Tæknidagur fjölskyldunnar er á laugardaginn

Starfsmenn Síldarvinnslunnar undirbúa tæknidaginn. Ljósm. Smári GeirssonTæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands á laugardaginn kemur. Það er Verkmenntaskólinn ásamt  Austurbrú sem standa fyrir deginum og hefur undirbúningur hans staðið lengi yfir.

Mikill fjöldi fyrirtækja og stofnana mun taka þátt í deginum og er Síldarvinnslan á meðal þeirra. Á tæknidegi fjölskyldunnar er kappkostað að höfða til allra aldurshópa og þar verður unnt að kynnast ýmsum tækninýjungum ásamt því að meðtaka margskonar fróðleik og hlýða á fyrirlestra. Þá geta gestir kynnt sér námsframboð Verkmenntaskólans og þá aðstöðu og tækjakost sem skólinn býður upp á. Á deginum gefst fólki tækifæri til að skoða nýjan vélarúmshermi skólans og eins mun menntamálaráðherra vígja FABLAB Austurland sem skólinn hefur komið á fót með tilstyrk sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og fyrirtækja í sveitarfélaginu. FABLAB er stafræn smiðja með einföldum stýribúnaði og gerir hún fólki á öllum aldri kleift að hanna og smíða næstum hvað sem er. 

Þó svo að allir eigi að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á tæknideginum verður sérstök áhersla lögð á að höfða til barna og unglinga. Vísinda –Villi verður til dæmis með sýnikennslu á deginum og gestir frá Vísindasmiðju Háskóla Íslands munu leika sínar listir. Þá verður hægt að fylgjast með krufningu dýra, heimsækja störnuver og forritunarsmiðju svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna munu síðan kynna háþróaða tækni við framleiðslustarfsemi og veiðar og gestir munu eiga kost á að taka þátt í ýmsum vísindatilraunum. Þá verður tæknisögu Austurlands einnig gerð nokkur skil.

Þetta er í annað sinn sem tæknidagur fjölskyldunnar er haldinn í Verkmenntaskólanum en slíkur dagur var fyrst haldinn 16. mars 2013 og þótti heppnast afar vel. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir tóku þá þátt í deginum og lögðu mikið upp úr því að fróðleikur kæmist til skila með skýrum og greinargóðum hætti. Á þennan fyrsta tæknidag komu um 500 manns víða að af Austurlandi og bendir flest til þess að tæknidagurinn á laugardaginn verði fjölsóttur. Heilu hóparnir hafa þegar boðað komu sína og eftirvænting ríkir hjá mörgum.

Íslenska sumargotssíldin er gott hráefni

Bjarni Ólafsson AK kemur til löndunar. Ljósm. Guðlaugur B. BirgissonÍ fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er tekið á móti íslenskri sumargotssíld frá þremur skipum: Beiti NK, Berki NK og Bjarna Ólafssyni AK. Síldin er ýmist heilfryst eða flökuð og er unnið úr um 700 tonnum á sólarhring. Lokið var við að landa 1000 tonnum úr Beiti í gær og Bjarni Ólafsson mun koma með 550 tonn í fyrramálið. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að síldin sé mjög gott hráefni til vinnslu og öll starfsemi í fiskiðjuverinu gangi vel. „Nú er hins vegar svo komið að vinnslan hjá okkur er ekki samfelld. Það er langt að sækja síldina vestur fyrir land og veður hefur eðlilega mikil áhrif. Nú spáir til dæmis brælu og við gætum þurft að bíða töluvert eftir næsta farmi þegar búið verður að vinna síldina sem Bjarni Ólafsson kemur með á morgun. Þá ber að geta þess að síðustu daga hafa verið framkvæmdir um borð í Berki og því þurfti hann að gera hlé á veiðum. Bjarni Ólafsson er núna í sínum næstsíðasta túr á vertíðinni en Síldarvinnsluskipin Beitir og Börkur eiga samtals eftir að veiða um 6500 tonn,“sagði Jón Gunnar.


Framkvæmdir um borð í Berki NK

Gamli nótakraninn kominn í land af Berki NK. Ljósm. Hákon ViðarssonEftir að Börkur NK hafði lokið við að landa 1300 tonnum af íslenskri sumargotssíld sl. laugardag var gert hlé á veiðum skipsins. Hléið er notað til ýmissa framkvæmda um borð. Í fyrsta lagi verður nótaleggjari skipsins endurnýjaður og komið fyrir mun öflugri leggjara en áður var. Í öðru lagi er unnið að gerð undirstaða fyrir búnað sem notaður verður til að dæla aflanum af skut en með tilkomu slíks búnaðar þarf ekki lengur að dæla afla úr trollpokanum af síðunni. Vindur og annar búnaður sem tengist skutdælingunni er væntanlegur í lok desembermánaðar og verður þá komið fyrir. Í þriðja lagi er unnið að ýmsum breytingum á vélbúnaði skipsins.

Iðnaðarmenn að störfum um borð í Berki NK. Ljósm. Hákon ViðarssonMargir iðnaðarmenn koma að þessum framkvæmdum. Frá Vélsmiðjunni Hamri kom sjö járniðnaðarmenn og fimm frá Vélaverkstæði G. Skúlasonar. Þá koma þrír iðnaðarmenn frá Færeyjum og tveir frá fyrirtækinu Raftíðni. Fleiri iðnaðarmenn koma síðan að verkefnum um borð í skipinu dag og dag.

Ráðgert er að Börkur haldi á ný til veiða um komandi helgi.

Bjartur NK með 96 tonn – túrinn reddaðist á síðustu stundu

Bjatur NK að lokinni löndun. Ljósm. Hákon ViðarssonÍsfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í Neskaupstað í nótt með 96 tonn og er uppistaða aflans þorskur. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra var víða veitt í túrnum: „Við byrjuðum á Herðablaðinu og héldum þaðan á Breiðdalsgrunn, þvínæst á Þórsbanka og enduðum í Seyðisfjarðardýpinu. Það var heldur lítið að hafa þar til í gær en þá fékkst ágætis afli. Það má því segja að túrinn hafi reddast á síðustu stundu“.