Kolmunnakropp í Rósagarðinum

Beitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK. Ljósm. Hákon ErnusonNú hafa íslensku skipin hætt kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni og eru farin að reyna fyrir sér í Rósagarðinum. Í yfirstandandi veiðiferð tók Beitir NK eitt 290 tonna hol í færeysku lögsögunni en eftir að hafa leitað nokkuð þar var haldið í Rósagarðinn. Herbert Jónsson stýrimaður á Beiti segir að í Rósagarðinum hafi verið kropp í gær en lítið sé hins vegar að sjá í dag. „Við tókum eitt 290 tonna hol í gærkvöldi eftir að hafa togað í 14 tíma. Það voru einhverjir blettir hérna og þetta reyndist vera mun stærri og betri fiskur en var að fást í færeysku lögsögunni,“ sagði Herbert.

Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK tók undir með Herbert og sagði að dálítið hefði verið að sjá í Rósagarðinum í gær en lítið í dag. „Ég held að þetta sé búið við Færeyjar. Við tókum þar eitt hol og fengum 200 tonn. Síðan héldum við í Rósagarðinn og erum búnir að taka þar eitt hol; 270 tonn eftir 15 tíma. Það væri afar gott ef kolmunninn gæfi sig hér í íslensku lögsögunni, það er býsna langt að þurfa að sækja hann í færeysku lögsöguna,“ sagði Runólfur.

Auk Beitis og Bjarna Ólafssonar voru Víkingur og Hoffell að veiðum í Rósagarðinum í morgun en Venus er nýlega lagður af stað í land.

Nú stefna kolmunnaskipin í Rósagarðinn

Bjarni Ólafsson AK landaði 1.800 tonnum af kolmunna í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK landaði 1.800 tonnum af kolmunna í Neskaupstað í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Heldur hefur hægst á kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni að undanförnu en þó koma skip enn til löndunar með góðan afla. Margrét EA landaði 1.700 tonnum í Neskaupstað í fyrradag og í gær landaði Hákon EA 1.650 tonnum á Seyðisfirði. Þá kom Bjarni Ólafsson AK með tæplega 1.800 tonn til Neskaupstaðar í gær. Íslensku skipunum á kolmunnamiðunum hefur farið fækkandi að undanförnu.

Heimasíðan hitti Runólf Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni, að máli í gær og spurði hann hvernig veiðarnar á Færeyjamiðum gengju. „Það hefur heldur hægst á kolmunnaveiðinni í færeysku lögsögunni en þó eru dagarnir misjafnir. Fiskurinn gengur í norður og um þessar mundir er veitt í svokölluðu Ræsi rétt norðan við Færeyjabanka. Þessi túr hjá okkur tók viku að meðtalinni siglingu en við vorum fimm daga á veiðum. Aflinn fékkst í sex holum og var togað frá 10 og upp í 23 tíma. Já, lengsta holið var 23 tímar og það er lengsta hol sem ég hef nokkru sinni tekið. Aflinn í hverju holi var í kringum 300 tonn. Við erum nýbúnir að fá þær gleðifréttir að Aðalsteinn Jónsson SU hafi tekið eitt hol í Rósagarðinum og fengið 200 tonn af góðum kolmunna. Það er afar mikilvægt að kolmunni veiðist í íslensku lögsögunni og því eru þetta frábær tíðindi,“ sagði Runólfur.

Ljóst er að fréttin um kolmunna í Rósagarðinum leiðir til þess að íslensk kolmunnaskip munu reyna fyrir sér þar. Í morgun stefndu bæði Bjarni Ólafsson og Beitir NK þangað. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort verulegt magn af kolmunna hafi gengið inn í íslenska lögsögu.

Konur í sjávarútvegi eru þörf og mikilvæg félagasamtök

Konur í sjávarútvegi heimsóttu Austfirði fyrr í þessum mánuði. Myndin er tekin um borð í Beiti NK í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonKonur í sjávarútvegi heimsóttu Austfirði fyrr í þessum mánuði. Myndin er tekin um borð í Beiti NK í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonFélagið Konur í sjávarútvegi efndi til ferðar um Austfirði fyrir félagskonur fyrr í þessum mánuði. Um 30 konur víðs vegar að af landinu tóku þátt í ferðinni og fræddust um austfirskan sjávarútveg. Þá efndi félagið til funda um starfsemi sína á Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað og þóttu þeir vel heppnaðir. Í tilefni af heimsókninni austur hafði heimasíðan samband við formann félagsins, Freyju Önundardóttur útgerðarstjóra, og spurði hana um starfsemi félagsins og árangur umræddrar kynnisferðar. „Heimsóknin austur var sérlega vel heppnuð. Móttökurnar voru frábærar og það var einstaklega fræðandi að fá að skoða fyrirtækin og heyra um sögu þeirra og hlutverk. Fyrir okkur sem þátt tóku í ferðinni var þetta frábær upplifun í alla staði. Þá var einnig mikilvægt fyrir félagið að fá tækifæri til að kynna starfsemi sína og tilgang í ferðinni,“ sagði Freyja. „Félagið Konur í sjávarútvegi var formlega stofnað árið 2014 en unnið hafði verið að undirbúningi stofnunar þess um tíma. Á stofnfundinn í Reykjavík mættu um 100 konur þannig að þörf fyrir félag af þessu tagi var til staðar. Þegar við héldum í ferðina austur voru félagskonur 210 talsins en þeim hefur fjölgað síðan og það er gaman að segja frá því að nú hafa austfirskar konur gengið til liðs við okkur. Það er draumur okkar að félagið starfi um allt land. Rætt hefur verið um að stofna sérstaka félagsdeild fyrir norðan og það væri virkilega gaman að geta einnig stofnað Austurlandsdeild. Við erum að vinna í því að færa okkur út um allt land og verða sýnilegar sem víðast. Ég vil bara hvetja allar konur sem starfa í sjávarútvegi og haftengdum fyrirtækjum að ganga til liðs við okkur. Staðreyndin er sú að félagskonur koma víða að, meðal annars frá sjávarútvegsfyrirtækjum, markaðs- og sölufyrirtækjum, fiskeldisfyrirtækjum, viðskiptabönkum, tæknifyrirtækjum, flutningafyrirtækjum og rannsóknastofum. Það er staðreynd að sjávarútvegurinn teygir anga sína svo ótrúlega víða. Tilgangur félagsins er að styrkja og efla konur sem starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum, búa til sterkt tengslanet félagskvenna og kynna sjávarútvegsstarfsemi á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þetta er göfugur og góður tilgangur,“ sagði Freyja að lokum.

Að undanförnu hefur félagið staðið að viðamikilli rannsókn á stöðu kvenna í sjávarútvegi í samstarfi við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og Gallup. Rannsóknin er í reynd frumkvöðlaverkefni sem snýst um að afla upplýsinga um þátttöku kvenna í sjávarútvegi og leita svara við hvers vegna konur eru ekki fjölmennari í jafn fjölbreyttri og áhugaverðri atvinnugrein. Tilgangurinn er að kortleggja tækifæri til vaxtar fyrir sjávarútveg með aukinni þátttöku kvenna innan greinarinnar. Niðurstöður úr fyrsta áfanga rannsóknarinnar liggja fyrir og verða þær væntanlega kynntar á næstu vikum.

 Freyja Önundardóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. Ljósm. Smári Geirsson Freyja Önundardóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi. Ljósm. Smári GeirssonÞess skal getið að félagið Konur í sjávarútvegi hlaut Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins tveimur dögum eftir að kynningarferðinni um Austfirði lauk. Verðlaunin voru afhent á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en þau eru veitt einstaklingi eða félagasamtökum sem hafa lagt sitt af mörkum til að bæta og efla íslenskan sjávarútveg.

Þeir sem vilja afla sér frekari upplýsinga um félagið Konur í sjávarútvegi er bent á heimasíðuna http://kis.is og fésbókarsíðuna Konur í sjávarútvegi.

 

 

 

Góð veiði í úthafskarfanum

Blængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK. Ljósm. Hákon ErnusonBlængur NK er að úthafskarfaveiðum á Reykjaneshrygg og hefur aflað vel. Hann hóf veiðarnar 17. maí og er kominn með um 400 tonn upp úr sjó. Kvóti skipsins er rúm 500 tonn þannig að eftir er að fiska rúmlega 100 tonn. Skipum hefur fækkað mjög á úthafskarfamiðunum að undanförnu. Blængur er eina íslenska skipið á miðunum um þessar mundir en auk hans eru tveir spænskir togarar þar að veiðum auk rússneskra skipa. Heimasíðan heyrði hljóðið í Theodór Haraldssyni skipstjóra í morgun og spurði hann frétta. „Það má segja að hér hafi verið veisla hvað veiðarnar varðar. Í upphafi túrsins vorum við að fá um 1 ½ tonn á togtíma og vorum þá að taka um 25 tonn í holi en síðan fór aflinn vaxandi. Mestur var aflinn í fyrradag en þá fengum við um 13 tonn á togtíma. Þegar svona vel veiðist þá takmarkar vinnslan veiðina og þá verður að hægja á henni. Karfinn sem fæst er afar fallegur og við erum með trollið á 400-450 faðma dýpi en þar fæst betri fiskur en þegar veitt er ofar í sjónum. Þegar við komum á miðin var kaldi en nú hefur verið logn, blíða og rennisléttur sjór í heila viku. Hann spáir hins vegar brælu annað kvöld. Við stefnum að því að klára kvótann okkar og koma heim fyrir sjómannadag með góðan afla,“ sagði Theodór.