
Í Búdapest nutu allir lífsins til hins ítrasta og á laugardagskvöldinu var haldin árshátíð starfsmanna á veitingastaðnum Larus. Farið var í skipulagðar skoðunarferðir um borgina, margir nutu siglingar á Dóná og þar fyrir utan ráðstafaði fólk tíma sínum til að kynna sér matarmenningu og aðra siði innfæddra. Þá má ekki gleyma verslunarröltinu sem er fastur liður hjá landanum þegar erlendar borgir eru heimsóttar. Búið var á góðu hóteli þannig að vel fór um alla og ekki skemmdi veðrið fyrir; alla dagana var þurrt og hlýtt og rigningin sem oft heimsækir Ungverja um þetta leyti árs hélt sig víðs fjarri.
Árshátíðin þótti heppnast afar vel í alla staði og allt það kvöld mátti sjá bros á hverju andliti. Eftir að Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri hafði sett hátíðina tók Brynja Valdís Gísladóttir leikkona við veislustjórn og stýrði hún gleðinni styrkri hendi. Sjálfur Geir Ólafs birtist og söng þannig að jafnvel stífustu menn tóku að dilla sér og ekki minnkaði ánægjan þegar ungverskur kór undir stjórn Ferenc Utassy sté á svið. Kórinn var hreinasta afbragð og sannaði ágæti sitt þegar hann flutti „Úr útsæ rísa Íslands fjöll“ sem enginn hefur haldið fram að sé auðveldasta kórlag sem þekkist. Hér skal þess getið að kórstjórinn var um nokkurra ára skeið búsettur á Stöðvarfirði og stýrði þar tónlistarmálum. Á árshátíðinni voru bornar fram dýrindis veitingar í mat og drykk og ekki var það til að draga úr ánægjunni. Að afloknu borðhaldi var síðan dans stíginn fram eftir nóttu þar til haldið var heim á hótel í ungverskri næturkyrrð.
Í reynd hjálpaðist allt að til að gera þessa Búdapestferð eftirminnilega og virðist það samdóma álit ferðalanganna að ferð sem þessi eigi svo sannarlega sinn þátt í því að þjappa starfsfólkinu saman og gera gott fyrirtæki enn betra.