Síldarvinnslan styrkir Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar (KFF)

Gunnþór Ingvason og Ívar Sæmundsson undirrituðu styrktarsamninginn. Ljósm. Hákon Viðarsson.Föstudaginn 30. maí var undirritaður nýr styrktar- og auglýsingasamningur á milli Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar (KFF) og Síldarvinnslunnar en Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra fyrirtækja sem helst hafa stutt við bakið á kraftmiklu starfi Knattspyrnufélagsins.

Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Ívar Sæmundsson formaður Knattspyrnufélagsins sem undirrituðu samninginn. Ívar segir að samningurinn við Síldarvinnsluna skipti miklu máli og það sé mikilvægt að finna að fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna kunni að meta það starf sem Knattspyrnufélagið sinnir. „Það er eilíf barátta hjá félagi eins og okkar að halda starfseminni úti og kostnaðurinn vex ár frá ári,“segir Ívar. „Helstu útgjöld félagsins eru ferðakostnaður. Sem dæmi má nefna að í síðustu viku lék meistaraflokkur karla bikarleik á Ísafirði við BÍ/Bolungarvík og ferðakostnaður vegna leiksins nam einni milljón króna. Þó svo að ítrasta aðhalds sé gætt þá er kostnaðurinn óheyrilegur.“ Fyrir okkur sem stöndum í að reka félagið er afar mikilvægt að finna þann stuðning og þá velvild sem ríkir í garð þess hjá fyrirtækjum í Fjarðabyggð og samningurinn við Síldarvinnsluna er einmitt tákn um slíkan stuðning.“

Vélstjórnarbraut í Verkmenntaskóla Austurlands - vígsla glæsilegs kennslubúnaðar

Frá vígslu vélarúmshermisins í Verkmenntaskóla Austurlands.  Ljósm. Hákon ViðarssonHinn 26. maí sl. var hátíðarstund í málmdeild Verkmenntaskóla Austurlands þegar nýr og fullkominn vélarúmshermir var vígður. Viðstaddir vígsluna voru starfsmenn skólans og fulltrúar þeirra fyrirtækja sem styrktu kaupin á herminum en það voru Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna og Olíusamlag útvegsmanna. Hermirinn er tölvubúnaður þar sem með nákvæmum hætti er unnt að líkja eftir starfsemi véla í skipum og framkalla allskonar bilanir í vélbúnaðinum.

Hermirinn mun nýtast við kennslu á vélstjórnarbraut sem mun taka til starfa við skólann í haust. Við brautina verður boðið upp á nám sem veitir réttindi til að gegna starfi yfirvélstjóra og á skipum með vélarafl 1500 kW og minna og undirvélstjóra á skipum með 3000 kW vélarafl og minna. Einnig er stefnt að því að nemendur á vélstjórnarbraut geti að námi loknu gengist undir sveinspróf í vélvirkjun.

Kennslubúnaðurinn sem hér um ræðir er viðurkenndur og uppfyllir alla alþjóðlega staðla til vélstjórnarkennslu.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar fagnar mjög tilkomu vélstjórnarbrautar við Verkmenntaskóla Austurlands. „Þessi áfangi er mjög ánægjulegur fyrir atvinnulífið á Austurlandi,“ sagði Gunnþór. „ Sterkur skóli með öflugu verknámi styður mjög við starfsemi fyrirtækja í landshlutanum. Með tilkomu þessa nýja og öfluga vélarúmshermis skapast traustur grundvöllur fyrir nám í vélstjórn í heimabyggð og það er afar þýðingarmikið. Öflugir vélstjórar eru mikilvægir atvinnulífinu hvort heldur er við keyrslu fiskiskipa eða framleiðslubúnaðar í landi. Tel ég að það gæti verið áhugavert framhald á samvinnu Verkmenntaskólans og atvinnulífsins að taka frumkvæði í því að skapa starfsþjálfunarpláss úti í atvinnulífinu fyrir nema í vélstjórn bæði um borð í fiskiskipum og í framleiðslufyrirtækjum í landi.“

Skipin komin til hafnar fyrir sjómannadag

Floti Síldarvinnslunnar kominn að landi fyrir sjómannadag. Ljósm. Hákon Viðarsson.Öll skip Síldarvinnslunnar eru komin til hafnar í Neskaupstað og munu áhafnir þeirra að sjálfsögðu taka þátt í hátíðarhöldum sjómannadagsins sem hefjast í dag. Beitir  landaði fullfermi af kolmunna, 2100 tonnum, sl. miðvikudag og Börkur landaði einnig fullfermi af kolmunna, 2500 tonnum, á Seyðisfirði í gær. Þriðja kolmunnaveiðiskipið, Birtingur, kom til hafnar í Neskaupstað í gær með 1000 tonn. Ísfisktogarinn Bjartur kom til löndunar með 103 tonn sl. miðvikudag og var uppistaða aflans þorskur og ufsi. Frystitogarinn Barði kom síðan að landi í gær með afla að verðmæti 98 milljónir króna. Aflinn var 210 tonn upp úr sjó og var meirihluti hans grálúða.

Börkur NK og Beitir NK til sýnis!

Börkur NK og Beitir NK til sýnis{nomultithumb}