Barði NK dregur skip að landi í annað sinn á fjórum dögum

Barði NK kemur með Bjart NK í togi. Ljósm. Guðlaugur BirgissonFrá því var greint hér á heimasíðunni að frystitogarinn Barði hafi dregið ísfisktogarann Bjart að landi sl. mánudag en bilun hafði orðið í aðalvél Bjarts. Skipin komu til hafnar aðfaranótt þriðjudags og er gert ráð fyrir að Bjartur haldi á ný til veiða annað kvöld eða á sunnudag að aflokinni viðgerð.

Klukkan fimm í morgun var Barði staddur úti af Stokksnesi á vesturleið þegar togarinn Ljósafell frá Fáskrúðsfirði  óskaði aðstoðar. Hafði Ljósafellið fengið í skrúfuna á suðvesturhorni Stokksnesgrunns og þurfti á aðstoð að halda. Barði hélt þegar af stað og var kominn að Ljósafellinu að þremur tímum liðnum. Var Ljósafellið þegar tekið í tog og haldið áleiðis til Fáskrúðsfjarðar. Að sögn Geirs Stefánssonar stýrimanns á Barða gengur siglingin vel enda veður afar gott. Segir hann að gert sé ráð fyrir að komið verði til Fáskrúðsfjarðar seint í kvöld.


Góð kolmunnaveiði og mikið landað

Beitir NK á kolmunnaveiðum. Ljósm. Tómas KárasonSíðustu daga hefur verið góð kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni . Bátarnir sem veiða fyrir fiskimjöls- og lýsisframleiðslu hafa verið að fá góð hol og vinnsluskipin hafa átt auðvelt með að fá hæfilegt magn fyrir vinnsluna eftir að hafa togað í tvær til fjórar klukkustundir. Polar Amaroq, sem nú er að landa um 360 tonnum af frystum kolmunna í Neskaupstað, var að veiðum suðvestur af meginflotanum en þar fékkst heldur stærri fiskur sem hentaði betur til vinnslu. Að sögn Geirs Zoega skipstjóra á Polar Amaroq var tiltölulega jöfn  veiði á vestursvæðinu, en á austursvæðinu var verulegur munur á dag- og næturveiði.

Færeyska skipið Fagraberg landaði í gær fullfermi eða um 3000 tonnum á Seyðisfirði og Birtingur er að landa þar fullfermi í dag. Birtingur fékk aflann, 1750 tonn, í einungis fjórum tíu tíma holum að sögn Tómasar Kárasonar skipstjóra. Sagði Tómas að þeir hefðu fært sig suður fyrir það svæði sem flest skipin voru á og þar fiskaðist afar vel. „Það bendir allt til þess að verulegt magn af fiski sé nú að ganga inn í færeysku lögsöguna að sunnan “, sagði Tómas.

Börkur hélt til veiða í gær eftir að hafa landað fullfermi í Neskaupstað og Beitir lauk einnig við að landa þar fullfermi síðastliðna nótt. Þá er Hákon að landa fullfermi af frystum kolmunna í frystigeymslurnar í Neskaupstað og 1200 tonnum til fiskimjöls- og lýsisframleiðslu.

Bjarni Ólafsson er lagður af stað af miðunum með fullfermi.

Um þessar mundir hafa Síldarvinnsluskipin lokið við að veiða helming kolmunnakvótans á yfirstandandi vertíð.

Góður afli og vélarbilun

Bjartur NK. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirFrystitogarinn Barði kom til heimahafnar í Neskaupstað í gær með fullfermi. Aflinn upp úr sjó var 138 tonn af ufsa, 93 tonn af gullkarfa, 60 tonn af djúpkarfa og 24 tonn af þorski auk 10 tonna af gulllaxi og 5 af ýsu. Þegar Barði var nýkominn til hafnar fréttist af því að bilun hefði komið upp í aðalvél ísfisktogarans Bjarts þar sem hann var að veiðum á Haftinu í Berufjarðarál  og fékk Barði það hlutverk að draga hann til hafnar. Komu skipin að landi um miðnætti. Afli Bjarts var samtals 46 tonn og uppistaða hans þorskur og ufsi.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar hafa tekið á móti 35.400 tonnum af kolmunna

Börkur NK að veiðum. Ljósm. Geir ZoëgaFiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og í Neskaupstað hafa tekið á móti 35.400 tonnum af kolmunna það sem af er vertíðinni. Verksmiðjan í Neskaupstað hefur tekið á móti rúmlega 23.000 tonnum og verksmiðjan á Seyðisfirði 12.400 tonnum. Vinnslan hefur gengið vel en hún hefur þó ekki verið samfelld. Til dæmis var vinnsluhlé á Seyðisfirði í gær og beðið eftir hráefni.

Auk þess kolmunna sem landað hefur verið í fiskimjölsverksmiðjurnar hafa vinnsluskip landað nokkru af frystum afurðum í frystigeymslurnar í Neskaupstað. 

Kolmunnaveiðin er þokkalega góð í færeysku lögsögunni rétt eins og verið hefur. Ágætur afli fæst á daginn en minna á nóttunni. Skipin toga í 7-15 tíma, að sögn Ólafs Gunnars Guðnasonar stýrimanns á Berki og eru þau að fá um og yfir 500 tonna hol á daginn þegar best lætur. Kolmunninn hefur haldið sig á svipuðum slóðum síðustu dagana og hafa Síldarvinnsluskipin verið að veiðum vestan í svokölluðum Munkagrunni. Börkur er á landleið með fullfermi þegar þetta er ritað og Beitir er kominn með góðan afla. Birtingur tók 450 tonna hol í gærkvöldi en ekki hefur frést af honum í dag.