Farið að huga að síldinni

Úr fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ViðarssonUm þessar mundir er lítið eftir af makrílkvóta þeirra skipa sem landa afla sínum í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar  í Neskaupstað. Því er nú farið að huga að síldveiðum af fullri alvöru. Síld hefur gjarnan verið meðafli hjá makrílveiðiskipunum og gera má ráð fyrir að makríll verði meðafli þegar öll áhersla verður lögð á síldveiðarnar. Norsk-íslenska síldin sem veiðst hefur að undanförnu hefur verið vel á sig komin og ætti að vera úrvalshráefni til vinnslu. Fyrir utan norsk íslensku síldina hefur nokkuð fengist af íslenskri sumargotssíld en hún er alls ekki eins eftirsóknarverð til vinnslu á þessum árstíma.

Bjarni Ólafsson AK er nú á landleið með um 500 tonna afla. Veiðisvæði skipsins var mun austar en það svæði sem makrílveiðarnar hafa helst farið fram á úti fyrir Austurlandi að undanförnu, en áformað var að Bjarni legði alla áherslu á að veiða síld. Aflinn er töluvert blandaður og þykir makrílhlutfallið vera of hátt. 

Beitir NK er nú á miðunum og er ætlunin að hann veiði síld. Mun hann reyna fyrir sér mun norðar en hann hefur veitt makríl að undanförnu.

Börkur NK er að landa í fiskiðjuverið tæplega 650 tonnum. Megnið af aflanum er makríll.


Makríllinn sífellt feitari og stinnari

Makríllinn verður sífellt betri. Ljósm. Smári GeirssonMakrílveiðin hjá skipunum sem landa til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur gengið vel að undanförnu. Þegar þetta er skrifað liggur Bjarni Ólafsson AK í höfn að aflokinni löndun, Börkur NK er að veiðum og Beitir NK er að landa. Beitir kom til hafnar síðastliðna nótt með 600 tonna afla, 400 tonn af makríl og 200 af síld. Að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti var skipið um 25 klukkustundir að veiðum í veiðiferðinni og veiðisvæðið var sunnan við svonefnda Holu eða 40-50 sjómílur suðaustur af Norðfjarðarhorni. „Aflinn er heldur blandaðri en hann hefur verið,“ sagði Tómas,“ en mestu munar þó um hreint 100 tonna síldarhol sem fékkst í Reyðarfjarðardýpinu nokkru norðar en við vorum annars að veiðum. Makríllinn er sífellt að verða betri og er orðinn býsna góður. Fiskurinn er feitur, fallegur og stinnur og afar lítil áta í honum. Hann er í reyndinni fyrirmyndarhráefni eins og hann er í dag.“

Að sögn Tómasar eru tæplega 2000 tonn eftir óveidd af makrílkvóta Síldarvinnslunnar.


Góð makrílveiði að aflokinni brælu

Beitir NK í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Hákon ViðarssonUm síðustu helgi lágu makrílveiðar niðri á miðunum úti fyrir Austurlandi vegna leiðindaveðurs. Veðrið gekk niður á þriðjudag og þá hóf Bjarni Ólafsson AK veiðar. Tók skipið tvö hol og kom til löndunar í Neskaupstað í gærdag með um 250 tonn. Beitir NK kom síðan til löndunar sl. nótt með 560 tonn. Heimasíðan ræddi stuttlega við Tómas Kárason skipstjóra á Beiti um veiðiferðina: „Það hefur fiskast býsna vel eftir að brælunni lauk,“ sagði Tómas. „Við fengum þessi 560 tonn í þremur holum. Um er að ræða hreinan makríl og er þetta stór og góður fiskur. Við vorum að veiðum í Holunni sem er um 40 sjómílur suðaustur af Norðfjarðarhorni en Bjarni Ólafsson var að veiðum á sömu slóðum.“

Beitir hefur nú fiskað um 5.200 tonn af makríl á yfirstandandi vertíð.

Bölvuð bræla

Löndun úr Bjarti NK. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonÍsfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í gær að aflokinni stuttri veiðiferð. Aflinn var einungis 45 tonn sem þykir lítið en veður var vont í túrnum. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri upplýsti heimasíðuna um að haldið yrði til veiða á ný í dag og vonandi væri veðrið eitthvað að ganga niður.

Brælan hefur líka haft sín áhrif á makríl- og síldveiðar en erfitt getur verið að finna makrílinn þegar brælir. Þetta hlé á veiðunum hefur verið notað til að þrífa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en það er gert með reglubundnum hætti. Þá er vinnsluhléið notað til að víxla dag- og næturvöktum í verinu. Vaktafyrirkomulagi í fiskiðjuverinu var breytt  13. ágúst og teknar upp tvískiptar vaktir í stað þrískiptra. Á þessum tíma er hefð fyrir að breyta vaktafyrirkomulaginu enda eru sumarstarfsmenn þá að hverfa á braut. Á hvorri vakt eru 25 starfsmenn en að auki eru 3 starfsmenn í fríi á hverjum tíma.