Nýting gagna við ákvarðanatöku

Huginn Ragnarsson  Ljósm. Smári GeirssonHuginn Ragnarsson. Ljósm. Smári GeirssonSíðustu mánuði hefur Huginn Ragnarsson starfað hjá Síldarvinnslunni við að skoða hvernig nýta má ýmis fyrirliggjandi gögn og upplýsingar við ákvarðanatöku innan fyrirtækisins. Huginn er Norðfirðingur og hefur undanfarin ár starfað við viðskiptagreiningar hjá icelandair. Hann er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er að ljúka meistaranámi í Finance and Strategic Management í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.
 
Þegar Huginn er spurður um verkefni sitt hjá Síldarvinnslunni leggur hann áherslu á að hans hlutverk sé að tryggja nýtingu fyrirliggjandi upplýsinga við ákvarðanatöku. „Síldarvinnslan er með mikið magn allskonar upplýsinga sem ná til allra þátta í rekstrinum. Sem dæmi söfnuðu vigtarnar og pökkunarvélarnir í fiskiðjuverinu í Neskaupstað meira en 1,5 milljón röðum af gögnum í seinasta mánuði. Hingað til hefur ekki verið unnt að fella allar upplýsingarnar saman og nýta þær við ákvarðanatöku en mitt hlutverk er að búa til kerfi sem duga til þess. Á seinustu árum hefur framþróun í greiningarforritum gert þetta mögulegt og lausnirnar eru einfaldari og ódýrari en áður. Með aðstoð starfsmanna Síldarvinnslunnar er farið yfir öll gögn sem safnað er innan fyrirtækisins og gerðar úr þeim sjálfvirkar skýrslur og greiningar. Með þessu sparast mikill tími sem  annars færi í upplýsingasöfnun til dæmis vegna uppgjöra, veiðiferða skipa, sölu afurða og fyrirliggjandi birgða. Þá gera gögnin kleift að skoða nýtingu véla, mannauðs og fleiri þátta. Með því að nota þær upplýsingar sem hægt er að safna saman með þessum hætti er unnt að haga rekstrinum eins og skynsamlegast er hverju sinni,“ segir Huginn. 
 
 
 

Ísfisktogararnir gera það gott

Vestmannaey VE að veiðum fyrir austan land. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonVestmannaey VE að veiðum fyrir austan land.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason
Gullver NS er að landa á Seyðisfirði í dag. Aflinn er 110 tonn og er uppistaðan þorskur. Að sögn Rúnars L. Gunnarssonar skipstjóra er um að ræða þokkalegan fisk. „Við byrjuðum og enduðum túrinn á Tangaflakinu, er þar var heldur lítið að hafa. Megnið af aflanum fékkst á Gerpisflaki og reyndar fórum við einnig í Litladýpið. Mér finnst vera heldur minna af fiski hérna fyrir austan en verið hefur síðustu ár. Ef einhvers staðar finnst fiskur er þar óðar kominn fjöldi skipa. Aftur á móti virðist vera mikið af síld á miðunum hérna og hún er hreint allsstaðar,“ segir Rúnar.

Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða annað kvöld.

Bergey VE landaði fullfermi í Neskaupstað í gær og var aflinn mest þorskur. Heimasíðan ræddi í morgun við Ragnar Waage Pálmason, skipstjóra í veiðiferðinni, þar sem skipið var að veiðum í Norðfjarðardýpi í blíðuveðri. „Það gekk vel að veiða í síðasta túr en aflann fengum við mest í Litladýpi og á Grunnfætinum. Það er áberandi hve mikið er af síld fyrir austan landið,“ segir Ragnar.

Vestmannaey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Aflinn var þorskur, ufsi og karfi. Egill Guðni Guðnason, sem var skipstjóri í veiðiferðinni, segir að túrinn hafi verið nokkuð sérstakur. „Við hófum veiðar fyrir austan eftir löndun í Neskaupstað og fengum þorsk og örlítið af ýsu á Skrúðsgrunni og Fætinum. Síðan kom upp grunur um covid-smit um borð og þá var haldið til Eyja en þangað var 30 tíma sigling. Þegar til Eyja var komið var strax tekið sýni úr viðkomandi og flaug Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri með það á Selfoss þar sem Arnar Richardsson rekstrarstjóri útgerðarinnar tók við því og kom því til Reykjavíkur. Þetta þýddi að niðurstaða var fengin eftir um það bil 8 tíma og reyndist ekki um covid-smit að ræða. Strax og niðurstaðan lá fyrir var haldið til veiða á ný og lögð áhersla á ufsa- og karfaveiðar í Háfadýpinu og skipið fyllt,“ segir Egill Guðni.

Nýi Börkur dreginn til Skagen

Nýi Börkur NK í höfninni í Gdynia í gær áður en lagt var af stað til SkagenNýi Börkur NK í höfninni í Gdynia í gær áður en lagt var af stað til SkagenNýi Börkur, sem hefur verið í smíðum hjá skipsmíðastöð Karstensens í Gdynia í Póllandi, er nú á leið til Skagen í Danmörku þar sem framkvæmdum við skipið verður haldið áfram. Dráttarbátur dregur skipið til Skagen og var lagt af stað með það síðdegis í gær og er áætluð koma á áfangastað að morgni fimmtudagsins 8. október.

Frá því að skipið var sjósett í Gdynia hafa framkvæmdir gengið vel. Nú er yfirbygging komin á skipið og sést vel hvernig það mun líta út. Karl Jóhann Birgisson er í Skagen og mun fylgjast þar með áframhaldandi smíði á Berki. Í Skagen er verið að vinna í systurskipi Barkar, Vilhelm Þorsteinssyni EA og fylgist Karl Jóhann með öllum framkvæmdum þar um borð þar til Börkur kemur. Að hans sögn ganga öll verk um borð í Vilhelm ágætlega.

 

 

Áfram góð síldveiði austur af landinu

Beitir hol sept 2020 HFOGott síldarhol hjá Beiti NK. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonBeitir NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 1.300 tonn af síld. Löndun úr honum hófst strax og löndun úr Berki NK lauk en Börkur var með 860 tonn. Hákon EA landaði einnig frystri síld í Neskaupstað um helgina og grænlenska skipið Polar Amaroq hélt með frysta síld til Reykjavíkur þar sem henni verður landað. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti og spurði hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við fengum þetta utarlega í Norðfjarðardýpinu, alveg út við kantbrún. Þarna var síldin stærri og betri en síldin sem fengist hefur nær landi. Þessi síld er að meðaltali um 400 grömm og alveg glimrandi hráefni. Það var mikið að sjá af síld þarna á meðan við vorum að veiðum. Hún heldur sig niðri við botn yfir daginn en á næturna kemur hún upp. Það er yfirleitt mikil ferð á henni,“ segir Tómas.