Rættist úr í lokin

Gullver NS kemur til löndunar í hádeginu í gær. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS kemur til löndunar í hádeginu í gær.
Ljósm. Ómar Bogason
Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar að lokinni veiðiferð  í hádeginu í gær með 92,5 tonn. Aflinn var mest þorskur en um 10 tonn voru ýsa auk þess sem smávegis var af ufsa og karfa. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson sem var skipstjóri í veiðiferðinni. „Sannast sagna var veiðin heldur treg framan af í þessum túr, en það rættist úr í lokin þegar við fengum ein 30 tonn á skömmum tíma. Við hófum veiðar á Tangaflakinu, færðum okkur yfir á Glettinganesflak og síðan aftur á Tangaflakið. Við vorum semsagt bara í kálgörðunum hér heima. Fiskurinn sem fékkst er stór og fallegur og hann er úttroðinn af síld,“ segir Steinþór.
 
Gert er ráð fyrir að Gullver haldi til veiða á ný annað kvöld.
 
 
 

Afar góður fiskur fyrir austan

Bergey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonBergey VE að landa í Neskaupstað. Ljósm. Smári GeirssonVestmannaeyjaskipin, Bergey VE og Vestmannaey VE, hafa að undanförnu verið að veiðum fyrir austan land. Skip Bergs- Hugins hafa undanfarin ár venjulega haldið austur fyrir til veiða um miðjan september og fiskað þar fram að jólum og jafnvel fram yfir áramót. Heimasíðan ræddi stuttlega við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergey, í morgun. Birgir Þór sagði að Vestmannaey hefði landað nánast fullfermi á Seyðisfirði sl. mánudag. „Þetta var stór og afar fallegur fiskur, nánast eingöngu þorskur og ýsa. Þorskurinn var gjarnan 8-10 kg. og ýsan var líka býsna myndarleg. Í þessum túr byrjuðum við að veiða grunnt á Tangaflakinu og héldum síðan norður í Skáp við Glettinganesflak. Veiðin gekk býsna vel en svo brældi og þá fórum við í land með aflann. Við héldum út að löndun lokinni og lentum þá í brasi; festum trollið og þurftum að slæða það upp. Núna erum við í Litladýpinu í reytingsveiði. Við gerum ráð fyrir að landa, líklega á Norðfirði, næstkomandi föstudag,“ segir Birgir Þór.
 
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, tekur undir með Birgi Þór og segir að fiskurinn fyrir austan hafi verið stór og fallegur. „Við lönduðum í gær um 60 tonnum á Norðfirði. Aflinn var þorskur og ýsa. Þorskinn fengum við á Glettinganesflakinu og ýsuna á Tangaflakinu. Við fórum út strax eftir löndun og erum núna að trolla í Litladýpi. Aflinn er fínasti þorskur en þetta er dálítið ufsaborið. Við reiknum með að landa fyrir austan á föstudagsmorgun,“ segir Jón.
 

Breyttar göngur makrílsins en vel heppnuð vertíð þrátt fyrir það

Breyttar göngur makrílsins en vel heppnuð vertíð þrátt fyrir þaðGera má ráð fyrir að makrílvertíðinni sé lokið og hafa makrílskipin snúið sér að síldveiðum. Heildarkvóti íslenskra skipa á vertíðinni var 148.400 tonn og eru 18.900 tonn óveidd. Í fyrra nam makrílveiði Íslendinga 125.500 tonnum.

Makríllinn breytti göngum sínum í ár ef miðað er við síðustu ár. Hann gekk í afar takmörkuðum mæli upp á landgrunnið og vestur eftir allt til Grænlands eins og hann hefur gert undanfarin ár. Að þessu sinni hélt hann sig í mestum mæli lengst austur af landinu og reyndar mest á alþjóðlegu hafsvæði sem flestir þekkja undir nafninu Síldarsmugan. Það þurfti því að sækja aflann mun lengra en þurft hefur á undanförnum árum.

Alls lögðu um 20 íslensk skip stund á makrílveiðarnar í ár en vegna hins breytta göngumynsturs stunduðu smábátar nær engar veiðar.

Til að bregðast við því hve langt var að sækja makrílinn var myndað einskonar veiðifélag þeirra fjögurra skipa sem lönduðu til vinnslu hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Skipin voru Beitir NK, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Afla skipanna var hverju sinni dælt um borð í eitt þeirra sem síðan flutti hann að landi til vinnslu. Skiptust skipin á að taka aflann um borð. Með þessu fyrirkomulagi urðu minni frátafir frá veiðum og aflinn barst ferskari til vinnslu. Samtals lönduðu þessi skip 41 sinni á makrílvertíðinni og þar af voru 39 landanir hluti af veiðisamstarfinu. Skipin fjögur lönduðu 38.500 tonnum af makríl á vertíðinni og var verðmæti aflans tæplega 2.764 milljónir króna. Á sama tíma lönduðu skipin 4.600 tonnum af síld, sem fékkst sem meðafli, að verðmæti 205 milljónir króna. Þannig voru heildarverðmæti makríl- og síldarafla hjá þessum fjórum skipum í júlí og fram til 10. september 2.980 milljónir króna. 

Þegar leið á vertíðina varð ljóst að skipin þyrftu í einhverjum mæli að landa erlendis svo unnt yrði að ná kvótanum. Samtals voru landanir erlendis níu talsins og var rúmlega 10.000 tonnum af makríl landað í Færeyjum og Noregi. 

Mikilum meirihluta makrílafla skipanna var landað í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eða rúmlega 28.000 tonnum. Í fiskiðjuverinu er unnið á þremur vöktum og eru um 25 starfsmenn á hverri vakt auk verkstjóra, vélstjóra og iðnaðarmanna. Gengnar eru 12 tíma vaktir og í fullum vaktamánuði þegar hráefnisöflun er stöðug vinnur hver starfsmaður á um 20 vöktum. Hér er um að ræða mikla vinnu sem gefur góðar tekjur. Vinnsla makrílsins gekk vel alla vertíðina og á síðustu dögum hafa verið tíðar útskipanir á frystum makríl í Norðfjarðarhöfn.

Makrílafli skipanna sem lögðu upp hjá Síldarvinnslunni var sem hér segir (miðað er við landaðan afla hvers skips, en hafa ber í huga veiðisamstarfið):

                                    Börkur NK                 11.203 tonn

                                    Beitir NK                    10.293 tonn

                                   Bjarni Ólafsson AK       7.724 tonn

                                   Margrét EA                   9.233 tonn  

Þess skal getið að Börkur var það íslenska skip sem landaði mestum afla á vertíðinni og Beitir landaði fimmta mestum afla.

Síldarstemmningin hefur breyst

Reykurinn frá mjöl- og lýsisverksmiðjunum heyrir sögunni til. Ljósm. Sigurður ArnfinnssonReykurinn frá mjöl- og lýsisverksmiðjunum heyrir sögunni til.
Ljósm. Sigurður Arnfinnsson
Nú ríkir síldarstemmning í Neskaupstað en sú stemmning er að mörgu leyti ólík þeirri stemmningu sem ríkti á hinum svonefndu síldarárum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Ef litið er til baka og einkenni síldaráranna skoðuð kemur í ljós hve vinnslan var frábrugðin því sem nú gerist. Á sjöunda áratugnum voru síldarskipin fjölmörg og hvert skip gat tekið takmarkaðan afla. Síldarbátar voru sífellt á ferðinni og þegar brældi leituðu þeir hafnar og safnaðist þá mikill fjöldi báta saman í höfnum helstu síldveiðistaðanna. Söltunarstöðvarnar voru fjölmargar og voru til dæmis sex slíkar í Neskaupstað þegar þær voru flestar. Lengi vel var síldin söltuð undir berum himni og var söltunin svo sannarlega vinnuaflsfrek. Drjúgur hluti síldarinnar sem veiddist fór til mjöl- og lýsisframleiðslu og á síldarárunum fór ekkert á milli mála hvenær slík vinnsla fór fram – reykjarmökkurinn frá síldarverksmiðjunum einkenndi alla helstu síldarstaðina. Síldarárin svonefndu voru svo sannarlega eftirminnilegt tímabil fyrir alla þá sem upplifðu þau.

Síldarstemmning nútímans er mjög frábrugðin þeirri stemmningu sem ríkti á síldarárunum. Skipin sem stunda veiðarnar eru fá en burðarmikil og vel útbúin til veiðanna. Á hverjum síldarstað er einungis eitt fyrirtæki sem tekur á móti síld til vinnslu – að langmestu leyti er síldin fryst og það er einungis brottkast frá manneldisvinnslunni sem fer til mjöl- og lýsisvinnslu. Þá ber að nefna að reykjarmökkurinn frá fiskimjölsverksmiðjunum heyrir sögunni til. Söltun á síld, sem áður var mikilvægur þáttur síldarvinnslunnar, fer einungis fram á Fáskrúðsfirði og það reyndar í sáralitlum mæli miðað við það sem gerðist á síldarárunum. Allir íbúar síldveiðistaðanna börðu silfur hafsins augum á síldarárunum en nú þarf töluvert að hafa fyrir því að sjá þennan fisk sem hefur haft svo mikil áhrif í sögunni. Það má með sanni segja að síldarstemmningin hafi breyst, en hún er engu að síður enn til staðar.

Á yfirstandandi síldarvertíð hafa hingað til einungis þrjú síldveiðiskip landað til mannveldisvinnslu hjá Síldarvinnslunni  í Neskaupstað en það eru Börkur NK, Beitir NK og Margrét EA. Fjórða skipið sem landar þar síld er Hákon EA en þar er aflinn frystur um borð. Sl. laugardag hófst vinnsla á 1.200 tonna afla sem Beitir kom með og lauk vinnslu úr honum sl. nótt. Þá hófst löndun úr Margréti sem komin var með 890 tonn. Reiknað er með að vinnslu úr Margréti ljúki í nótt en Börkur er þegar kominn til hafnar með 1.200 tonn og hefst þá vinnsla á þeim afla.

Það er löngu liðin tíð að síld sé söltuð utan dyra. Ljósm. Kristján VildmundarsonÞað er löngu liðin tíð að síld sé söltuð utan dyra.
Ljósm. Kristján Vildmundarson
  Nú á tímum er öll áhersla lögð á að frysta síldina.   Ljósm. Hákon ErnusonNú á tímum er öll áhersla lögð á að frysta síldina.
Ljósm. Hákon Ernuson