Arndís uppfærð og endurbætt

Stjórnendur fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar funda um Arndísi. Ljósm. Hákon Viðarsson.Arndís nefnist upplýsingakerfið eða tölvugagnaskráin sem fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar nota. Í Arndísi eru skráðar allar nauðsynlegustu upplýsingar sem verksmiðjurnar þurfa á að halda allt frá móttöku hráefnis til útskipunar afurða. Kerfið tryggir fullkominn rekjanleika þannig að unnt er að skoða einkenni  hráefnisins sem berst til vinnslu hverju sinni og eðli afurðanna úr því.

Fyrir stjórnendur fiskimjölsverksmiðjanna er Arndís gulls ígildi og í kerfinu er að finna allar upplýsingar um vertíðir frá árinu 1993. Þetta gagnakerfi fiskimjölsverksmiðjanna er eins og önnur tölvukerfi; ávallt þar að uppfæra þau, endurskoða og bæta. Fyrr í þessum mánuði var haldinn fundur í Neskaupstað þar sem stjórnendur fiskimjölsverksmiðjanna hittust og yfirfóru nýjustu breytingarnar á kerfinu. Það var Ólafur Garðarsson hjá Íkon ehf. sem kynnti breytingarnar en hann hefur unnið að mótun Arndísar frá upphafi. Nýjustu umbæturnar fela í sér meðal annars að allar skráningar verða auðveldari og unnt verður að flytja upplýsingar úr kerfinu yfir í önnur gagnakerfi fyrirtækisins. Þessar breytingar eru til mikilla þæginda fyrir stjórnendur að sögn Gunnars Sverrissonar rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar.

Arndís á sér alllanga sögu og má rekja upphaf hennar allt aftur til áranna 1984-1985 en vart er unnt að tala um heildstæða tölvugagnaskrá fyrr en á árinu 1993. Það voru í reynd verksmiðjustjórar Síldarverksmiðja ríkisins og síðar SR-mjöls sem mótuðu Arndísi í samvinnu við Ólaf Garðarsson þannig að upplýsingakerfið hefur alla tíð tekið mið af þeim þörfum sem voru til staðar í iðnaðinum. Arndís heitir eftir Arndísi Steinþórsdóttur sem starfaði í sjávarútvegsráðuneytinu og var fyrsti stjórnarformaður SR-mjöls. Þegar Síldarvinnslan og SR-mjöl sameinuðust árið 2003 kynntust starfsmenn Síldarvinnslunnar kerfinu og hófu að nota það. 


Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar tekinn til starfa

Nemendur fengu að prófa að títra og vakti það mikla lukku að vökvinn breytti um lit en rauður litur táknar sýru en blár basa. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar var settur í Neskaupstað síðastliðinn mánudag. Það var Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem setti skólann og í máli sínu lagði hann mikla áherslu á nauðsyn þess að ungt fólk í sjávarbyggðum kynntist sjávarútvegi sem atvinnugrein og áttuðu sig á mikilvægi hennar fyrir samfélagið. Kennsla í skólanum mun einnig fara fram á Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Á Fáskrúðsfirði hefst skólahaldið hinn 30. júní og á Eskifirði 7. júlí. Í Neskaupstað er  21 nemandi í skólanum en skráningar í skólann standa enn yfir á Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Reyðarfirði og Eskifirði.

Að lokinni skólasetningu hófst kennsla  og voru nemendur fræddir um sögu sjávarútvegsins og þær breytingar sem átt hafa sér stað á sviði veiða. Á næsta skóladegi var fiskiðjuver Síldarvinnslunnar heimsótt og síðan fjallað um þróun fiskvinnslu. Á þriðja degi verður fluttur fyrirlestur um gæðamál og markaðsmál ásamt því að Verkmenntaskóli Austurlands verður heimsóttur en verða nemendur fræddir um nám sem tengist sjávarútvegi með beinum og óbeinum hætti. Á fjórða degi koma gestafyrirlesarar í skólann en þar er um að ræða fólk sem starfar í sjávarútvegi og hefur jafnvel upplifað afgerandi breytingar í greininni. Einnig spreyta nemendur sig í fiskiquiz þann daginn. Á lokadegi skólans verður farið í ferðalag og hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði heimsótt ásamt fiskimjölsverksmiðjunni á Eskifirði, Fiskmarkaði Austurlands, veiðarfæragerð o. fl. Einnig verður farið um borð í fiskiskip á lokadeginum og fræðst um störf sjómanna og veiðibúnað.

Hópur nemenda Sjávarútvegsskólans í Neskaupstað. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonAð sögn Sigurðar Steins Einarssonar skólastjóra hefur kennslan í Neskaupstað gengið vel til þessa og nemendur verið einkar áhugasamir. Upplýsti Sigurður að nemendum kæmi á óvart hve tæknistig væri hátt í sjávarútveginum og hve störfin í atvinnugreininni væru fjölbreytt. Þá sagði Sigurður að nemendum þætti afar gaman að spreyta sig á ýmsum verkefnum eins og til dæmis að flaka fisk. Aðspurður sagði Sigurður að skráningar í skólann gengju vel utan Neskaupstaðar en aðsóknin í Neskaupstað hefði farið fram úr björtustu vonum. 

Hlé á kolmunnaveiðum

Uppsjávarskipin í höfn. Ljósm. Hákon Viðarsson.Síldarvinnsluskipin hafa hætt kolmunnaveiðum að sinni. Beitir og Börkur héldu til veiða í síðustu viku en lítið fannst af kolmunna í veiðanlegu magni þannig að skipin komu fljótt til hafnar aftur. Alls eru 11.670 tonn óveidd af kolmunnakvóta fyrirtækisins á yfirstandandi fiskveiðiári. 

Gert er ráð fyrir að uppsjávarskipin haldi til makríl- og síldveiða í fyrri hluta júlímánaðar.

Síldarvinnslan styrkir Hugin

Síldarvinnslan og Íþróttafélagið Huginn á Seyðisfirði hafa nýverið gert styrktar- og auglýsingasamning sín á milli. Samningurinn kveður á um að Síldarvinnslan styrki félagið og að félagið auglýsi nafn fyrirtækisins með ákveðnum hætti á keppnisdögum.

Guðjón Harðarson, fulltrúi Hugins, segir að styrkur Síldarvinnslunnar sé ómetanlegur fyrir félagið. Allt íþróttastarf byggi í reyndinni á velvild og skilningi styrktaraðila og sífellt sé erfiðara að halda úti slíku starfi vegna síaukins ferðakostnaðar. „Flugfargjöld hafa hækkað mikið að undanförnu og þau eru allt að drepa,“ sagði Guðjón. „Við hjá Hugin erum afskaplega þakklát þeim fyrirtækjum og stofnunum sem styrkja starfsemi félagsins og ekki má gleyma því að bæjarbúar láta sitt ekki eftir liggja. Reksturinn er afar þungur en það er ekkert annað að gera en að halda áfram. Meginatriðið er þó þetta: Flugfargjöld eru alltof há og gera alla starfsemi íþróttafélaga á landsbyggðinni erfiða en öðrum kostnaðarliðum starfseminnar er haldið í lágmarki eins og frekast er kostur,“ sagði Guðjón að lokum.