Fyrstu loðnunni landað í Helguvík á vertíðinni

Bjarni Ólafsson AK að landa í Helguvík sl. nótt. Ljósm. Björn Ingvar BjörnssonBjarni Ólafsson AK að landa í Helguvík sl. nótt. Ljósm. Björn Ingvar BjörnssonSíðdegis í gær kom Bjarni Ólafsson AK með 1.300 tonn af loðnu til Helguvíkur. Er þetta fyrsti loðnufarmurinn sem þangað berst á vertíðinni. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri í Helguvík var afar ánægður með að loðnuvinnsla hæfist þar en á síðustu vertíð barst fyrsti farmurinn þangað um 20. febrúar. „Það er mjög gott að fá einn farm til að gangsetja og prufukeyra verksmiðjuna en við vorum að endurnýja soðlýsishitara og höfum þörf fyrir að prófa hvernig hann virkar. Annars var verksmiðjan í gangi í janúar en þá tókum við í þrígang á móti síldarafskurði til vinnslu frá Hákoni EA,“ sagði Eggert. „Á síðustu vertíð tókum við á móti um 15.000 tonnum af loðnu og vonandi fáum við meira núna. Það er allavega nægur kvóti en óneitanlega hegðar loðnan sér undarlega um þessar mundir og hefur að mestu veiðst fyrir norðan land. Við bíðum bara spenntir eftir að hefja vinnslu og mönnunin í verksmiðjunni er klár. Það er ómetanlegt að reka verksmiðjuna með vönum mönnum.“

Bjartara yfir loðnuveiðum

Beitir NK á loðnumiðunum. Ljósm. Þorgeir BaldurssonBeitir NK á loðnumiðunum. Ljósm. Þorgeir BaldurssonÞegar veður gekk niður í gær gerði góða veiði á loðnumiðunum norður af Húnaflóa. Skipin sem voru með djúpnót voru að fá góð köst en síður gekk að ná afla í grunnnót. 
 
Gert er ráð fyrir að Börkur komi til Neskaupstaðar um kl. 18 í dag með 1.400 tonn, þar af 1.000 tonn sem fara til vinnslu í fiskiðjuverinu. Polar Amaroq er einnig á leið til Neskaupstaðar með 1.900 tonn.
 
Vilhelm þorsteinsson er á leið til Seyðisfjarðar með 2.300 tonn og Bjarni Ólafsson til Helguvíkur með 1.300 tonn.
 
Gera má ráð fyrir að loðnuskipin taki almennt grunnnætur um borð og stefni á miðin úti fyrir Austur- og Suðausturlandi að lokinni löndun. Þar varð vart við loðnu á föstudag og laugardag og fékk Hákon þar nokkurn afla en hann er að landa 400 tonnum í Neskaupstað auk þess sem hann er einnig að landa frystri loðnu. Óhagstætt veður til veiða hefur verið fyrir austan en gert er ráð fyrir að komið verði gott veiðiveður þar á morgun. Annars sjást einnig góðar torfur annað slagið úti fyrir Norðurlandi og skipin eiga einnig möguleika á að halda þangað til veiða.
 
Beitir var kominn með 1.700 tonn í morgun og var lagður af stað í land þegar hann rakst á gríðarlega fínan flekk norðan til á Skagagrunni. Þegar var kastað og var verið að ljúka við að dæla um 400 tonnum úr kastinu um klukkan hálf ellefu. Þar með er Beitir kominn með fullfermi eða 2.100 tonn. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra var góð veiði í gær austan við Strandagrunn en köld tunga kom yfir svæðið í gærkvöldi og eftir það var lítið að sjá þar. 
 
Birtingur kom til löndunar í Neskaupstað um helgina og bíður veðurs á miðunum eystra.
 

Bölvað reiðileysi eins og er

Polar Amaroq. Ljósm. Þorgeir BaldurssonPolar Amaroq. Ljósm. Þorgeir BaldurssonLoðnuveiðin fyrir norðan land var heldur gloppótt síðasta sólarhringinn. Skipin köstuðu í gærmorgun og fram eftir degi en árangur var misjafn. Einhver fengu ágæt köst en önnur minna. Um kvöldmatarleytið brældi síðan og var bræla fram eftir nóttu. Í morgun var hins vegar komið gott veður og voru flest skipin að leita og bíða eftir að loðnan þétti sig.
 
Hákon EA kom til Neskaupstaðar í morgun með 1100 tonn og Bjarni Ólafsson AK er á leið þangað með 1150 tonn sem hann fékk í fjórum köstum í gær.
 
Síðustu fréttir herma að færeyska skipið Finnur fríði hafi kastað út af Héraðsflóa í morgun en ekki hefur enn frést um árangur. Íslenskt skip kastaði á sömu slóðum í gær en reif nótina.
 
Heimasíðan hafði samband við Halldór Jónasson skipstjóra á Polar Amaroq skömmu fyrir hádegi og spurði frétta af miðunum fyrir norðan en skipið er komið með 1000 tonn. „Hér er algert blíðuveður en bölvað reiðileysi á flotanum,“ sagði Halldór. „Eins og er er ekkert að sjá nema ryk. Beitir og Sighvatur Bjarnason köstuðu í morgun en það kom lítið út úr því. Í gær fengu sum skipanna góð köst en nú er ekkert að frétta nema að hérna er rjómablíða. Við erum að leita og erum núna 28 mílur norðnorðaustur af Skagatá. Ég geri ráð fyrir að skipin muni leita austar ef ekkert finnst hérna og það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Þetta hlýtur að koma.“

Loksins gott veður á loðnumiðunum

Loksins gott veður á loðnumiðunumBörkur NK að kasta á loðnumiðunum norður af landinu. Ljósm. Viðar Sigurðsson

 

Loðnuveiði lá niðri í gær vegna veðurs. Undir morgun gekk veðrið niður og þá byrjuðu skipin að kasta. Loksins er útlit fyrir þokkalegt veður á miðunum en það varir vart nema fram undir helgi. Heimasíðan hafði samband við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti í morgun um klukkan hálf tíu og spurðist fyrir um veiðiútlit. „Við erum staddir um 30 mílur norðvestur af Siglunesi og hérna eru þokkalegar lóðningar. Loðnan stendur hins vegar djúpt núna en hún kemur kannski upp á eftir, um hádegisbil eða svo. Við erum búnir að taka eitt kast en það var lítið í því. Bátarnir hafa verið að kasta og Vilhelm Þorsteinsson fékk til dæmis 250 tonn hér áðan. Annars þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn og það er svo sannarlega gott að vera loksins búinn að fá gott veður,“ sagði Tómas.

 
Börkur landaði 1600 tonnum af loðnu í Neskaupstað í gær og er á leiðinni á miðin. Birtingur er á miðunum.