Ágætur gangur hjá togurunum

Löndun úr frystitogaranum Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonLöndun úr frystitogaranum Barða NK. Ljósm. Hákon ErnusonÍsfisktogararnir Bjartur NK og Gullver NS lönduðu góðum afla sl. mánudag. Bjartur landaði liðlega 100 tonnum í Neskaupstað og var uppistaða aflans ýsa. Gullver landaði á Seyðisfirði um 80 tonnum og var aflinn að mestu ufsi og karfi. Bjartur kemur á ný til löndunar í kvöld en heldur til veiða á ný strax að löndun lokinni.
 
Frystitogarinn Barði NK millilandaði í Neskaupstað í gær. Aflinn var blandaður, 260 tonn upp úr sjó að verðmæti 100 milljónir króna. Barði hélt á ný til veiða í gærkvöldi og verður í um það bil eina viku að veiðum. Gert er ráð fyrir að hann komi til hafnar vel fyrir sjómannadag.
 

Sjávarútvegsskóli Austurlands

DSC01102 2

Mynd tekin í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar árið 2014

Sumarið 2013 hóf Síldarvinnslan að starfrækja Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar. Skólastarfið stóð yfir í tvær vikur og fengu nemendur greidd námslaun sem voru sambærileg launum í Vinnuskóla Fjarðabyggðar. Mikill áhugi reyndist vera á skólastarfinu en lögð var áhersla á að fræða ungmennin um sögu sjávarútvegs og fiskvinnslu, gæða- og markaðsmál, starfsmannamál og menntun starfsfólks í sjávarútvegi og tengdum greinum. Þá var farið í vettvangsheimsóknir um borð í skip, fiskvinnslufyrirtæki og til fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn. Meginástæða þess að efnt var til skólahalds sem þessa er sú að skólakerfið leggur litla áherslu á fræðslu um þessa undirstöðuatvinnugrein. Einnig hefur verið bent á að í sjávarplássum nútímans er hægt að alast upp án þess að sjá nokkurn tímann fisk. Áður fyrr var öll starfsemi tengd sjávarútvegi nálægt fólki; afla var landað á hverri bryggju, beitt í fjölda skúra og vinnsla á fiski fór jafnvel fram undir beru lofti. Nú er öldin önnur; veiðiskipin eru stærri og færri en áður, aflanum landað á lokuðum hafnarsvæðum og vinnslan fer fram innanhúss þar sem farið er eftir ströngum reglum um hreinlæti og gæði.

                Starfsemi Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar vakti athygli og önnur fyrirtæki í Fjarðabyggð sýndu því áhuga að taka þátt í skólastarfinu. Niðurstaðan varð sú að Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar tók til starfa í fyrra og auk sjávarútvegsfyrirtækjanna Eskju og Loðnuvinnslunnar komu Vinnuskóli Fjarðabyggðar og Austurbrú til liðs við Síldarvinnsluna. Efnt var til skólahalds í allri Fjarðabyggð fyrir nemendur sem fæddir voru árið 2000 og var kennt á þremur stöðum í sveitarfélaginu.

                Enn mun Sjávarútvegsskólinn færa út kvíarnar og í ár verður starfssvæði hans allt Austurland, eða svæðið frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Auk sveitarfélaga við sjávarsíðuna mun Fljótsdalshérað taka fullan þátt í skólahaldinu. Í samræmi við þetta hefur nafni skólans verið breytt og ber hann nú heitið Sjávarútvegsskóli Austurlands.

                Í ár gefst ungmennum sem fædd eru árið 2001 kostur á að sækja Sjávarútvegsskólann, en ráðgert er að kenna á sex stöðum. Kennsla mun fara fram í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Vopnafirði , Höfn og Seyðisfirði. Nemendum frá þeim byggðarlögum, sem ekki verður kennt í , verður ekið til og frá kennslustað.

                Nánari upplýsingar um skólahaldið er að finna á www.sjavarskoli.net og þar verður unnt að skrá sig í skólann. Eins munu þar birtast upplýsingar um hvenær kennsla fer fram á hverjum stað. Í forsvari fyrir skólann eru þau Sylvía Kolbrá Hákonardóttir (gsm 868-7077) og Sigurður Steinn Einarsson (gsm 867-6858).

                Þess skal getið að Síldarvinnslan hlaut viðurkenningu Samtaka atvinnulífsins sem  menntasproti ársins í febrúar á þessu ári fyrir frumkvæði sitt við að koma Sjávarútvegsskólanum á fót.  

Síldarvinnslan hf. sýknuð af kröfum Hafnarfjarðarkaupstaðar

svn-logoHafnarfjörður höfðaði á síðasta ári dómsmál gegn Síldarvinnslunni hf. í tengslum við kaup félagsins á aflaheimildum af útgerðarfélaginu Stálskipum hf.  Taldi bæjarráð Hafnarfjarðar að rétt hefði verið að bjóða bænum forkaupsrétt vegna kaupanna þar sem verið væri að selja aflaheimildir úr bæjarfélaginu og var því krafist ógildingar á kaupunum.
 
Síldarvinnslan taldi engin rök fyrir slíkri kröfu enda væri einfaldlega ekki kveðið á um slíkan forkaupsrétt í lögum.
 
Í dómi héraðsdóms er tekið undir þetta sjónarmið Síldarvinnslunnar og er því þar slegið föstu að forkaupsréttur sveitarfélaga í samræmi við ákvæði laga um stjórn fiskveiða eigi ekki við þegar aflaheimildir séu seldar.
 
Var Síldarvinnslan því sýknuð af öllum kröfum Hafnarfjarðar auk þess sem bærinn var dæmdur til að greiða málskostnað.
 

Bergey VE í slipp – Vestmannaey VE aflar vel

Bergey VE í slipp í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonBergey VE í slipp í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonAf skipum Bergs-Hugins ehf. í  Vestmannaeyjum er það að frétta  að Bergey VE er þar í slipp þessa dagana. Verið er að setja tvö ný botnstykki undir skipið fyrir mæla frá Marport og síðan verður sinnt hefðbundnu viðhaldi. Treyst var á að maímánuður yrði frekar þurr þannig að vel gengi að mála skipið en það hefur ekki gengið eftir. Vonandi eiga þó eftir að koma þurrir og hagstæðir málningadagar á næstunni.
 
Á meðan Bergey er í slipp hefur Vestmannaey VE verið að fiska. Aflabrögð hafa verið þokkalega góð og kemur skipið til löndunar í dag. Þá hefur það landað þrisvar á um það bil einni viku og er heildaraflinn úr þessum þremur túrum tæp 400 kör, en um 400 kg. eru í hverju kari. Þessi afli samanstendur af ýmsum tegundum t.d. 55 körum af lýsu, 55 körum af löngu og 55 körum af sólkola auk þorsks, ýsu og karfa. Af þessum afla fara fimm gámar, eða tæplega helmingur aflans, á markað í Englandi og Þýskalandi en annað er unnið hjá Nöf í Vestmannaeyjum.