Stjórn Byggðastofnunar heimsækir fiskiðjuver Síldarvinnslunnar

Stjórn Byggðastofnunar í heimsókn í fiskiðjuverinu. Ljósm. Smári GeirssonByggðastofnun hélt stjórnarfund í Neskaupstað sl. föstudag og notaði tækifærið til að kynna sér atvinnulífið á staðnum. Stjórnin ásamt fylgdarliði heimsótti meðal annars fiskiðjuver Síldarvinnslunnar þar sem hún naut fyrirlesturs um sögu fyrirtækisins og fylgdist með loðnufrystingu. Þegar stjórnina bar að garði var verið að landa loðnu úr Bjarna Ólafssyni AK og frysta hana fyrir Japansmarkað og einnig fyrir austur-evrópskan markað þannig að það var handagangur í öskjunni.


Framúrskarandi fyrirtæki; Síldarvinnslan í öðru sæti í flokki stórra fyrirtækja

Framúrskarandi fyrirtæki; Síldarvinnslan í öðru sæti í flokki stórra fyrirtækjaFyrirtækið Creditinfo tilnefnir árlega framúrskarandi fyrirtæki í þremur stærðarflokkum. Með valinu er verið að veita viðurkenningu fyrir stöðugleika og ráðdeild í rekstri þar sem fyrirtækin þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði í þrjú ár í röð. Samtals í öllum flokkum voru tilnefnd 462 fyrirtæki sem framúrskarandi en alls eru 33 þúsund fyrirtæki skráð á Íslandi. Fram kom í fréttatilkynningu frá Creditinfo að framúrskarandi fyrirtækjum hefði fjölgað í öllum landshlutum á milli ára og benti það til þess að rekstur þeirra færi batnandi.

Í flokki stórra fyrirtækja var Samherji í efsta sæti og Síldarvinnslan í öðru sæti en niðurstöður valsins voru kynntar í gær.


Síldarvinnslan styrkir sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur

Stúlkur úr 7. og 8. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur. Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirDagana 10. og 11. febrúar sl. var haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur í Neskaupstað. Námskeiðið var ætlað stúlkum á aldrinum 13-16 ára (7.-10. bekkur grunnskóla) og var það sótt af öllum stúlkum á þessum aldri sem áttu þess kost eða alls 48. Það má því segja að 100% mæting hafi verið á námskeiðið. Það voru Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna og félagsmálanefnd Fjarðabyggðar sem styrktu námskeiðshaldið en Hildur Ýr Gísladóttir hafði forgöngu um að námskeiðið var haldið.

Leiðbeinandi á námskeiðinu var Kristín Tómasdóttir en hún er menntuð í sálfræði og kynjafræði, hefur ritað þrjár bækur fyrir unglingsstúlkur og fylgt þeim eftir með sjálfstyrkingarnámskeiðum. Kristín hefur einnig ritað samsvarandi bók fyrir pilta ásamt Bjarna Fritzsyni og kom hún út fyrir síðustu jól.

Stúlkur úr 9. og 10. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur.  Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirNámskeiðið var haldið í Nesskóla og þótti heppnast afar vel. Haldnir voru fyrirlestrar, unnin verkefni, settir upp leikþættir, eldað og borðað. Leiðbeinandinn var ánægður með hvernig til tókst og ræddi um hversu gaman væri að vinna með svona flottum hópi.

Styrking sjálfsmyndar er mikilvæg fyrir alla unglinga í nútímasamfélagi. Góð eða jákvæð  sjálfsmynd hefur mikil áhrif á hvernig tekist er á við alla þætti lífsins eins og nám, störf, félagslegan þrýsting og hættur á borð vímuefni. 


Frystitogarinn Barði með góðan skraptúr

Barði NK að veiðum.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonFrystitogarinn Barði NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær eftir að hafa verið rúman hálfan mánuð á veiðum. Skipið er með fullfermi og er uppistaða aflans gulllax, djúpkarfi og ufsi. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra er hér um góðan skraptúr að ræða en veitt var við Suðvesturland í heldur rysjóttu veðri. Aflinn er um 330 tonn upp úr sjó og er verðmæti hans um 67 milljónir króna.