Góð loðna en misjafnt veður á miðunum

Lodna jan 2014Loðnan sem veiðst hefur að undanförnu við suðausturland hefur verið góð. Birtingur NK landaði í Neskaupstað 1.400 tonnum í gær og voru fryst um 500 tonn úr farmi hans. Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu var þarna um mjög góða loðnu að ræða og var hún bæði fryst á Japan og Rússland. „Þessi loðna er sambærileg þeirri sem við fengum fyrst á vertíðinni“, sagði Jón Gunnar. „ Hún flokkaðist afar vel og hrognafyllingin var 18% þannig að unnt var að frysta á Japan. Japanirnir sem hér eru til að fylgjast með framleiðslunni voru yfir sig ánægðir og brostu út að eyrum. Nú skiptir bara máli að veður verði gott á miðunum og vel veiðist því loðnan er ekki hæf til Japansfrystingar í marga daga“.
 
Í gærmorgun náðu skipin einungis að kasta einu sinni til tvisvar á miðunum áður en að brældi. Loðnan gengur hratt vestur með suðurströndinni og var komin á Hálshraunið austan við Hrollaugseyjar í morgun en þar er erfitt að eiga við hana vegna hraunbotnsins sem getur leikið næturnar illa. Einhver skip voru þó byrjuð að kasta í morgun í þokkalegu veðri. 
 

Heimsóknir á öskudegi

Grunnskólabörn í öskudagsheimskókn. Ljósm. Hákon ErnusonGrunnskólabörn í öskudagsheimskókn. Ljósm. Hákon ErnusonHver skrautlegi krakkahópurinn á fætur öðrum kom í heimsókn á skrifstofur Síldarvinnslunnar í dag og söng fyrir starfsfólkið. Krakkarnir voru gjarnan klædd hinum fjölbreyttustu búningum og söngvarnir voru vel æfðir og vel fluttir. Kennarar Nesskóla fylgdu mörgum hópanna og þess virðist vel gætt að allir geti tekið þátt í öskudagssprelli og notið þess til hins ítrasta. Í þakklætisskyni fyrir heimsóknina og sönginn þáði unga fólkið harðfiskpoka að gjöf.
 
Krakkarnir í fjölbreyttum og skemmtilegum búningum. Ljósm. Hákon ErnusonKrakkarnir í fjölbreyttum og skemmtilegum búningum. Ljósm. Hákon ErnusonÞað er ávallt fagnaðarefni að fá heimsóknir sem þessar á skrifstofu fyrirtækisins og meðfylgjandi eru myndir af tveimur hópanna sem glöddu starfsfólkið í dag.

Japansfrysting hafin í Neskaupstað

Birtingur NK á loðnumiðunum í gær. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonBirtingur NK á loðnumiðunum í gær. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonNú er loðnan komin á hefðbundnar slóðir og góð veiði var á Lónsbugtinni í gær. Birtingur kastaði þrisvar og kom til löndunar í nótt með 1.400 tonn. Börkur náði tveimur köstum og var kominn með 700 tonn í gærkvöldi og Polar Amaroq fékk 700 tonn í þremur köstum. Nú er engin næturveiði en í morgun voru skipin byrjuð að kasta á ný. Það hefur færst bros yfir alla þá sem koma að veiðum og vinnslu á loðnu.

Í fiskiðjuverinu í Neskaupstað er verið að vinna loðnu úr Birtingi og er Japansfrysting hafin af fullum krafti. Að sögn Jóns Más Jónssonar framkvæmdastjóra landvinnslu hjá Síldarvinnslunni gengur frystingin ágætlega og flokkast loðnan afar vel. Kvenloðnan er fryst á Japan en stærsti karlinn á Rússland. Vinnsluskipið Hákon kastaði þrisvar á miðunum í gær og fékk samtals 500 tonn. Þar um borð er einnig Japansfrysting hafin.

Polar Pelagic skákhátíðin á Austur-Grænlandi

Frá skákhátíðinni á Grænlandi.Frá skákhátíðinni á Grænlandi.Skákfélagið Hrókurinn hefur árum saman hlúð að skákiðkun á Grænlandi og hafa fulltrúar þess farið um 50 ferðir til Grænlands í þeim tilgangi að kenna skáklistina og efla skáklífið. Nú í febrúarmánuði efnir félagið til skákhátíðar á Austur-Grænlandi og er grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelgic helsti bakhjarl hennar, en Síldarvinnslan á þriðjung í útgerðarfélaginu. Hinn 13. febrúar hófst hátíðin í Kulusuk með skákkennslu og fjöltefli en þátttakendurnir voru ung skólabörn. Kjörorð skákleiðangurs Hróksins er „Með gleðina að leiðarljósi“ og það má með sanni segja að gleðin skíni úr andlitum þeirra barna sem taka þátt í skákhátíðinni. Um sl. helgi var síðan hátíðinni haldið áfram í Tasiilaq en þar á einmitt grænlenska uppsjávarskipið Polar Amaroq heimahöfn. Polar Amaroq er skip sem veiðir mikið við Ísland og er einmitt á loðnuveiðum við landið um þessar mundir.