Tæknidagur fjölskyldunnar var vel sóttur

Fjölmargir kynntu sér starfsemi Síldarvinnslunnar á Tæknideginum. Ljósm. Smári GeirssonTæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag. Þetta er í annað sinn sem slíkur dagur er haldinn og er lögð áhersla á að allir aldurshópar finni eitthvað við sitt hæfi á deginum. Það eru Verkmenntaskólinn og Austurbrú sem standa fyrir þessum kynningar- og fræðsludegi en hann á ekki marga sína líka hér á landi. Dagurinn þótti heppnast vel í alla staði og sóttu hann á milli 500 og 600 gestir. Þeir sem lögðu leið sína í Verkmenntaskólann þennan dag virtust ánægðir með það sem boðið var upp á. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir kynntu starfsemi sína á deginum og auk þess var boðið upp á fyrirlestra af ýmsu tagi. Það voru ekki síst börnin sem nutu dagsins en þau fylgdust spennt með krufningu dýra, sýnikennslu Vísinda-Villa og fleiri forvitnilegum atriðum sem voru á dagskrá. Ef til vill var hápunktur dagsins vígsla á FABLAB Austurland en það er stafræn smiðja sem gerir fólki á öllum aldri kleift að hanna og smíða eigin frumgerðir.

Síldarvinnslan tók þátt í tæknideginum og deildi þar kennslustofu með verkfræðifyrirtækinu Eflu. Fjöldi gesta heimsóttu stofuna og kynntu sér starfsemi fyrirtækjanna. Síldarvinnslan lét útbúa veggspjöld með upplýsingum um þróun og starfsemi fyrirtækisins og auk þess voru sýndar lifandi myndir frá veiðum og vinnslu. Þá var einnig sýnt NIR-tæki sem notað er til efnagreiningar  og fengu gestir að sjá hvernig unnt er að nýta það til efnagreiningar á fiskimjöli. Með hjálp tækisins tekur slík greining einungis örfáar sekúndur. 

Jón Már Jónsson yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni segir að tæknidagurinn sé til hreinnar fyrirmyndar og afar ánægjulegt sé fyrir fyrirtækið að fá tækifæri til að kynna starfsemi sína á þessum degi. Þá sé frábært að koma í Verkmenntaskólann og sjá og skynja hve öflug og vel búin stofnun hann er orðinn. Telur Jón Már afar mikilvægt að gefa almenningi kost á því að kynna sér stöðu fyrirtækja í landshlutanum og átta sig á því hve mikilvæg stofnun eins og Verkmenntaskólinn er fyrir atvinnulífið og framþróun þess.

Barði NK í slipp

Barði NK 120. Ljósm. Hákon ViðarssonFrystitogarinn Barði NK hélt til Akureyrar í gær þar sem hann mun fara í slipp. Barði hefur legið í höfn í Neskaupstað í tvær vikur vegna bilunar í túrbínu en nú hefur verið skipt um hana í skipinu. 

Gert er ráð fyrir að Barði verði í slippnum í um þrjár vikur. Þar mun hefðbundnum slippverkum verða sinnt eins og botnhreinsun, botnmálun og endurnýjun fórnarskauta. Allir botn- og síðulokar verða teknir upp til skoðunar og sama gildir um skrúfu og stýrisbúnað. Eins verður aðalvél skipsins tekin upp og endurnýjað tengi á milli gírs og aðalvélar. Þá mun verða unnið að ýmsum smærri viðhaldsverkefnum.

Bjarni Ólafsson AK lýkur síldarvertíð með stæl

Bjarni Ólafsson AK kemur til löndunar. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonBjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun með 640 tonn af íslenskri sumargotssíld sem veiddist fyrir vestan land. Þetta er síðasta veiðiferð skipsins á vertíðinni. Runólfur Runólfsson skipstjóri sagði að þessi veiðiferð hefði gengið einstaklega vel. „Við fengum þennan afla í einu holi og toguðum einungis í rúmlega tvo tíma“, sagði Runólfur. Runólfur upplýsti að á miðunum mætti finna ágætar torfur, einkum síðari hluta dags í ljósaskiptunum. „Yfir hádaginn splundrast torfurnar gjarnan og þá er lítið að hafa“, sagði hann. Þetta hol sem við tókum í þessum túr var einmitt seinnipartshol; við köstuðum um klukkan hálf fjögur og tókum trollið rétt fyrir sex með þessum góða afla“, sagði Runólfur að lokum. Það má því segja að Bjarni Ólafsson hafi lokið vertíðinni með stæl.

Beitir NK lagði af stað af síldarmiðunum síðla dags í gær með 1050 tonna afla. Hann er væntanlegur til Neskaupstaðar í nótt. Börkur er að veiðum og fékk góðan afla í fyrsta holi.

Tæknidagur fjölskyldunnar er á laugardaginn

Starfsmenn Síldarvinnslunnar undirbúa tæknidaginn. Ljósm. Smári GeirssonTæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands á laugardaginn kemur. Það er Verkmenntaskólinn ásamt  Austurbrú sem standa fyrir deginum og hefur undirbúningur hans staðið lengi yfir.

Mikill fjöldi fyrirtækja og stofnana mun taka þátt í deginum og er Síldarvinnslan á meðal þeirra. Á tæknidegi fjölskyldunnar er kappkostað að höfða til allra aldurshópa og þar verður unnt að kynnast ýmsum tækninýjungum ásamt því að meðtaka margskonar fróðleik og hlýða á fyrirlestra. Þá geta gestir kynnt sér námsframboð Verkmenntaskólans og þá aðstöðu og tækjakost sem skólinn býður upp á. Á deginum gefst fólki tækifæri til að skoða nýjan vélarúmshermi skólans og eins mun menntamálaráðherra vígja FABLAB Austurland sem skólinn hefur komið á fót með tilstyrk sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og fyrirtækja í sveitarfélaginu. FABLAB er stafræn smiðja með einföldum stýribúnaði og gerir hún fólki á öllum aldri kleift að hanna og smíða næstum hvað sem er. 

Þó svo að allir eigi að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á tæknideginum verður sérstök áhersla lögð á að höfða til barna og unglinga. Vísinda –Villi verður til dæmis með sýnikennslu á deginum og gestir frá Vísindasmiðju Háskóla Íslands munu leika sínar listir. Þá verður hægt að fylgjast með krufningu dýra, heimsækja störnuver og forritunarsmiðju svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna munu síðan kynna háþróaða tækni við framleiðslustarfsemi og veiðar og gestir munu eiga kost á að taka þátt í ýmsum vísindatilraunum. Þá verður tæknisögu Austurlands einnig gerð nokkur skil.

Þetta er í annað sinn sem tæknidagur fjölskyldunnar er haldinn í Verkmenntaskólanum en slíkur dagur var fyrst haldinn 16. mars 2013 og þótti heppnast afar vel. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir tóku þá þátt í deginum og lögðu mikið upp úr því að fróðleikur kæmist til skila með skýrum og greinargóðum hætti. Á þennan fyrsta tæknidag komu um 500 manns víða að af Austurlandi og bendir flest til þess að tæknidagurinn á laugardaginn verði fjölsóttur. Heilu hóparnir hafa þegar boðað komu sína og eftirvænting ríkir hjá mörgum.