Birtingur NK hélt til loðnuveiða í dag

Birtingur NK hélt til loðnuveiða í dag. Skipstjóri er Sigurbergur Hauksson. Áhöfnin á Beiti NK nýtti Birting fyrr á loðnuvertíðinni um tíma en nú hefur hún flutt sig yfir á hinn nýja Beiti (áður Polar Amaroq). Birtingur er því þriðja skip Síldarvinnslunnar við loðnuveiðar um þessar mundir en ástæðan fyrir nýtingu skipsins er sú að langt virðist liðið á loðnuvertíðina og allt kapp er lagt á að ná loðnunni þannig að unnt sé að vinna hrognin og gera sem mest verðmæti úr aflanum.Birtingur NK í Neskaupstað. Ljósm. Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir

Hrognataka hafin í Helguvík og Neskaupstað

Hrognavinnsla í Helguvík. Ljósm. Guðjón Helgi ÞorsteinssonVinnsla á loðnuhrognum hófst í Helguvík aðfaranótt sl. mánudags en þá voru hrogn unnin úr  afla grænlenska skipsins  Polar Amaroq. Vinnslan hefur gengið ágætlega en hún fer fram í samvinnu við fyrirtækið Saltver í Reykjanesbæ.

Vinnsla á hrognum hófst í Neskaupstað í gærkvöldi en þá hófst löndun á 1300 tonnum sem Börkur NK kom með að landi. Þarna er um ræða farminn úr síðustu veiðiferð þessa Barkar en nýr Börkur (áður Malene S) mun leysa hann af hólmi og væntanlega halda til veiða á morgun, miðvikudag.  Löndun úr Berki mun ljúka síðdegis en Hákon EA er væntanlegur með 1200 tonn og er gert ráð fyrir að sá afli fari í hrognavinnslu.

Malene S verður nýr Börkur

Hinn nýi Börkur NK (áður Malene S). Ljósm. Þorgeir BaldurssonSíldarvinnslan hefur fest kaupa á norska uppsjávarveiðiskipinu Malene S en Börkur NK 122 gengur upp í kaupin.  Skiptin á skipunum munu fara fram miðvikudaginn 25.febrúar nk. og mun nýja skipið fá nafnið Börkur NK 122.

Malene S er glæsilegt skip, smíðað í Tyrklandi og var afhent hinum norsku eigendum í desembermánuði árið 2012.  Skipið er 3588 tonn að stærð, 80,30 metrar að lengd og 17 m á breidd.  Aðalvél þess er 4320 KW af gerðinni MAK, auk þess er skipið búið tveimur ljósavélum 1760 KW og 515 KW.  Skipið er búið svo kölluðum „Diesel Electric“-búnaði sem þýðir að hægt er að keyra skipið eingöngu með ljósavél og kúpla út aðalvélinni.

Skipið er búið öflugum hliðarskrúfum 960 KW og er vel búið til tog-  og nótaveiða.  Burðargeta skipsins er 2500 tonn, skipið er búið öflugum RSW kælibúnaði eða 2 milljón Kcal með ammoníak kælimiðli.   Ekkert fer á milli mála að hið nýja skip verður á meðal best búnu og glæsilegustu fiskiskipa íslenska flotans. 

Allur aðbúnaður áhafnar er eins og best verður á kosið, í áhöfn skipsins verða 7-8 menn á trollveiðum og 10-11 á nótaveiðum.

Börkur NK gengur upp í kaupin eins og fyrr greinir en Síldarvinnslan festi kaup á honum í febrúarmánuði árið 2012.  Börkur var byggður árið 2000 og er 2190 tonn af stærð.  Lengd skipsins 68,3 metrar og breidd 14 metrar.  Burðargeta Barkar er 1750 tonn, skipið hefur reynst afar vel í þau tæplega tvö ár sem það hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar hf.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri segir eftirfarandi um skiptin:

„Á síðastliðnum  mánuðum erum við búnir að skipta út báðum uppsjávarskipum okkar Berki og Beiti.  Við vorum vissulega með góð skip en stærsti munurinn í þessum skiptum felst  í því að við erum að fá mun hagkvæmari skip hvað snertir olíunotkun og vonast ég til að sjá allt að þriðjungi minni olíunotkun á nýju skipunum.  Sem dæmi þá var gamli Beitir með 11 þúsund hestafla vél en sá nýi er búinn tveimur 3200 hestafla aðalvélum þar sem dugir að keyra á annarri.  Gamli Börkur var með 7500 hestafla aðalvél en nýi Börkur er með 5800 hestöfl, auk þess sem hann getur keyrt eingöngu á ljósavél sem er 2300 hestöfl.   Samantekið þýðir þetta að við þurfum að ræsa 5500 hestöfl til að færa skipin á milli staða í stað 18500 hestafla áður.

Auk minni orkunotkunar mun aukin burðargeta einnig nýtast okkur vel við veiðar á kolmunna og til að hjálpa okkur þegar loðnukvótar verða stórir.

Skipið mun styðja við ennfrekari uppbyggingu á uppsjávarfrystingu okkar.  Það mun styðja við þá stefnum okkar að auka verðmæti þeirra aflaheimilda sem við höfum aðgang að með minni tilkostnaði“.


Loðnu landað í Helguvík

Polar Amaroq að landa í Helguvík í morgun.  Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirÍ gær kom fyrsta loðnan á vertíðinni til Helguvíkur þegar Vilhelm Þorsteinsson EA landaði þar 260 tonnum. Síðan kom Beitir NK þangað til löndunar með rúmlega 500 tonn og grænlenska skipið Polar Amaroq er nú að landa þar á milli 1600 og 1700 tonnum. Eggert Ólafur Einarsson verksmiðjustjóri  í Helguvík reiknar með að verksmiðjan verði gangsett í kvöld. Segir hann að þeir í Helguvík séu að fá loðnu á þessari vertíð mun fyrr en í fyrra en þá barst fyrsta loðnan ekki fyrr en 24. febrúar. Verksmiðjan í Helguvík tók á móti 28.154 tonnum af loðnu á síðustu vertíð en lokalöndun á vertíðinni átti sér þá stað 20. mars.