Verkun jólasíldarinnar hafin

Jólasíldin niðurskorin og tilbúin til verkunarJólasíldin niðurskorin og tilbúin til verkunarFyrir marga starfsmenn og velunnara Síldarvinnslunnar er jólasíld fyrirtækisins ómissandi hluti jólahátíðarinnar. Flestir telja að önnur síld komist ekki í hálfkvisti við Síldarvinnslusíldina. Starfsmenn fyrirtækisins hafa framleitt jólasíldina um áratuga skeið, fyrst undir stjórn Haraldar Jörgensens og síðan tók Jón Gunnar Sigurjónsson við af honum. Síldin er framleidd í takmörkuðu magni og fyrst og fremst ætluð til að gleðja starfsmenn fyrirtækisins og þá sem næst því standa.

Að sjálfsögðu hvílir leynd yfir þeim aðferðum sem notaðar eru við framleiðslu síldarinnar en þó er unnt að segja frá framleiðsluferlinu í grófum dráttum. Ferlið hefst á því að gæðasíldarflök eru skorin í hæfilega bita og í ár var það gert um miðjan september. Þegar skurðinum er lokið eru bitarnir settir í kör með saltpækli og þar eru þeir hafðir í um það bil einn sólarhring. Þá er síldin tekin úr körunum og sett í tunnur þar sem hún liggur í ediki í ákveðinn tíma. Loks er síldin látin liggja í sykurlegi og er magn sykursins algert lykilatriði varðandi það hvernig til tekst. Lokaþáttur framleiðsluferilsins felst í því að síldin er tekin úr sykurleginum og sett í fötur með lauk og tilheyrandi kryddi. Þegar síldin hefur legið í fötunum í nokkra daga er hún tilbúin til neyslu og þá er hátíð í bæ hjá mörgum.

Allur þessi framleiðsluferill byggir á þekkingu og mikilli næmni. Tímasetningar skipta höfuðmáli og grundvallaratriði er að síldin fái að liggja í hverjum legi í hárréttan tíma svo hið rétta bragð náist. Þegar kemur að lokastigum framleiðslunnar er kallað á útvalda menn til að bragða á síldinni og leggja dóm á hvernig til hefur tekist. Stundum þarf að gera viðbótarráðstafanir til að ná fram þeim miklu gæðum sem gerð er krafa um.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, segir að sér lítist vel á síldina í ár. „Þetta er alger úrvalssíld og eins og venjulega er hún tekin úr því skipi sem kemur með besta hráefnið að landi. Ég held að fólk geti farið að hlakka til jólasíldarinnar í ár. Síldin er fyrst og síðast framleidd fyrir starfsfólk fyrirtækisns og ég er viss um að enginn á eftir að verða fyrir vonbrigðum með hana,“ segir Jón Gunnar.

Nýi Börkur kominn til Skagen

Nýi Börkur dreginn inn á ytri höfnina í Skagen. Ljósm. Stefán P. HaukssonNýi Börkur dreginn inn á ytri höfnina í Skagen.
Ljósm. Stefán P. Hauksson
Eins og áður hefur komið fram var nýi Börkur dreginn frá Gdynia í Póllandi til Skagen í Danmörku og þangað kom hann síðdegis í gær. Það gekk vel að draga skipið enda blíðuveður allan tímann. Koma skipsins til Skagen vakti töluverða athugli og safnaðist fólk saman til að berja hið glæsilega skip augum. Þeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri eru í Skagen og fylgjast vandlega með öllum framkvæmdum í skipinu. Heimasíðan ræddi stuttlega við Karl Jóhann í dag og spurði frétta. „Þegar Börkur kom í gær var hann dreginn að hafnarkanti og bíður þar. Ráðgert er að systurskipið Vilhelm Þorsteinsson EA fari í dokk í dag og þá verður Börkur færður að hafnarkanti við skipasmíðastöðina. Þá verður byrjað að vinna í skipinu og ég geri ráð fyrir að um það bil 100 manns fari þá til starfa um borð. Það er verið að keyra hingað alls konar búnaði sem fer í skipið og má þar til dæmis nefna allar vindur. Þegar framkvæmdir um borð í skipinu verða komnar á fullt má gera ráð fyrir að 170-180 manns verði þar að störfum. Hér í skipasmíðastöð Karstensens er gott skipulag á öllu. Samskipti eru öll til fyrirmyndar og allir virðast fullkomlega kunna sitt fag. Flestir starfsmennirnir eru danskir en síðan eru hér einnig iðnaðarmenn af öðru þjóðerni, flestir pólskir. Það er lögð áhersla á það við séum gagnrýnir á öll verk því það hjálpi fyrirtækinu að gera enn betri skip. Við höfum fylgst með vinnunni um borð í Vilhelm Þorsteinssyni undanfarna daga og hún hefur gengið afar vel. Reynslan af störfunum um borð í Vilhelm mun koma okkur til góða því skipin eru eins. Skipasmíðastöðin gefur upp að vinnan um borð í skipinu í Skagen taki 5 til 6 mánuði og því megi gera ráð fyrir að henni ljúki í aprílmánuði næstkomandi. Það fer vel um okkur Jóhann Pétur hér og tíminn er fljótur að líða enda erum við að fást við virkilega spennandi verkefni,“ segir Karl Jóhann.

Nýi Börkur kominn til hafnar í Skagen. Ljósm. Karl Jóhann Birgisson Nýi Börkur kominn til hafnar í Skagen.
Ljósm. Karl Jóhann Birgisson

Bjarni Ólafsson með góðan kolmunnafarm

Bjarni Ólafsson kemur til löndunar í NeskaupstaðBjarni Ólafsson kemur til löndunar í NeskaupstaðBjarni Ólafsson AK hefur að undanförnu verið að kolmunnaveiðum austur af landinu og kom hann sl. nótt til Neskaupstaðar með 1.770 tonn. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra um kolmunnaveiðarnar. „Þetta hefur gengið tiltölulega vel. Um er að ræða stóran kolmunna, en í þessum túr var aflinn síldarblandaður. Við fengum töluvert af síld í einu holinu. Veiðarnar fóru fram út af Héraðsflóa og í Seyðisfjarðardýpi alveg út við kant. Það voru 56 mílur í Norðfjarðarhorn þegar við hættum veiðum.  Aflinn fékkst í sjö holum. Stærsta holið gaf um 300 tonn og hið minnsta um 200. Kolmunninn sést varla á mæli, hann sést einungis sem afar dauft ryk. Einungis er veitt á daginn en á nóttunni dreifir fiskurinn sér og fer upp í sjó og þá þýðir ekkert að eiga við hann. Auðvitað er mikilvægt að kolmunni veiðist í lögsögunni og það er þægilegt að eiga við þetta í blíðuveðri eins og verið hefur,“ segir Runólfur.
 
Lokið verður við að landa úr Bjarna Ólafssyni síðdegis í dag.

Nýting gagna við ákvarðanatöku

Huginn Ragnarsson  Ljósm. Smári GeirssonHuginn Ragnarsson. Ljósm. Smári GeirssonSíðustu mánuði hefur Huginn Ragnarsson starfað hjá Síldarvinnslunni við að skoða hvernig nýta má ýmis fyrirliggjandi gögn og upplýsingar við ákvarðanatöku innan fyrirtækisins. Huginn er Norðfirðingur og hefur undanfarin ár starfað við viðskiptagreiningar hjá icelandair. Hann er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er að ljúka meistaranámi í Finance and Strategic Management í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.
 
Þegar Huginn er spurður um verkefni sitt hjá Síldarvinnslunni leggur hann áherslu á að hans hlutverk sé að tryggja nýtingu fyrirliggjandi upplýsinga við ákvarðanatöku. „Síldarvinnslan er með mikið magn allskonar upplýsinga sem ná til allra þátta í rekstrinum. Sem dæmi söfnuðu vigtarnar og pökkunarvélarnir í fiskiðjuverinu í Neskaupstað meira en 1,5 milljón röðum af gögnum í seinasta mánuði. Hingað til hefur ekki verið unnt að fella allar upplýsingarnar saman og nýta þær við ákvarðanatöku en mitt hlutverk er að búa til kerfi sem duga til þess. Á seinustu árum hefur framþróun í greiningarforritum gert þetta mögulegt og lausnirnar eru einfaldari og ódýrari en áður. Með aðstoð starfsmanna Síldarvinnslunnar er farið yfir öll gögn sem safnað er innan fyrirtækisins og gerðar úr þeim sjálfvirkar skýrslur og greiningar. Með þessu sparast mikill tími sem  annars færi í upplýsingasöfnun til dæmis vegna uppgjöra, veiðiferða skipa, sölu afurða og fyrirliggjandi birgða. Þá gera gögnin kleift að skoða nýtingu véla, mannauðs og fleiri þátta. Með því að nota þær upplýsingar sem hægt er að safna saman með þessum hætti er unnt að haga rekstrinum eins og skynsamlegast er hverju sinni,“ segir Huginn.