Loðnumælingum lokið – nú er reiknað

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson við festar á Norðfirði í morgun. Ljósm. Smári GeirssonHafrannsóknaskipið Árni Friðriksson við festar á
Norðfirði í morgun. Ljósm. Smári Geirsson
Loðnumælingum á vegum Hafrannsóknastofnunar er lokið að sinni. Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Polar Amaroq eru komin til Norðfjarðar en Bjarni Sæmundsson er á leið til Reykjavíkur. Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri uppjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar segir að leiðangursstjórarnir á Árna Friðrikssyni og Polar Amaroq hafi komið með flugi til Reykjavíkur í morgun og nú sé reiknað af krafti.
 
Að sögn Þorsteins er nú unnið við að kvarða fiskileitartækin um borð í Árna Friðrikssyni og tækin um borð í Polar Amaroq verði kvörðuð í kvöld eða á morgun. Í kvörðuninni felst að mæld er næmni hvers tækis og er það gert fyrir flesta leiðangra. Tækin um borð í Bjarna Sæmundssyni voru kvörðuð áður en haldið var af stað í leiðangurinn.
 
Gögnunum frá rannsóknaskipunum verður safnað saman og þá fæst ákveðin heildarmynd af þeirri loðnu sem mælist. Á grundvelli mælingarniðurstöðunnar verður síðan tekin ákvörðun um hvort bætt verður við kvótann. Lengi gilti sú regla að skilja þurfti eftir 400 þúsund tonn af þeirri loðnu sem mældist til að hrygna en nú gildir hins vegar ný  veiðiregla sem ákveðin var af stjórnvöldum á Íslandi, Grænlandi og í Noregi en Alþjóðahafrannsóknaráðið mat það svo að sú regla  tæki fullnægjandi tillit til óvissu í hverri mælingu. Nýja reglan leiðir gjarnan til þess að minna er veitt af þeirri loðnu sem mælist.
 
Þorsteinn segir að erfitt sé að segja til um hvenær niðurstaða úr loðnumælingunni liggi fyrir. Slík niðurstaða muni ekki liggja fyrir á morgun en með bjartsýni megi ef til vill gera ráð fyrir henni á föstudag. Hann segir hins vegar að öll áhersla sé lögð á að útreikningarnir gangi hratt fyrir sig.

Síldarvinnslan bæði framúrskarandi og til fyrirmyndar

 
Síldarvinnslan bæði framúrskarandi og til fyrirmyndarSamkvæmt mælingum Creditinfo töldust 868 fyrirtæki á Íslandi vera framúrskarandi á árinu 2017. Það munu vera 2,2% þeirra fyrirtækja sem starfa á landinu. Fyrirtækin sem komast á listann yfir framúrskarandi fyrirtæki þurfa að mæta ákveðnum skilyrðum um ábyrgan og arðbæran rekstur. Skilyrðin eru m.a. eftirfarandi: Þurfa að hafa skilað ársreikningi síðastliðin þrjú ár, vera í lánshæfisflokki 1-3, rekstrarhagnaður (ebit) verið jákvæður þrjú ár í röð, ársniðurstaða verið jákvæð þrjú ár í röð, eiginfjárhlutfall 20% eða meira þrjú ár í röð og eignir a.m.k. 90 milljónir kr. árið 2016 og 80 milljónir 2015 og 2014.
 
Á lista Creditinfo í ár er Síldarvinnslan í sjöunda sæti í flokki stórra fyrirtækja og hefur færst upp um eitt sæti frá því í fyrra. Þá ber að nefna að á listanum er einnig að finna dóttur- og hlutdeildarfyrirtæki Síldarvinnslunnar og má þar nefna G. Skúlason vélaverkstæði í Neskaupstað, Runólf Hallfreðsson ehf. á Akranesi, Fjarðanet hf. og Fóðurverksmiðjuna Laxá hf. á Akureyri.
 
Þá eru Viðskiptablaðið og Keldan í samstarfi um val á fyrirmyndarfyrirtækjum í rekstri. Fyrr í þessum mánuði lá niðurstaða valsins fyrir. Í heildina komust rúmlega 850 fyrirtæki á lista yfir fyrirmyndarfyrirtæki en það eru um 2% allra fyrirtækja sem starfa á landinu. Til að komast á listann þurftu fyrirtækin að hafa skilað ársreikningi og uppfylla ýmis önnur ströng skilyrði. Tekjur þeirra þurftu til dæmis að vera yfir 30 milljónum króna, eignir yfir 80 milljónum og eiginfjárhlutfall yfir 20%. Byggir listinn á ársreikningum fyrirtækjanna fyrir 2016 en þau eru flokkuð í þrjá stærðarflokka.
 

Síldarvinnslan bæði framúrskarandi og til fyrirmyndar

Eins og við var að búast var Síldarvinnslan á listanum yfir stór fyrirmyndarfyrirtæki og var þar reyndar í sjötta sæti. Í þeim flokki var Samherji í efsta sætinu og á eftir honum komu Icelandair Group, Félagsbústaðir hf., Marel hf., Össur hf. og síðan Síldarvinnslan. Þá er einnig að finna dóttur- og hlutdeildarfyrirtæki Síldarvinnslunnar á listanum yfir fyrirmyndarfyrirtækin. Má þar nefna Fjarðanet hf., Runólf Hallfreðsson ehf., G. Skúlason vélaverkstæði, Fóðurverksmiðjuna Laxá hf. og Gullberg ehf. á Seyðisfirði.
 
 
 
 

Frystigeymslurnar í Neskaupstað tóku á móti tæplega 61.000 tonnum árið 2017

Heimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslunum fylgist með útskipun. Ljósm. Hákon ErnusonHeimir Ásgeirsson yfirverkstjóri í frystigeymslunum
fylgist með útskipun. Ljósm. Hákon Ernuson
Alls tóku frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á móti 60.800 tonnum af frystum afurðum á árinu 2017. Vinnsluskip lönduðu 23.406 tonnum í geymslurnar en frá fiskiðjuveri fyrirtækisins komu 37.400 tonn af uppsjávarfiski og 101 tonn af bolfiski. Eftirtalin skip lönduðu afurðum í frystigeymslurnar á árinu:
 
Vilhelm Þorsteinsson EA ... 10.154 tonn
Hákon EA ............................ 9.319 tonn
Polar Amaroq ...................... 1.363 tonn
Blængur NK ......................... 2.570 tonn
 
Öll skipin lönduðu uppsjávartegundum að Blængi undanskildum, en hann landaði botnfisktegundum.
 
Alls var á árinu skipað út 62.991 tonnum af afurðum sem geymdar voru í frystigeymslunum. Þar af fóru 45.153 tonn beint um borð í skip í Norðfjarðarhöfn en 17.848 tonn voru flutt með gámum til útskipunar í öðrum höfnum. Flutningabílar sóttu gámana og þurftu þeir að fara yfir Oddsskarð allt þar til Norðfjarðargöng voru opnuð fyrir umferð í nóvembermánuði sl. Hér er um að ræða um 1.500 ferðir slíkra bíla fram og til baka.

Mikill brælutúr hjá Blængi

Blængur NKBlængur NKFrystitogarinn Blængur NK er að landa í Neskaupstað í dag. Veiðiferðin tók 23 daga og er aflinn 388 tonn upp úr sjó að verðmæti um 97 milljónir króna. Togarinn millilandaði í Hafnarfirði 16. janúar. Heimasíðan hitti Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra að máli og spurði hvernig túrinn hefði gengið. „Þetta var mikill brælutúr. Við fórum suður fyrir land og síðan á Vestfjarðarmið. Þar var verið í karfa og síðan millilandað í Hafnarfirði. Við þurftum síðan að flýja undan veðri á Austfjarðamið og þar var aflinn blandaður. Heilt yfir var frekar tregt í túrnum. Loðnan var að ganga upp að landinu og fiskurinn fer til móts við hana til að éta. Það mun rætast úr veiðinni hjá okkur þegar loðnan gengur upp á grunnin við Suðausturland,“ sagði Bjarni Ólafur.
 
Blængur mun halda til veiða á ný á þriðjudagskvöld.