Kolmunna landað en veiðin hefur minnkað

Börkur NK kemur með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar í gær. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK kemur með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar í gær. Ljósm. Hákon ErnusonKolmunna hefur verið landað síðustu daga í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Hákon EA kom með um 1200 tonn til Seyðisfjarðar á mánudagskvöld og hófst vinnsla þá. Vilhelm Þorsteinsson EA kom síðan til Seyðisfjarðar með 2400 tonn í gær. Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gær með 2500 tonn en Beitir kom til löndunar með fullfermi á mánudag.
 
Gunnar Sverrisson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar og verksmiðjustjóri á Seyðisfirði sagði í samtali við heimasíðuna að menn væru ánægðir með að kolmunnavertíðin væri hafin og vonandi gengju veiðar vel. Fyrir verksmiðjuna á Seyðisfirði væri kolmunnavertíðin mikilvæg og það væri svo sannarlega gott að fá góðan kolmunnaafla til vinnslu í kjölfar góðrar loðnuvertíðar. Á Seyðisfirði var tekið á móti rúmlega 36 þúsund tonnum af loðnu á nýliðinni vertíð en engin loðna barst þangað á vertíðinni 2014.
 
Birtingur NK hóf kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni fyrir þremur dögum og spurði heimasíðan Steinþór Hálfdanarson skipstjóra frétta. „Því miður hefur veiðin ekki verið góð þessa þrjá daga og auk þess höfum við átt í dálitlu brasi með veiðarfæri,“ sagði Steinþór. „Við erum komnir með 300 tonn og það er ekki mikið að sjá. Veiðin var miklu betri fyrstu dagana eftir að hún hófst. Það er mikill fjöldi af skipum að veiðum syðst í færeysku lögsögunni og flotinn er dreifðari en áður. Rússarnir hafa haldið sig austar en íslensku og norsku skipin en nú hafa einhver skip fært sig til þeirra. Eitt og eitt skip hefur fengið þokkalegt hol þannig að þetta er hittingur en flest skipin hafa verið að fá lítið. Við reiknum með að þetta muni lagast. Fiskurinn er að ganga inn í lögsöguna og hann kemur fyrr eða síðar í því magni sem þarf. Við erum bjartsýnir eins og alltaf,“ sagði Steinþór að lokum.
 

Góð loðnuvertíð en erfið. Síldarvinnslan tók á móti rúmlega 138 þúsund tonnum.

Börkur NK með kast á síðunni á nýliðinni loðnuvertíð. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBörkur NK með kast á síðunni á nýliðinni loðnuvertíð. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonLoðnuvertíðinni sem lauk fyrir skömmu er gjarnan lýst sem góðri en óvenjulegri og erfiðri. Útgefinn kvóti var tiltölulega mikill og markaðsverð á ýmsum afurðum hátt. Loðnan hélt sig hins vegar óvenju lengi fyrir norðan land og göngumynstur hennar telst vart hefðbundið. Þá þétti hún sig lengi vel illa og veðurfarið á vertíðinni var erfitt; vetrarlægðirnar komu hver á fætur annarri að vestan með tilheyrandi brælum og leiðindum. Að því kom að loðnan þétti sig úti fyrir suðausturlandi og eftir það fiskaðist vel þegar veður leyfði. Þá kom vestanganga undir lok vertíðar og gerði sitt gagn eins og stundum áður.
 
Reikna má með að verðmæti loðnunnar sem veiddist á vertíðinni og var unnin hér á landi nemi um 27 milljörðum króna og munar um minna fyrir íslenskt þjóðarbú. Alls var úthlutað 390 þúsund tonnum til íslenskra loðnuskipa á vertíðinni og er það mikil breyting frá síðasta ári þegar úthlutaður kvóti þeirra nam einungis rúmlega 127 þúsund tonnum.
 
Afli skipa Síldarvinnslunnar á vertíðinni var sem hér segir:
                    Birtingur     12. 688 tonn
                    Beitir           15.674 tonn
                    Börkur         22.882 tonn
 
Samtals veiddu skipin því 51.244 tonn.
 
Alls tók Síldarvinnslan á móti 138.230 tonnum af loðnu á vertíðinni ef með eru talin 2.050 tonn af sjófrystum afurðum sem vinnsluskipið Hákon landaði í frystigeymslur fyrirtækisins í Neskaupstað. Eru þetta mikil viðbrigði frá síðustu vertíð en þá tók Síldarvinnslan á móti 45.000 tonnum.
 
Alls voru fryst 12. 105 tonn af loðnu og loðnuhrognum fyrir ýmsa markaði á vegum Síldarvinnslunnar. Öll frystingin fór fram í fiskiðjuveri fyrirtækisins í Neskaupstað ef undan er skilinn hluti hrognanna sem unnin var í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ.
 
Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku samtals á móti 124.151 tonni af loðnu á vertíðinni. Móttekin loðna hverrar verksmiðju var sem hér segir:
                        Neskaupstaður  58.800 tonn
                        Seyðisfjörður      36.021 tonn
                        Helguvík              29.330 tonn
 

Ágætis kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni

Beitir NK kemur með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonBeitir NK kemur með fullfermi af kolmunna til Neskaupstaðar í dag. Ljósm. Hákon ErnusonÁgæt kolmunnaveiði hefur verið syðst í færeysku lögsögunni síðustu daga en þar er mikill floti skipa að veiðum. Ólafur Gunnar Guðnason stýrimaður á Berki sagði í morgun að líklega væru 30-40 skip að veiðum á litlum bletti og þau væru að toga nánast á línunni þar sem kolmunninn gengi norður og inn í færeysku lögsöguna. „Það er mikil strolla af skipum að toga hérna og við erum væntanlega að taka lokaholið, en það vantar um 250 tonn til að fylla skipið,“ sagði Ólafur. „Við erum núna með okkar sjöunda hol í túrnum og venjulega er togað í 12-18 tíma. Aflinn er breytilegur en við höfum verið að fá 300-500 tonna hol og það er gott. Það kom smá deifð í veiðina í gær og fram eftir nóttu en nú hefur verið að lifna yfir þessu aftur. Þetta gengur svona á kolmunnanum, veiðin vill vera dálítið köflótt. Við gerum ráð fyrir að fylla skipið og leggja af stað í land um eða uppúr hádegi,“ sagði Ólafur að lokum.
 
Beitir er væntanlegur til Neskaupstaðar með fullfermi af kolmunna í dag og Birtingur hefur hafið veiðar. Birtingur þurfti að bíða í höfn í Færeyjum um tíma til að komast að á miðunum en einungis 12 íslensk skip mega veiða samtímis í færeysku lögsögunni.

Farið yfir umsóknir um sumarstörf

Úr fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hf. Ljósm. Hákon ViðarssonÚr fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar hf. Ljósm. Hákon ViðarssonUm þessar mundir er verið að fara yfir umsóknir um sumarstörf hjá Síldarvinnslunni og mega umsækjendur vænta svara í næstu viku. Svo virðist vera að galli í tölvukerfi hafi gert það að verkum að einhverjar umsóknir skiluðu sér ekki og því eru allir umsækjendur beðnir um að ítreka umsóknir sínar.
 
Gert er ráð fyrir að hluti umsækjenda verði ráðinn til starfa í sumarbyrjun og mun sá hópur sinna umhverfisverkefnum þar til vaktir í fiskiðjuveri hefjast í júlímánuði. Aðrir umsækjendur, sem ráðnir verða, munu hefja störf þegar vaktavinnan í fiskiðjuverinu hefst.