Skipin komin til hafnar fyrir hátíðarnar

Frá Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonFrá Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonSkip Síldarvinnslunnar verða öll í höfn um jól og áramót. Uppsjávarskipin þrjú, Börkur, Beitir og Bjarni Ólafsson, lönduðu öll kolmunna 14. – 19. desember og munu ekki halda til veiða á ný fyrr en á nýju ári. Vestmannaeyjaskipin, Vestmannaey og Bergey, komu til hafnar 11. og 14. desember og að aflokinni löndun fengu áhafnirnar kærkomið jóla- og áramótafrí. Gullver kom síðan til löndunar á Seyðisfirði 19. desember úr síðustu veiðiferð fyrir hátíðar.
 
Frystitogarinn Blængur kom til Neskaupstaðar í dag að lokinni hálfs mánaðar veiðiferð. Afli skipsins var 370 tonn upp úr sjó og uppistaða aflans er ufsi og karfi. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra byrjaði veiðiferðin á Vestfjarðamiðum vegna brælu eystra en megnið af tímanum var verið á Austfjarðamiðum. Blængur mun halda á ný til veiða 3. janúar. 

Beitir með metafla af kolmunna

Beitir NK aflaði vel af kolmunna í síðustu veiðiferð ársins. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK aflaði vel af kolmunna í síðustu
veiðiferð ársins. Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Sl. sunnudag kom Beitir NK til Neskaupstaðar með kolmunnafarm úr færeysku lögsögunni. Upp úr skipinu kom hvorki meira né minna en 3.201 tonn og er það líklega stærsti farmur sem íslenskt fiskiskip hefur komið með að landi. Hafa skal í huga að skipið kom með aflann kældan en án kælingar hefði farmurinn orðið stærri. Beitir hefur áður komið með farma yfir 3.000 tonn, en stærsti kolmunnafarmur skipsins á undan þessum var 3.123 tonn og var honum landað í Neskaupstað í aprílmánuði sl.
 
 
 
 
 
 
 

Metár hjá Eyjunum

Bergey VE. Ljósm. Guðmudur AlfreðssonBergey VE. Ljósm. Guðmudur Alfreðsson

Um þessar mundir fagnar útgerðarfélagið Bergur – Huginn ehf. 45 ára afmæli sínu. Félagið var stofnað í desembermánuði 1972 af útgerðum Bergs VE 44 og Hugins VE 55 sem voru í eigu Kristins Pálssonar og Guðmundar Inga Guðmundssonar. Síldarvinnslan hf. festi kaup á útgerðarfélaginu árið 2012.
 
Afmælisárið hófst með sjómannaverkfalli sem stóð fyrstu sjö vikur ársins. Haldið var á miðin að loknu verkfalli hinn 19. febrúar. Mjög góð aflabrögð voru yfir vertíðartímann og lönduðu skip félagsins, Vestmannaey og Bergey, tvisvar til þrisvar í viku fram á vorið. Bergey fór síðan í slipp í maí og Vestmannaey í vélarupptekt í júní.
 
Að lokinni vertíð héldu Eyjarnar áfram að afla vel. Júlímánuður var til dæmis afar góður og afli skipanna yfir þúsund tonn í þeim mánuði. Haustið reyndist heldur rysjótt en þá voru skipin mest að veiðum fyrir austan land. Skipin komu síðan til hafnar í Vestmannaeyjum 11. og 14. desember og þar með voru áhafnirnar komnar í kærkomið jóla- og áramótafrí.
 
Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonHeildarafli skipanna tveggja á árinu var 8.575 tonn og aflaverðmæti rétt tæplega tveir milljarðar króna. Hér er um að ræða nýtt aflamet hjá skipum félagsins. Fyrra met er frá árinu 2008 en þá var aflinn 8.493 tonn hjá þremur skipum; Vestmannaey, Bergey og Smáey. Það sem gerir hið nýja aflamet einkar athyglisvert er að skipin tvö voru einungis gerð út í 10 mánuði á árinu, frá 19. febrúar til 14. desember. Afli á sóknardag á árinu var 22 tonn hjá hvoru skipi.
 
Á þessu afmælisári lét Magnús Kristinsson af störfum hjá félaginu um mitt sumar eftir 44 ára starf. Við starfi hans tók Arnar Richardsson.
 
Þau ánægjulegu tímamót urðu á árinu að skrifað var undir samning við skipasmíðastöðina Vard Aukra í Noregi um smíði á tveimur nýjum togskipum fyrir félagið. Þessum nýju skipum er ætlað að leysa núverandi Vestmannaey og Bergey af hólmi. Skipin verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í skipunum verða tvær aðalvélar og verða þau með tveimur skrúfum. Ný kynslóð rafmagnsspila verða í skipunum og allur búnaður um borð verður hinn fullkomnasti. Áætlað er að skipin verði afhent kaupanda í mars- og maímánuði árið 2019. 
 

10 námskeið á árinu

Á þessu ári hafa 10 námskeið verið haldin fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonÁ þessu ári hafa 10 námskeið verið haldin fyrir starfsmenn
Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon Ernuson
Í tengslum við gerð nýrrar starfsmannastefnu var unnin ný fræðsluáætlun fyrir Síldarvinnsluna síðasta vetur og var þar vandað til verka. Í starfsmannastefnunni er lögð áhersla á fræðslu, uppbyggingu þekkingar og hæfni starfsmanna og var fræðsluáætlunin unnin í samræmi við ákvæði hennar. Nefnd starfsmanna kom að gerð áætlunarinnar, framkvæmd var viðhorfskönnun á meðal starfsmanna og fundað með stjórnendum um fræðsluþarfir. Austurbrú stýrði vinnunni við gerð áætlunarinnar og sér um framkvæmd hennar ásamt Hákoni Ernusyni starfsmannastjóra. Áætlunin er til þriggja ára og hófst námskeiðahald þegar á árinu sem nú er að líða.
 
Á yfirstandandi ári hefur verið efnt til 10 námskeiða og má þar nefna tölvunámskeið, skyndihjálparnámskeið, námskeið um rafmagnsöryggi, fallvarnanámskeið og námskeið í íslensku fyrir erlent starfsfólk. Yfir 100 manns hafa sótt námskeiðin og hefur ríkt mikil ánægja með þau. 
 
Á næstu vikum eru fyrirhuguð eldvarnanámskeið fyrir áhafnir skipa, samskiptanámskeið, gæðastjórnunarnámskeið auk frekari námskeiða sem tengjast öryggismálum. Starfsmenn eru hvattir til að fylgjast með auglýsingum um námskeiðahald og grípa þau tækifæri sem gefast til að fræðast. Vert er að hafa í huga að þekking verður sífellt mikilvægari í fyrirtæki sem ætlar sér að nýta tækni og vera í fremstu röð á sem flestum sviðum.