Beitir með fyrsta síldarfarminn að vestan

Beitir NK í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ViðarssonBeitir er á leið til Neskaupstaðar með 1050 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst á Flákanum um 40 mílur vestur af Öndverðarnesi. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra um klukkan tvö í dag en þá var skipið statt við Tvísker í algeru blíðuveðri. Tómas var mjög ánægður með þessa fyrstu veiðiferð vestur fyrir land og taldi fulla ástæðu til bjartsýni hvað varðaði áframhaldandi veiðar. „Við komum á miðin á laugardagsmorgun og vorum lagðir af stað austur rúmum sólarhring síðar þannig að það er engin ástæða til að kvarta,“ sagði Tómas. „Aflinn fékkst í fjórum holum og var talsvert af síld að sjá á meðan við vorum á miðunum. Holin voru stutt; í einu þeirra fengust 320 tonn eftir að togað hafði verið í tvo tíma og tuttugu mínútur og í öðru fengust 370 tonn eftir tvo og hálfan tíma. Síldin sem þarna um ræðir er hin fallegasta og ætti að henta vel til vinnslu“, sagði Tómas að lokum.

Yfirleitt hafa Síldarvinnsluskipin veitt íslenska sumargotssíld í nót inni á Breiðarfirði á seinni árum en nú hefur engin síld fundist þar.

Börkur er kominn vestur og er við veiðar á Flákanum.


Stærsta skip sem lagst hefur að bryggju í Norðfjarðarhöfn

Stærsta skip sem komið hefur til Norðfjarðarhafnar. Ljósm. Berglind Lilja GuðlaugsdóttirÁ sunnudagsmorgun kom skipið Wild Peony sem á heimahöfn í Panama til Norðfjarðar til að lesta rúmlega 3000 tonn af frystum makríl. Makrílinn mun skipið flytja til Nígeríu. Skipið er 150 metrar að lengd og stærsta skip sem komið hefur inn í Norðfjarðarhöfn. Guðlaugur Birgisson hafnarstarfsmaður greindi heimasíðunni frá því að vel hefði  gengið að koma skipinu inn í höfnina og að bryggju. „Við notuðum hafnsögubátinn Vött og björgunarbátinn Hafbjörgu við þetta verk og gekk það vel, enda algjör blíða þegar skipið kom,“ sagði Guðlaugur. „Við hefðum sennilega ekki getað tekið á móti þessu skipi ef ekki hefði verið búið að stækka höfnina, en framkvæmdir við stækkunina eru langt komnar og höfnin orðin miklu rýmri en áður,“ sagði Guðlaugur að lokum.

Gert er ráð fyrir að lokið verði við að lesta skipið í Neskaupstað á miðvikudag.


Síldarvinnsluskipin að hefja veiðar á íslenskri sumargotssíld fyrir vestan

Úr fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hf. Ljósm. Hákon ViðarssonNú eru hafnar veiðar á íslenskri sumargotssíld vestur af landinu og hafa skipin verið að fá góðan afla á Flákanum, 30-40 mílur vestur af Öndverðarnesi. Beitir er á leiðinni á þessi mið og mun væntanlega hefja veiðar á morgun. Börkur er nú að landa um 250 tonnum af norsk-íslenskri síld í Neskaupstað en mun væntanlega halda til veiða fyrir vestan að löndun lokinni.

Vinnsluskip með 18.000 tonn af makríl og síld

Útskipun á makríl og síld í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Hákon ViðarssonÁ yfirstandandi makríl- og síldarvertíð hafa vinnsluskip landað um 18.000 tonnum af frystum afurðum í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Það eru einkum þrjú skip sem fært hafa þennan afla að landi; Vilhelm Þorsteinsson EA, Kristina EA og Hákon EA. Hákon hefur landað þrisvar sinnum en skipið hóf veiðar seint vegna þess að unnið var að breytingum á því. Að sögn Heimis Ásgeirssonar yfirverkstjóra í frystigeymslunum er vertíðin enn í fullum gangi og er von á Vilhelm Þorsteinssyni og Kristinu til löndunar eftir helgina.

Auk þess að taka á móti afla vinnsluskipanna eru afurðir fiskiðjuversins einnig geymdar í frystigeymslunum þannig að mikið magn fer í gegnum þær. Mest af hinum frystu afurðum fer um borð í flutningaskip í Norðfjarðarhöfn en hluti af þeim er fluttur landleiðina í gámum til Reyðarfjarðar þar sem þeir fara um borð í skip. Að sögn Heimis er von á tveimur skipum til Neskaupstaðar á næstunni til að lesta frystar afurðir. Annað þessara skipa mun taka 3000 tonn til Afríku og er það stærsta skip sem nokkru sinni hefur komið inn í Norðfjarðarhöfn, 150 metra langt.