun og bíður þess að veðrið gangi niður. Polar Amaroq ætlaði að skipa frystri loðnu um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn í dag en vegna veðurs hefur skipið ekki komist inn í höfnina.

Fínasta loðnuveiði

Um borð í Beiti NK á loðnumiðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonUm borð í Beiti NK á loðnumiðunum. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonÞað hefur verið fínasta loðnuveiði síðustu daga. Beitir NK landaði tæplega 2.000 tonnum í Neskaupstað í gær og í dag er Bjarni Ólafsson AK að landa rúmlega 1.000 tonnum til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.
 
Börkur NK er á landleið með rúmlega 2.100 tonn og hafði heimasíðan samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra. „Það hefur verið fínasta veiði og töluvert að sjá. Loðnan virðist vera á stóru svæði og skipin eru víða að fá góðan afla. Það eru kannski 20 mílur á milli skipa og þau eru öll að gera það tiltölulega gott. Við fengum þennan afla í 5 holum og erum yfirleitt að draga í 4-5 tíma. Við fengum til dæmis 1.600 tonn á 16 tímum og það er fjarri því að vera slæmt. Í síðasta holinu drógum við í 6 tíma og fengum 660 tonn. Það er í reynd mokveiði. Nú bíða menn spenntir eftir niðurstöðu rannsóknaskipanna en tvö skip frá Hafró og grænlenska skipið Polar Amaroq hafa verið við mælingar að undanförnu. Ég er bjartsýnn á að bætt verði verulega við kvótann. Það er svo víða loðnu að finna og auk þess er þetta fínasta loðna sem veiðist,“ sagði Hjörvar.
 
Einungis eitt norskt loðnuskip, Endre Dyrøy, er komið á miðin en heyrst hefur að fleiri séu væntanleg á næstunni.