Síldveiðin byrjar vel að afloknu stuttu hléi

Beitir NK. Ljóm. Hákon Viðarsson Síldveiðiskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, héldu til veiða á föstudagskvöld og á laugardag að afloknu stuttu hléi. Starfsfólk fiskiðjuversins fékk gott helgarfrí og allmargir starfsmenn fyrirtækisins sóttu sjávarútvegssýninguna þannig að hléið nýttist ágætlega.

Beitir kom síðan til hafnar í Neskaupstað í nótt með 900 tonna afla og er hann nánast hrein síld. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í fimm holum í Reyðarfjarðardýpinu 30-50 mílur frá Norðfjarðarhorni. „Þetta verður ekki styttra“, sagði Hálfdan, “og þar að auki er þetta stór og góð síld sem þarna fæst. Holin sem við tókum voru stutt enda er öll áhersla lögð á að koma með sem best hráefni að landi. Seinni part beggja daganna sem við vorum að veiðum fengust mjög góð hol.“

Börkur  er að veiðum á svipuðum slóðum og Beitir var á og hefur fiskað vel. Gert er ráð fyrir að löndun úr honum hefjist strax og löndun lýkur úr Beiti.

Nú er farið að styttast í þessari síldarvertíð þannig að brátt verður farið að hyggja að veiðum á íslenskri sumargotssíld.

Góð síldveiði og helgarfrí í fiskiðjuverinu

Nóg hefur verið að gera við vinnslu síldar í fiskiðjuverinu að undanförnu. Ljósm. Hákon Viðarsson.Lokið var við að landa rúmlega 600 tonnum af síld í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar úr Beiti NK sl. miðvikudag og þá hófst þegar löndun úr Berki NK sem kominn var að landi með rúmlega 1000 tonn. Beitir fékk sinn afla austan við 10. gráðu eða um 130 mílur frá Norðfirði. Á þeim slóðum var ekki sérlega mikið af síld að sjá. Börkur var hins vegar að veiðum á Glettinganesflaki, um 35 mílur frá Norðfirði. Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki var þar afar góð veiði undir lok túrsins. Sem dæmi fengust liðlega 500 tonn í síðasta holinu en þá var togað í rúmlega eina klukkustund.

Löndun úr Berki lauk í morgun og mun starfsfólk fiskiðjuversins fara í kærkomið helgarfrí þegar það hefur lokið við að þrífa verið hátt og lágt. Gert er ráð fyrir að Beitir haldi til veiða í kvöld og Börkur á morgun þannig að vinnsla hefjist á ný í fiskiðjuverinu strax eftir helgina.

Nú er eftir að veiða um 3.500 tonn af kvóta Síldarvinnslunnar í norsk-íslensku síldinni.


Á milli 40 og 50 starfsmenn Síldarvinnslunnar sækja sjávarútvegssýninguna

Frá Sjávarútvegssýningunni í Smáranum. Ljósm. Karl Rúnar RóbertssonIceFish, íslenska sjávarútvegssýningin, verður formlega opnuð í dag í Smáranum í Kópavogi. Hér er um að ræða elleftu sjávarútvegssýninguna hér á landi og munu um 500 fyrirtæki kynna starfsemi sína og framleiðslu á henni. Í tengslum við sýninguna verða því fyrirtæki sem þótt hefur skara fram úr á sviði sjávarútvegs veitt verðlaun og eins verða haldnar ráðstefnur og kynningafundir sem snerta það efni sem sýningin gerir skil.

Alls munu á milli 40 og 50 starfsmenn Síldarvinnslunnar sækja sýninguna og koma þeir frá öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Hákon Viðarsson starfsmannastjóri segir mikilvægt að starfsmenn fylgist með því nýjasta sem er að gerast innan greinarinnar og sjávarútvegssýningin veiti einstakt tækifæri til þess.


Barði kominn til hafnar með fullfermi af karfa og ufsa

Trollið tekið á Barða NK. Ljósm. Hreinn SigurðssonFrystitogarinn Barði NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í morgun eftir vel heppnaða veiðiferð sem hófst þó ekki glæsilega. Fyrst hélt skipið til úthafskarfaveiða en gafst upp eftir sex sólarhringa og fékkst enginn afli á þessum tíma. Þá var haldið til Hafnarfjarðar og skipt um hlera og síðan hafnar gullkarfaveiðar í Víkurálnum. Theodór Haraldsson stýrimaður upplýsti heimasíðuna að gullkarfaveiðin hefði í reynd verið ævintýraleg, allt upp í 700 kg. á mínútu og því hefði skipið verið langtímum saman á reki á meðan vinnsla fór fram. „Þetta var sannkölluð Holið hjá Barða NK var 20 tonn. Ljósm. Hreinn Sigurðssonmokveiði“, sagði Theodór,“og við tókum þarna nokkur 15-20 tonna hol. Undir lok túrsins var ætlunin að veiða ufsa og þá var haldið á Halann en þar hafði verið ágætis ufsaveiði. Þegar við komum þangað hafði veiðin hins vegar dottið niður og því tekin ákvörðun um að reyna við ufsa hér fyrir austan. Við fylltum síðan skipið á tveimur sólarhringum á Papagrunni og í Berufjarðarál. Þar var þokkalegt nudd í ufsanum og reyndar var síðasta holið býsna gott, ein 12 tonn. Eftir að tilrauninni til veiða á úthafskarfa  lauk vorum við 11 sólarhringa á veiðum og er heildaraflinn um 330 tonn upp úr sjó. Túrinn tók alls 18 daga höfn í höfn og var fínasta veður allan tímann ef undanskilinn er einn bræludagur,“ sagði Theodór hinn ánægðasti.

Aflinn losaður í móttökuna. Ljósm. Hreinn SigurðssonGert er ráð fyrir að Barði haldi til veiða á ný á sunnudagskvöld og aftur verði lögð áhersla á að fiska karfa og ufsa.