Beitir með góðan kolmunnaafla í fyrsta holi - Veður truflar veiðar

Beitir NK að veiðum. Ljósm. Tómas KárasonBeitir NK hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni á mánudagskvöld. Þegar haft var samband við Sigurð Jóhannesson stýrimann lét hann þokkalega af sér: "Við fengum 380 tonn í fyrsta holi en togað var í 14 tíma. Almennt voru skipin hér á svæðinu að fá ágætis afla", sagði Sigurður. Í fyrradag versnaði veðrið á miðunum og því var trollið ekki látið fara aftur. "Veðrið verður líklega ekki gott á ný fyrr en í dag", sagði Sigurður. "Síðan á veður að skána og það er þokkalegt veðurútlit í kortunum eftir þessa brælu", sagði Sigurður að lokum.

Birtingur NK heldur til loðnuleitar

Birtingur NK. Ljósm. Sigurður Steinn Einarsson

Eins og fram hefur komið hefur hafrannsóknaskip að undanförnu leitað loðnu út af Vestfjörðum en veður hefur gert því erfitt fyrir. Til þess að efla leitina er verið að útbúa Birting NK til þátttöku í henni.

Birtingur verður með sambærilegan leitarbúnað og hafrannsóknaskipið og þrír sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun verða um borð í honum. Áformað er að Birtingur haldi í loðnuleitina um helgina. Skipstjóri á Birting NK verður Tómas Kárason.

 

Vinnsla á loðnu hafin í fiskiðjuverinu

Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Ljósm. Hákon Ernuson

Börkur NK kom með 660 tonn af loðnu til Neskaupstaðar í gær. Hluti aflans var tekinn til vinnslu í fiskiðjuverinu og er þetta fyrsta loðnan sem þar er unnin á vertíðinni.

 

 

Skimað úr lofti eftir vísbendingum um loðnu

Á hvalaslóðum, Tómas Kárason, Gísli Víkingsson og Kári Kárason. Ljósm. Tómas Kárason

Sl. sunnudag fóru þeir bræður Kári og Tómas Kárasynir ásamt Gísla Víkingssyni hvalasérfræðingi á Hafrannsóknastofnun í athyglisverða flugferð. Þeir flugu frá Egilsstöðum og norður fyrir land í þeim tilgangi að kanna vísbendingar um loðnu. Kári er reyndur atvinnuflugmaður og Tómas er einnig flugmaður auk þess að vera skipstjóri á Beiti NK. Þeir bræður skiptust á að fljúga vélinni sem nýtt var til ferðarinnar.


Tíðindamaður heimasíðunnar hafði samband við Tómas og bað hann að segja stuttlega frá flugferðinni og að sjálfsögðu varð hann við því:

"Ferðin gekk í alla staði vel. Flognar voru 560 mílur á 4 tímum og 40 mínútum. Flogið var í 600-700 fetum á 120-130 hnúta meðalhraða. Vélin sem við vorum á var af gerðinni Diamond DA-42, fjögurra sæta, tveggja hreyfla hátæknileg flugvél sem er vel búin og unnt að fljúga í öllum veðrum. Við byrjuðum að fljúga í norðaustur, út fyrir landgrunnskantinn og síðan í norðvestur í átt að loðnuflotanum þar sem hann var að veiðum. Við flugum fram hjá skipunum og norður á 68°, síðan í vestur að 19° og þá í suður að 67° og 30‘. Það var síðan flogið í austur.“

Leitarskilyrði voru lengst af góð og sjólag var gott, en undir lok ferðar var tekið að skyggja og vinda. Við sáum ekkert af hval í ferðinni en vestast á svæðinu var talsvert mikið fuglalíf. Það höfðu fundist lóðningar á svæðinu vestast og staðfesti fuglalífið að mikið æti væri þar. Hafrannsóknaskip var síðan við loðnuleit enn vestar og þar er lóðað á loðnu.

Ég held að þetta sýni að loðnan sé að ganga að vestan en hún er ekki enn komin í verulega magni á það svæði sem skipin mega veiða á í troll. Ég held að þetta sé allt að koma", sagði Tómas að lokum.