Síldarvinnslan styrkir sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur

Stúlkur úr 7. og 8. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur. Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirDagana 10. og 11. febrúar sl. var haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur í Neskaupstað. Námskeiðið var ætlað stúlkum á aldrinum 13-16 ára (7.-10. bekkur grunnskóla) og var það sótt af öllum stúlkum á þessum aldri sem áttu þess kost eða alls 48. Það má því segja að 100% mæting hafi verið á námskeiðið. Það voru Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna og félagsmálanefnd Fjarðabyggðar sem styrktu námskeiðshaldið en Hildur Ýr Gísladóttir hafði forgöngu um að námskeiðið var haldið.

Leiðbeinandi á námskeiðinu var Kristín Tómasdóttir en hún er menntuð í sálfræði og kynjafræði, hefur ritað þrjár bækur fyrir unglingsstúlkur og fylgt þeim eftir með sjálfstyrkingarnámskeiðum. Kristín hefur einnig ritað samsvarandi bók fyrir pilta ásamt Bjarna Fritzsyni og kom hún út fyrir síðustu jól.

Stúlkur úr 9. og 10. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur.  Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirNámskeiðið var haldið í Nesskóla og þótti heppnast afar vel. Haldnir voru fyrirlestrar, unnin verkefni, settir upp leikþættir, eldað og borðað. Leiðbeinandinn var ánægður með hvernig til tókst og ræddi um hversu gaman væri að vinna með svona flottum hópi.

Styrking sjálfsmyndar er mikilvæg fyrir alla unglinga í nútímasamfélagi. Góð eða jákvæð  sjálfsmynd hefur mikil áhrif á hvernig tekist er á við alla þætti lífsins eins og nám, störf, félagslegan þrýsting og hættur á borð vímuefni. 


Frystitogarinn Barði með góðan skraptúr

Barði NK að veiðum.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær eftir að hafa verið rúman hálfan mánuð á veiðum. Skipið er með fullfermi og er uppistaða aflans gulllax, djúpkarfi og ufsi. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra er hér um góðan skraptúr að ræða en veitt var við Suðvesturland í heldur rysjóttu veðri. Aflinn er um 330 tonn upp úr sjó og er verðmæti hans um 67 milljónir króna.


Börkur fann loðnu austar

Börkur NK. Ljósm. Þorgeir BaldurssonLoðnubátarnir hafa verið að veiðum út af Skarðsfjöru og þar fyrir vestan en í morgun fann Börkur NK loðnutorfur mun austar eða um 10 mílur vestan við Ingólfshöfða. Börkur kastaði þegar og fékk á milli 400-500 tonn í fyrsta kasti. Þegar heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra var hann með næsta kast á síðunni og taldi að eitthvað minna væri í því. „Ég gæti best trúað því að við höldum heim á leið eftir að við ljúkum að dæla úr þessu kasti“, sagði Sturla. „ Það virðist vera svolítið af loðnu hérna, þetta er allavega eitthvað juð. Ég held að bátarnir sem voru fyrir vestan okkur séu að keyra í þetta“.

Loðnan sem Börkur er að fá þarna virðist vera ágæt og henta vel til manneldisvinnslu. 


Loksins, loksins

Sl. fimmtudag varð grænlenska skipið Polar Amaroq vart við loðnu úti fyrir Suðausturlandi og byrjaði að kasta. Í fyrstu fékkst afar lítið í hverju kasti. Á föstudag komu íslensk skip á miðin, þar á meðal Börkur NK. Kastað var ótt og títt þann dag en köstin reyndust lítil og annað veifið var búmmað. Á laugardaginn jókst veiðin verulega og fengust þá sæmileg köst. Við þessar fréttir hýrnaði yfir mönnum og margir sögðu loksins, loksins.

Börkur NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt sunnudags með 800 tonn sem fengust í 6 köstum  og fer aflinn til manneldisvinnslu. Í nótt kom síðan Polar Amaroq með 1600 tonn og mun landa í manneldisvinnsluna á eftir Berki.

Loðnan sem Börkur kom með er ágæt og nýtist vel í frystingu.

Birtingur NK hélt á miðin sl. laugardag og er lagður af stað í land með tæplega 700 tonn  og Bjarni Ólafsson AK er að koma á miðin.

Norski loðnuflotinn hefur leitað loðnu austur og norðaustur af landinu og ekkert fundið að gagni. Norðmennirnir mega veiða hér við land til 15. Þessa mánaðar og þeir mega ekki veiða fyrir sunnan 64 ̊30, þannig að þeir geta ekki veitt á þeim slóðum sem íslensku skipin og hið grænlenska eru að fá aflann um þessar mundir.