Byggingaframkvæmdir við pökkunarstöð ganga vel

Bygging pökkunarstöðvarinnar gengur vel.  Ljósm. Hákon ViðarssonByggingaframkvæmdir við nýja pökkunarstöð fiskiðjuversins ganga vel.  Lokið er við að steypa grunn hússins og er verið að setja upp mót til að steypa veggi. Jafnframt er unnið við lagnir og að ganga frá jarðvegi undir plötu. Áætlað er að byggingin verði tilbúin til notkunar um eða uppúr mánaðamótunum júní – júlí eða áður en makríl- og síldarvertíð hefst.

Hin nýja bygging er 1000 fermetrar að stærð og áföst fiskiðjuverinu. Afurðum fiskiðjuversins verður pakkað í henni og þar verður komið fyrir kassavélum og brettavafningsvélum. Pökkunarstöðin er mikilvægur liður í því að auka afköst fiskiðjuversins sem stefnt er að í framtíðinni.

Það er Nestak hf. sem er aðalverktaki við byggingarframkvæmdirnar en Haki ehf. sér um jarðvegsframkvæmdir. Verkfræðstofan Mannvit annast hönnun byggingarinnar og eftirlit með framkvæmdunum. 


Fáninn af Goðanesi kominn heim

Birgir Sigurðsson veitir fánanum af Goðanesi móttöku. Ljósm. Smári GeirssonSl. þriðjudag, hinn 13. maí, kom sextíu manna hópur Færeyinga til Neskaupstaðar. Í hópnum voru margir gamlir togarasjómenn sem verið höfðu á íslenskum togurum á sínum tíma. Færeyingarnir komu með Norrænu til Íslands en til slíkra hópferða hefur verið efnt árlega sl. fimm ár. Sá sem hefur skipulagt ferðirnar að undanförnu er Mortan Johannessen, en hann er í hópi þeirra Færeyinga sem réðust á íslenska togara á sjötta áratug síðustu aldar og hann á enn góða vini á Íslandi sem voru með honum til sjós á þeim tíma.

Færeyingarnir komu að þessu sinni til Neskaupstaðar færandi hendi. Meðferðis höfðu þeir íslenska fánann af togaranum Goðanesi frá Neskaupstað sem strandaði við Færeyjar 2. janúar 1957 og krók af krókstjaka sem rak á land eftir strandið. Fánann fundu menn á sjófuglaveiðum á Skálafirði skammt frá strandstaðnum tveimur mánuðum eftir slysið. Fáninn og krókurinn voru afhentir Minjasafninu í Neskaupstað við hátíðlega athöfn í safnahúsinu þar sem nokkrir gamlir norðfirskir togarajaxlar voru viðstaddir.Birgir Sigurðsson fyrrverandi skipstjóri veitti þessum merku gripum móttöku en Birgir er bróðir Péturs Hafsteins Sigurðssonar  sem var skipstjóri á Goðanesinu þegar það strandaði en Pétur var sá eini sem fórst með skipinu.

Goðanes, sem var í eigu Bæjarútgerðar Neskaupstaðar, strandaði á blindskerjum sem nefnast Flesjar en þau eru í mynni Skálafjarðar. Erindi skipsins til Færeyja var að sækja þangað færeyska sjómenn sem ráðnir höfðu verið á það. Þungur sjór var þegar togarann tók niðri og braut stöðugt á honum. Fljótlega komu færeyskir bátar á vettvang og hófust björgunaraðgerðir þá þegar. Eftir að hafa komið björgunarlínu um borð í hið strandaða skip gekk björgun greiðlega um tíma. En þegar átjándi skipverjinn var á leið frá skipinu í björgunarstól brotnaði það í tvennt og tók þá afturhlutinn að síga hratt í djúpið en mennirnir sex sem eftir voru um borð höfðust við á honum. Fljótlega hvarf afturhluti skipsins undir yfirborð sjávar en færeyskum bátum tókst að bjarga öllum þeim sem þar höfðu verið nema Pétri Hafsteini Sigurðssyni skipstjóra.

Þegar gripirnir voru afhentir í Safnahúsinu lýstu Færeyingar í hópnum strandi Goðaness sem ógleymanlegum atburði. Unnt var að fylgjast með björgunaraðgerðum úr landi og höfðu allir miklar áhyggjur af því hvernig mönnunum á Goðanesinu myndi reiða af. Andrúmsloftið var spennuþrungið og  íbúunum í nágrenni strandstaðarins varð ekki svefnsamt kvöldið 2. janúar og aðfaranótt 3. janúar 1957. Hugur þeirra var hjá mönnunum um borð í hinu strandaða skipi.

Norðfirðingum þykir ákaflega vænt um að fá til varðveislu umrædda gripi af Goðanesinu en vitað er um fleiri gripi úr flakinu sem varðveittir eru í Færeyjum.

Með kjaftfullt skip úr sínum fyrsta túr

Bjarni Már Hafsteinsson ánægður að aflokinni fyrstu veiðiferð sem skipstjóri. Ljósm. Hákon Viðarsson.Ísfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í morgun með fullfermi eða liðlega 100 tonn. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt en það heyrir til tíðinda að skipstjóri í túrnum var Bjarni Már Hafsteinsson og var þetta fyrsta veiðiferð hans í skipstjórastólnum. Fyrsti stýrimaður var Hákon Bjarnason. Báðir eru þeir í yngri kantinum og meðalaldurinn í brúnni í túrnum undir 30 árum. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri á Bjarti er um þessar mundir skipstjóri á Birtingi sem er við kolmunnaveiðar í færeysku lögsögunni og Jóhann Örn Jóhannsson fyrsti stýrimaður var í fríi þannig að nú reyndi á ungu mennina um borð.

Bjarni var hinn ánægðasti þegar komið var að landi. „Við erum með kjaftfullt skip og túrinn gekk mjög vel í alla staði. Við byrjuðum á að veiða ufsa á suðausturhorni Stokksnesgrunns og síðan var farið austur  í Berufjarðarál og var veiðin köflótt. Þá fórum við í þorskinn á Breiðdalsgrunni og þar var mokfiskirí, algjör aðgæsluveiði. Við byrjuðum í þorskinum klukkan sex í gærmorgun og fengum 45 tonn til miðnættis. Yfirleitt var togað í 40 mínútur í senn og settum við glugga á pokann til að skammta það sem í hann kæmi. Við getum ekki verið annað en sáttir við túrinn,“ sagði Bjarni.

2650 tonnum af frosnum kolmunna hefur verið landað í Neskaupstað

Polar Amaroq hefur lokið löndun og Hákon EA kemur til löndunar. Ljósm. Þorgeir Baldursson.Það sem af er kolmunnavertíðinni hefur 2650 tonnum af frosnum kolmunna verið landað í frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Kolmunninn  er ýmist heilfrystur eða frystur hausskorinn. Það eru þrjú vinnsluskip sem landað hafa frosna kolmunnanum; Vilhelm Þorsteinsson EA, Hákon EA og grænlenska skipið Polar Amaroq.

Kolmunninn sem Vilhelm Þorsteinsson hefur landað er hausskorinn og er hann fluttur að Laugum þar sem hann er þurrkaður. Heilfrysti kolmunninn fer á erlendan markað og hefur fyrsta farminum þegar verið skipað út.