Eistnaflug kynnir í samstarfi við Síldarvinnsluna föstudags og laugardagspassa á einungis 15.000 kr

dagskrá einstaflug

Síldarvinnslan hf. og forsvarsmenn Eistnaflugs hafa komist að samkomulagi um að bjóða þeim sem sækja Eistnaflug um helgina uppá helgarpassa á frábærum kjörum eða á 15.000kr en áður kostaði hann 22.500kr. Miða er hægt að kaupa á www.tix.is eða við dyrnar í íþróttahúsinu í Neskaupstað.

Þar sem nú er makrílvertíð á næsta leyti er tilvalið fyrir starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi að grípa þetta tækifæri og lyfta sér upp áður en vaktir byrja í fiskiðjuverum víða um Austurland.

Síldarvinnslan vill með þessu einnig hvetja aðra bæjarbúa og aðra Austfirðinga til að sækja hátíðina og njóta þeirra tónleika sem í boði eru en dagskráin í ár er einkar glæsileg. Margar bestu íslensku hljómsveitirnar um þessar mundir stíga á svið ásamt heimsfrægum erlendum rokkhljómsveitum. Má finna dagskránna hér fyrir ofan. 18 ára aldurstakmark er á hátíðina en ungmenni undir 18 ára mega vera til 23:00 í fylgd og á ábyrgð fullorðinna.

Eftirvænting í fiskiðjuverinu fyrir sumarvertíð

FV Gudbjartur juli 2015 HSGGuðbjartur Hjálmarsson segir flökunavélarnar verða klárar fyrir vertíð. Ljósm. Húnbogi SólonUm þessar mundir er unnið hörðum höndum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað við undirbúning fyrir vertíð. Búið er að ráða fjölmarga í vinnu fyrir sumarið og fasráðna fólkið er að snúa tilbaka eftir sumarfrí. Mikið kapp er lagt á viðhalds- og undirbúningvinnu í fiskiðjuverinu fyrir vertíðina auk þess að fegra umhverfið í kringum fyrirtækið.

Megnið af sumarstarfsfólkinu er skólafólk sem er ánægt með að komast í þessi uppgrip sem vertíðarvinna er, góð laun og næg atvinna. 
    
Fyrirtækið Skaginn er að bæta við nýjum frystiskápum og er reiknað með að afköst í frystingunni aukist enn meira en unnið hefur verið að því síðustu ár að byggja upp aukna afkastagetu. Aukning afkastagetu er liður í því að auka enn á verðmæti uppsjávarfisks með því að hafa afköst til að vinna hann á þeim tíma sem hann er verðmætastur og fylgja þannig eftir fjárfestingum sem átt hafa sér stað í stærri og öflugri skipum sl. ár.
 
Heimasíðan náði tali af Jón Gunnari Sigurjónssyni yfirverkstjóra og spurði hann um stöðuna í fiskiðjuverinu. “Við höfum ráðið inn u.þ.b. 50 sumarstarfsmenn fyrir vertíðina nokkrir komu til vinnu strax eftir sjómannadag en aðrir komu til vinnu í þessari viku. 
FV Skaginn juli 2015 HSGUppsetning nýrra frystiskápa gengur vel.
Ljósm. Húnbogi Sólon


Fastráðna starfsfólkið okkar er einnig að snúa tilbaka eftir sumarfrí og má segja að fjöldi starfsfólks aukist með hverjum deginum. Í heildina eru þetta um 90 starfsmenn sem munu vinna á þrískiptum vöktum eins og undanfarin ár. Núna er starfsfólkið að sinna viðhaldsvinnu og tiltekt bæði innan húss og utan.  Verið að fara yfir vélar og búnað til að vera klár í þá makríl- og síldarvertíð sem framundan er. Við reiknum með stöðugri keyrslu næstu 4 mánuðina“ sagði Jón Gunnar.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Börkur landar kolmunna á Seyðisfirði í fallegu sumarveðri

Börkur NK kom til Seyðisfjarðar í morgun og landar þar tæplega 2.300 tonnum af kolmunna í fiskimjölsverksmiðjuna. Börkur NK kom til Seyðisfjarðar í morgun og landar þar tæplega 2.300 tonnum af kolmunna í fiskimjölsverksmiðjuna. 

Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri var að vonum kátur að fá afla til vinnslu. Hann sagði hráefnið gott til vinnslu og löndun gengi vel í fallegu sumarveðri á Seyðisfirði og reiknar með að klára löndun upp úr miðnætti.    

Heimasíðan náði tali af Hjörvari Hjálmarssyni skipstjóra í morgun og var hann að vonum ánægður með veiðina og hugðist hann nýta daginn á Seyðisfirði í fjallgöngu og hlaup áður en skipið heldur aftur út.

„Við erum að landa tæplega 2.300 tonnum af fallegum kolmunna sem fékkst austast í færeysku lögsögunni. Veiðin gekk vonum framar og fékkst aflinn í 7 holum. Við stefnum svo aftur á miðin á morgun og vonumst til að áfram verði gangur í þessu. Veðrið á miðunum var eins og best verður á kosið og hreyfði varla vind“ sagði Hjörvar.

Útlitið er ekki svart

Útlitið er ekki svartÍ tilefni þess að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. munu birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um fyrstu skipin sem Síldarvinnslan festi kaup á.

Árið 1965 hóf Síldarvinnslan útgerð með tveimur nýjum bátum sem smíðaðir voru í Austur-Þýskalandi. Barði NK kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað 5. mars tveimur mánuðum á eftir áætlun. Að öllu forfallalausu átti hann að koma í janúarbyrjun en skömmu fyrir jólin vildi það óhapp til að stórt skip sigldi á Barða þar sem hann var í reynsluferð á Elbufljóti. Skemmdist báturinn mikið við ásiglinguna og tók töluverðan tíma að lagfæra skemmdirnar.

Systurskipin Bjartur NK og Barði NK árið 1966.Systurskipin Bjartur NK og Barði NK árið 1966.Rúmlega tveimur mánuðum síðar kom Bjartur NK í fyrsta sinn til heimahafnar. Bjartur var systurskip Barða en þeir voru 264 tonn að stærð og einkum smíðaðir með síldveiðar í huga.

Skipstjóri á Barða var Sigurjón Valdimarsson en Filip Höskuldsson stóð við stjórnvöl á Bjarti. Auðvitað var bátunum vel tekið og fjölmenntu Norðfirðingar til að skoða þessi stóru og glæsilegu fley þegar þau lögðust í fyrsta sinn að bryggju í heimahöfn.

Lengi tíðkaðist að hagyrðingar og skáld settu saman fagnaðarljóð þegar ný skip bættust í flotann. Því miður hefur ekkert ljóð um Barða varðveist en Valdimar Eyjólfsson hagyrðingur í Neskaupstað orti meðfylgjandi í tilefni af komu Bjarts. Segist Valdimar í blaðapistli hafa verið veikur þegar Barði kom en þegar Bjartur kom var hann hressari og dreif sig um borð til að skoða hann. Um borð hitti hann góða menn sem báðu hann endilega að yrkja vísu um hið glæsilega fiskiskip. Enginn andi kom yfir hagyrðinginn á þeirri stundu en þegar hann kom heim settist hann niður og orti eftirfarandi:

Bjartur kom í heimahöfn
hlaðinn bestu kostum,
allvel fær í úfna dröfn,
illviðrum og frostum.

Semsagt fær í flestan sjó
farkostur hinn besti.
Honum gifta gefist nóg
og gæfa í veganesti.

Líkt er það með Barða og Bjart,
báðir í nýjum flíkum,
útlitið er ekki svart
með útgerðina á slíkum.