Bjartur með fullfermi

Bjartur með fullfermi
Löndun úr Bjarti NK. Ljósm: Hákon Ernuson
 
Ísfisktogarinn Bjartur kom með fullfermi, 100 tonn, til löndunar í Neskaupstað á sunnudagskvöld. Uppistaða aflans var þorskur, en einnig var dálítið af ufsa og karfa. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri sagði í samtali við heimasíðuna að aflinn hafi fengist á Lónsdýpi, í Berufjarðarál og á Fætinum. „Þessi veiðiferð gekk þokkalega vel,“ sagði Steinþór. „Það var góð þorskveiði í einn dag en svo dró úr henni. Það hefði mátt ganga betur að ná ufsanum og karfanum. Loðnan er seint á ferðinni í ár og það vantar æti á þessum slóðum núna, það held ég að sé ljóst,“ sagði Steinþór að lokum.
 
Bjartur heldur á ný til veiða í kvöld.
 

Vaxandi kolmunnaveiði

Vaxandi kolmunnaveiði
Áhöfnin á Beiti NK hefur híft og kastað á milli bræla. Ljósm: Tómas Kárason
 
Beitir NK hefur verið að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni að undanförnu. Skipið hélt til veiða fyrir viku og eru nú komin 1700 tonn um borð. Tíðindamaður heimasíðunnar sló á þráðinn til Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra og spurðist fyrir um yfirstandandi veiðiferð. Hálfdan sagði að túrinn væri búinn að standa yfir í eina viku og veðrið hefði sannarlega verið misjafnt. „ Við höfum fengið leiðindabrælur og þurftum til dæmis að stoppa upp í einn og hálfan sólarhring. Við höfum tekið 5 hol og erum að draga frá 15 tímum og upp í 22 tíma. Síðan í gær hefur útlit verið betra en áður, það er mun meira að sjá og aflinn hefur verið að aukast. Við hífðum 400 tonn um miðjan dag í gær og 500 tonn núna fyrir hádegi. Trollið var aðeins rifið eftir síðasta hol og við erum nú að fara að kasta aftur,“ sagði Hálfdan að lokum.
 
 

Loðnuvertíð hafin fyrir alvöru

Loðnuvertíð hafin fyrir alvöru
Börkur NK með góðan loðnutúr. Ljósm: Hákon Ernuson
Í gær var góð loðnuveiði á miðunum norður af Melrakkasléttu og bendir allt til að loðnuvertíð sé hafin fyrir alvöru. Það brældi hins vegar seinni part dags og í gærkvöldi og nótt var ekkert veiðiveður. Börkur NK kom til Neskaupstaðar með rúm 2000 tonn upp úr hádegi. Polar Amaroq er síðan væntanlegur síðdegis með 1800 tonn. Gert er ráð fyrir að hluti afla skipanna fari til vinnslu í fiskiðjuverinu.
 
Sturla Þórðarson skipstjóri á Berki sagði í viðtali við tíðindamann heimasíðunnar að töluvert væri af loðnu á veiðislóðinni. „Við fengum aflann í átta holum og vorum að fá frá 160 tonnum og upp í 500 tonn í holi. Það voru öll skip á miðunum að fá góðan afla en veður hefur truflað veiðarnar töluvert. Á landleiðinni fengum við brjálað veður. Ég held að vertíðin líti bara þokkalega út,“ sagði Sturla hress í bragði. 
 

Loðnuveiðin að batna

Loðnuveiðin að batna

Bjarni Ólafsson landar loðnu til frystingar. Ljósm: Hákon Ernuson

Loðnuveiðin var þokkaleg í gær enda þá loksins gott veður á miðunum. Skipin voru að fá góð hol inn á milli og fékk Börkur NK til dæmis 500 tonna hol í gærmorgun og tvö 200 tonna hol síðar um daginn. Afli Barkar var orðinn 1400 tonn síðast þegar fréttist en þá voru skipverjar að taka trollið.

Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í morgun með 600 tonn af loðnu en aflinn fékkst í tveimur holum í gær. Verið er að landa loðnunni til frystingar í fiskiðjuverinu.