Sjávarútvegsskóli Austurlands á Eskifirði

Nemendur Sjávarútvegsskólans í heimsókn í Egersund. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir

         Nemendur Sjávarútvegsskólans í heimsókn í Egersund. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir             

Kennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands hófst á Eskifirði sl. mánudag. Er það annar staðurinn sem kennt er á í sumar en kennslu í Neskaupstað lauk 12. júní sl. Níu nemendur frá Eskifirði og Reyðarfirði sækja skólann að þessu sinni og eru kennarar þau Sigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir nemi í sjávarútvegsfræðum og Páll Jónsson nemi í viðskiptatengdri ferðamálafræði.

                Á fyrsta kennsludegi hlýddu nemendur á fyrirlestra um sögu fiskveiða og einkenni íslensks sjávarútvegs og á öðrum degi var fjallað um þróun fiskvinnslu ásamt því að farið var í heimsóknir í fiskimjölsverksmiðju Eskju og netagerðina Egersund. Síðar verður fjallað um gæðamál og markaðsmál og farið í fleiri vettvangsheimsóknir, meðal annars um borð í fiskiskip.

                Að sögn kennaranna gengur starfsemi skólans vel og nemendahópurinn þykir góður og áhugasamur. Að lokinni kennslu á Eskifirði verður kennt á Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði og Vopnafirði, en síðasti kennslustaðurinn er Höfn. Kennt er í eina viku á hverjum stað.

Umhverfishópur Síldarvinnslunnar sinnir þörfum verkefnum

11655330 10207595649555887 511002650 n

Glæsilegur umhverfishópur að störfum. Ljósm: Hákon Ernuson

Umhverfishópur Síldarvinnslunnar undir stjórn Sigfúsar Sigfússonar hóf störf í byrjun júnímánaðar. Hópurinn er skipaður 12 ungmennum á aldrinum 17-23 ára og sinnir hann fjölbreyttum verkefnum. Á meðal verkefna sem eru á dagskrá eru tiltekt, þrif, gróðursetningar og málningarvinna. Gert er ráð fyrir að drjúgur hluti hópsins hefji störf í fiskiðjuverinu þegar makrílvertíð hefst.

11356326 10207595666356307 1867582856 n

Þau eru ýmis verkefnin sem umhverfishópurinn þarf að leysa. Ljósm: Hákon Ernuson

Að sögn Sigfúsar Sigfússonar er árangur af starfi hópsins mjög góður enda sinnir hann þörfum og mikilvægum verkefnum. „Allir sem eiga leið um athafnasvæði Síldarvinnslunnar verða varir við árangurinn af starfinu og nú þegar er sýnt að hann er mjög góður,“ sagði Sigfús. „Þetta er dugnaðarfólk og mjög áhugasamt, enda ríkir fínn vinnuandi innan hópsins ,“ sagði Sigfús að lokum.

100 ára afmæli kosningaréttar kvenna

Anna og Barbara fá frí eftir hádegi í tilefni dagsins. Ljósm: Hákon ErnusonAnna og Barbara fá frí eftir hádegi í tilefni dagsins. Ljósm: Hákon ErnusonKvenréttindaárið mikla var 1911 en þá var lagt fyrir Alþingi stjórnarskrárfrumvarp sem fól í sér kosningarétt og kjörgengi kvenna. Lítið var um andstöðu kröfunnar og var frumvarpið því samþykkt.  Það hlaut þó ekki staðfestingu konungs og tafði einkum sambandsmál Íslands og Danmerkur fyrir því.  Nýtt stjórnskrárfrumvarp var svo samþykkt frá Alþingi árið 1913 um að konur og hjú skyldu hafa náð fertugsaldri þegar þau fengu kosningarétt og kjörgengi.  Þá var ákvæði í frumvarpinu um að kosningaaldurinn skyldi lækka um eitt ár árlega þar til hann yrði 25 ár líkt og hjá körlum. Kristján X konungur staðfesti svo stjórnarskrána 19. júní 1915 og þar með fengu íslenskar konur 40 ára og eldri langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis
 
Í tilefni þess að á morgun, föstudaginn 19 júní, eru 100 ár liðin frá því að þessi viðburður átti sér stað veitir Síldarvinnslan hf. öllum konum er starfa hjá félaginu og tengdum félögum frí frá hádegi. Þá hvetur Síldarvinnslan hf. alla til að taka þátt í hátíðarhöldunum á morgun. 
 
Í tilefni dagsins er vert að vekja athygli á örþáttum um stórar og stefnumarkandi atburði sem tengjast sögu íslenskra kvenna og baráttu þeirra fyrir samfélagslegu jafnrétti. Örþættina má horfa á í Sarpi RÚV á slóðinni: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/oldin-hennar/20150614 
 

Fer að líða að lokum kolmunnavertíðar

928 2

Beitir NK á sjómannadaginn í Neskaupstað. Ljósm: Hákon Ernuson

Kolmunnaveiðar hófust aftur eftir sjómannadag þegar Beitir og Börkur NK hófu leit að kolmunna úti við Austfirði á þriðjudeginum 9. júní. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri á Beiti NK sagði í samtali við heimasíðuna: „Við leituðum fyrstu dagana í Þórsbankanum og í Rósagarðinum en þar var ekkert magn til að hefja veiðar“. Því var ákveðið að halda á svipaðar veiðislóðir og skipin voru á fyrir sjómannadag eða við suður Færeyjar.

Þegar heimasíðan heyrði í þeim á Beiti NK í morgun voru þeir á heimleið með 1.500 tonn af kældum kolmunna sem fékkst í 6 holum. „Það er dregið lengi núna, allt að 20 tíma, en það er fínasta blíða á miðunum og vorum við að fá allt að 430 tonn í holi“ sagði Hálfdan. Að sögn Hálfdans voru 7-8 önnur íslensk skip á miðunum. Þá var Börkur NK kominn með 1.380 tonn í morgun og er enn við veiðar. Líklegt þykir að sjá má fyrir endan á kolmunnavertíðinni að þessu sinni.

Þegar löndun lýkur munu Síldarvinnsluskipin og Bjarni Ólafsson AK hafa veitt yfir 50.000 tonn á vertíðinni en landaður afli skiptist þannig:

Beitir NK: 16.905t

Börkur NK: 16.404t

Birtingur NK: 8.208t

Bjarni Ólafsson AK (nýi): 6.590t