Rúmlega 4.700 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar

Beitir NK kemur til löndunar síðdegis í gær. Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK kemur til löndunar síðdegis í gær.
Ljósm. Smári Geirsson
Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt með rúm 1.100 tonn af kolmunna. Börkur NK kom síðan í gærmorgun með tæp 1.900 tonn og Beitir NK síðdegis í gær með tæp 1.700 tonn. Aflann fengu skipin í færeyskri lögsögu.
 
Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Hún hefði mátt ganga betur. Við komum með 1.160 tonn sem fengust í sjö holum. Það er einungis tekið eitt hol á sólarhring og við fengum mest 300 tonn í holi en aflinn fór alveg niður í 20 tonn. Vandinn var sá að fiskurinn sem fékkst var of smár og það kom okkur á óvart. Við leituðum að stærri fiski og fórum víða. Veitt var austur af eyjunum, norðaustur og suðaustur en alls staðar var þetta sama sagan. Venjulega hefur fengist stór og góður kolmunni í færeysku lögsögunni á þessum árstíma en stóri fiskurinn lét ekki sjá sig á meðan við vorum þarna. Ég held að stóri fiskurinn gangi svo austarlega að hann komi ekki inn í lögsöguna. Allavega gerði hann það ekki á meðan túrinn stóð yfir. Nú er búið að loka stórum svæðum í lögsögunni vegna smáfisksins og það er eðlilegt. Vonandi rætist úr þessu og þarna eru skip sem beðið er frétta frá, en nú spáir hann vitlausu veðri á þessum slóðum út vikuna,“ segir Runólfur.
 
Grænlenska skipið Polar Amaroq hélt til kolmunnaveiða í lok síðustu viku og samkvæmt fréttum í morgun fæst nú stærri kolmunni í færeysku lögsögunni. Gert er ráð fyrir að Börkur, Beitir og Bjarni Ólafsson haldi á ný til veiða á morgun.

Síldarvinnslan gefur Verkmenntaskóla Austurlands búnað til kennslu í kælitækni

afliði Hinriksson og Arnar Guðmundsson við kennslubúnað í kælitækni.  Ljósm. Smári GeirssonHafliði Hinriksson og Arnar Guðmundsson við kennslubúnað í kælitækni. Ljósm. Smári GeirssonNýlega færði Síldarvinnslan Verkmenntaskóla Austurlands búnað til kennslu í kælitækni að gjöf. Um er að ræða lekaleitartæki, vigt fyrir kælimiðla, vacumdælu, tæmingardælu og mælibretti. Að sögn þeirra Hafliða Hinrikssonar, deildarstjóra rafdeildar skólans og Arnars Guðmundssonar, deildarstjóra málmdeildar, munu tækin nýtast afar vel til kennslu á vélstjórnarbraut og vélvirkjabraut. Benda þeir á að þekking á sviði kælitækni sé sífellt að verða mikilvægari og því afar brýnt að skólinn geti þjálfað nemendur í notkun þess búnaðar sem almennt er nýttur á því sviði. Segja þeir að nýi búnaðurinn, sem nú bætist við þá tækjaeign sem fyrir var, geri skólanum kleift að veita haldgóða kennslu.
 
Þeir Hafliði og Arnar vilja að fram komi að sá stuðningur sem fyrirtæki veiti skólanum til tækjakaupa sé ómetanlegur. Segja þeir að fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna sýni það svo sannarlega í verki að þau vilji að skólinn sé öflugur og geti veitt góða kennslu enda muni fyrirtækin njóta góðs af því þegar nemendurnir komi út á vinnumarkaðinn að námi loknu. „Skólinn er afar þakklátur fyrir þá velvild sem hann nýtur og víst er að þeir 20 nemendur sem nú strax fá að njóta nýju tækjanna munu fá betri undirbúnig en ella fyrir sín framtíðarstörf,“ sögðu þeir Hafliði og Arnar.
 
Nemandi leitar að leka í kælikerfi. Ljósm. Hafliði HinrikssonNemandi leitar að leka í kælikerfi. Ljósm. Hafliði Hinriksson

„Þetta lítur vel út“

Polar AmaroqPolar AmaroqGrænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í nótt að loknum loðnuleitarleiðangri sem hófst sl. föstudag. Geir Zoëga skipstjóri segir að nú sé búið að senda Hafrannsóknastofnun sýni og önnur gögn úr leiðangrinum og spennandi verði að heyra hvernig þau verði metin. „Eins og ég hef sagt þá lítur þetta vel út. Það var mikið að sjá og loðnan er stór og falleg,“ sagði Geir.
 
Að sögn Geirs mun Polar Amaroq væntanlega halda til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni annað kvöld. „Við eigum eftir einn kolmunnatúr en að honum loknum værum við svo sannarlega tilbúnir að fara í aðra loðnuleit. Mér finnst bráðskemmtilegt að leita að loðnunni og það er svo spennandi. Sérstaklega er þetta skemmtilegt þegar eitthvað gott kemur út úr þessu eins og ég held að hafi gerst í leitinni núna,“ sagði Geir að lokum.
 
 

Gjöf til minningar um látinn sjómann

Magnús Kristinsson afhendir Arnóri Arnórssyni, formanni Björgunarfélags Vestmannaeyja, gjöfinaMagnús Kristinsson afhendir Arnóri Arnórssyni, formanni Björgunarfélags Vestmannaeyja, gjöfinaFyrir nokkru afhenti Magnús Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum, Björgunarfélagi Vestmannaeyja eina milljón króna til minningar um Finn Kristján Halldórsson sjómann á Bergey VE. Finnur Kristján drukknaði fyrir 35 árum en hann var einungis 23 ára að aldri þegar hann lést.
Við afhendinguna rifjaði Magnús upp þennan sorgaratburð og sagði að útgerðin, hann sjálfur og fjölskylda hans vildu minnast Finns Kristjáns heitins og það væri best gert með því að styðja við bakið á Björgunarfélaginu.
 
Arnór Arnórsson formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja veitti gjöfinni móttöku. Í þakkarræðu gat hann þess að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem Björgunarfélagið nyti myndarlegra styrkja frá Bergi-Hugin og þætti félagsmönnum afar vænt um þann hlýhug sem fram kæmi með gjöfinni.