Vinnslu á norsk-íslenskri síld lokið

Vinnslu á norsk-íslenskri síld lauk hjá Síldarvinnslunni í gær. Ljósm. Guadalupe LaizVinnslu á norsk-íslenskri síld
lauk hjá Síldarvinnslunni í gær.
Ljósm. Guadalupe Laiz
Lokið var við að landa um 1.100 tonnum af norsk íslenskri síld úr Berki NK í Neskaupstað í gær og er veiðum á slíkri síld þar með lokið hjá Síldarvinnsluskipunum. Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar gekk makríl- og síldarvertíðin vel bæði hvað varðar veiðar og vinnslu. „Vinnsla á makríl hófst hjá okkur seint í júlímánuði og vinnsla á norsk-íslensku síldinni lauk í gær. Það má segja að þessi vertíð hafi að öllu leyti gengið eins og best verður á kosið. Afköstin í fiskiðjuverinu eru upp undir sjö hundruð tonn af makríl á sólarhring en það tekur lengri tíma að frysta hann en bæði síld og loðnu. Þegar mest var umleikis í sumar voru um 30 manns á vakt í verinu en upp á síðkastið hafa verið um 20 manns á vakt. Nú bíðum við eftir Íslandssíldinni en Beitir hóf veiðar á henni fyrir vestan land í gær og Börkur er á leiðinni á miðin,“ segir Jón Gunnar.

 

 

 

 

 

Enn berst norsk-íslensk síld til Neskaupstaðar

Síld dælt um borð í Börk NK. Ljósm. Guadalupe LaizSíld dælt um borð í Börk NK. Ljósm. Guadalupe LaizUm klukkan 11 í gærkvöldi sigldi Börkur NK inn Norðfjörð að lokinni vel heppnaðri veiðiferð í færeysku lögsöguna og Smuguna. Aflinn var rúmlega 1.100 tonn af norsk-íslenskri síld sem öll fer til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir veiðarnar hafi gengið vel og veiðiferðin hafi staðið yfir í þrjá sólarhringa höfn í höfn. „Við hófum veiðar í færeysku lögsögunni og fylgdum síðan síldinni sem gekk norður eftir þannig að við enduðum í Smugunni. Þegar veiðum lauk vorum við 260 mílur frá Norðfirði. Aflinn fékkst í fimm holum og var stærsta holið um 300 tonn. Eins og áður er um að ræða síld af fínustu gerð, hún er bæði stór og falleg,“ segir Hálfdan.
 
Vinnsluskipið Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í morgun og er að landa um 600 tonnum af frosnum síldarflökum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar.
 
 

Síldarvinnsluskipin gera hlé á kolmunnaveiðum

Beitir NK   Ljósm. Smári GeirssonBeitir NK Ljósm. Smári GeirssonBjarni Ólafsson AK hefur að undanförnu lagt stund á kolmunnaveiðar austur af landinu. Afli hefur verið heldur tregur og farið minnkandi. Alls hefur Bjarni Ólafsson landað þrisvar í Neskaupstað samtals 2.400 tonnum. Hann landaði síðast um 700 tonnum sl. miðvikudag.
 
Beitir NK hélt einnig til kolmunnaveiða og landaði 330 tonnum aðfaranótt sunnudags. Sturla Þórðarson skipstjóri segir að aflinn hafi verið afar rýr. „Við vorum fimm daga að veiðum 60-70 mílur austur af landinu og það var einungis dregið á daginn. Þetta var vinna frá 7 til 5 og síðan látið reka yfir nóttina. Kolmunninn hverfur alveg þegar dimma tekur,“ segir Sturla.
 
Ákveðið hefur verið að Beitir haldi vestur fyrir land og hefji veiðar á íslenskri sumargotssíld. Bjarni Ólafsson liggur í höfn í Neskaupstað og mun ekki halda áfram kolmunnaveiðum að sinni.  

Gullver með óvenju góðan októbermánuð

Gullver NS við bryggju á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS við bryggju á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS hefur verið að gera það gott að undanförnu. Í nýliðnum októbermánuði var afli skipsins um 730 tonn í sjö löndunum, en skipið landar á Seyðisfirði. Uppistaða aflans var þorskur en eins var lögð töluverð áhersla á að veiða ýsu og karfa. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra í morgun en þá var skipið statt við Litladýpi austan við Breiðdalsgrunn. „Síðasti mánuður var mjög góður hjá okkur og tíðin var afskaplega hagstæð. Aflabrögð voru góð og aflinn fékkst að mestu á okkar hefðbundnu miðum. Þorskurinn var veiddur á Breiðdalsgrunni og Litladýpinu, ýsan að drjúgum hluta á Gerpisflaki og Tangaflaki og karfinn fékkst einkum í Berufjarðarál. Það hefur verið betri veiði á þessum miðum en undanfarin haust. Lykillinn að þessum góða árangri er meiri kvóti en við höfum haft til ráðstöfunar áður. Við getum veitt af krafti og stopp á milli túra eru styttri en áður. Venjulega tökum við þrjá túra og síðan er stoppað í um tvo sólarhringa. Þetta hefur gengið vel og menn eru mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag,“ segir Þórhallur. 
 
Adolf Guðmundsson rekstrarstjóri á Seyðisfirði segir að líklega séu liðin um 20 ár frá því að Gullver skilaði á land jafn miklum afla í einum mánuði. Hann segir að útgerðin gangi vel og þess sé ávallt gætt að fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði hafi nægt hráefni til vinnslu. Þá fari hluti af þorskafla Gullvers til vinnslu á Dalvík og Akureyri. Nokkur hluti aflans er síðan fluttur út með Norrænu.