Síldarvinnslan hf. styður Þrótt

Stefán Már Guðmundsson og Gunnþór Ingvason við undirritun samningsins. Ljósm. Hákon ErnusonStefán Már Guðmundsson og Gunnþór Ingvason við undirritun samningsins. Ljósm. Hákon ErnusonSíldarvinnslan og Íþróttafélagið Þróttur hafa gert með sér styrktar- og auglýsingasamning og var samningurinn undirritaður hinn 17. mars sl. Hér er um að ræða endurnýjun á samningi sem hefur verið í gildi undanfarin ár. Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra félaga sem stutt hafa Þrótt hvað dyggilegast og stuðlað að því að unnt væri að halda úti kraftmiklu og fjölbreyttu íþróttastarfi í Neskaupstað. Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sem undirrituðu samninginn.
 
Gunnþór sagði í samtali við heimasíðuna að Síldarvinnslan væri stolt af því að einn af stærstu styrktaraðilum Þróttar. Íþróttafélagið gegndi mikilvægu hlutverki í samfélaginu og hin fjölbreytta starfsemi þessi væri í rauninni aðdáunarverð. Ljóst væri að margir legðu af mörkum mikið starf innan félagsins og það væri eðlilegt að fyrirtæki í byggðarlaginu styddu við bakið á því.
 
Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sagði aðspurður að þessi samningur skipti Þrótt miklu máli en hann felur í sér mánaðarlegar greiðslur til deilda félagsins og skapa slíkar greiðslur ákveðið öryggi í rekstri deildanna. Segir Stefán að ljóst sé að Þróttur njóti mikillar velvildar í Neskaupstað og komi það skýrt fram við gerð samnings eins og þessa. „Íbúarnir virðast svo sannarlega kunna að meta starfsemi íþróttafélagsins enda er allt kapp lagt á að innan þess sé vel að málum staðið. Við viljum bjóða börnum og ungmennum upp á góða þjálfun og veita þeim tækifæri til að njóta sín á íþróttasviðinu. Starfsemin er fjölbreytt og kostnaður er mikill og þá ekki síst ferðakostnaður sem hækkar stöðugt. Það er algerlega ómetanlegt að eiga hauka í horni sem vilja styðja okkur og leggja félaginu lið,“ sagði Stefán að lokum.
 
Þróttur er deildaskipt félag og er án efa leitun að íþróttafélagi í sambærilegu byggðarlagi sem hefur með höndum jafn öfluga og fjölbreytta starfsemi. Deildir félagsins eru sex talsins: Knattspyrnudeild, blakdeild, sunddeild, skíðadeild, frjálsíþróttadeild og taekwandodeild. Knattspyrnudeildin tekur virkan þátt í Knattspyrnufélagi Fjarðabyggðar sem er samstarfsverkefni íþróttafélaga í Fjarðabyggð og skíðadeildin á í sambærilegu samstarfi innan Skíðafélags Fjarðabyggðar. Íþróttaiðkendur á vegum Þróttar eru hátt í 400 talsins en hafa ber í huga að margir leggja stund á fleiri en eina íþróttagrein. Þjálfarar félagsins í öllum greinum eru 22 talsins. Árangur Þróttara í mörgum íþróttagreinum er landskunnur og má þá nefna þann sess sem félagið skipar innan blakíþróttarinnar sem dæmi. Þróttur á lið í efstu deild blaksins bæði í karla- og kvenna flokki og meistaratitlar félagsins í yngri flokkum eru fjölmargir. Þróttur sýnir í reyndinni hvernig íþróttafélag getur haft jákvæð og uppbyggjandi áhrif í því samfélagi sem það starfar í.

Rallinu lokið hjá Bjarti NK

Áhöfnin á Bjarti NK gengur tryggilega frá tundurduflinu. Ljósm. Bjarni Már HafsteinssonÁhöfnin á Bjarti NK gengur tryggilega frá tundurduflinu. Ljósm. Bjarni Már HafsteinssonBjartur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi og hafði þá lokið togararallinu þetta árið. Bjartur togaði á alls 184 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Hornafirði að Eyjafirði. Bjarni Hafsteinsson stýrimaður sagði að rallið hefði gengið vel en þó hefði það tekið lengri tíma en áætlað var vegna óhagstæðs veðurs. Meiri afli mun hafa fengist í þessu ralli en ralli undanfarinna ára en Hafrannsóknastofnun nýtir togararallið til að leggja mat á stofnstærð botnfiska við landið.
 
Hinn 18. mars sl. fékk Bjartur tundurdufl í vörpuna þar sem hann var að toga í Rósagarðinum suðaustur af landinu. Landhelgisgæslunni var tilkynnt um duflið og fékk áhöfnin leiðbeiningar um meðferð þess um borð. Tveir menn frá gæslunni tóku síðan  á móti skipinu þegar það kom til hafnar í gærkvöldi og gerðu þeir duflið óvirkt og brenndu það síðan.
 
Bjartur heldur til veiða síðar í dag og er væntanlegur til löndunar á fimmtudag.

Ennþá skip á loðnumiðunum – kolmunninn næstur á dagskrá

Börkur NK farinn til kolmunnaveiða. Ljósm. Hákon ErnusonBörkur NK farinn til kolmunnaveiða. Ljósm. Hákon ErnusonEnnþá eru skip á loðnumiðunum fyrir vestan land en síðast þegar fréttist var lítið um að vera hjá þeim. Sumir halda í vonina um að einhver veiðanleg loðna sé enn á ferðinni og því leita skipin um þessar mundir.
 
Börkur NK lauk löndun sl. föstudag og voru unnin hrogn úr aflanum. Þetta var síðasti loðnutúr hans á vertíðinni. Þegar að löndun lokinni var hafist handa við að útbúa skipið á kolmunnaveiðar og hélt það til veiða í gærkvöldi.
 
Norska kolmunnaskipið Hardhaus kom til Neskaupstaðar í gær og landaði 1850 tonnum af kolmunna.
 

Líður að lokum loðnuvertíðar

Á loðnumiðunum við Snæfellsnes. Ljósm. Örn Rósmann KristjánssonÁ loðnumiðunum við Snæfellsnes. Ljósm. Örn Rósmann KristjánssonLjóst má vera að það eru ekki margir veiðidagar eftir á yfirstandandi loðnuvertíð. Enn er þó vonast eftir einhverri veiði þannig að skipin nái að ljúka við að veiða kvóta sína eða fara langt með það. Skipin á miðunum voru að leita í gær og fann Beitir loðnu út af Snæfellsnesi. Kastaði hann og fékk 400-500 tonn. Einhver fleiri skip köstuðu á sömu slóðum en fljótlega brældi og lá flotinn í vari í nótt. Í morgun var veðrið orðið betra og hófu skipin þá leit.
 
Börkur kom með fullfermi til Neskaupstaðar í nótt . Unnin eru hrogn úr afla hans og gengur sú vinnsla vel.