Þokkalegasta kolmunnaveiði síðustu dagana

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK. Ljósm. Smári GeirssonAð undanförnu hefur verið heldur tregt í kolmunnanum, en síðustu daga hefur þó verið þokkalegasta veiði. Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, segir að síðustu dagarnir á miðunum við Færeyjar hafi verið ágætir. „Við erum á leiðinni til Seyðisfjarðar með 1.750 tonn og gerum ráð fyrir að verða þar kl. 4 í nótt. Við fengum þennan afla í fjórum holum, sem er býsna gott miðað við veiðina að undanförnu. Í fyrsta holi fengum við 550 tonn eftir að hafa togað í 18 tíma. Í hinum holunum þremur fengum við 300-450 tonn og toguðum í 8-12 tíma. Nú er bara að vona að frmhald verði á þessari veiði,“ sagði Runólfur.

Pólska kolmunnaskipið Janus er einnig á leið til Seyðisfjarðar með um 850 tonn. Það er væntanlegt síðar í dag.

Margrét EA landaði kolmunna í Neskaupstað í nótt. Afli skipsins var tæplega 2.200 tonn.

 

 

Heldur farið að hægja á kolmunnaveiðinni

Beitir NK kom með 2.800 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar í gærkvöldi. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK kom með 2.800 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar í gærkvöldi. Ljósm. Smári GeirssonÍ gærkvöldi kom Beitir NK til Neskaupstaðar með 2.800 tonn af kolmunna og Hákon EA kom til Seyðisfjarðar með rúmlega 1.600 tonn. Nokkurra daga vinnsluhlé hafði verið hjá verksmiðjunum á báðum stöðum vegna skorts á hráefni. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að nú sé farið að hægja heldur á veiðinni í færeysku lögsögunni. „Það er þó þannig að stundum reka menn í góð hol. Kolmunninn dreifir sér þegar hann kemur upp í kantana suður af Færeyjum og austan og vestan við eyjarnar og þá fer að hægjast á veiði,“ segir Tómas.

Beitir mun halda á ný til kolmunnaveiða að löndun lokinni.

Börkur NK er á landleið með 2.250 tonn af kolmunna og einnig Bjarni Ólafsson AK með 1.750 tonn. Börkur mun væntanlega landa á Seyðisfirði en Bjarni Ólafsson í Neskaupstað.

Það er eitthvað að lifna yfir togaramiðunum eystra

Barði NK. Ljósm. Hákon ErnusonBarði NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogarinn Barði NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær eftir stutta veiðiferð. Aflinn var 80 tonn og uppistaða hans var ufsi og karfi. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að vel hafi veiðst. „Þetta var örstuttur túr hjá okkur, einungis þrír dagar frá höfn í höfn. Við vorum að veiðum í Berufjarðarál og aflinn bendir til þess að það sé að lifna yfir miðunum hér fyrir austan, en á þeim hefur verið nánast ördeyða að undanförnu. Ufsinn sem við fengum hefði hins vegar mátt vera stærri,“ sagði Steinþór.

Barði mun halda til veiða á ný í kvöld.

 

 

Magnús Kristinsson lætur af störfum framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Bergur-Huginn ehf

Bergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmannaeyjum.
Ljósm. Guðmundur Alfreðsson
Um miðjan júní nk. mun Magnús Kristinsson láta af störfum framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum. Frá sama tíma mun Arnar Richardsson taka við starfi rekstrarstjóra félagsins. Bergur-Huginn er dótturfélag Síldarvinnslunnar hf.

Útgerðarfélagið Bergur-Huginn (BH) var stofnað í árslok 1972 í þeim tilgangi að láta smíða togara í Japan og gera hann síðan út. Togarinn kom til landsins árið 1973 og bar nafnið Vestmannaey. BH gerði Japanstogarann út til ársins 2005 ásamt fleiri skipum. Nú gerir félagið út tvo 29 metra togara, svonefnda þriggja mílna báta, og bera þeir nöfnin Vestmannaey og Bergey.

Magnús Kristinsson hefur starfað hjá BH í um 45 ár en starfi framkvæmdastjóra hefur hann gegnt frá árinu 1978 eða í tæp 40 ár. Hann hefur stýrt félaginu með afar farsælum hætti og skilar af sér stöndugu og traustu fyrirtæki. Hinn nýráðni rekstrarstjóri, Arnar Richardsson, er rekstrarfræðingur að mennt og hefur haldgóða reynslu af störfum í sjávarútvegi. Arnar starfaði meðal annars hjá BH á árunum 2006-2009 og einnig á árunum 2010-2015 en frá þeim tíma hefur hann verið framkvæmdastjóri Hafnareyrar ehf. sem er dótturfélag Vinnslustöðvarinnar.

Síldarvinnslan vill á þessum tímamótum þakka Magnúsi Kristinssyni fyrir einstaklega góð störf í þágu útgerðarfélagsins og bjóða Arnar Richardsson velkominn til starfa. Mun Magnús taka sæti í stjórn BH á næsta aðalfundi félagsins þannig að reynsla hans og þekking mun nýtast því áfram.